Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2008
30.4.2008 | 16:58
Gamla bæjarmyndin
Í gær var haldinn fundur í Pakkhúsinu um framtíð verkefnis sem nefnist Hafnarvík - Heppa. Í verkefninu felst að byggja upp gömlu bæjarmyndina á Höfn við höfnina sem er auðvitað hjarta bæjarins. Það voru ráðgjafafyrirtækið R3 og Gláma Kím sem stóðu fyrir fundinum. Þeir félagar á Glámu Kím hafa teiknað hverfið upp þannig að maður fær miklu betri tilfinningu fyrir því hvernig þetta á allt saman að líta út.
Ótrúlega góð mæting var á fundinn sem segir manni hversu mikill áhugi er fyrir verkefninu. Það er ekki nokkur vafi á því í mínum huga að uppbygging á þessu svæði með verndun gamalla húsa að markmiði á eftir styrkja svæðið mjög mikið. Ég trúi því líka að verkefnið gæti haft jákvæð áhrif á atvinnu - og byggðþróun í byggðalaginu. Eitt af því sem mér fannst skemmtilegast við tillögur þeirra félaga var hversu mikið líf og fjör á að vera á svæðinu. Þarna verður ekki eingöngu um að ræða söfn og safnamenningu heldur er gert ráð fyrir heilmikilli verslun og þjónustu á svæðinu og þá ekki síst í tengslum við ferðamannaþjónustu.
Hugmyndirnar gera ráð fyrir því að Gamlabúð verði flutt á sinn gamla stað nærri höfninni eða eins nærri honum og mögulegt er. Einnig gera þær ráð fyrir viðgerðum á Miklagarði og húsinu með skrýtna nafninu, Graðaloftinu og fjölda annarra verkefna. Um gríðarlega stórt og viðamikið verkefni er hér á ferðinni og ekki er hægt að líta á það öðruvísi en svo en að um langtímaverkefni sé að ræða. Fjárhagsáætlun þeirra Gísla Sverris og Garðars hjá R3 gerir ráð fyrir heildarkostnaði upp á 316 milljónir og í áætlunum þeirra er gert ráð fyrir blandaðri fjármögnun.
Það er ekki nokkur spurning um það í mínum huga að hér er um spennandi verkefni að ræða sem gæti ef vel verður haldið á spilunum skipt miklu fyrir bæjarmyndina á Höfn. Ég er líka sannfærður að þetta er bara sagnfræði - og menningartengt verkefni heldur snýst það líka um atvinnu - og byggðaþróun á svæðinu.
29.4.2008 | 19:38
Jón Sigurðsson hefur talað
Ekki sá Jón Sigurðsson sem Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis dró inn í umræðuna um ESB, heldur sá sem gegndi formannsembætti í Framsóknarflokknum fyrir skemmstu. Hans framtíðarsýn er skýr, hann vill hefja aðildarviðræður að Evrópusambandinu og er þá kominn í mótsögn við sjálfstæðishetjuna ef marka má söguskýringar forseta þingsins. Það er vonandi að þessi líkindi með nöfnum þeirra félaga rugli ekki Sturlu mikið í ríminu.
Eina sem við þetta er að bæta er að það er vont að Jón Sigurðsson skuli ekki ennþá vera formaður Framsóknarflokksins. Framsóknarflokkurinn á Suðurlandi virðist vera kominn í andstöðu við flesta aðra framsóknarmenn í Evrópumálunum, a.m.k. þá sem eitthvað tjá sig um þau. Það verður að teljast nokkuð víst að fyrrverandi formaður flokksins myndi ekki ræða þessi mál með þessum hætti nema töluverður hljómgrunnur væri fyrir þessum skoðunum innan flokksins.
28.4.2008 | 22:31
Til að forðast allan misskilning ...
þá hefur Geir H. Haarde, forsætisráðherra aldrei nokkurn tímann á nokkrum einasta fundi minnst svo mikið sem einu orði á hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Rætnar tungur og fjölmiðlafulltrúar Downing strætis hafa átt það sammerkt síðustu daga að halda því fram að forsætisráðherrann okkar hafi gerst svo djarfur að minnast á hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu þegar allt skynsamt og hugsandi fólk veit að svo er alls ekki. Misskilning eins og þennan ber að leiðrétta eins fljótt og auðið er til þess að hugsanlegur stuðningur á meðal almennings fyrir aðildarviðræðum myndist ekki. Eða er það kannski of seint?
22.4.2008 | 14:42
Fjölskyldumálin
Í kosningabaráttunni fyrir sveitarstjórnarkosningarnar lagði Samfylkingin á Hornafirði mikla áherslu á fjölskyldumálin. Þau eru hverju samfélagi mikilvæg. Til þess að við getum verið samkeppnishæf er mikilvægt að við getum boðið upp eftirsóknarverðar aðstæður fyrir fjölskyldufólk. Þess vegna lögðum við áherslu á þessi mál í okkar kosningabaráttu.
En það er ekki síður mikilvægur hluti af stefnu jafnaðarmanna að leitast við bæta aðstæður fjölskyldnanna almennt og reyna að lækka álögur á þeim eins og mögulegt er. Allir eiga að geta tekið þátt í þeim verkefnum, skemmtunum og frístundum sem samfélagið hefur upp á að bjóða hverju sinni óháð efnahag. Auðvitað geta ekki allir tekið þátt í öllu en við teljum að stefna sveitarfélagsins eigi að stuðla að því að allir geti tekið þátt í einhverju. Það er vont til þess að hugsa að einhver börn og unglingar geti ekki teikið þátt í skipulögðu æskulýðs - og tómstundastarfi af fjárhagslegum ástæðum. Sveitarfélagið verður að leitast við að koma í veg fyrir að slíkt geti átt sér stað.
Í kosningunum ræddum við sérstaklega um leikskólann og íþrótta - og tómstundastarf barna og unglinga. Fyrst allra framboða, töluðum við um nauðsyn þess að skoðaðar verði leiðir til þess að lækka kostnað fjölskyldna við þátttöku barna og unglinga í æskulýðs - og tómstundastarfi. Við ræddum einnig nauðsyn þess að skoða leikskólagjöldin sérstaklega, þannig að reynt yrði að lækka þann lið í útgjöldum fjölskyldna.
Það er ekki síst vegna þessara áherslna að nú er að störfum stýrihópur, sem bæjarstjórn skipaði, um mótun fjölskyldustefnu undir forystu Samfylkingarinnar. Matthildur Ásmundardóttir leiðir starf hópsins. Með henni í hópnum sitja Elín Magnúsdóttir og Gauti Árnason.
Þessar áherslur og hugmyndir, sem ég hef hér gert að umtalsefni, eru til skoðunar hjá stýrihópnum auk fjölda annarra atriða. Það er bráðnauðsynlegt fyrir sveitarfélag eins og Hornafjörð að vera alltaf vakandi fyrir því hvar skóinn kreppir í þessum málum og vera alltaf tilbúið til þess að leita leiða til þess að sveitarfélagið verði ennþá vænlegri staður fyrir fjölskyldur til að búa á.
Ég segi vænlegri vegna þess að það var eitt af því sem allir voru sammála um í kosningabaráttunni og eru væntanlega ennþá sammála um, en það er að Hornafjörður er mjög fjölskylduvænn staður. Við eigum bara að leita leiða til þess að gera hann fjölskylduvænni. Það er trú mín að tillögur stýrihópsins munu stuðla að því.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.4.2008 | 23:41
Íhaldið setur ný met í borginni
Þegar maður hélt að íhaldsliðið gæti ekki toppað vitleysuna frá því þegar nýjasti meirihlutinn í borginni tók við skömmu eftir áramót þá dreif liðið í því. Formaður stjórnar REI undirritar viljayfirlýsingu um hagkæmnirannsóknir í Djíbjútí. Mogginn skammar liðið fyrir að svíkja hugsjónir sínar og telur að önnur eins lágkúra hafi ekki þekkst í borgarstjórn Reykjvavíkur. Þá rýkur liðið til og vill selja REI þó það sé nýbúið að skrifa upp á það í skýrslu stýrihópsins að REI eigi að vera 100 % í eigu OR. Ólafur F. segir að það komi ekki til greina að selja REI og stefnumörkunin sem unnið var að innan stýrihópsins verði í heiðri höfð.
Er það nema von að fólk hristi hausinn og átti sig ekki á því sem um er að vera. Mér var hins vegar kennt að líta alltaf á björtu hliðarnar í lífinu. En eina ánægjulega hliðin sem ég sé á þessu máli er sú að borgarfulltrúar íhaldsins sitja ekki ríkisstjórn og með sama áframhaldi sjá allir að ekkert þeirra á erindi þangað.
Eða eins og félagi Dagur orðaði það: Sjáfstæðisflokkurinn verður að fara að girða sig í brók.
Þetta er orðinn algjörlega höfuðlaus her og hann veit ekkert í hvaða átt á að stefna. Mitt í hinu endurnýjaða REI umróti þá minnist maður þess að liðið hefur ekki einu sinni komið sér saman um hver næsti borgarstjóri á þeirra vegum á að vera. Vonandi, borgarinnar vegna, sækja þau einhvern út fyrir sínar raðir. Svona miðað við frammistöðuna síðustu mánuðina.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.4.2008 | 10:05
Þjónustusamningur við Heilbrigðisráðuneytið
Á síðasta bæjarráðsfundi var ánægjulegt að heyra það að fundur bæjarstjóra með fulltrúum heilbrigðisráðueytisins í upphafi vikunnar hafi verið jákvæður og gagnlegur. Nú túlkum við stöðuna í fyrsta sinn í langan tíma þannig að við sjáum til lands í þessu máli, sem þrefað hefur verið um í meira en ár. Formlegar viðræður við ráðuneytið hófust í október 2006. Þá lögðum við fram okkar samningsmarkmið. Segja má að þetta tímabil hafi einkennst af mikilli bið. Á þessu tímabili höfum við þurft að bíða og bíða eftir svörum, fyrst úr heilbrigðisráðuneytinu og síðan úr fjármálaráðuneytinu. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að það hyllir loksins undir lausn í þessu mikilvæga máli.
Í upphafi apríl fundum við að skriður komst á málið, eftir að bæjarstjórn og heilbrgiðis - og öldrunarráð Hornafjarðar hélt málþing um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, hér á Hornafirði. Því miður sá heilbrigðisráðherra sér ekki fært að mæta á þingið en Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar Alþingis mætti og flutti ræðu ráðherra. Þá fengum við tækifæri til þess að kynna henni okkar mál og þann árangur sem náðst hefur á samningstímanum. Sama dag og málþingið var haldið, lagði Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, fyrirspurn fyrir heilbrigðisráðherra, um stöðu mála í samningaviðræðum við Hornfirðinga. Í svari ráðherra kom fram að ráðuneytið myndi funda með forsvarsmönnum sveitarfélagsins fljótlega og að verið væri að vinna að lausn málsins í ráðuneytinu.
Sá fundur hefur nú verið haldinn og ljóst er að sá fundur gefur okkur tilefni til meiri bjarsýni en áður. Nú er mikilvægt að vinna hratt og örugglega að lausn málsins þannig að hægt sé að fara að huga að framtíðarstefnumótun heilbrigðis - og öldrunarþjónustunnar í sveitarfélaginu af meiri krafti og festu.
17.4.2008 | 00:45
Löggæslumál
Í helgarblaði DV er ágæt úttekt á starfsemi lögreglunnar eftir að breytingarnar á lögregluembættunum áttu sér stað um síðust áramót. Það er engum blöðum um það að fletta að Hornfirðingar voru mjög ósáttir við þær breytingar þar sem yfirstjórn lögreglunnar var færð frá sýslumanninum í Austur - Skaftafellssýslu til sýslumanns á Eskifirði. Þetta þýðir að lögreglustjóri er staðsettur á Hvolsvelli en næsti lögreglustjóri kemur ekki leitirnar fyrr en á Eskifirði. Rétt er að taka það fram að Höfn er stærsti þéttbýli milli þessara tveggja staða. Þegar þessar breytingar eru settar í stærra samhengi má sjá að þær eru hluti af ákveðinni þróun sem átt hefur sér stað á undanförnum árum. Til þess að efla og styrkja lögregluna og löggæsluna í landinu hafa menn talið sér trú um það að miðstýring sé leiðin til þess. Endalaus vöxtur Ríkislögreglustjóraembættisins er vitnisburðum um það. Einnig held ég að ástæða þess að farið var út í þessar aðgerðir hér á okkar svæði hafi verið sú að Dómsmálaráðuneytið var að yfirfæra hugmyndafræði um sameiningu embætta að Reykjavíkursvæðinu yfir á önnur landsvæði þar sem slík hugmyndafræði gengur að mínu mati ekki jafnvel upp. Fyrir skemmstu samþykkti bæjarstjórn Hornafjarðar eftirfarandi bókun um löggæslumál í sveitarfélaginu:
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar skorar á dóms og kirkjumálaráðherra að endurskoða þær breytingar á lögregluumdæmum sem komnar eru til framkvæmda. Það er skoðun bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar að markmið breytinganna um hagræðingu og eflingu starfseminnar hafi ekki náðst á Suðausturlandi. Þvert á móti hafi breytingarnar veikt starfsemi lögreglunnar á Hornafirði og bæjarstjórn minnir á að Höfn er fjölmennasti þéttbýliskjarninn innan lögregluumdæmis sýslumannsins á Eskifirði.
Nú hefur Dómsmálaráðuneytið svarað fyrirspurn Bjarna Harðarsonar, þingmanns Suðurkjördæmis, um sameiningu lögregluembætta á Austurlandi. Fyrirspurn Bjarna lýtur m.a. að sameiningu þvert á kjördæmamörk og líka að því hvort markmiðum um hagnað og sparnað hafi verið náð með sameiningu lögregluembættanna. Ráðuneytið heldur því fram að markmiðin með breytingunum hafi hvorki snúist um hagræðingu eða sparnað. Heldur hafi markmiðið fyrst og fremst verið að efla löggæslu í landinu, auka sýnileika hennar, bæta gæði og hraða rannsóknum mála. Hafi þetta verið markmiðin með sameiningu embættanna er ekki annað hægt en að standa fyllilega við fyrrnefnda bókun bæjarstjórnar. Ekki er hægt að fallast á þessi markmið sem koma fram í svari ráðuneytisins hafi náð fram að ganga. Hvað varðar seinni hluta fyrirspurnar Bjarna þá hefur bæjarstjórn ekki rætt málið á þessum nótum mér vitanlega. Við höfum einfaldlega gagnrýnt þennan verkefnatilflutning ráðuneytisins, þ.e. að yfirstjórn þessarar nærþjónustu hafi verið færð úr sveitarfélaginu og þannig hafi tengs embættsins við samfélagið minnkað. Fróðlegt verður að lesa úttektarskýrslu um reynsluna að nýskipan lögreglumála, sem birt verður á næstunni, skv. svari ráðuneytisisn.
12.4.2008 | 21:00
Trúverðugleiki Seðlabankans
Það virðist vera vandi Seðlabankans og Davísð Oddssonar að enginn trúir því að hann geti tekist á við þann vanda sem að okkur steðjar um þessar mundir. Gylfi Magnússon, hagfræðingur og dósent við Háskóla Íslands segir seðlabankann skorta trúverðugleika og stefna hans sé komin í algjört þrot. Í raun kemur fram að það sé orðið sjálfstætt efnahagsvandamál að enginn virðist leggja trúnað á að þær aðgerðir sem bankinn grípur til hafi nokkuð að segja. Háir stýrivextir, há verðbólga og króna sem sveiflast upp og niður hvað sem aðgerðum ofan úr Svörtuloftum líður er ástand sem ekki verður unað við öllu lengur.
Gylfi telur líka nauðsynlegt að breyta stjórnfyrirkomulagi bankans. Hann segir nauðsynlegt að óhjákvæmilegt að ný stjórn fagmanna taki við af núverandi bankastjórn og bankaráð. Stjórnin þarf nefnilega njóta trausts á markaði og þar þurfa að sitja innlendir og erlendir sérfræðingar sem tæju allar meiriháttar ákvarðanir bankans. Ég held að flestir geti tekið undir þessi sjónarmið dósentsins og reyndar hljóta þessar aðstæður sem nú eru uppi að kalla á heildarendurskoðn peningamálastefnunnar. Ekki er hægt að láta almenning blæða lengur vegna þessarar stefnu sem nú þegar er ljóst að hefur brugðist.
Samtök atvinnulífsins svöruðu síðustu vaxtahækkun bankans með því að hóta því að evruvæða atvinnulífið einhliða, þ.e. segja skilið við krónuna. Það er auðvitað vel skiljanlegt að atvinnulífið vilji skoða þessa leið þar sem það ástand sem hér er að skapast vegna þess að Seðlabankinn virðist ekki ráða við verkefni sitt. Ef það reynist mögulegt hlýtur verkefni Seðlabankans að verða ennþá flóknara en það er í dag ef það er þá mögulegt.
11.4.2008 | 00:13
Enn rætt um Vatnajökulsþjóðgarð á Alþingi
Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins beindi í dag fyrispurn til Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra um starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Í máli Bjarna komu fram vonbrigði með að framkvæmdastjóri þjóðgarðsins skyldi ekki vera staðsettur nær jökulrótunum en raun ber vitni. Ég deili þessum vonbrigðum með honum. Það urðu auðvitað gríðarleg vonbrigði að fyrsta starfið sem ríkisstjórnin auglýsti án staðsetningar skyldi enda í Reykjavík.
Í svari Þórunnar kom fram að heimamenn og sveitarstjórnarmenn allt í kringum þjóðgarðinn væru að vakna til vitundar um að stofnun þjóðgarðsins hefði í för með aukin atvinnutækifæri og skapaði nýja möguleika í uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðunum. Undir þetta er að sjálfsögðu hægt að taka.
Í máli hennar kom einnig fram að það væri mjög gaman að upplifa það hversu opnum örmum bæjarstjórnin og Hornfirðingar sjálfir hefðu tekið þjóðgarðinum og væru staðráðnir í að nýta sér stofnun hans sér til framdráttar. Þetta er auðvitað rétt hjá ráðherranum en því er hins vegar ekki að neita að ákvörðunin um staðsetningu framkvæmdastjórans virkaði að vissu leyti sem köld vatnsgusa framan í Hornfirðinga. Það hafði því töluverð áhrif á væntingar okkar þar sem við höfðum gert okkur vonir um að framkvæmdastjórinn yrði staðsettur á Hornafirði. Á það ber þó að líta að framkvæmdastjórinn er ráðinn til fimm ára og að þeim tíma liðnum á endurskoða þetta fyrirkomulag.
Hvað varðar aðkomu þingmanna að þessu máli þá er það gott framtak hjá Bjarna að taka þetta mál upp og halda umræðunni um atvinnusköpun á landsbyggðinni lifandi á Alþingi. Það er augljóst að nauðsynlegt er að halda Alþingismönnum vel vakandi í þeim málum og ekki má láta deigan síga. Hitt er annað mál að þingmenn höfðu næg tækifæri þegar lagasetningin um stofnun þjóðgarðsins fór í gegnum þingið til þess að beita sér í því að framkvæmdastjórinn yrði staðsettur á áhrifasvæði hans en það gerðu þeir ekki með nógu markvissum hætti að mínu mati.
9.4.2008 | 15:15
Málþing og landsþing
Síðustu dagar og vikur hafa verið mjög erilsamar. Síðastliðinn fimmtudag gekkst bæjarstjórn, í samvinnu við Heilbrigðis - og öldrunarráð Hornafjarðar, fyrir málþingi um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Skemmst er frá því að segja að málþingið heppnaðist afar vel og komu margir góðir gestir á þingið. Mörg góð erindi voru flutt og umræður urðu mjög góðar og málefnalegar. Greinilegt var á öllum umræðum að málefnið er brýnt og mönnum lá mikið á hjarta. Það kom mér eiginlega mest á óvart, hversu mikil þörfin fyrir málþingi eins og þessu var. Bæjaryfirvöldum var hrósað mjög mikið fyrir frumkvæði sitt í þessum málum af gestum málþingsins sem töldu þetta mjög þarft framtak. Það er líka gleðilegt að fjölmiðlar hafa tekð þessi málefni upp og hafið ákveðna umræðu. Ríkisútvarpið gerði málþinginu og málefnum þess ágæt skil hér, hér og hér. Fréttablaðið hefur einnig sýnt málinu áhuga og ætlar sér að vera með greinarflokk um málið. T.a.m. rataði málefnið inn á forsíðu Fréttablaðsins á mánudaginn. Einnig er viðtal vð Hjalta Þór Vignisson, bæjarstjóra, inni á Vísi í dag.
Það er ljóst af þessum fréttaflutningi að bæjarstjórn hefur hér hreyft við mjög brýnu máli sem vert er að ræða. Málefnið er okkur, sem sitjum í bæjarstjórn Hornafjarðar, auðvitað mjög hugleikið vegna þess að sveitarfélagið hefur borið ábyrgð á rekstri og þjónustu Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands í gegnum þjónustusamning frá 2002 en fyrst í gegnum reynslusveitarfélagsverkefni frá 1996. Síðasti samningur rann út um áramótin 06 - 07 og samningaviðræður hafa verið í gangi síðan í október 2006, sem er auðvitað alltof langur tími. ´
Í fyrirspurn, sem Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, lagði fyrir heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma síðastliðinn fimmtudag á Alþingi kom fram að ráðherra vænti þess að samningsgerðinni myndi ljúka fljótlega. Við höfðum auðvitað vonast til þess að hitta ráðherra í tengslum við málþingið hér fyrir austan en úr því varð ekki þar sem ráðherra átti ekki heimangengt þennan dag. En í svari hans við fyrispurn Lúðvíks, sem lögð var fyrir hann sama dag og málþingið var haldið, kemur fram að hann muni eiga fund með forsvarsmönnum sveitarfélagsins í þessari viku. Nú er bara að vona að af því geti orðið svo hægt sé að ljúka þjónustusamningnum sem allra fyrst í samræmi við orð hans á Alþingi á fimmtudaginn.
Að loknu þinginu var ferðinni heitið á landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldið var í Reykjvaík. Þar var ánægjulegtu að heyra að Sambandið stefnir að því, í samvinnu við Samgönuráðuneytið og Iðnaðarráðuneytið að halda byggðaráðstefnu á Hornafirði næsta haust.
Að öðru leyti var umræðan um verkaskiptinguna á milli ríkis og sveitarfélaga fyrirferðarmest á landsþinginu að venju. Lítið virðist þokast í þeim efnum en segja má að dropinn holi steininn í þeim málum sem öðrum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006