Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2008

Málþing um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni

Á fimmtudaginn er fyrirhugað málþing í Nýheimum á Hornafirði um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Af því tilefni birtum við Guðrún Ingimundardóttir, bæjarfulltrúar Samfylkingarinar, þessa grein um málþingið í síðasta Eystr Horni:

 

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni - málþing

 

Fimmtudaginn 3. apríl boða bæjarstjórn Hornafjarðar og Heilbrigðis - og öldrunarráð Hornafjarðar til málþings í Nýheimum um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Málþingið hefst kl. 09:00 með setnigarávarpi Guðlaugs Þór Þórðarsonar heilbrigðisráðherra. Margt góðra gesta verður á málþinginu auk heilbrigðisráðherra og munu mörg áhugaverð erindi verða flutt um stöðu og framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Þessi mál hafa verið í miklum brennidepli hér á Hornafirði þar sem sveitarfélagið hefur stýrt þessum málaflokki í gegnum þjónustusamning við heilbrigðisráðuneytið. Í rúmt ár hafa staðið yfir viðræður um áframhald samningsins og hafa þau mál verið ítarlega rædd á vettvangi sveitarstjórnarinnar. Engum blöðum er um það að fletta að einhugur er í bæjarstjórn um það að halda þessu verkefni áfram og þess vegna er málþing sem þetta okkur mjög mikilvægt. Málefni Landspítalans hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu en við á vettvangi sveitarstjórnarmála á Hornafirði höfum bent á mikilvægi þess að menn einbeiti sér einnig að heilbrigðismálum á landsbyggðinni. Málþingið, sem er haldið að frumkvæði bæjarstjórnar, er okkar innlegg í þá umæðu.

Á málþinginu mun landlæknir fjalla almennt um heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni. Hann ræðir þann eðlismun sem er á uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni annars vegar og á fjölmennari stöðum landsins hins vegar. Einnig mun hann fjalla um hvaða starfsemi er mikilvægt að byggja upp heima fyrir og hvernig samskipti landsbyggðar við Landspítala Háskólasjúkrahús verði best háttað. Sjónarhorni lækna á landsbyggðinni verður komið á framfæri í gegnum erindi Óttars Ármannssonar, formanns dreifbýlislækna á Íslandi. Hann mun ræða starfsaðstæður lækna í dreifbýli eins og þær eru um þessar mundir. Þá mun Anna Björg Aradóttir, yfirhjúkrunarfærðingur og sviðsstjóri gæða - og lýðheilsusviðs hjá Landlæknisembættinu fjalla sérstaklega um starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Starfsmenn HSSA munu síðan gera grein fyrir þróun þjónustunnar á vegum HSSA og þeirri starfsemi sem þar fer fram í dag.

Að loknum erindum taka vinnuhópar til starfa og munu ræða ýmsa þætti sem tengjast málefninu. Í vinnuhópunum verður t.d. fjallað um rekstrarform heilbrigðisstofnana, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, starfsumhverfi heilbrigðisstétta á landsbyggðinni, aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónstu og margt fleira. Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar Alþingis, mun í lok málþingsins taka umræður dagsins saman og flytja lokaerindi málþingsins.

Það er gaman og gagnlegt fyrir okkur að fá tækifæri til þess að hlýða á sjónarhorn annarra sem starfa við svipaðar aðstæður og starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Brýnt er fyrir alla aðila, stjórnmálamenn, stjórnendur, starfsfólk og notendur að skiptast á skoðunum og bera saman bækur sínar. Málþingið er tækifæri til þess. Undirrituð vilja því nota þetta tækifæri til þess að hvetja alla sem áhuga hafa á málefninu til þess að mæta á málþingið og taka þátt í því.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Guðrún Ingimundardóttir

bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar

 


Króna eða Evra

Ég er sammála því sem kom fram í máli Lúðvíks Bergvinssonar, þingflokksformanns Samfylkingarinnar, á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun varðandi gjaldeyrismál þjóðarinnar til framtíðar. Val okkar um gjaldmiðil til framtíðar stendur einfaldlega um það hvort við ætlum að halda í krónuna sem okkar gjaldmiðil eða hvort við ætlum að stefna að því að ganga í Evrópusambandið og taka upp Evru.

Aðrir kostir sem nefndir eru til sögunnar eins og það að taka upp svissneskan franka eða búa til nýtt myntbandalag með Norðurlandaþjóðunum eru bara ekki trúverðugir. Stundum hefur maður það á tilfinningunni að slíkir kostir séu bara settir fram til þess að rugla umræðuna eða vegna þess að sannleikurinn og veruleikinn sem blasir við okkur er of sár fyrir einhverja. Hatur einstakra manna og flokka á Evrópusambandinu er slíkt að menn geta ekki til þess hugsað að Evran eða Krónan séu þeir kostir sem við sitjum uppi með. Sérstaklega í ljósi þess að flestir ef ekki allir virðast orðnir sammála um það að Krónan er ekki á vetur setjandi.

Svo eru aðrir pólitíkusar sem vilja alls ekki ræða þessi mál vegna þess að þeir eru svo hræddir um að flokkurinn þeirra klofni í umræðum um Evrópusambandið. Björn Bjarnason hefur gengið svo langt að segja að allir flokkar myndu klofna í umræðum um aðildarviðræður. Þetta er ekki rétt hjá ráðherranum vegna þess að Samfylkingin hefur tekið þessa umræðu og komist að skýrri niðurstöðu. Hún er sú að Ísland eigi að skilgreina samningsmarkmiðin, hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og leggja síðan niðurstöðu þeirra viðræðna í dóm kjósenda. Þannig að áhyggjur ráðherrans af því að Samfylkingin myndi klofna vegna þessa máls eru stórlega ýktar.

Það er mikilvægara nú en nokkru sinni að tekin verði ákvörðun um það hvert við ætlum að stefna til framtíðar í þessum málum. Óvissan er aldrei góð.


Enn um þjónustusamning

Eftirfarandi grein eftir mig birtist á vefmiðlum Hornafjaðar í dag, nánar tiltekið hér og hér:

Svarað um hæl

Svar við grein Halldóru Bergljótar Jónsdóttur 

Ég vil byrja á því í þessum pistli að þakka Halldóru Bergljótu Jónsdóttur fyrir ágæta grein sem birtist á vefmiðlinum hornafjordur.is í dag. Greinin er svar við pistli sem undirritaður birti á veffréttamiðlum Hornafjarðar 24. febrúar síðastliðinn. Þannig að segja má að fyrirsögnin á grein Halldóru Bergljótar Jónsdóttur sé viðeigandi.              Þó greinin sé í flestum atriðum málefnalega skrifuð birtist fátt nýtt í málflutning Halldóru Bergljótar Jónsdóttur í þessum málaflokki. Hins vegar er tæpt á nokkrum atriðum í greininni sem þarfnast betri skoðunar og mikilvægt er að varpa betra ljósi á þau.           

Að búa til ágreining 

Ef grein Halldóru Bergljótar Jónsdóttur er hugsuð sem svar við grein minni frá 24. febrúar þá er fyrsti kafli hennar með öllu óskiljanlegur. Sá kafli er skrifaður undir heitinu Þjónustusamningur mikill ávinningur fyrir íbúa. Þar fer greinarhöfundur með mjög almennum hætti yfir það góða starf sem unnið hefur verið á grundvelli þjónustusamningsins af starfsfólki HSSA og á grundvelli reynslusveitarfélagsverkefnisins sem hófst 1996. Í grein minni frá 24. febrúar kemur hvergi fram að þjónustusamningurinn hafi ekki verið mikill ávinningur fyrir íbúa og notendur þjónustu HSSA. Þvert á móti hefur undirritaður ávallt haldið því fram, bæði í ræðu og riti, að sjálfsstjórn okkar á þessum málaflokki hafi skipt máli og muni gera það áfram. Þetta veit Halldóra Bergljót Jónsdóttir og þess vegna er það undarlegt að hún skuli gera þetta að aðalatriði í svargrein sinni. E.t.v. er tilgangurinn sá að þyrla pólitísku ryki í augu fólks og gera undirrituðum upp skoðanir. 

Skýr stefna            

Öllum ætti að vera ljóst að Halldóra Bergljót Jónsdóttir hefur haft áhyggjur af því hvernig hefur verið staðið að gerð nýs samnings við heilbrigðisráðuneytið. Hefur það verið margrætt á bæjarstjórnarfundum og á fleiri fundum. Eflaust er það þannig að eitthvað hefði mátt betur fara í samningsferlinu. En það er mikil einföldun að halda því fram að þar beri meirihlutinn í bæjarstjórn Hornafjarðar mesta ábyrgð. Nú er það þannig í samningaviðræðum að það þarf a.m.k. tvo til svo að samningar náist. Allan þann tíma, sem bæjarfélagið hefur átt í viðræðum við ríkisstjórnina, hefur okkar kröfugerð verið skýr. Hún var samþykkt á fundi Heilbrigðis – og öldrunarráðs 14. nóvember 2006. Þann fund sat Halldóra Bergljót Jónsdóttir og var sammála þeim línum sem lagðar voru þá. Það er því af og frá að stefnumið meirihlutans í þessum málum væru óljós. Það er hins vegar einfalt mál að samþykkja kröfur sem þessar á vettvangi sveitarstjórnarmálanna en þá er erfiði hlutinn eftir, þ.e. að fá ráðuneytin til þess að samþykkja kröfur okkar.             Í raun er sá kafli greinarinnar, sem skrifaður er undir heitinu áhyggjur af nýjum samningi, einn samfelldur rökstuðningur fyrir því að meirihluti bæjarstjórnar Hornafjarðar hefur verið gerandinn í þessum samningaviðræðum og málum þeim tengdum. Í greininni kemur fram að það var bæjarstjórn sem fór fram á skýrslu Ríkisendurskoðunar, það var bæjarstjórn sem fékk fram viðhorf almennings til þjónustunnar á stofnuninni í gegnum Capacent og það var bæjarstjórn sem kallaði eftir tillögum Landlæknisembættisins til úrbóta í læknamálum.  

Er Ríkisendurskoðun ekki hlutlaus aðili?           

Það er ekki alls kostar rétt hjá Halldóru Bergljótu Jónsdóttur að Ríkisendurskoðun sé ekki hlutlaus aðili. Ríkisendurskoðun heyrir beint undir Alþingi Íslendinga. En sú breyting varð á högum Ríkisendurskoðunar árið 1987 að henni var breytt úr því að vera fjárhagsendurskoðun fjármálaráðuneytisins í sjálfstæða stofnun á vegum Alþingis sem er óháð handhöfum framkvæmdavaldsins. Segja má að ef Ríkisendurskoðun er ekki hlutlaus aðili þessa máls þá megi yfirfæra þá skoðun á Alþingi Íslendinga. Ef það er viðhorfið þá virðast menn vera þeirrar skoðunar að Alþingi sé bara útibú framkvæmdavaldsins, þ.e. ríkisstjórnarinnar og þá er illa komið fyrir löggjafavaldinu. Ef skýrslan er lesin kemur líka mjög fljótt í ljós að þess staðhæfing Halldóru Bergljótar Jónsdóttur stenst ekki, vegna þess að alvarlegustu athugasemdunum, sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, er beint að ráðuneytinu en þær lúta að eftirliti með framkvæmd samningsins. Annar alvarlegur misskilningur kemur einnig fram í þessum hluta greinarinnar sem skrifaður er undir fyrirsögninni Ríkisendurskoðun ekki hlutlaus aðili, en það er sú fullyrðing að skýrsla Ríkisendurskoðunar hafi leitt til þess að greiðslur samkvæmt samningi voru lækkaðar. Misskilningurinn felst í því að þær greiðslur, sem hér eru gerðar umfjöllunarefni, voru nefnilega ekki samkvæmt samningi og ekki einu samkvæmt munnlegu samkomulagi eins og fjármálaráðherra tjáði bæjarráði á fundi í febrúar. Hins vegar, af einhverjum dularfullum og ókunnum ástæðum, skapaðist sú hefð á samningstímanum að greiða HSSA fyrir fulla nýtingu hjúkrunarrýma en það er í raun brot á undirrituðum samningi þar sem skýrt er kveðið á um að greiða skuli fyrir hvert nýtt rými. Það þurfti því í raun að brjóta undirritaðan samning til þess að láta dæmið ganga upp og því stend ég við það að sá samningur, sem undirritaður var í formannstíð Halldóru Bergljótar Jónsdóttur í Heilbrigðis – og öldrunarráði Hornafjarðar, hafi verið lélegur og sú staðreynd hefur valdið okkur verulegum erfileikum í samningaviðræðunum.            

Í maí síðastliðnum lágu fyrir Heilbrigðis – og öldrunarráði drög að samningi sem meirihlutinn í ráðinu taldi ásættanlegan. Í þeim samningi og miðað við óbreytta framkvæmd samningsins voru okkur tryggðar sambærilegar fjárveitingar sem við töldum að myndi tryggja áframhaldandi sjálfsstjórn sveitarfélagsins yfir málaflokknum og að hægt væri að veita sams konar þjónustu og veitt hefur verið á undanförnum árum. Þannig að öllu tali um að sá samningur hefði á einhvern hátt falið í sér lakari þjónustu er vísað til föðurhúsanna. Aðdragandinn var vissulega stuttur en það er ekki rétt sem kemur fram hjá greinarhöfundi að meirihlutinn hafi guggnað á því að skrifa undir samninginn. Ástæðan var einfaldlega sú að fjármálaráðuneytinu tókst ekki að klára samninginn fyrir sitt leyti og því var ekki hægt að skrifa undir. 

Samstarfsvilji meiri – og minnihluta            

Að lokum tek ég undir það með Halldóru Bergljótu Jónsdóttur að bæjarfulltrúar bera þá skyldu að vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum umbjóðenda sinna. Hvort að samstarfsvilji meirihlutans gagnvart minnihlutanum hafi verið nægur ætla ég láta aðra dæma um. En það er þá líka rétt að þeir hinir sömu dæmi hvort samstarfsvilji minnihlutans gagnvart meirihlutanum hafi einnig verið nægur.   Árni Rúnar Þorvaldsson Forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar og oddviti Samfylkingarinnar

 


Afdrifaríkar afleiðingar

Það getur haft afdrifaríkar afleiðingar að velja ekki þann hæfasta í starfið eins og dæmin sanna.

Við skulum vona að ekki fari jafn illa hjá Héraðsdómi Norðurlands Eystra á næstu árum.


Í frjálsu falli

Svona líta fyrirsagnirnar um íslensku krónuna út í dag í netmiðlunum. Hún lækkaði á einum degi um rúm 7%. Edda Rós Karlsdóttir yfirmaður greiningardeildar Landsbankans segir að krónan lækki svo mikið að líkur á vaxtahækkun hafi aukist vegna verðbólgumarkmiða Seðlabanakns. Flestum ætti að vera kunnugt að stýrivextir hér á landi eru þeir hæstu sem þekkjast hjá iðnvæddum þjóðum. Þessi snögga lækkun krónunnar í dag og síðustu daga hlýtur að leiða hugann að peningamálastefnu Seðlabankans.

Egill Helgason varpar fram þeirri spurningu hvort þurfi að reka Seðlabankastjórann. Ekki veit hvort þetta er réttmæt eða tímabær spurning og mun ekki gerast dómari í því máli. Hitt er aftur annað mál að atburðarás dagsins í dag og síðustu daga hlýtur að kalla á endurskoðun á stefnu bankans og e.t.v. endurskoðun á lögum um Seðlabankann. Það hljóta að vera þær spurningar sem eftir standa í lok dags og hvort bankinn valdið hlutverki sínu.

Til lengri tíma hlýtur líka flestum að vera ljóst að krónan hefur þjónað sínu hlutverki og dugir ekki lengur sem gjaldmiðill í ólgusjó alþjóðlegs fjármálaumhverfis. Og eins og alltaf er það almenningur sem borgar brúsann af krónunni (þessari ömurlegu krónu eins og Guðmundur Ólafsson komst svo skemmtilega að orði í Silfrinu).


Að tala krónuna upp en henda henni svo

Eitthvað virðist reiðilestur Steingríms J. Sigfússonar, æðsta klerks Vinstri Grænna í garð viðskiptaráðerra, Björgvins G. Sigurðssonar fyrir það að hafa talað krónuna niður koma öfugur upp úr honum í miðopnu Morgunblaðsins í dag. Þar leggur hann til ásamt sínum varaformanni, Katrínu Jakobsdóttur, að krónunni verði hent fyrir borð eins og hverju öðru drasli, sömu íslensku krónunni og hann skammaði viðskiptaráðherrann svo innilega fyrir að tala niður.

Ekki er langur tími liðinn síðan sá reiðilestur átti sér stað. Formaður VG virðist því ekki þurfa mikinn umhugsunarfrest til þess að skipta um skoðun í grundvallarmálum eins og gjaldeyrismálum þjóðarinnar.

Hins vegar gæti það auðvitað verið að formaðurinn líti á það sem meiri móðgun við krónuna að stilla henni upp gegn hugsanlegri Evrópusambandsaðild og upptöku Evru en að stilla henni upp gegn hugmyndinni um samnorræna krónu. Það kann auðvitað vel að vera. En hins vegar er hér um alveg nýja hugmynd að ræða í gjaldeyrismálunum og hún þarfnast að sjálfsögðu meiri umræðu. Það getur auðvitað líka hugsast að Steingrímur viti að þessi hugmynd verður sennilega aldrei að veruleika og því sé ekki hætta á að verið sé að tala krónuna niður með henni.

En það er að minnsta kosti erfitt að skilja málflutning formanns Vinstri Grænna í þessum málaflokki. Einn daginn skammar hann menn linnulítið fyrir það að tala hans heittelskuðu krónu niður en næsta dag leggur hann fram tillögu um að kasta krónunni.


Atvinnu - og byggðamál

Um síðastliðna helgi var haldið Austurþing á vegum Framtíðarlandsins og Nýheima á Hornafirði. Þingið fjallaði um nýsköpun í atvinnumálum og umhverfisvæna framtíð. Óhætt er að fullyrða að þigið var áhugavert og fékk það töluverða umfjöllun í fjölmiðlum. Mörg fróðleg erindi voru haldin og var fólk sammála um það að sú hugmyndafræði sem Nýheimar byggja á geti verið vegvísir að atvinnu - og byggðastefnu framtíðarinnar. Þar hefur sú stefna verið tekin að vinna að uppbyggingu þekkingarsamfélags. Þetta frumkvöðla - og þekkingarsamfélag hefur undið upp á sig á síðustu árum og nú er svo komið að húsrúm þar er óðum að fyllast. Það er ánægjulegt vandamál.

Það voru því mikil vonbrigði þegar í ljós kom að ekki var vilji til þess innan yfirstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs og umhverfisráðuneytisins að staðsetja framkvæmdastjóra þjóðgarðsins á Hornafirði. Það starf hefði passað eins og flís við rass við þá starfsemi sem fram fer í Nýheimum. Framkvæmdastjórinn hefði notið góðs af því vísindastarfi sem þar fer fram og verið í betri tengslum við þjóðgarðinn. Hlusta má á umfjöllun RÚV um þessi mál hér og hér.

Auðvitað er dapurlegt til þess að hugsa að fyrsta starfið sem auglýst er án staðsetningar í tíð þessarar ríkisstjórnar skuli lenda á höfuðborgarsvæðinu. Vonandi er það ekki vísbending um það sem koma skal í þeim málum en eins og flestir vita þá er í gangi mikil vinna innan iðnaðarráðuneytisins að skilgreina þau störf sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar með það að markmiði að efla atvinnulíf á landsbyggðinni. Nú er ég einn þeirra sem haft mikla trú á þessu hugtaki, störf án staðsetningar og hef talið það vera gott innlegg ríkisstjórnarinnar í byggðamálum og atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni. Í kosningabaráttunni hélt ég þessu mjög á lofti við kjósendur til þess að afla Samfylkingunni fylgis enda þessi ágæta hugmynd, eins og svo margar aðrar góðar hugmyndir, runnin undan rifjum hennar. Nú er bara að sjá hvernig til tekst með framkvæmdina og útfærsluna og ég vona svo sannarlega að niðurstaðan varðandi framkvæmdastjóra Vatnajökulsþjóðgarð verði ekki vegvísir ríkisstjórnarinnar í þeirri vinnu.

Á síðasta bæjarstjórnarfundi var líka töluvert fjallað um framtíð frumkvöðla - og nýsköpunarstarfs á Hornafirði. Bæjarráð hafði þá fjallað um minnispunkta bæjarstjóra um þessi mál. Hann hafði rætt við framkvæmdastjóra Frumunnar og yfirmenn Nýsköpunarmiðstöðvar og framtíð þessara mál. Í tengslum við mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar mun opna hér starfsstöð á vegum Nýsköpunarmiðstöð með tveimur stöðugildum. Út úr viðræðum bæjarstjóra við starfsmenn Frumunnar og Nýsköpunarmiðstöðvar fæddist sú hugmynd að sterkara yrði fyrir frumkvöðla - og nýsköpunarstarf í sveitarfélaginu að leyfa starfsemi Frumunnar að renna inn í starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar. Eftir töluverðar umræður í bæjarráði fékk þessi hugmynd brautargengi. Ég er þess fullviss að þessi ráðstöfun mun leiða til enn öflugra frumkvöðla - og nýsköpunarstarfs á Hornafirði.

 


Bæjarstjórnarfundur - samstarf sveitarfélaga

Venju samkvæmt var líf og fjör á bæjarstjórnarfundi í gær. Mörg brýn mál samfélagsins voru rædd eins og málefni heilbrigðisstofnunarinnar og þjónustusamningur okkar við heilbrigðisráðuneytið. Óþarft er að tíunda þær umræður sérstaklega þar sem þær ættu að vera öllum, sem fylgst hafa með umræðum á bæjarstjórnarfundum undanfarna mánuði, ljósar. Nýtt orð, sem ég hef ekki heyrt áður í umræðum um málefni HÖR og HSSA á bæjarstjórnarfundum, kom fram á fundinu en það var orðið sjónarspil. Alltaf ánægjulegt þegar fólk getur bryddað upp á nýjungum í málflutningi sínum. Að öðru leyti var sami söngurinn sunginn í bæjarstjórnarkórnum um þessi mál.

Málefnalegar umræður sköpuðust um greinargerð starfshóps um félagslíf grunnskólanema. Voru bæjarfulltrúar allir sammála um að greinargerðin væri gott innlegg í umræðuna um bætt félgaslíf barna og unglinga. Í greinargerðinni koma fram ýmsar góðar tillögur sem hægt er að vinna út frá. Bæjarráð fól starfsmönnum að útfæra nánar þessar hugmyndir og tillögur starfshópsins og verða þær teknar til nánari umfjöllunar á næsta bæjarráðsfundi.

Einnig var töluvert rætt um samstarf sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög. Það hefur verið í umræðunni hjá bæjarfulltrúum hvort skynsamlegt geti verið fyrir okkur að hverfa af vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og snúa samstarfi okkar að Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi. Ég hef verið talsmaður þess að við skoðuðum kosti þess að ganga í Samband sveitarfélaga á Suðurlandi. Ástæðan fyrir því er sú að ég tel mikilvægt að sveitarfélagið tengist betur sveitarfélögunum sem deila með okkur kjördæmi og þingmönnum. Við þurfum að sameinast með þeim um hagsmunamál sem hægt er að vinna brautargengi á kjördæmisvísu.

Með þessu er ég ekki að leggja neinn dóm á samstarfið við Samband sveitarfélaga á Austurlandi. Það hefur verið mikilum ágætum en ég tel einfaldlega að pólitískum hagsmunum okkar sé betur borgið innan sambands sem vinnur innan okkar kjördæmis.


Slöpp stjórnarandstaða

Nú þegar tæpt ár er liðið af fyrstu ríkisstjórnarsetu Samfylkingarinnar hef algjörlega sannfærst um að eina raunhæfa stjórnarmynstrið sem var í spilunum síðastliðið vor var ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Vinstri Grænir ósköp einfaldlega fóru á taugum eftir kosningarnar og eru ennþá ekki búnir að jafna sig. Flokkurinn talar út og suður og eina sem sameinar hann er að vera á móti einhverju sem ekki er uppi á borðinu, t.d. einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það eina sem gæti bjargað VG er ef álversbrölt Árnanna suður með sjó nær einhverju flugi.

Þá er rétt að minnast orða Steingríms J. Sigfússonar í hádegisviðtali á Stöð 2 þremur dögum eftir kosningar þess efnis að VG myndi ekki gera álver í Helguvík að úrslitaatriði í myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum. Út frá þeim orðum formannsins má álykta að álver við Helguvík væri lengra á veg komið ef Steingrímur hefði náð inn í ríkisstjórn með íhaldinu. Í ljósi þessara orða formannsins er skiljanlegt að hann sé pirraður yfir því að hafa ekki komist í ríkisstjórn, hann var jú búinn að kasta á bálið helstu hugsjónum flokks síns til þess að komast í ríkisstjórn með Geir og Þorgerði. E.t.v. hafa sjálfstæðismenn áttað sig á því að flokkur sem tilbúinn er að ganga svo langt til þess að komast í ríkisstjórn er ekki besti kosturinn í stöðunni.

Framsóknarflokkurinn á í verulegri tilvistarkreppu. Hann virðist algjörlega klofinn í afstöðunni til Evrópumála. Þó má ljóst vera að á meðan Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson ráða ríkjum þar innan dyra þá muni Evrópusambandið ekki skora hátt í Framsóknarflokknum. Flokkurinn virðist einnig svo illa plagaður af innanflokksmeinum á Höfuðborgarsvæðinu að hann hendir á öskuhaugana sínum eina borgarfulltrúa. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Ég á erfiðara með átta mig á Frjálslyndum. Það virðist vera nokkuð ósamstæður hópur ólíkra einstaklinga. T.d. á ég mjög erfitt með sjá hvaða málefni sameina Kristinn H. Gunnarsson og Jón Magnússon í pólitík.

Þessu öllu til viðbótar á stjórnarandstaðan öll afar erfitt með að sameinast um nokkuð gegn ríkisstjórninni. Hægt er að taka þingskaparmálið sem dæmi. Þar tóku Framsókn og Frjálslyndir þá skynsömu afstöðu að leggjast á sveif með ríkisstjórninni enda um skynsamlegt mál að ræða en VG gerði heiðarlega og einlæga tilraun til þess að einangra sig algjörlega í íslenskri pólitík. Ég held að það hafi tekist að einhverju leyti hjá þeim.


Samstarf sveitarfélaga og kjördæmaskipan

Eitt af því sem bæjarráð ræddi á síðasta fundi sínum var úttekt bæjarstjóra á áframhaldandi samstarfi sveitarfélagsins við Samband Sveitarfélaga á Austurlandi og hugsanleg innganga sveitarfélagsins í Samband Sveitarfélaga á Suðurlandi.

Eins og flestir vita þá var kjördæmaskipaninni breytt í kosningunum 1999. Bæjarstórn Hornafjarðar hafði þá tekið þá ákvörðun að verða hluti af Suðurkjördæmi í samræmi við vilja íbúa sem kom fram í könnun sem framkvæmd var af þessu tilefni. Með því var slitið á tengslin við okkar gamla Austurlandskjördæmi sem rann inn í Norðausturkjördæmi. Um leið og bæjarstjórn tók þessa ákvörðun var ákvað hún líka að halda áfram samstarfinu við SSA (samband sveitarfélaga á Austurlandi) enda hafði samstarfið þar verið með miklum ágætum og SSA verið í fararbroddi í ýmsum málefnum.

Nú er hins vegar svo komið að bæjarfulltrúar velta því alvarlega fyrir sér hvort hagsmunum sveitarfélagsins sé betur komið innan samtaka sveitarfélaga sem starfa innan okkar kjördæmis. Auðvitað er það svo að kanna verður málið til hlítar, kanna kosti og galla og taka rökstudda ákvörðun á þeim grunni. Undanfarin ár hefur verið unnið mjög gott starf innan SSA og nauðsynlegt að taka með inn í reikninginn það sem við komum til með að tapa með því að skipta um samstarfsvettvang.

Hins vegar er ég ekki í nokkrum vafa um það að pólitískum hagsmunum okkar er betur borgið í samtökum sveitarfélaga sem starfa innan kjördæmisins. Þannig komumst við í betri snertingu við þau sveitarfélög sem liggja næst okkur innan kjördæmisins og við komumst betur í snertingu við kjördæmið sjálft. Ég hef enga trú á því að menn eigi eftir að breyta kjördæmaskipaninni á næstu árum og ég held að það geti ekki gengið til lengdar fyrir okkur að eiga ekki í samstarfi við sveitarfélögin í okkar kjördæmi. Því er heldur ekki að neita að tengslin og böndin við gamla Austurlandskjördæmið hafa eilítið rofnað á síðustu árum og að mínu mati munu þau halda áfram að gera það. Ástæðan fyrir því er ekki sú að Austfirðingum sé eitthvað illa við Hornfirðinga eða Hornfirðingum illa við Austfirðingum heldur einfaldlega vegna þess að við tilheyrum ekki sama kjördæmi.

Þess vegna tel ég tímabært að við íhugum breytingar í þessum efnum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband