Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

Við hvað eru menn hræddir?

Það vekur alltaf furðu mína að menn skuli ekki vera tilbúnir að láta lýðræðið hafa sinn gang þegar kemur að ESB aðild. Við hvað eru menn hræddir? Eru menn kannski hræddir um að þjóðin komist að vitlausri niðurstöðu?

Í miðjum björgunarleiðangrinum - m.a. með fyrirgreiðslunni frá IMF - er slæmt að ekki skuli liggja fyrir hvert lokamarkið er, þ.e. hvort við ætlum að halda í krónuna eða að stefna að ESB aðild og upptöku Evru í kjölfarið. Þetta hefði þurft að liggja fyrir áður en lagt var af stað í björgunarleiðangurinn - hefði aukið trúverðugleika leiðangursins.

Uppgjör í Evrópumálum er óumflýjanlegt. Kjósendur verða að fá að skera úr um það hvert skal stefna. Ákvörðun um að hefja þá vinnu getur ekki beðið lengur.

Í máli fyrrverandi fjármála - og forsætisráðherra Sviþjóðar - fjármálaráðherra á þeim tíma sem landið vann úr sinni fjármálakreppu - kom fram að mikilvægur liður í endurreisn sænska fjármálakerfisins hafi verið aðildin að ESB. Þessu er ekki hægt að horfa framhjá. Yfirlýsing um aðildarviðræður - og þar með undirbúningur þeirra - myndi þess vegna hafa jákvæð áhrif.

Af þessum sökum finnst mér athyglisvert að menn séu ekki tilbúnir að hefja aðildarviðræður, sjá hvað kemur út úr þeim og leggja svo samninginn í dóm kjósenda. Eru menn hræddir um að samningurinn verði það góður fyrir þjóðina að hann verði samþykktur? Ef samningurinn er óaðgengilegur þá verður hann einfaldlega felldur - treysti menn kjósendum hlýtur það að segja sig sjálft.

Engu er líkara en að ESB andúðartrúboðið treysti ekki kjósendum til að taka rétta ákvörðun - bara vitlausa. Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu þegar málflutningur andúðartrúboðsins er skoðaður - að þjóðinni sé ekki treyst til þess að taka ákvörðun í þessu veigamikla máli.  


Bæjarstjórn og borgarafundur

Á bæjarstjórnarfundi síðastliðinn fimmtudag samþykkti bæjarstjórn reglur um úthlutun tómstundastyrkja til allra barna í sveitarfélaginu á aldrinum 6 - 18 ára. Upphæðin á styrknum verður 10.000 kr. - fyrir hvert barn. Reglurnar byggja á samþykkt bæjarstjórnar frá því ágúst þar sem ákveðið var að taka upp svokölluð tómstundakort fyrir börn á aldrinum 6 - 18 ára. Það var byggt á tillögum nefndar um mótun fjöskyldustefnu fyrir sveitarfélagið. Reglurnar og tómstundastyrkurinn taka gildi nú um áramótin.

Þetta er mál sem Samfylkingin lagði mikla áherslu á í sinni kosningabaráttu og því er það sérstakt ánægjuefni að sjá þetta verða að veruleika núna. Ég er sannfærður um að þetta á eftir að koma sér mjög vel fyrir börn og unglinga sem hafa áhuga hvers kyns tómstundum - sem og fjölskyldum þeirra.

Einnig var samþykkt ný og metnaðarfull starfsmannastefna fyrir sveitarfélagið en í henni er líka að finna jafnréttisáætlun sveitarfélagsins.

Eftir bæjarstjórnarfundinn var haldinn borgarafundur um aðalskipulagsbreytingu sem fyrirhuguð er í tengslum við nýtt vegstæði yfir Hornafjarðarfljót. Fundurinn var haldinn í samvinnu við Vegagerðina. Mætingin á fundinn var nokkuð góð og ágætar umræður sköpuðust á um málið. Að mörgu að hyggja í flóknu ferli eins og þessu.

Aðalskipulagsbreytingin felur í sér að ný leið yfir Hornafjörð verður sett inn á aðalskipulag í samræmi við niðurstöður Vegagerðarinnar og vilja bæjarstjórnar. Meiri samhljómur er nú með bæjarstjórn og Vegagerðinni um það hvaða leið beri að fara og þess vegna teljum við rétt að hefja skipulagsferlið núna.

Á laugardag var síðan haldinn vinnufundur í bæjarstjórn þar sem unnið var að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Hún verður síðan lögð fyrir formlegan fund bæjarstjórnar til fyrri umræðu 18. des. nk. Sú vinna er auðvitað í meiri óvissu en oft áður vegna efnahagsástandsins en meginniðurstaða er hins vegar sú að staða sveitarfélagsins er nokkuð sterk en það verður að halda skynsamlega á spilunum til þess að hægt verði að sigla fleyinu í gegnum þetta efnahagsóveður sem yfir okkur gengur.


Lykilorrustur

Það er athyglisvert að lesa það hvernig fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsisn túlkar það hvar slagurinn um ESB vinnist. Lykilorrustan muni fara fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í janúar - ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það kemur á óvart að menn skuli telja að ákvörðun um aðild að ESB verði tekin á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem tala þannnig virðist greinilega telja að landsfundur Sjálfstæðismanna sé æðsta stjórnvaldsstofnun í landinu. En það er kannski ekkert skrýtið að ritstjórinn fyrrverandi skuli trúa þessu þar sem flokkurinn hefur haldið um stjórnartaumana samfleytt í 17 ár.

En allt er í heiminum hverfult - hver hefði t.d. trúað því fyrir nokkrum árum að Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, myndi ramba á barmi gjaldþrots. Þetta fyrirtæki - nær væri að segja stofnun - berst nú fyrir lífi sínu.

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, hefur nú viðrað þann möguleika að koma ESB umræðunni í þann farveg að þjóðin fái að kjósa um aðild, þó hann sé sjálfur á móti aðildinni. Þetta viðhorf ber að virða. Mér heyrðist formaður VG heldur reyna að draga í land þessi ummæli Ögmundar í viðtali fljótlega efitir að Ögmundur talaði um málið. Vissulega telur formaðurinn að þjóðin eigi að eiga síðasta orðið en hann telur umræðuna á villigötum og ótímabæra. Þar held ég að hann sé ekki samstíga meirihluta þjóðarinnar.

En dropinn holar steininn í þessum efnum og á endanum munu jafnvel hörðustu andstæðingar ESB aðildar - eins og tvíeykið Styrmir og Steingrímur - átta sig á því að ekki er hægt að meina þjóðinni að taka sjálf þessa ákvörðun. Íslendingar verða nú að endurmeta stöðu sína í samfélagi þjóðanna og "sjálfstæðu" peningamálastefnuna, sem tekin var upp árið 2001 um fljótandi krónu með verðbólgumarkmiðum Seðlabankans.

Í því endurmati er brýnt að við lærum af mistökum fortíðar, læsum okkur ekki inni og ölum ekki á óttanum við útlönd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband