Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2007

Gagnlegur borgarafundur

Ég var rétt í þessu að koma af mjög gagnlegum og skemmtilegum borgarafundi á Hrollaugsstöðum í Suðursveit. Á fundinum sköpuðust mjög málefnalegar umræður sem munu án efa gagnast kjörnum fulltrúum sem og starfsmönnum sveitarfélagsins í vinnu sinni á næstunni.

Fundurinn byrjaði á því að Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri kynnti metnaðarfulla fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, sem tekin verður til annarrar umræðu í bæjarstjórn í næstu viku. Töluverðar umræður sköpuðust um málefni sveitarfélagsins í heild út frá kynningu bæjarstjórans.

Annar liður á dagskrá fundarins voru málefni Vatnajökulsþjóðgarðs. Í þeim umræðum kom berlega í ljós að fundurinn í Suðursveit gat ekki komið á betri tíma. Fram kom að landeigendur eru alls ekki sáttir við gang viðræðna við umhverfisráðuneytið. Í máli þeirra kom fram að ekkert hefur verið rætt við þá síðan um mitt sumar. Þetta er auðvitað ekki nógu gott og ráðuneytið verður að setja meiri kraft í þessa vinnu.  

Í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð var einnig töluvert rætt um tillögu svæðisráðsins okkar innan Vatnajökulsþjóðgarðs vegna staðsetningar á gestastofu þjóðgarðsins við Hornafjörð. Sitt sýndist hverjum um það mál en ég tel þó að það hafi tekist nokkuð vel að útskýra okkar sjónarmið í því máli.  En þetta var umfram allt mjög skemmtilegur og gagnlegur fundur. Fulltrúar sveitarfélagsins fóru vel nestaðir og fóðraðir af fundinum með Suðursveitungum, það er víst.


Suðurlindir og kostuleg fundargerð

Það voru sannarlega glæsileg tilþrif hjá Hafnfirðingum, Grindvíkingum, Sveitarfélaginu Vogum að stofna félag um orkuauðlindrinar í iðrum jarða innan sinna sveitarfélaga. Þetta samkomulag skapar að mínu mati mikil tækifæri til framtíðar fyrir þessi sveitarfélög. Eftir darraðadansinn í kringum Hitaveitu Suðurnesja og lausatök Árna Sigfússonar á því fyrirtæki þarf það ekki að koma neinum á óvart að sveitarfélögin sáu sér þann kost vænstan að bjarga auðlindunum sjálfum undan braski kaupsýslumanna.

Orkumálin hafa verið mál málanna í pólitíkinni á þessu hausti og ég held að flestir Íslendingar séu þeirrar skoðunar að auðlindirnar sjálfar eigi að vera í almannaeigu. Stofnun Suðurlinda er sannarlega liður í því að tryggja það en ég bind miklar vonir við það að Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra nái, í gegnum lagasetningu, að tryggja það að aulindirnar verði um alla tíð í almannaeigu.

Kostuleg fundargerð

Að lokum vil ég benda lesendum á þessa stórskemmtilegu fundargerð frá fundi bæjarstjórnar Hornafjarðar í síðustu viku. Vil ég sérstaklega benda fólki á þá þau stórkostlegu stílbrögð minnhlutans að halda því fram að "meirihlutinn sé kominn út úr skápnum". Á einum stað í fundargerðinni sér annar fulltrúa minnihlutans sérstaka ástæðu til þess að árétta það að hann sé ennþá Sjálfstæðismaður. Áður hafði verið sleginn svo yndislega fallegur jafnaðarmannatónn í máli hans að ég sá sérstaka ástæðu til þess að bjóða hann velkominn í hópinn. Það vildi hann hins vegar ekki kannast við og sá ástæðu til þess að koma því á framfæri að hann væri sjálfstæðismaður og var það fært til bókar. Enda ekki vanþörf á því.

Ef þessi fundargerð er ekki skemmtilesning þá veit ég ekki hvað þótt hún sé að mínu mati heldur í lengri kantinum.


Lífleg pólitísk vika og hressandi Herðubreið

Óhætt er að segja að líf og fjör hafi verið í pólitíkinni í síðustu viku. Segja má að fréttir frá Hornafirði um veg yfir fljótin og væntingar okkar til Vatnajökulsþjóðgarð hafið verið í öðrum hverjum fréttatíma Ríkisútvarps og sjónvarps. Það er nú ekki í hverri viku sem okkar ágæta byggðarlag fær svo góða og mikla fjölmiðlaumfjöllun.

Þjóðgarðsmál

Auðvitað eru skiptar skoðanir um ýmislegt varðandi uppbyggingu þjóðgarðsins enda annað óeðlilegt þegar um svo stórt og mikilvægt verkefni er að ræða. Gott er til þess að vita að svo margt fólk, eins og raun ber vitni, ber hag þjóðgarðsins fyrir brjósti.

Menn hafa deilt á okkur vegna umfjöllunar okkar um staðsetningu yfirstjórnar þjóðgarðsins og þótt framganga okkar í þeim málum of einstrengingsleg. Það þykir mér furðuleg afstaða. Allt frá því að hugmyndir um Vatnajökulsþjóðgarð kviknuðu hafa Hornfirðingar sýnt málinu mikinn áhuga og hafa alla tíð lagt mikið af mörkum til þess að Vatnajökulsþjóðgarður yrði að veruleika. Nægir þar að nefna uppbyggingu metnaðarfullrar jöklasýningar sem staðsett er á Höfn. Frá fyrstu tíð hefur sveitarstjórnarfólk hér talað um að höfuðstöðvar þjóðgarðsins risu í sveitarfélaginu. Við höfum litið á þetta verkefni sem einn helsta aflvakann atvinnu - og byggðaþróun svæðisins og þess vegna leggjum við svona mikla áherslu á það að framkvæmdastjórinn eða yfirstjórnin verði staðsett á Hornafirði, í Ríki Vatnajökuls.

Svo hafa aðrir gagnrýnt okkur vegna staðarvalsins fyrir gestastofu þjóðgarðsins sem fyrirhugað er að reisa í sveitarfélaginu, t.a.m. Gunnlaugur B. Ólafsson frá Stafafelli í Lóni. Hann telur að fyrirhuguð gestastofa hefði átt að rísa við Stafafell.

Þessu eru svæðisráðið og bæjarráð Hornafjarðar ósammála. Við teljum að sú staðsetning, sem hefur orðið ofan á, við Stekkanes nokkrum km. fyrir utan Höfn samræmist mjög vel þeirri stefnu sem hefur verið mörkuð fyrir þjóðgarðinn. Ég er ekki sammála því að þessi staðsetning hafi orðið ofan á vegna þess að hún hafi eingöngu verið byggð á forsendum sjónarmiða um atvinnuuppbyggingu á kostnað sjónarmiða um náttúruvernd og útivist. Ég tel ekki að möguleikar til atvinnuuppbyggingar á svæðinu útiloki möguleika til náttúruverndar og útivistar. Þvert á móti tel ég að þessi sjónarmið verði að kallast á og umræðan má ekki, að mínu mati, fara í þann farveg að eitt útiloki annað.

Heimsókn ráðherranna

Miðvikudaginn síðastliðinn komu svo ráðherrar samgöngu - og viðskiptamála í heimsókn til okkar. Um það fjallaði ég í síðustu færslu. Þeir, Kristján L. Möller og Björgvin G. Sigurðsson komu og funduðu með bæjarstjórn og byggingar - og skipulagsnefnd annars vegar og með íbúum á opnum fundi um kvöldið hins vegar. Fólk hafði að sjálfsögðu mestar áhyggjur af tillögu Vegagerðarinnar um fara leið 1 yfir Hornafjarðarfljótin. Ráðherrarnir voru fyrst og fremst hingað komnir til þess að hlýða á sjónarmið okkar varðandi þessi vegamál. Eins og flestir ættu að vita eru bæjarstjórn og Vegagerðin ekki ásátt um það hvaða leið eigi að verða fyrir valinu.

Langur bæjarstjórnarfundur

Á fimmtudaginn var síðan langur bæjarstjórnarfundur þar sem tekist var nokkuð hart á um heilbrigðis - og öldrunarmál. Það er s.s. ekki í fyrsta sinn sem það gerist á þessu kjörtímabili. Einu sinni sem oftar snerust deilurnar um formsatriði en ekki efnisatriði og í rauninni er lítill pólitískur ágreiningur um málið. Einhugur var í bæjarstjórn um málefni Vatnajökulsþjóðgarðs og um vegstæði yfir fljótin.

Á fundinum var mér falið að rita Kristjáni L. Möller, samgönguráðherra og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra og 1. þingmanni Suðurkjördæmis bréf þess efnis að bæjarfélagið skorar á ríkisvaldið að tryggja fjármagn til þess að hægt verði að fara leið 3 yfir Hornafjarðarfljót.

Hressandi Herðubreið

Að lokinni jafn annasamri og stormasamri viku í pólitíkinni var hressandi að sjá stútfulla Herðubreið detta inn um bréfalúguna. Herðubreið er sannkallað jafnaðamannablað undir ritstjórn Karsl Th. Birgissonar sem ég hvet alla til að kynna sér.

Ég byrjaði á því að lesa um fyrsta dag Guðmundar Steingrímssonar á þingi og skemmti mér konunglega. Best þótti mér svar hans til Guðna Ágústssonar, um að allt væri hey í harðindum, þegar Guðni minnti Guðmund á orð afa hans, Hermanns Jónassonar, um að allt væri betra en íhaldið.

 

 


Frábær mæting á fund samgöngu - og viðskiptaráðherra

Um 70 manns mættu á fund með samgöngu - og viðskiptaráðherra í gær í Nýheimum. Það er sannarlega glæsileg mæting á pólitískan fund. Fundurinn var haldinn að frumkvæði Samfylkingarinnar á Hornafirði og var öllum opinn. Það var virkilega gaman að sjá fólk bregðast svona vel við heimsókn ráðherrranna.

Auðvitað hafði fólk mestan áhuga á að ræða mál málanna þessa dagana á Hornafirði en það er niðurstaða Vegagerðarinnar um það hvar nýr vegur um Hornafjarðarfljót eigi að liggja. Gagnlegar og málefnalegar umræður fóru fram um málið og ráðherra samgöngumála hlustaði á það sem fólkið hafði fram að færa.

Það er að mínu viti gríðarlega mikilvægt, áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir í þessu máli, að samgönguráðherra sé búinn að koma hingað austur til þess að kynna sér viðhorf bæjarstjórnar og ekki síður viðhorf íbúanna.

Fundurinn í gær er að mínu mati til marks um þá miklu samráðshefð sem Samfylkingin hefur gert að reglu frekar en undantekningu í sínum vinnubrögðum.

Á fundi bæjarstjórnar í kvöld var eftirfarandi bókun um þessi mál samþykkt:

Á fundi með starfsmönnum Vegagerðarinnar þann 12. nóv. 2007 kom fram að stofnunin mælir með að farin verði leið 1. Rök Vegagerðarinnar eru þau að umhverfisáhrif þeirrar leiðar séu minnst af þeim leiðum sem eru til skoðunar, leiðin uppfylli einnig öll markmið um umferðaröryggi og greiðfærni.
Þrátt fyrir þessa tillögu Vegargerðarinnar ítrekar bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar fyrri afstöðu sína í þessu máli. Bæjastjórn telur það farsælustu lausnina í samgöngumálum Hornfirðinga til framtíðar að ákveðið verði að fara leið 3. Það er sú leið sem kemur til með að styrkja best búsetu og atvinnuskilyrði íbúanna í sveitarfélaginu. Leið 3 styttir vegalegndir innan sveitarfélagsins mest eða um 14,2 km en leið 1 um 10,9 km. Í útreikningum Vegagerðarinnar er áætlað að leið 3 kosti um 2,9 milljarða króna en leið 1 kosti um 2,3 miljarð króna.
Það er skoðun bæjarstjórnar að þegar borinn er saman kostnaður við leið eitt og þrjú sé ekki gætt fulls hlutleysis. Inni í leið eitt er sleppt kostnaði við vegagerð á Mýrum og í Nesjum sem eðlilegt sé að hafa í báðum útfærslum. Þá er einnig horft framhjá ýmsum öryggisþáttum á leið eitt sem gera hana ódýrari í útreikningum Vegagerðarinnar.
Bæjarstjórn Hornafjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands að tryggja fjárveitingar til að leggja leið 3. Bæjarstjórn Hornafjarðar er sammála um að forseta bæjarstjórnar verið falið að senda skriflegt erindi til samgönguráðherra og fjármálaráðherra þessu lútandi.

Við ætlum okkur s.s. að láta reyna á vilja ríkisstjórnarinnar í þessu máli og ég tel brýnt að fá úr því skorið sem allra fyrst hvort ríkisstjórnin hefur áhuga á því að tryggja nægjanlegt fjármagn í þessa framkvæmd. Hér er hægt að hlusta á mjög gott viðtal við Reyni Arnarson, formann bæjarráðs Hornafjarðar í svæðisútvapinu í dag.


Enn um niðurstöðu Vegagerðarinnar

Mikið hefur verið rætt og ritað um niðurstöðu Vegagerðarinnar um hvar vegur yfir Hornafjarðarfljót eigi að liggja. Það er ljóst að Vegagerðin og sveitarfélagið eru alls ekki sammála um það hvar vegurinn eigi að koma. Enginn þarf því að velkjast í vafa um það að niðurstaða Vegagerðarinnar olli okkur verulegum vonbrigðum.

Hins vegar koma fram á fundi með starfsmönnum Vegagerðarinnar að allar þær leiðir sem lagðar voru til grundvallar í umhverfismati eru vegtæknilega færar. Í raun er því lítið því til fyrirstöðu að fara leið 3 eins og bæjarstjórn hefur talað fyrir. Forsenda þess að það sé möulegt er auðvitað sú að það takist að tryggja nægjanlegt fjármagn í framkvæmdina. Óneitanlega er munur á kostnaðartölum á þeirri leið sem bæjarstjórn vill fara og þeirri leið sem Vegagerðin vill fara.

Ríkisvaldið tryggi fjármagn til framkvæmdarinnar 

Það er alveg ljóst í mínum huga að ríkisvaldið verður að koma að þessu máli. Ríkisvaldið verður að tryggja það að fjárveitingar til verkefnisins dugi til þess að fara leið 3. Hin jákvæðu samfélagslegu áhrif af því að fara þá leið, fyrir íbúa sveitarfélgsins, hljóta að vega þungt í huga ríkisstjórnarinnar. Hér er um framtíðarvegstæði okkar að ræða þannig að það gríðarlega mikilvægt að menn vegi og meti öll sjónarmið og þá ekki síst þau sjónarmið sem lúta samfélagslegum áhrifum.

Það kæmi mér ekki á óvart ef bæjarstjórn Hornafjarðar yrði sammála um það að krefjast þess af ríkisstjórn Íslands að tryggt verði nægjanlegt fjármagni til þess að leið 3 verði farin.


Höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs

Ég sé það á bloggi bæjarstjórans að hann fjallar um bókun bæjarráðs um staðsetningu yfirstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Bæjarráð tók af skarið um það á fundi sínum í gær um að höfuðstöðvar þjóðgarðsins eigi að vera staðsettar í sveitarélaginu, í ríki Vatnajökuls. Í bókuninni segir meðal annars:

Helsti rökstuðningur bæjarráðs Hornafjarðar fyrir því að staðsetja framkvæmdastjóra þjóðgarðsins í Sveitarfélaginu Hornafirði er að:
- Hornfirðingar líta til Vatnajökulsþjóðgarðs sem einn helsta aflvaka í byggðaþróun í héraðinu.
- Allar aðstæður fyrir framkvæmdastjóra yfirstjórnar eru til staðar á Hornafirði. Samgöngur til og frá svæðinu eru greiðar. Yfirstjórnin yrði hluti af þeirri starfsemi sem byggst hefur upp í Nýheimum.
- Starfsstöð Vatnajökulsþjóðgarðs á Hornafirði er mikilvæg viðbót við þá grósku sem er í rannsóknum og atvinnuþróun í tengslum við ferðaþjónustu, útivist og þjóðgarða á svæðinu.
- Með samstarfi Háskólasetursins í Nýheimum og Vatnajökulsþjóðgarðs yrði markvisst sótt fram í að efla fræðslutengda ferðaþjónustu í Vatnajökulsþjóðgarði, efla umhverfisvitund, vinna að samanburðarrannsóknum á þjóðgörðum víðsvegar að í heiminum og byggja upp þekkingargrunn fyrir atvinnustarfsemi sem þrífst innan þjóðgarða víða um heim.
- Ferðaþjónusta sunnan Vatnajökuls hefur vaxið umtalsvert á síðustu árum. Stofnun þjóðgarðsins í Skaftafelli, uppbygging á aðstöðu og bætt aðgengi að svæðinu er einn af hornsteinum þessarar þróunar. Á svæðinu er því til staðar mikil þekking á uppbyggingu atvinnulífs í tengslum við þjóðgarða.
- Mörg þróunarverkefni í Ríki Vatnajökuls koma til með að styrkja þjóðgarðinn og öfugt. Hægt er að nefna að nú er unnið að gerð göngustíga í Haukafelli á vegum Skógræktar Austur-Skaftafellssýslu, á Heinabergssvæðinu á vegum ferðaþjónustuaðila á Mýrum og Suðursveit, uppbygging vetrarferðamennsku og fuglaskoðun. Stór hluti af samfélaginu á Hornafirði er því vel meðvitaður um gildi þjóðgarðs og mikilvægi hans fyrir þróun byggðar, ferðaþjónustu og útivistar á landinu öllu.

Af þessari upptalningu má sjá að ýmis rök hníga að því að höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs verði staðsettar á Hornafirði. Hornfirðingar hafa alla tíð búið í nánu sambýli við Vatnajökul og jökullinn hefur í gegnum aldirnar haft mikil áhrif á búsetuskilyrði íbúanna.

Löngu áður en horft var til stofnunar Vatnjökulsþjóðgarðs voru íbúar hér farnir að líta til jökulsins sem eins helst aflvakans í byggðaþróun svæðisins. Nægir þar að nefna metnaðarfulla Jöklasýniningu á Höfn sem nýtur gríðarlegra vinsælda hjá ferðamönnum og hefur hlotið fádæma góðar viðtökur. Sveitarfélagið og íbúar þess hafa með þessum hætti sýnt gríðarlegan metnað í uppbyggingu ferðaþjónustu þar sem Vatnajökull er miðdepillinn. Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er því rökrétt framhald af þeirri vinnu sem sveitarfélagið hefur verið í á undanförnum árum. 


Hornafjarðarfljót - niðurstaða Vegagerðarinnar

Því verður ekki neitað að niðurstaðan sem starfsmenn Vegagerðarinnar og VSÓ kynntu fyrir bæjarstjórn og byggingar - og skipulagsnefnd á fundi í gær olli töluverðum vonbrigðum. Þar kynntu starfsmenn Vegagerðarinnar fyrir okkur að stofnunin hefði komist að þeirri niðustöðu að velja beri leið 1. Hægt er að lesa um fundinn hér og hér.

Á fundi bæjarráðs í gær var eftirfarandi bókað:

Á fundi með starfsmönnum Vegagerðarinnar þann 12. nóv. 2007 kom fram að stofnunin mælir með að farin verði leið 1. Rökin eru þau að umhverfisáhrif þeirrar leiðar séu minnst af þeim leiðum sem eru til skoðunar, leiðin uppfylli einnig öll markmið um umferðaröryggi og greiðfærni auk þess sem hún sé verulega hagkvæmari en aðrar leiðir. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu Vegargerðarinnar ítrekar bæjarráð Hornafjarðar fyrri afstöðu sína í þessu máli. Bæjarráð telur það farsælustu lausnina í samgöngumálum Hornfirðinga til framtíðar að ákveðið verði að fara leið 3. Það er sú leið sem kemur til með að styrkja best búsetu og atvinnuskilyrði íbúanna í sveitarfélaginu.

Það er mikilvægt að það komi fram að bæjarráð telur að enn hafi ekkert komið fram sem kalli á afstöðubreytingu bæjarstjórnar. Við erum enn þeirrar skoðunar að velja beri syðstu leiðina, þ.e. leið 3. Sú leið styttir vegalengdirnar innan sveitarfélagsins langmest og rennir styrkustu stoðunum undir byggð á svæðinu. Á fundinum kom fram að allar þær leiðir sem skoðaðar hafa verið í umhverfismatinu eru vegtæknilegar framkvæmanlegar. Að mörgu leyti virðist því niðurstaða Vegargerðarinnar þá byggjast á fjármögnun.

Það dregur enginn dul á það leið 3 er dýrust þeirra leiða sem skoðaðar voru. En hér er um að ræða svo mikilvægt mál fyrir samfélagið hér að mikilvægt er að ekki verði kastað til höndum. Við í bæjarstjórn teljum að fyrst ráðast eigi í þessar stórframkvæmdir á annað borð þá beri að horfa mjög sterkt til þeirra jákvæðu samfélagslegu áhrifa sem framkvæmdirnar munu hafa. Afstaða bæjarstjórnar er og hefur verið sú að leið 3 hafi mestu og jákvæðustu samfélagsáhrifin og það er ekki síst þess vegna sem bæjarstjórn hefur talið þá leið farsælasta.


Sigursælir Hornfirðingar

Hornfirskar keppnissveitir hafa sannarlega verið sigursælar á síðustu dögum. Fyrst vann lið sveitarfélagsins í Útsvari Ríkisútvarpsins. Liðið lagði geysiöflugt lið Seltirninga örugglega að velli á föstudaginn. Sannarlega góður árangur.

Á laugardaginn vann síðan lið Grunnskóla Hornafjarðar í Legó hönnunarkeppninni sem haldin var í Reykjavík. Við sigurinn fær liðið þátttökurétt í Evrópumóti First Lego League sem haldið verður í maí á næsta ári. Eiríkur Hansson, kennari hefur haldið utan um starf hópsins undanfarin ár og árangurinn hefur verið mjög góður eins og sýndi sig á laugardaginn. Eins veit ég það þessir krakkar sem þarna voru hafa verið sveitarfélaginu til mikils sóma eins og alltaf.

Það er sannarlega gleðilegt að þakkarvert þegar fólk er tilbúið að fórna sér í störf líkt og þessi og auka þannig hróður sveitarfélagsins. Fólkið sem tók þátt í þessum viðburðum á vegum sveitarfélagsins og grunnskólans hefur sannarlega með frammistöðu sinni gert nákvæmlega það.


Burt með léttvínsfrumvarpið

Léttvínsfrumvarpið svokallaða er mér ekki að skapi. Það skal ég viðurkenna. Ég sé ekki þörfina eða ástæðurnar fyrir því að gefa sölu á bjór og léttvíni frjálsa. Mér finnst Vínbúðir ÁTVR sinna sínu hlutverki ákaflega vel.

Ég hef t.d. áhyggjur af því að ef salan á léttvíni og bjór verður gefin frjáls þá muni þjónustan við landsbyggðina í þessum málum versna. Vöruúrval og opnunartímar eru nefnilega til fyrirmyndar hjá Vínbúðinni eins og er. Ég hef t.a.m. ekki nokkra trú á því að verslunarmenn muni sjá hag sinn í því að bjóða neytendum sínum upp á þennan fjölbreytileika í vöruúrvali. Þeir munu bara  bjóða fólki upp á það sem best selst hverju sinni.

Nú má það vel vera að flutningsmenn léttvínsfrumvarpsins líti svo á að Vínbúðir ÁTVR geti haldið starfi sínu áfram eftir að salan hefur verið gefin frjáls. En sporin hræða í þessum efnum. Það mun ekki líða langur tími þar til frjálhyggjuarmur Sjálfstæðisflokksnins og kaupmenn halda því fram að ríkið eigi ekki taka þátt í þessum rekstri því þá sé ríkið í komið í samkeppni við einkaaðila. Þannig að um leið og frumvarpið verður samþykkt þá munu raddir um að það sé óeðlilegt að ríkið starfi á þessum vettvangi koma fram.

Ég er líka á móti þessu frumvarpi vegna þess að ég trúi því að bætt aðgengi fólks að þessari vöru, sem sannarlega er vímuefn,i eigi eftir að auka neyslu fólks á áfengi. Það er stefna sem ég held að við ættum að varast því nóg er drykkjan fyrir í samfélaginu. Sérstaklega hef ég áhyggjur af unglingum í þessum efnum.

Flutningsmenn frumvarpsins tengja frumvarpið gjarnan frelsi og er tíðrætt um það. En ég fæ það ekki til þess að tengjast því á nokkurn hátt. Menn eru jafn frjálsir hvort sem þeir nálgast vínið og bjórinn í Vínbúð ÁTVR eða í matvöruverslunum.

Mitt mat er það að þingmenn ættu að einbeita sér að mikilvægari málum í samfélaginu og að flutningsmenn þessarar tillögu þurfi að forgangsraða upp á nýtt.


Samgöngu - og viðskiptaráðherra væntanlegir

Það er mér mikið gleðiefni að geta greint frá því að næsta miðvikudag ætla samgöngu - og viðskiptaráðherra að kíkja í heimsókn til Hornafjarðar.

Meiningin er að þeir fundi með bæjarstjórn og byggingar - og skipulagsnefnd seinni partinn á miðvikudag. Þar verða málefni sveitarfélagsins eflaust rædd þar sem málefni sveitarfélaganna koma til með flytjast frá félagsmálaráðuneytinu yfir til samgönguráðuneytisins um áramót. Einnig verða samgöngumál innan sveitarfélagsins rædd í víðu samhengi. Án efa verður þar rætt um nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót sem og væntanleg Lónsheiðargöng.

Við munum vafalítið koma skoðun bæjarstjórnar áleiðis á því hvaða leið eigi að velja yfir Hornafjarðarfljótin. Bæjarstjórn hefur alla tíð verið einhuga um það að velja beri leið nr. 3 sem styttir þjóveginn mest sem og vegalengdir innan sveitarélagsins. Ekki má heldur gleyma því að sú leið fækkar gatnamótum mjög á þjóðveginum og bætir því umferðaröryggi landsmanna mjög mikið.

Mánudaginn áður en samgönguráðherra kemur verður bæjarstjórn búin að funda með Vegagerðinni þar sem ég býst við því að farið verði yfir stöðu málsins á þessum tímapunkti. Gaman verður að heyra hvar málið er statt núna og hvenær Vegagerðin telur að hún muni ljúka sinni vinnu.

Á fundinum með Samgönguráðherra verður vafalítið líka rætt um Lónsheiðargöng. Enginn sem keyrir um Hvalnes - og þvottárskriður þarf að velkjast að í vafa um það að þar er um að ræða vegstæði á þjóðvegi 1 sem ekki er boðlegur nú á tímum. Við í sveitarstjórninni munum því leggja á það áherslu, nú sem endranær, að eina varanlega lausnin á tengingu fyrir Hornafjörð við Austurland séu göng undir Lónsheiði. Vegurinn um Hvalnes - og þvottárskriður er farartálmi stóran hluta ársins og í rigningum er hann einfaldlega stórhættulegur akandi vegfarendum. Við leggjum því áherslu á að ráðuneytið og Vegagerðin fari strax að skoða þann möguleika að hefja framkvæmdir við Lónsheiðargöng. Sveitarfélagið hefur hafið sína skipulagsvinnu sem miðar að því að göngin verði sett að aðalskipulag sveitarfélagsins.

Á miðvikudagskvöldið kl. 20:00 mun Samfylkingin á Hornafirði standa fyrir opnum fundi í Nýheimum þar sem samgönguráðherra, Kristján L. Möller og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra munu flytja stutt erindi og sitja svo fyrir svörum.

Þar vona ég að viðskiptaráðherra muni láta gaminn geisa, eins og hann hefur gert að undanförnu, um vaxtamál og stöðu íslensku krónunnar. Ég held að skuldsettir krónuþrælar á Hornafirði (eins og annars staðar) hefðu gaman að því að hlusta á hann tala um þau mál.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband