Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007

Tökum ekki þátt í þagnarbandalagi um Evrópumál

Mikið gladdi það mitt litla hjarta að sjá það haft eftir Ingibjörgu Sólrúnu, mínum ágæta formanni að Samfylkingin ætlaði ekki að taka þátt í þagnarbandalagi um Evrópumál. Þetta mun hún hafa sagt á aðalfundi Samfylkingarfélagsins í Reykjavík. Ég tek heils hugar undir með Ingibjörgu að Við megum ekki láta aðra stjórnmálaflokka þegja þetta framfaramál í hel.

Hún talaði einning um að Samfylkingin hefði sett tvö stór mál á dagskrá núna með stuttu millibili. Annars vegar alltof hátt matvælaverð á landinu og hins vegar upptöku Evrunnar og málefni Evrópubandalagsins. Við höfum talað fyrir því að innganga í ESB hefði þau áhrif að þeir okurvextir sem íslenskur almenningur býr við fari lækkandi. Þetta er eitthvað sem aðrir stjórnamálaflokkar vilja ekkert vita af. Við höfum líka talað fyrir því að innganga í ESB og upptaka Evrunnar myndi færa okkur lægra verðlag á Íslandi. Þetta er líka eitthvað sem aðrir stjórnmálaflokkar vilja ekkert vita af.

Evrópumálin verður að ræða af alvöru í þessari kosningabaráttu. Okurvaxtapíndur almenningur á Íslandi á það skilið. Jafnaðarmenn munu að sjálfsögðu leiða þá umræðu líkt og verið hefur.


Rýnt í marklausar kannanir

Heldur finnst mér menn draga of miklar ályktanir af könnun Frjálsrar Verslunar fyrir vefsvæðið heimur.is. Úrtakið var minna en í könnun Fréttablaðsins fyrir skemmstu og svörunin álíka slæm.

Fyrirsagnir eins og "Ingibjörg í frjálsu falli" eiga einfaldlega ekki við nein rök að styðjast. Eina mælingin sem máli skiptir fer fram 12. maí nk. og þá sést hvort einhverjir flokkar eða leiðtogar þeirra eru í frjálsu falli.

Nú skiptir mestu máli fyrir Samfylkinguna að koma sinni skýru og góðu stefnu á framfæri, flokksfólk þarf að halda ró sinni, snúa bökum saman og standa þétt við bakið á forystunni.

Þegar fylgi Samfylkingarinnar var komið niður í 11% undir forystu Össurar Skarphéðinssonar þá báru flokksmenn gæfu til þess að gera nákvæmlega þetta og leiðin lá upp á við. Vonandi ber flokksfólki gæfa til þess að endurtaka þann leik, líka Hrafni Jökulssyni.


Hjálmar fallinn, Johnsen inni og meint vanlíðan

Hjálmar skíttapaði í baráttunni við Guðna varaformann um fyrsta sætið í Suðurkjördæmi. Spá mín um að hann myndi sennilega hanga á öðru sætinu reyndist röng og hann hrapaði í niður í þriðja sætið. Suðurnesjamenn virðast ekki hafa haft meir trú á honum en þetta sem kemur óneitanlega á óvart þar sem Hjálmar byggði óvænta atlögu sína að Guðna á því hversu illa Suðurnesjamenn hefðu komið út úr prófkjörum annarra flokka. En Hjálmar hlýddi kallinu og er hættur í pólitík.

Hjálmar er hættur en ekki alveg þó því hann vill fá að ráðstafa sínu þriðja sæti til Suðurnesjamanns. Eygló Harðardóttir úr Eyjum sem endaði í fjórða sæti í prófkjörinu er aldeilis ekki kát með þessa afskiptasemi Hjálmars. Björn Ingi Hrafnsson hefur einnig blandað sér í málið og er sammála Hjálmari. Eygló vandar Hjálmari og Birni Inga ekki kveðjunar í pistli á heimasíðu sinni og talar um það sem hún kallar karlaplott og þúfupólitík. Gaman verður að fylgjast með því hvernig Framsóknarfólk kemur til með vinna úr þessum innanbúðardeilum.

Einnig verður mjög forvitnilegt að fylgjast með framboðsmálum Íhaldsins í Suðurkjördæmi. Þar virðist vera um algjörlega klofið framboð að ræða. Mjög stór hluti kjördæmisþings Sjálfstæðisflokksins vildi losna við Árna Johnsen af framboðslistanum. Hann náði þó að halda velli og Sjálfstæðisfólk víðs vegar af að landinu gerði þegar í stað grein fyrir andúð sinni á því að Árni Johnsen væri sennilega á leið á þing aftur á vegum Sjálfstæðisflokksins.

Nafna hans Mathiesen bíður erfitt hlutskipti. Það verður hans að reyna að leiða þennan lista Íhaldsins. Honum er ætlað að vera það lím sem þarf til þess að halda þessu klofna framboði saman. Mér er það til efs að Sjálfstæðismaður úr Hafnarfirði hafi það sem til þarf til þess að stjórna þessu liði. Íhaldið í Hafnarfirði hefur nú ekki unnið nein stórafrek upp á síðkastið.

Mig langar líka til þess að nota þetta tækifæri til þess að leiðrétta þann misskilning sem ég hef orðið áskynja að er til staðar á bloggsíðu sem kennd er við hægrisveiflu. Misskilningurinn felst í því að halda það að Krötum líði illa um þessar mundir vegna útkomu Samfylkingarinnar í skoðanakönnunum. Um leið og ég þakka umhyggjuna vil ég koma því á framfæri að meint vanlíðan á ekki við nein rök að styðjast vegna þess að við höfum góðan málstað að verja og höfum góða samvísku.


RÚV ókeypis fyrir auðmenn

Magnað að fjármagnseigendur landsins skuli vera undanþegnir væntanlegum nefskatti vegna Ríkisútvarpsins í frumvarpi menntamálaráðherra um hlutafélagavæðingu RÚV. Ekki gengur að skattpína þessa vesalinga sem ekkert gera nema lepja dauðann úr skel. Það er auðvitað til háborinnar skammar að þeir skuli vera skattlagðir annað borð. Ekki gengur að leggja stein í götu þeirra til þess að halda áfram að fá til landsins heimfræga tónlistarmenn til þess að skemmta sér og sínum.

Þetta er auðvitað alveg fáheyrt og særir réttlætiskennd manns. Sá ójöfnuður sem Íhaldið hefur komið hér kerfisbundið á heldur auðvitað bara áfram að aukast með aðgerðum sem þessum.


Gefum skít í skoðanakannanir

Um fátt er meira rætt nú um mundir í bloggheimum sem og öðrum heimum en meint fylgisleysi Samfylkingarinnar. Ótrúlega margir spekúlantar finna sig knúna til þess að útskýra stöðu Samfylkingarinnar. Flestir spekinganna virðast vera sammála um að kenna megi formanni flokksins, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur um slakt gengi flokksins.

Sömu spekinga vil ég minna á það að eitt sinn var fylgi Samfylkingarinnar undir stjórn Össurar Skarphéðinssonar komið niður í 11% og raddir urðu háværar um að skipta þyrfti um forystu í flokknum. En í stað þess hlaupa á eftir skoðanakönnunum flykktu menn sér á bak við formanninn sinn og studdu hann með ráðum og dáð. Upp úr fylgislægðinni vann flokkurinn sig svo í síðustu kosningunum með eftirminnilegum hætti.

Það má nú heldur ekki gleyma því að könnun Fréttablaðsins er nú vart marktæk. Úrtakið er ekki mjög stórt eða 800 manns og 40% þátttakenda gefa ekki upp afstöðu sína. Þetta gefur varla góða heildarmynd og margt á eftir að breytast í aðdraganda kosinga.

Ég er ekki nokkrum vafa um það að Samfylkingin á góða sóknarmöguleika í kosningunum og við munum vinna á. Góð málefnastaða, sterkur mannskapur og vond ríkisstjórn munu leggja okkur lið við að snúa vörn í sókn.

Mig langar líka til þess að minna á orð Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem hann lét falla í Silfrinu fyrir einhverju síðan, um að hann gæfi skít í allar skoðanakannanir. Það byggði hann á því að undir hans stjórn mældist Alþýðuflokkurinn eitt sinn með 3% fylgi á meðan hann var að vinna þjóðinni hvað mest gagn, þ.e. þegar hann var í óða önn að undirbúa EES samninginn.   

Mér finnst vera mikil viska í þessum orðum fyrrum krataforingjans. Við verðum halda stefnumálum okkar hátt á lofti og láta ekki stundarfyrirbrigði eins og skoðanakannanir valda okkur hugarangri. Grunngildi jafnaðarstefnunnar eiga að vera haldreipi okkar og þau eigum við eigum að boða í ræðu og riti. Tölum fyrir okkar stefnu um réttlátt og sanngjarnt samfélag með áherslu á að auka jöfnuð í samfélaginu. Það verður mikilvægasta verkefni næstu ríkisstjórnar að auka jöfnuð í samfélaginu. Einhvern veginn finnst mér það líka vera mikilvægara umræðuefni heldur en staða flokkanna skv. síðustu skoðanakönnun.

80% Íslendinga eru jafnaðarmenn en það verður bara að sannfæra þá um að það þarf jafnaðarmenn til þess að reka jafnaðarstefnu.


Fellir Hjálmar varaformanninn?

Í dag fer fram prófkjör Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Spennandi verður að sjá hvort atlaga Hjálmars Árnasonar að varaformanni flokksins Guðna Ágústssyni gangi upp. Víst er að baráttan verður hörð.

Merkileg sinnaksipti Hjálmars. Einn dag styður hann sinn varaformann í fyrsta sætið en hættir svo við og ákveður að etja kappi við hann. Ég geri í sjálfu sér engar athugasemdir við það að menn keppist um efstu sæti á framboðslistum í pólítík. Það á enginn neitt í pólítík. Framboð Hjálmars missir hins vegar trúverðugleika í ljósi þess að flestir töldu Hjálmar dyggasta stuðningsmann Guðna þar sem hann hafði lýst því yfir sjálfur. Þau orð vógu hins vegar ekki þungt hjá Suðurnesjamanninum þegar hann sá sér leik á borði vegna lélegrar útkomu annarra Suðurnesjamanna í prófkjörum annarra flokka.

Ég hallast nú að því að varaformaðurinn haldi velli og þá er spurningin einungis sú í hvaða sæti Hjálmar endar. Ætli hann hangi ekki á öðru sætinu.

Á morgun ætla svo Sjálfstæðismenn að hittast á kjördæmisþingi á Hótel Örk og staðfesta framboðslista sinn í Suðurkjördæmi. Fregnir herma að á þinginu verði niðurstaða prófkjörs þeirra staðfest. Það kemur nokkuð á óvart enda hafa félagar þeirra víðs vegar um landið látið að því liggja að vera Eyjajarlsins, Árna Johnsens á listanum komi til með að veikja flokkinn á landsvísu. Eitt er víst að orðin tæknileg mistök munu loða við framboð Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.    


Byrgið - handónýt stjórnsýsla

Ljóst er að stjórnsýslan í Félagsmálaráðuneytinu hefur verið í molum þegar kom að því að taka á málum Byrgisins. Það mátti glöggt heyra í utandagskrárumræðu á Alþingi í dag þegar þingmenn fengu tækifæri til þess að ræða málið. Málshefjandi var Lúðvík Bergvinsson, þingmaður Samfylkingarinnar og greinilegt var á þingmönnum að þeir litu þetta mál mjög alvarlegum augum. Enda er það grafalvarlegt þegar farið er með almannafé með þeim hætti sem forstöðumaður Byrgisins hefur gert undanfarin ár að því er virðist nokkuð óáreittur.

Það er vonandi að svona stjórnsýsla sé einsdæmi hjá viðkomandi ráðuneyti en því verður ekki neitað að mál sem þessi eru ekki til þess fallin til þess að auka tiltrú almennings á stjórnsýslu ráðuneytanna.

Léleg fannst mér tilraun ráðamanna til þess að velta ábyrgðinni alfarið yfir á Ríkisendurskoðanda. Það var ljóst og var staðfest í umræðunum í dag af varaformanni fjárlaganefndar, Einari Oddi Kristjánssyni að ábyrgðin á framkvæmd fjárlaga lægi hjá ráðuneytunum. Félagsmálaráðherrar undanfarinna ára geta því ekki vikið sér undan ábyrgð.

Ég tek undir það með Ólafi Ólafssyni, fyrrverandi landlækni sem sagði í Íslandi í dag að það ætti að vera í verkhring ríkisins að líta eftir þeim sem minnst mega sín í samfélaginu. Hann leit á þessar 200 milljónir sem hafa runnið til Byrginsins á undanförnum árum sem einvhers konar friðþægingu stjórnamálamannanna gagnavart þessum ólánssömu einstaklingum í þjóðfélaginu. Þess vegna hefur Byrgið e.t.v. og forstöðumaður þess með sínum eldmóði verið draumasending til ráðamanna þjóðarinnar. Þarna voru komin samtök sem voru tilbúin til þess að hugsa um þessa einstaklinga í samfélaginu sem enginn annar var tilbúinn að líta eftir. Það hefur því verið guðsgjöf fyrir Félagsmálaráðuneyitð að geta styrkt Byrgið um ákveðna fjárupphæð og þurfa svo ekkert meir að hugsa um þessa einsktaklinga sem af einhverjum ástæðum finna sig ekki samfélaginu og hafa orðið undir.  

Annað sem kann að hafa gerst á Byrginu fyrir utan það hvernig forstöðumaðurinn hefur farið með almannafé er ekkert annað er mannlegur harmleikur og ber að upplýsa eins fljótt og auðið er öllum til hagsbóta.


Ríkisútvarpið SFHFOHF

Um fátt er rætt meira þessa dagana en málefni Byrgisins. Erfiðlega gekk þó að fá málið rætt í sölum Alþingis. Lúðvíki Bergvinssyni, þingmanni Samfylkingarinnar tókst í dag að fá utandagsrkárumræðu um málið á Alþingi þrátt fyrir það að í gildi séu herlög á alþingi eins og einhverjir hafa komist að orði. Ástandið er þannig á þingi að öll mál hafa verið sett í biðstöðu til þess að varaformanni Sjálfstæðisflokksins takist að koma í gegn frumvarpi sínu um Ríkisútvarpið OHF. En í dag brutu s.s. þingmeirihlutinn og forseti Alþingis odd af oflæti sínu og heimiliðu umræður um málefni Byrgisins.

Flumbrugangurinn og lætin við að koma RÚV frumvarpinu í gegnum þingið  eru slík að ætla mætti að líf manna lægi við. E.t.v. metur ráðherrann stöðuna svo að pólitísk virðing hennar sé undir því komin að koma þessu máli í gegn með góðu eða illu. Það er kannski ekkert skrýtið enda er þetta í þriðja sinn á þessu kjörtímabili sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir reynir að koma í gegnum þingið nýjum lögum um Ríkisútvarpið. Er það nema von að almenningur sé orðinn svolítið ringlaður í þessari umræðu enda hefur Ríkisútvarpið þrisvar sinnum skipt um skammstöfun í lok nafnsins. Í fyrstu tilraun var talað um Ríkisútvarpið SF, svo kom Ríkisútvarpið HF og að lokum Ríkisútvarpið OHF. Í fjórðu tilraun yrði væntanlega talað um Ríkisútvarpið Group.

Það er með hreinum ólíkindum að stjórnarmeirihlutinn á Alþingi skuli ekki taka tilboði stjórnarandstöðunnar um að fresta gildistöku laganna til 1. júli eða fram yfir kosningar svo ný ríkistjórn geti tekið á málinu. Þá væri hægt að kjósa um málið í vor. Ég held að full þörf sé á því. Söludeild Sjálfsætðisflokksins ljáir þessu máli nefnilega stuðning sinn vegna þess að hún lítur á þetta sem fyrsta skrefið í átt að einkavæðingu Ríkisútvarpsins. Þess vegna held ég að hér sé stórhættulegan málatilbúnað að ræða.

Á sama tíma og söludeildin hjá Íhaldinu styður við frumvarpið af því að það er fyrsta skrefið í átt að einkavæðingu styðja Framsóknarmenn við það vegna þess að þeir telja sig vera að verja Ríkisútvarpið gegn einkavæðingu. Það kemur í sjálfu sér ekki á óvart þar Framsóknarflokkurinn hefur margsinnis ályktað um það RÚV skui vera í þjóðareign. En svona talar ríkisstjórn Íslands þessa dagana, út og suður.


Valgerður skammar Haarde - ríkisstjórn á brauðfótum

Það var gaman að fylgjast með utanríkisráðherranum í fréttum Stöðvar tvö í gær. Þar húðskammaði Valgerður Sverrisdóttir forsætisráðherrann og reyndar samstarfsflokkinn í ríkisstjórn eins og hann lagði sig fyrir viðkvæmni gagnvart eðlilegri umræðu um Evruna og Evrópusambandið. Loftstraumurinn á milli ríkisstjórnarflokkanna er greinilega að kólna meir og meir í aðdraganda kosninga. Framsókn mun reyna sitt ýtrasta til þess að aðgreina sig frá Íhaldinu kortéri fyrir kosningar.

Tólf ára gamalt valdabandalag verður þó erftitt að þurrka út með einu pennastriki rétt fyrir kosningar. Fróðlegt verður líka að fylgjast viðbrögðum Sjálfstæðismanna við þessum tilburðum samstarfsflokksins á næstu vikum og mánuðum.

Það er a.m.k. ljóst að þessi ríkisstjórn gerir ekkert meira en að hökta fram að kosningum. Hún gerir það bara af gömlum vana enda ráðherrastólarnir hlýir á köldum vetrarmánuðum. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekkert fram að færa. Hún hefur engar lausnir, engar hugsjónir og engan vilja til góðra verka.

Ekki verður heldur betur séð en að síðustu mánuðir þessarar ríkisstjórnar við völd muni einkennast af innanbúðarátökum ef eitthvað er að marka orð Valgerðar í gær. Langt er síðan maður hefur hlustað á ráðherra skamma með jafn afgerandi hætti samstarfsflokk sinn í ríkisstjórn. Skemmst er að minnast þess þegar flokkarnir tveir deildu um það hvort stuðningurinn við innrásina í Írak hafi verði mistök eða ekki. Flokkarnir eru ekki samstíga varðandi hlutafélagavæðingu RÚV og nú síðast má heyra það að flokkarnir ganga ekki í takt hvað varðar umræðuna um hugsanlega upptöku Evrunnar.

Maður þarf í raun áttavita til þess að átta sig á málflutningi ríkisstjórnarinnar um þessar mundir, slíkt er stefnuleysið.


Óvissu um verslunarmál eytt

Ánægjulegt var að lesa fréttir í dag á hornfirsku vefmiðlunum hornafjordur.is og horn.is um framtíð matvöruverlsunar á Hornafirði.

Nú hafa forsvarsmenn KHB ákveðið að í Miðbæ komi Nettó lágvöruverlsun. Með þessari ákvörðun er óvissunni um hvaða verlsun komi til með að þjóna Hornfirðingum á næstu árum eytt.

Því ber vissulega að fagna og þá sérstaklega í ljósi þessi að verulega var farið að reyna á langlundargeð Hornfirðinga í þessum efnum sem þó er nóg af. Vonandi verður þessi verslun með þeim hætti að Hornfirðingar sjái sér hag í því að gera heildarinnkaup á staðnum. Í núverandi ástandi hefur það svo sannarlega breyst. Hornfirðingar hafa í auknum mæli verslað á Egilsstöðum og í Reykjavík. Þetta ástand hefur svo sannarlega komið niður á annarri verslun í sveitarfélaginu.

Með nýrri og glæsilegri Nettó verslun vonum við að þetta ástand komi til með að batna. Engin ástæða er til að ætla annað.

Nánar má lesa um málið á þessum slóðum:

http://www.hornafjordur.is/frettir/2007/01/13/nr/4138

http://www.horn.is/


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband