Leita í fréttum mbl.is

Enn rætt um Vatnajökulsþjóðgarð á Alþingi

Bjarni Harðarson, þingmaður Framsóknarflokksins beindi í dag fyrispurn til Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra um starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Í máli Bjarna komu fram vonbrigði með að framkvæmdastjóri þjóðgarðsins skyldi ekki vera staðsettur nær jökulrótunum en raun ber vitni. Ég deili þessum vonbrigðum með honum. Það urðu auðvitað gríðarleg vonbrigði að fyrsta starfið sem ríkisstjórnin auglýsti án staðsetningar skyldi enda í Reykjavík.

Í svari Þórunnar kom fram að heimamenn og sveitarstjórnarmenn allt í kringum þjóðgarðinn væru að vakna til vitundar um að stofnun þjóðgarðsins hefði í för með aukin atvinnutækifæri og skapaði nýja möguleika í uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðunum. Undir þetta er að sjálfsögðu hægt að taka.

Í máli hennar kom einnig fram að það væri mjög gaman að upplifa það hversu opnum örmum bæjarstjórnin og Hornfirðingar sjálfir hefðu tekið þjóðgarðinum og væru staðráðnir í að nýta sér stofnun hans sér til framdráttar. Þetta er auðvitað rétt hjá ráðherranum en því er hins vegar ekki að neita að ákvörðunin um staðsetningu framkvæmdastjórans virkaði að vissu leyti sem köld vatnsgusa framan í Hornfirðinga. Það hafði því töluverð áhrif á væntingar okkar þar sem við höfðum gert okkur vonir um að framkvæmdastjórinn yrði staðsettur á Hornafirði. Á það ber þó að líta að framkvæmdastjórinn er ráðinn til fimm ára og að þeim tíma liðnum á endurskoða þetta fyrirkomulag.

Hvað varðar aðkomu þingmanna að þessu máli þá er það gott framtak hjá Bjarna að taka þetta mál upp og halda umræðunni um atvinnusköpun á landsbyggðinni lifandi á Alþingi. Það er augljóst að nauðsynlegt er að halda Alþingismönnum vel vakandi í þeim málum og ekki má láta deigan síga. Hitt er annað mál að þingmenn höfðu næg tækifæri þegar lagasetningin um stofnun þjóðgarðsins fór í gegnum þingið til þess að beita sér í því að framkvæmdastjórinn yrði staðsettur á áhrifasvæði hans en það gerðu þeir ekki með nógu markvissum hætti að mínu mati.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband