Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007
30.3.2007 | 21:13
Bullumræður um álverskosningar í Hafnarfirði
Það slær mig mjög hvað fólk leyfir sér að bulla mikið í tengslum við íbúakosningarnar í Hafnarfirði varðandi deiliskipulagstillöguna vegna stækkunar álversins í Straumsvík.
Fólk leyfir sér að skammast út í Samfylkinguna í Hafnarfirði fyrir það að bara Hafnfirðingar fái að taka þátt í kosningunum. Reiði fólks er beint að röngum aðila. Iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin hafa ekki átt í neinum vandræðum með að veita öll þau leyfi sem til þarf fyrir virkjanirnar í Þjórsa sem dæmi.
Ríkisstjórnin hefur ekki leyft almenningi að tjá sig um stóriðjuframkvæmdirnar í gegnum kosningar. Það hefur hins vegar Samfylkingin í Hafnarfirði ákveðið að gera. Hún ákvað að fela íbúum sveitarfélagsins skipulagsvaldið í þessu máli. Skipulagsvaldið liggur hjá bæjarstjórninni og því ógjörningur fyrir hana að láta fólk kjósa um nokkuð annað.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar getur aldrei falið öðrum en sínum umbjóðendum að taka þátt í kosningum. Að halda öðru fram er lýðskrum af verstu sort og bara sett fram til þess að þyrla upp pólitísku moldviðri og slá ryki í augu kjósenda.
Annar angi af þessari bullumræðu í tengslum við kosningarnar er krafan um að bæjarstjórnarmenn gefi upp sína persónulegu afstöðu í málinu.
Þegar menn hafa ákveðið að fara þessa tímamótaleið sem þessar kosningar sannarlega eru þá geta bæjarstjórnarmenn í Hafnarfirði ekki tekið þátt í kosningabaráttunni. Þeir verða að gefa íbúunum tækifæri til þess að meta málið á eigin forsendum.
Við getum rétt ímyndað okkur hvernig forsvarsmenn Sólar í Straumi hefðu brugðist við ef í ljós hefði komið fyrir kosningarnar að meirihluti bæjarstjórnarinnar hefði verið fylgjandi stækkun. Við getum líka ímyndað okkur viðbrögð forsvarsmanna Hags Hafnarfjarðar ef í ljós hefði komið að meirihluti bæjarstjórnr hefði verið andvígur stækkun.
Hættum að bulla, treystum íbúunum og virðum niðurstöðuna.
30.3.2007 | 20:41
Samfylkingin setur málefni barna í forgang
Samfylkingin kynnti á blaðamannafundi, sem haldinn var í einum af leikskólum borgarinnar, tillögur sínar í málefnum barnafjölskyldna.
Tillögurnar eru raunhæfar og koma til með gagnast barnafjölskyldum í landinu vel. Þetta er upphafið að endurreisn velferðarkerfisins undir forystu jafnaðarmannaflokks.
Í tillögunum er gert ráð fyrir hækkun á barnabótum m.a. með þvi að draga úr tekjutengingum. Þessi aðgerð mun að sjálfsögðu skila sér til lág - og millitekjuhópa í samfélaginu.
Einnig er gert ráð fyrir því að skólabækur verði ókeypis fyrir framhaldsskólanema. Þetta er mikilvægt skref til þess að jafna aðstöðumun framhaldsskólanema. Ég hygg að fjöldi þeirra framhaldsskólanema sem stundar mikla vinnu meðfram skóla hér á landi sé óvenju mikill miðað hin Norðurlöndin.
Að auki leggur Samfylkingin til tannvernd barna og unglinga á landinu verði komið í viðunandi horf. Skemmdar tennur barna á Íslandi eru biritingarmynd vanrækslu ríkisstjórnarinnar í velferðarmálum. Rotnandi tennur barnanna okkar sýna svo ekki verður um villst að þessi ríkisstjórn hefur engan áhuga á velferðarmálum.
Í málefnum barna hefur Samfylkingin nú tekið óskoraða forystu í umræðunni, lagt fram heildstæða aðgerðaáætlun en hún hefur líka sýnt það að þar sem Samfylkingin er við völd eins og í Hafnarfirði er henni treystandi til þess að hugsa um hag barnanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.3.2007 | 08:17
Endurreisn velferðarkerfisins
Það er mikilvægara nú en nokkru sinni fyrr að jafnaðarmenn taki við stjórnartaumunum hér í vor. Ríkisstjórn Framsóknaríhaldsins hefur gengið svo á velferðarkerfið á valdatíma sínum að það stórsér á því. Skattkerfið er þannig uppbyggt hjá þessari rikíssjtórn að það hyglir þeim efnameiri á kostnað þeirra efnaminni.
Íslenskt samfélag er sífellt að fjarlægjast hin samfélögin á Norðurlöndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við. Norræna jafnaðarmódelið hefur sannað að það er það kerfi sem best virkar. Sterkt velferðarkerfi sem ætlað er að tryggja öllum réttindi er eitthvað sem öll heimsbyggðin getur öfundað Norðurlöndin af.
Núverandi valdhafar hafa kerfisbundið sprengt göt í íslenska velferðarkerfið og þannig mulið það niður innan frá. Nú er nóg komið.
Fátæku fólki í samfélaginu fjölgar og þegar bent er á þessa staðreynd hefur ríkisstjórnin ekkert fram að færa nema hártoganir. Enginn vilji er sýndur til þess að leggjast yfir málið, greina vandann og reyna að leysa hann.
Til þess að endurreisa velferðarkerfið þarf sterka ríkisstjórn jafnaðarmanna. Jafnaðarmenn byggðu upp það velferðarkerfi sem við þekkjum. Þeim einum er treystandi til þess að endurreisa það.
29.3.2007 | 21:57
Spunameistarar Framsóknar búnir að mynda ríkisstjórn
Pétur Gunnarsson, einn helsti spuna - og galdramaður Framsóknar telur sig hafa öruggar heimildir fyrir því að Geir Haarde og Steingrímur J. Sigfússon hafi hist og rætt hugsanlega stjórnarmyndun að loknum kosningum.
Ég ætla ekki að dæma um það hvort þessir heimildir sem Pétur telur sig hafa séu á rökum reistar. Menn hafa s.s. rætt saman um annað eins áður.
En hitt er aftur annað mál að lýsingar Péturs á því hvernig heimildirnar komust til hans eru með því skrautlegra sem ég hef áður lesið svo ekki sé fastar að orði kveðið.
E.t.v. segir þetta meira um örvæntingu hans sjálfs en um samstarfsvilja Steingríms og Geirs.
29.3.2007 | 00:18
Samfylkingin í sókn í Norðvesturkjördæmi
Miðað við útkomuna í skoðanakönnun sem birt var í kosningasjónvarpi Stöðvar tvö í kvöld er ekki annað að sjá en að Samfylkingin sé í stórsókn í Norðvesturkjördæmi þessa stundina. Ekki vantar nema tæp þrjú prósentustig svo við náum aftur í kjörfylgi okkar.
Miðað við frammistöðu Guttorms Hannessonar, oddvita okkar í kjördæminu þá er ég viss um þau prósent eru komin til okkar aftur eftir útsendinguna í kvöld. Hann stóð sig gríðarlega vel, sérstaklega í ljósi þess að um frumraun hans var að ræða.
Nú er landið að rísa. Ég finn að meðbyrinn er með okkur og hann verður það fram að kosningum.
28.3.2007 | 17:15
Innanbúðarátök lama Sjálfstæðisflokkinn
Fréttaskýring Guðmundar Steingrímssonar hér um innanbúðarmál í Sjálfstæðisflokknum þykir mér varpa mjög skýru ljósi á ástandið á þeim ágæta bæ.
Vinnubrögðin og framsetningin er mjög í anda Morgunblaðsins og Agnesar Bragadóttur, blaðamanns þannig að Sjálfstæðismenn hljóta að skilja það sem fram kemur í fréttaskýringu Guðmundar.
Enginn þarf lengur að velkjast í vafa um það að Sjálfstæðisflokkurinn logar stafnanna á milli í innanbúðarerjum og skv. öruggum heimildum Guðmundar ræður Geir ekki neitt við ástandið. Hann er bara ekk jafnsterkur karakter og Davíð skv. einum af heimildarmönnum Guðmundar. Ekkert annað en ofurhetja getur því bjargað Sjálfstæðismönnum frá glötun miðað við ástandið sem þarna er lýst.
Ég get bætt við þessa fréttaskýringu að mínar heimildir innan Sjálfstæðisflokksins gefa í skyn að í raun sé flokknum fjarstýrt ofan úr Seðlabanka. Geir er vængstýðfður af Seðlabankastjóranum og kemst því hvorki lönd né strönd.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2007 | 17:49
Efnahags - og velferðarmál
Það er ljóst að ekki verður bara kosið um umhverfismál í kosiningunum í vor þó svo að sum framboð vilji gjarnan telja kjósendum trú um það. Framboðin verða einfaldlega að horfast í augu við það að það eru fleiri málefni sem þarf að ræða um. Efnahags - og velferðarmál eru málaflokkar sem verður að taka föstum tökum eftir áratuga vanrækslu ríkisstjórnar Framsóknaríhaldsins.
Ríkisstjórnin er fallin á efnahagsprófinu. Verðbólgan æðir áfram og rýrir kaupmátt almennings, vaxtaokrið sem íslenskur almenningur býr við þekkist varla á öðru byggðu bóli. Seðlabankinn reynir af veikum mætti að halda þenslunni í skefjum með þeim afleiðingum að allur almenningur er blóðmjólkaður.
Svo má heldur ekki gleyma því að þenslan og hagvöxturinn á Íslandi einskorðast við ákveðin svæði, þ.e. höfuðborgarsvæðið og miðausturland. Á öðrum stöðum á landinu ríkir frekar samdráttur. Við getum tekið Vestfirði sem dæmi. Þar hafa bæjaryfirvöld biðlað til ríkisvaldsins um 100 ný störf á vegum hins opinbera vegna samdráttar í atvinnulífinu á staðnum.
Ríkisstjórn Framsóknaríhaldsins hefur með stefnu sinni í efnahagsmálum gert fyrirtækjum utan þenslusvæðanna mjög erfitt fyrir. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á ástandinu fyrir vestan.
Í velferðarmálum fær ríkisstjórnin líka falleinkunn. Skattkerfið hyglir hinum efnameiri en refsar þeim efnaminni. Um þetta þarf ekki að deila. Þetta er það samfélag sem frjálshyggjudeildin hjá Íhaldinu vill halda áfram að byggja upp.
700 milljón króna framlag ríkisins í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, rétt fyrir kosningar, er sett fram svo ríkisvaldið þurfi ekki að ganga að þeirri eðlilegu kröfu sveitarfélaganna um réttláta hlutdeild í fjármagnstekjuskattinum. Að sjálfsögðu eiga þeir sem einungis greiða fjármagnstekjuskatt að greiða útsvar eins og aðrir íbúar sveitarfélaganna.
Samfylkingin er eini stjórnmálaflokkurinn sem er treystandi til þess að snúa af þessari braut sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa markað. Á sama tíma og Samfylkingunni leysir úr þeim vandamálum sem ríkisstjórnin hefur skapað í þessum málaflokkum leggjum við fram öfgalausa og raunhæfa umhverfisstefnu þar sem tekið verður á málum með heildstæðum hætti.
27.3.2007 | 14:44
Aðalfundur Samfylkingarinnar á Hornafirði
Aðalfundur Samfylkingarinnar á Hornafirði verður haldinn annað kvöld kl. 20:00 í húsi Verkalýðsfélagsins Vökuls.
Á dagskránni verða venjuleg aðalfundarstörf. Kosnir verða fulltrúar okkar á Landsfund Samfylkingarinnar sem fram fer í Egilshöll 13. og 14. apríl.
Tveir nýir þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjödæmi, þau Róbert Marshall og Guðný Hrund Karlsdóttir, munu mæta á fundinn og kynna drög að stefnuskrá Samfylkingarinnar fyrir komandi alþingiskosningar.
Nú er óðum að styttast í kosningar og ég finn að það vorar vel hjá okkur jafnaðarmönnum og sólin mun skína á okkur þann 12. maí nk.
26.3.2007 | 16:57
Hjörlin voru ömurleg í Silfrinu í gær!
Það var vægast sagt ömurlegt að fylgjast með talsmanni Vinstri Grænna, Hjörleifi Guttormssyni í Silfrinu í gær í umræðum um álverið í Straumsvík.
Hans helsta markmið virtist vera að níða skóinn af Samfylkingunni í Hafnarfirði sem hefur þó verið eini opinberi aðilinn sem stigið hefur á bremsuna varðandi stækkun álversins í Straumsvík.
Hvernig hefur Samfylkingin í Hafnarfirði stigið á bremsuna? Jú, með því að leyfa fólkinu í bænum að kjósa um stækkunina. Það er auðvitað aðferðafræði sem Hjörleifur ekki skilur enda stjórnlyndisstjórnmálamaður af gamla skólanum. Enda byggði hann afstöðu sína til Samfylkingarinnar á því að hann myndi aldrei vinna með krötum eins og fram kemur í ævisögu Margrétar Frímannsdóttur.
Ég veit svo sem ekki með hverjum hann langar til að vinna, ef þá einhverjum.
Hjörleifur er einn helsti hugmyndafræðingur Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs.
Hann náði áður óþekktum hæðum í lýðskrumi þegar hann fór fram á það við Gunnar Svavarsson, forseta bæjarstjórnar í Hafnarfirði að fleiri en Hafnfirðingar fengju að taka þátt í kosingunum. Einnig taldi hann það vera vitleysu af Hafnarfjarðarbæ að leyfa fólkinu í bænum að kjósa um deiliskipulagstillöguna sem slíka.
Fyrrverandi iðnaðarráðherrann veit auðvitað vel að skipulagsvaldið er eina valdið sem er hjá bæjarfélaginu og því ógjörningur fyrir sveitarfélagið að leyfa íbúunum að kjósa um eitthvað annað. Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur heldur ekki lögsögu yfir öðrum sveitarfélögum og getur því ekki leyft íbúum annarra sveitarfélaga að taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Að halda slíku fram er hrein og klár fásinna.
Ef Hjörleifi Guttormssyni væri alvara með því að vilja fella núverandi ríkisstjórn og mynda hér öfluga vinstri stjórn að loknum kosningum myndi hann láta af ómálefnalegum árásum eins og þeirri sem hann hefur staðið fyrir gagnvart Samfylkingunni í Hafnarfirði. En ég held svei mér þá að honum sé ekki alvara með því.
26.3.2007 | 16:34
Hvað óttast hinir flokkarnir mest?
Eitt finnst mér mjög merkilegt í þessari kosningabaráttu sem nú er að einhverju leyti hafin. Það er sú staðreynd að allir aðrir flokkar hafa sameinast um að gera Samfylkinguna að sínum höfuðóvin. Framsókn, Íhaldið og Vinstri Grænir eru sammála um það ásamt Morgunblaðinu að hættulegasti andstæðingurinn sé sterkur jafnaðarmannaflokkur. Þess vegna hafa þessi öfl sameinast um það að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að gera Samfylkinguna ótrúverðuga. Sérstaklega eru árásir þessara pólitísku andstæðinga okkar harkalegar þegar um er að ræða okkar ágæta formann, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur.
Nú er ekki svo að ég sé að kveinka mér undan þessum árásum heldur er ég nokkuð stoltur af þeim vegna þess að þær sýna það einfaldlega að ekkert hræðast valdaöflin innan þessara flokka meira heldur en Samfylkinguna. Það er sameiginlegt hagsmunamál þerra að reyna að halda Samfylkingunni niðri. Á meðan situr Sjálfstæðisflokkurinn til hliðar og kætist yfir öllu saman. Eina stjórnmálaaflið sem reynir að berjast gegn ægivaldi Sjálfstæðisflokksins er Samfylkingin. Það skyldi þó aldrei vera að ástæðan fyrir því að önnur stjórnmálaöfl eru svo lin í baráttu sinni gegn Íhaldinu sé sú að þau vonist til þess að Sjálfstæðismenn kippi þeim með í vagninn eftir kosningar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Af mbl.is
Erlent
- ESB bannar notkun á BPA í umbúðum um matvæli
- Níu handteknir vegna brunans á skíðahótelinu
- Trump myndi hugnast kaup Musks á TikTok
- Hafa til klukkan 17 til að senda starfsmenn í leyfi
- Heita því að tryggja þjóðaröryggi sitt
- Sakar biskupinn um viðurstyggilegan tón
- Fjórir særðir eftir stunguárás í Tel Aviv