Leita í fréttum mbl.is

Bullumræður um álverskosningar í Hafnarfirði

Það slær mig mjög hvað fólk leyfir sér að bulla mikið í tengslum við íbúakosningarnar í Hafnarfirði varðandi deiliskipulagstillöguna vegna stækkunar álversins í Straumsvík.

Fólk leyfir sér að skammast út í Samfylkinguna í Hafnarfirði fyrir það að bara Hafnfirðingar fái að taka þátt í kosningunum. Reiði fólks er beint að röngum aðila. Iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin hafa ekki átt í neinum vandræðum með að veita öll þau leyfi sem til þarf fyrir virkjanirnar í Þjórsa sem dæmi.

Ríkisstjórnin hefur ekki leyft almenningi að tjá sig um stóriðjuframkvæmdirnar í gegnum kosningar. Það hefur hins vegar Samfylkingin í Hafnarfirði ákveðið að gera. Hún ákvað að fela íbúum sveitarfélagsins skipulagsvaldið í þessu máli. Skipulagsvaldið liggur hjá bæjarstjórninni og því ógjörningur fyrir hana að láta fólk kjósa um nokkuð annað.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar getur aldrei falið öðrum en sínum umbjóðendum að taka þátt í kosningum. Að halda öðru fram er lýðskrum af verstu sort og bara sett fram til þess að þyrla upp pólitísku moldviðri og slá ryki í augu kjósenda.

Annar angi af þessari bullumræðu í tengslum við kosningarnar er krafan um að bæjarstjórnarmenn gefi upp sína persónulegu afstöðu í málinu.

Þegar menn hafa ákveðið að fara þessa tímamótaleið sem þessar kosningar sannarlega eru þá geta bæjarstjórnarmenn í Hafnarfirði ekki tekið þátt í kosningabaráttunni. Þeir verða að gefa íbúunum tækifæri til þess að meta málið á eigin forsendum.

Við getum rétt ímyndað okkur hvernig forsvarsmenn Sólar í Straumi hefðu brugðist við ef í ljós hefði komið fyrir kosningarnar að meirihluti bæjarstjórnarinnar hefði verið fylgjandi stækkun. Við getum líka ímyndað okkur viðbrögð forsvarsmanna Hags Hafnarfjarðar ef í ljós hefði komið að meirihluti bæjarstjórnr hefði verið andvígur stækkun.

 Hættum að bulla, treystum íbúunum og virðum niðurstöðuna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: HP Foss

Mér líður nú hálf kjánalega, Skaftfellingur, búsettur í Hafnarfirði, settur í þá stöðu að bera hugsanlega ábyrgð á landspjöllum við Þjórsá.
Þetta þykir nú hálf teprulegt, satt að segja, hér í bæ að setja þessa tillögu að deiliskipulagi í kringum hugsanlega stækkun álversins í almenna kosningu.
Hvað ef tillagan að deiliskipulaginu verður felld? Hvað þá?
Hvað ef hún tillagan verður samþykkt? Verða þá allar athugasemdir sem berast varðandi deiliskipulagið sjálfkrafa dauðar vegna vilja meirihluta þeirra sem kusu?

Þetta er óttalega hallærislegt hjá Lúlla og félögum og það er verið að reyna að gera einhverja hallærislega stemningu í kringum þessar kosningar.
kv
Helgi Páls

HP Foss, 30.3.2007 kl. 23:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband