Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Íslandsframboðið líklegast til að styrkja stóriðjuflokkana í sessi

Því miður hef ég áhyggjur af því að framboð Ómars og Margrétar verði helst til þess fallið að koma stóriðjuflokkunum tveimur, Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki til góða og muni því í raun á endanum vera lóð á vogarskálar stóriðjusinnanna í landinu. Þannig að í raun er betra heima setið en af stað farið í tilfelli Ómars og Margrétar. Því miður, af því þau eru í þessu af heilum hug og eru með einlægan ásetning um náttúruvernd. 

Þess vegna er það mitt mat að framboð I - listans og stuðningur við hann verði fyrst og fremst til þess fallinn að auka líkurnar á því að ríkisstjórnin haldi velli - vilja menn það?

Eina leiðin til þess að koma í veg fyrir það blinda stóriðjuæði sem núna einkennir stjórnarráðið er að allt skynsamt fólk sem vill að stjórnvöld fari sér hægt í þessum efnum á næstu árum stökkvi á vagn Samfylkingarinnar. Við ætlum að fresta öllum frekari virkjanaframkvæmdum þar til búið er að vinna áætlun um nýtingu og verndun þessara náttúruauðlinda. Það er forgangsatriði að stjórnvöld vinni þessa vinnu áður en menn halda áfram með frekari stóriðjuframkvæmdir. 

Hér er ekki verið að slá allar framkvæmdir út af borðinu til allrar framtíðar heldur einungis verið að benda mönnum á mikilvægi þess að hægja á stóriðjuuppbyggingunni svo hægt sé að vinna þessa rammaáætlun um náttúruvernd og nýtingu.

Öll almenn og heilbrigð skynsemi mælir með því að förum þessa leið til þess að sætta sem mest þau ólíku sjónarmið sem uppi eru í dag í stóriðjumálum.


Íhaldið er stefnulaust rekald í stóriðjumálum

Það er merkilegt að fylgjast með umræðunni um stóriðjumálin í landinu þessa dagana og vikurnar. Auðvitað er það hefðbundin afstaða Sjálfstæðismanna að kenna Samfylkingunni um það sem aflaga hefur farið í þessum málum undanfarin ár. Íhaldið sakar Samfylkinguna um stefnuleysi í málaflokknum og segir hana tala út og suður. Þar vísa þeir m.a. til afstöðu Samfylkingarfólks á Húsavík og í Hafnarfirði annars vegar og til forystunnar hins vegar.

Þetta er mjög merkilegt í ljósi þess að Íhaldið er algjörlega stefnulaust rekald í þessum málum. Flokkurinn er eins og strá í vindi sem beygir sig bara eftir því hvaða vindurinn blæs hverju sinni.

Enginn flokkur hefur lagt fram jafn raunhæfa og metnaðarfulla stefnu um náttúruvernd og Samfylkingin í stefnuyfirlýsingu sinni "Fagra Ísland".

Í stefnu Samfylkingarinnar er höfðað til heilbrigðrar skynsemi Íslendinga. Inntakið í stefnu Samfylkingarinnar í umhverfismálum er fyrst og fremst það, að við verðum að koma okkur saman um það hvað við ætlum að nýta annars vegar og hvað við ætlum vernda hins vegar. Fyrr en menn hafa ákveðið það eigum við að halda að okkur höndum í frekari stóriðjuframkvæmdum. 

Samfylkingin var í raun langt á undan draumalandinu að koma fram með sáttmála til þjóðarinnar í umhverfismálum.

Í Hafnarfirði er stefna Samfylkingarinnar alveg skýr. Þar hefur Samfylkingin ákveðið að leggja deiliskipulagstillögu bæjaryfirvalda vegna stækkunar álversins í Straumsvík í dóm kjósenda. Það er skýr stefna og virkt íbúalýðræði.


Slúðurdálkur Moggans á forsíðu

Ótrúlegt var að lesa meinta fréttaskýringu Agnesar Bragadóttur á forsíðu Moggans síðastliðinn laugardag sem bar fyrirsögnina "einleikur með fölskum hljómi" og undirfyrirsögnina "Geir og Jón sáu við Barbabrellum Össurar". Magnaður fréttaflutningur og eiginlega með ólíkindum að tilbúningur eins og þessi skuli rata inn á forsíðu Morgunblaðsins.

Í "fréttinni" er ýjað að því að Össur Skarphéðinsson hafi ekki bara snuprað formann sinn heldur hafi hann hreinlega farið fram í auðlindaákvæðismálinu í fullkominni óþökk flestra Samfylkingarmanna eins og segir í "fréttinni". Össur og Ingibjörg hafa bæði gert alvarlegar athugasemdir við þennan "fréttaflutning" og segja hann í rauninni hreinan uppspuna.

"Formenn stjórnarflokkanna, þeir Geir H. Haarde og Jón Sigurðsson, sáu við bragðarefnum Össuri og Jón talaði Framsókn til."

Það er nefnilega það. Össur orðinn bragðarefur skv. Agnesi en Jón skynsemismaður sem að lokum gat talað Framsókn til þannig að Framsóknarmenn fylgdu nú alveg örugglega línu Sjálfstæðisflokksins. Línu sem gerir aldrei ráð fyrir þjóðareign á auðlindum í stjórnarskrá. Til þess að kóróna svo vitleysuna tókst stjórnarherrunum að kenna stjórnarandstöðunni um það hvernig til tókst með aumkunarverða tilraun þeirra til koma auðlindaákvæðinu í gegnum þingið korteri fyrir kosningar.

Það er greinilegt að Mogginn eru að fara á límingunum þar sem skoðanakannanir hafa ítrekað sýnt ríkisstjórnin er kolfallinn


Mogginn hafnar hægri grænum

Nú hafa moggamenn ákveðið að leggja allt í sölurnar til þess að koma í veg fyrir náttúruverndarframboð á hægri vængnum sem gæti haft áhrif á fylgi Sjálfstæðisflokksins.

Ólafur Stephensen, aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins telur að þessi skoðanakönnun sýni fram á það að Vinstri hreyfingin - Grænt framboð svari eftirspurninni eftir framboði umhverfisverndarsinna. Ekki er ég viss um að Ómar Ragnarsson og fleiri hægri grænir geti samþykkt þessa túlkun Moggans.

En í ljósi þess að Sjálfstæðisflokkurinn er að koma illa út úr þessum skoðanakönnunum þá telja menn greinilega öruggara að túlka hlutina á þennan veg.

Hvað Samfylkinguna, minn ágæta flokk varðar þá er ekki um neitt annað að ræða en halda ró sinni og spýta í lófana.

Það er nefnilega rétt sem aðstoðarritstjórinn segir að skoðanakönnun sem framkvæmd er tveimur mánuðum fyrir kosningar segja ekki til um niðurstöður kosninganna heldur segja þær hver staðan er á þeim tímapunkti sem þær eru framkvæmdar.


mbl.is „Vísbendingar um að VG svari eftirspurn eftir framboði umhverfisverndarsinna"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sigurður Kári vill að Siv segi af sér

Merkilegt að fylgjast með orðaskaki Jónínu Bjartmars og Sigurðar Kára Kristjánssonar í Silfrinu í dag. Þar rifust þau mjög heiftarlega um hið svokallaða auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Orðaskakið sýndi svo ekki verður um villst að stjórnarsamstarfið verður erfitt það sem eftir lifir kjörtímabilsins. En á það verður auðvitað að benda að einugis eru eftir tvær vikur af yfirstandandi þingi. Þannig að segja má að þetta útspil Framsóknar komi helst til seint.

Auðvitað eru það stórtíðindi eins og Guðmundur Steingrímsson benti réttilega á þegar stjórnarþingmaður fer fram á það að ráðherra samstarfsflokksins segi af sér. Þetta segir okkur að ríkisstjórnarsamstarfið er á brauðfótum og gerir ekkert meira en að hökta á vananum fram að kosningum. Til þess að bæta svo gráu ofan á svart hefur Siv neitað að tjá sig um ummæli þingmannsins.

Ég var sammála Guðmundi Steingrímssyni þegar hann talaði um að Framsókn hefði frekar átt að slíta stjórnarsamstarfinu þegar Davíð dró íslensku þjóðina inn á lista staðfastra þjóða. Ekkert mál held ég að hafi leikið Framsóknarflokkinn jafn illa og Íraksstríðið. Þá hefði verið lag og ástæða til að slíta stjórnarsamstarfinu.


Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs

Lengi hefur staðið til að stofna stærsta þjóðgarð Evrópu á Íslandi þar sem Vatnajökull sjálfur yrði í brennidepli. Nú liggja fyrir alþingi drög að lögum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Loksins sér fyrir endann á þeirri miklu undirbúningsvinnu sem fram hefur farið á undanförnum árum. Það eru sannarlega mikil gleðitíðindi út frá náttúruverndarsjónarmiðum að stofnun stærsta þjóðgarðs Evrópu skuli vera í augnsýn þótt ekki hafi tekist að innlima Langasjó í þjóðgarðinn að þessu sinni sem hefði verið mikill áfangi. Engu að síður er hér um afar mikilvægt mál að ræða sem vonandi tekst að ljúka fyrir lok yfirstandandi þings.

Frumvarpið hefur töluvert verið rætt og m.a. gerir Umhverfisstofnun alvarlegar athugasemdir við það. Umhverfisstofnun telur ekki þörf á sérstakri lagasetningu vegna væntanlegs þjóðgarðs. Þessu eru bæjaryfirvöld á Hornafirði ósammála og fyrir því eru ýmsar ástæður.  

Stjórnfyrirkomulagið í frumvarpsdrögunum gerir ráð fyrir skýrri aðkomu heimamanna að stjórnuninni. Þetta telja bæjaryfirvöld á Hornafirði mikilvægt. Ef ætlunin er að fá fólk til að búa og starfa innan þjóðgarðsmarka er það algjört grundvallaratriði að heimamenn aðkomu að stjórnuninni. Til þess að skapa verkefninu trúverðugleika í heimabyggð er mikilvægt að heimamenn sjálfir tengist þjóðgarðinum með beinum hætti og fái tækifæri til þess að njóta ávaxtanna sem felast í því að búa í nágrenni þjóðgarðs. Með þeim hætti eru líka meiri líkur á því að heimamenn axli betur þá ábyrgð að búa í námunda við þjóðgarð eða jafnvel innan marka hans. Þannig teljum við að hægt verði að byggja upp og efla væntanlegan þjóðgarð.

Staða mála í núverandi þjóðgarði í Skaftafelli undanfarin hefur ekki verið til þess fallin að vekja hjá heimamönnum þá trú að vel verði haldið á málum í væntanlegum Vatnajökulsþjóðgarði, a.m.k. ekki miðað við óbreytt stjórnfyrirkomulag. Þar hefur staða mála verið þannig að engan veginn hefur verið nógu vel staðið að rekstri og uppbyggingu í þjóðgarðinum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Umhverfisstofnun kemur fram að þeim fjármunum sem verja átti til uppbyggingar í þjóðgarðinum var í raun aldrei varið í uppbyggingu þjóðgarðsins. Peningarnir fóru í önnur verkefni innan Umhverfisstofnunar. Þetta hefði aldrei gerst ef heimamenn hefðu ráðið för.

Lögin um Vatnajökulþjóðgarð eiga að tryggja það að þjóðgarðurinn starfi í anda náttúruverndar og framtíð þjóðgarðsins er beinlínis undir því komin að stjórnin fari ekki út af þeirri braut. Annars er það mín skoðun að við ættum að láta Umhverfisstofnun sjá um eftirlit með lögum og reglum er varða þjóðgarða og þar nýtist þekking þeirra á náttúruverndarmálum best en láta heimamönnum ásamt ferðaþjónustuaðilum og fleirum eftir að reka og stjórna uppbyggingu þjóðgarðsins. 

Nýtum og njótum 

Í Vatnajökulsþjóðgarði er gert ráð fyrir því að bændur geti haldið áfram að nýta landið með skynsamlegum hætti  innan marka þjóðgarðsins. Þetta er nýlunda og mikilvægur liður í því að fá þá aðila sem eiga land innan þjóðgarðsins til þess að öðlast trú á verkefninu og taka þátt í því.

Ferðaþjónustan hefur verið í stöðugri uppbyggingu á suðausturhorni landsins. Eitt stærsta aðdráttaraflið í tengslum við aukna ferðaþjónustu hefur að sjálfsögðu verið Vatnajökull. Gott dæmi um markaðssetningu og metnað tengdan Vatnajökli er Jöklasýningin sem staðsett er á Höfn. Það er verkefni sem hefur heppnast ákaflega vel og við sjáum stöðuga aukningu á heimsóknum ferðamanna þangað yfir sumartímann. Einnig sjáum við stöðuga aukningu á jaðartímum ferðaþjónustunnar sem beinlínis er tengd jöklinum og aðdráttarafli hans. Þess vegna þarf engan að undra þótt við berum miklar væntingar til stofnunar nýs þjóðgarðs, þess stærsta í Evrópu. Enginn þekkir mátt jökulsins og umhverfi hans betur en þeir sem búa í nánu samneyti við hann og hafa þurft að glíma við jökulinn og jökulvötnin sem hafa brotist undan honum í gegnum aldirnar.

Þess vegna er mikilvægt að í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð verði gert ráð fyrir skýrri aðkomu sveitastjórna, sem land eiga að þjóðgarðinum, í stjórnun þjóðgarðsins. Ef það verður ekki gert er hætt við því að verkefnið öðlist ekki þann trúverðugleika á heimavígstöðvunum sem er nauðsynlegur til þess að þetta mikilvæga verkefni gangi upp með markmiðum um náttúruvernd að leiðarljósi.


Ójöfnuðurinn vex í skjóli ríkisstjórnarinnar

Núverandi ríkisstjórn er búin að vera. Það þarf ekki annað en að fylgjast með gangi mála á flokksþingi Framsóknarflokksins. Framsóknarmenn eru greinilega búnir að fá sig fullsadda af vistinni hjá Íhaldinu. Þeir eru búnir að fá nóg af því að sitja í ójafnaðarríkisstjórn sem hefur kerfisbundið unnið að því að brjóta niður það velferðarnet sem þeir vilja gjarnan hreykja sér af á hátíðarstundum.

Á móti hefur þessi ójafnaðarríkisstjórn kerfisbundið hyglt auðmönnum og þá sérstaklega í gegnum skattkerfið og þannig stuðlað að því að ójöfnuðurinn hefur vaxið svo gríðarlega á undanförnum árum að undrun sætir. Þetta er fyrst og fremst verk þeirrar ríkissjórnar sem setið hefur á valdastóli í 12 ár. Frá því verki getur Framsóknarflokkurinn ekki hlaupið á síðustu metrunum fyrir kosningar.

Það var gaman að fylgjast með Stefáni Ólafssyni gefa Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni hvert rothöggið á fætur öðru um síðustu helgi í Silfrinu. Þar beitti frjálshyggjuhundurinn þeirri alkunnu taktík sinni þegar hann verður rökþrota að reyna að kjafta menn í kaf með bulli. Stefán hélt aftur á móti ávallt ró sinni og lét beinskeytt höggin dynja á Hannesi þannig að hann fékk ekki rönd við reist. Nú styttist hins vegar í kosningar og þá eru frjálshyggjupostular Íhaldsins alltaf sendir í frí þannig að Sjálfstæðisflokkurinn geti dulbúið sig sem fölbleikan krataflokk í aðdraganda kosninga.

Það er auðvitað algjörlega óþolandi að ríkisvaldið skuli með aðgerðum sínum í gegnum skattkerfið og með hvers kyns tekjutengingum stuðla að vexti ójafanaðar í samfélaginu. Vexti sem hefur verið svo ör að annað eins þekkist varla á byggðu bóli.

Af þeirr braut mun ný ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna snúa á næsta kjörtímabili.


Steingrímur Joð óhreinkast og Siv hótar stjórnarslitum

Það var ágætis árangur hjá Framsóknarmönnum á Alþingi að gera Steingrím Joð kjaftstopp á þingi um daginn. Þar hermdu þeir upp á hann að hann léti stjórnast af tíðarandanum og skipti um skoðun eins og við hin skiptum um buxur.

Steingrímur fór undan í flæmingi þegar þeir báðu hann um að útskýra hvers vegna afstaða hans varðandi virkjanir í neðri hluta Þjórsár hefði breyst. Hann skýldi sér þá á bak við rekstrarvanda SÁÁ. Það verður að segjast eins og er að maður hafði nú eiginlega samúð með karlræflinum þegar óhreinindin slettust svona á hvítþeginn flibbann án þess að hann ætti nokkuð von á því. Maður trúir því að sjálfsögðu ekki upp á hugsjónamann eins og Steingrím að afstaða hans stjórnist af von um að fá atkvæði virkjanaandstæðinga í Suðurkjördæmi. Það skyldi þó aldrei vera ástæðan.

Nú virðast Framsóknarmenn líka vera búnir að átta sig á því hvert fylgið hefur farið og ætla að láta Steingrím finna fyrir því.

Ekki eru hlaupin undan samþykktum landsþings VG minni þessa dagana, sérstaklega þá ógeðfelldu tillögu að stofna svokallaða "netlöggu" sem hefði fyrst og fremst það markmið að stöðva hvers kyns klámdreifingu. Væntanlega verður hægt að leita í smiðju Kínverja og fá leiðbeiningar hjá þeim um það hvernig farið er því að sía út það efni sem stjórnvöld telja óæskilegt almenningi.

Ef netlöggan dugir ekki til þá tek ég undir þá hugmynd sem ég las um á heimasíðu Guðmundar Steingrímssonar að fá sérstaka klámhunda til að þefa uppi klám á ferðamönnum sem hingað koma.

Annars er það nýjasta í fréttum að Siv Friðleifsdóttir er búin að hóta stjórnarslitum korteri fyrir kosningar vegna ágreinings um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Í síðustu kosningum redduðu Framsóknarmenn sér á auglýsingabruðli. Þeir vita að það gengur ekki upp aftur þannig að nú á sennilega að prófa að sprengja ríkisstjórnina til þess að ganga í augun á kjósendum.

Ég þykist vita að stjórnarandstaðan er tilbúin að veita Framsókn það liðsinni sem til þarf til að ljúka þessu máli.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband