Leita í fréttum mbl.is

Stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs

Lengi hefur staðið til að stofna stærsta þjóðgarð Evrópu á Íslandi þar sem Vatnajökull sjálfur yrði í brennidepli. Nú liggja fyrir alþingi drög að lögum um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Loksins sér fyrir endann á þeirri miklu undirbúningsvinnu sem fram hefur farið á undanförnum árum. Það eru sannarlega mikil gleðitíðindi út frá náttúruverndarsjónarmiðum að stofnun stærsta þjóðgarðs Evrópu skuli vera í augnsýn þótt ekki hafi tekist að innlima Langasjó í þjóðgarðinn að þessu sinni sem hefði verið mikill áfangi. Engu að síður er hér um afar mikilvægt mál að ræða sem vonandi tekst að ljúka fyrir lok yfirstandandi þings.

Frumvarpið hefur töluvert verið rætt og m.a. gerir Umhverfisstofnun alvarlegar athugasemdir við það. Umhverfisstofnun telur ekki þörf á sérstakri lagasetningu vegna væntanlegs þjóðgarðs. Þessu eru bæjaryfirvöld á Hornafirði ósammála og fyrir því eru ýmsar ástæður.  

Stjórnfyrirkomulagið í frumvarpsdrögunum gerir ráð fyrir skýrri aðkomu heimamanna að stjórnuninni. Þetta telja bæjaryfirvöld á Hornafirði mikilvægt. Ef ætlunin er að fá fólk til að búa og starfa innan þjóðgarðsmarka er það algjört grundvallaratriði að heimamenn aðkomu að stjórnuninni. Til þess að skapa verkefninu trúverðugleika í heimabyggð er mikilvægt að heimamenn sjálfir tengist þjóðgarðinum með beinum hætti og fái tækifæri til þess að njóta ávaxtanna sem felast í því að búa í nágrenni þjóðgarðs. Með þeim hætti eru líka meiri líkur á því að heimamenn axli betur þá ábyrgð að búa í námunda við þjóðgarð eða jafnvel innan marka hans. Þannig teljum við að hægt verði að byggja upp og efla væntanlegan þjóðgarð.

Staða mála í núverandi þjóðgarði í Skaftafelli undanfarin hefur ekki verið til þess fallin að vekja hjá heimamönnum þá trú að vel verði haldið á málum í væntanlegum Vatnajökulsþjóðgarði, a.m.k. ekki miðað við óbreytt stjórnfyrirkomulag. Þar hefur staða mála verið þannig að engan veginn hefur verið nógu vel staðið að rekstri og uppbyggingu í þjóðgarðinum. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um Umhverfisstofnun kemur fram að þeim fjármunum sem verja átti til uppbyggingar í þjóðgarðinum var í raun aldrei varið í uppbyggingu þjóðgarðsins. Peningarnir fóru í önnur verkefni innan Umhverfisstofnunar. Þetta hefði aldrei gerst ef heimamenn hefðu ráðið för.

Lögin um Vatnajökulþjóðgarð eiga að tryggja það að þjóðgarðurinn starfi í anda náttúruverndar og framtíð þjóðgarðsins er beinlínis undir því komin að stjórnin fari ekki út af þeirri braut. Annars er það mín skoðun að við ættum að láta Umhverfisstofnun sjá um eftirlit með lögum og reglum er varða þjóðgarða og þar nýtist þekking þeirra á náttúruverndarmálum best en láta heimamönnum ásamt ferðaþjónustuaðilum og fleirum eftir að reka og stjórna uppbyggingu þjóðgarðsins. 

Nýtum og njótum 

Í Vatnajökulsþjóðgarði er gert ráð fyrir því að bændur geti haldið áfram að nýta landið með skynsamlegum hætti  innan marka þjóðgarðsins. Þetta er nýlunda og mikilvægur liður í því að fá þá aðila sem eiga land innan þjóðgarðsins til þess að öðlast trú á verkefninu og taka þátt í því.

Ferðaþjónustan hefur verið í stöðugri uppbyggingu á suðausturhorni landsins. Eitt stærsta aðdráttaraflið í tengslum við aukna ferðaþjónustu hefur að sjálfsögðu verið Vatnajökull. Gott dæmi um markaðssetningu og metnað tengdan Vatnajökli er Jöklasýningin sem staðsett er á Höfn. Það er verkefni sem hefur heppnast ákaflega vel og við sjáum stöðuga aukningu á heimsóknum ferðamanna þangað yfir sumartímann. Einnig sjáum við stöðuga aukningu á jaðartímum ferðaþjónustunnar sem beinlínis er tengd jöklinum og aðdráttarafli hans. Þess vegna þarf engan að undra þótt við berum miklar væntingar til stofnunar nýs þjóðgarðs, þess stærsta í Evrópu. Enginn þekkir mátt jökulsins og umhverfi hans betur en þeir sem búa í nánu samneyti við hann og hafa þurft að glíma við jökulinn og jökulvötnin sem hafa brotist undan honum í gegnum aldirnar.

Þess vegna er mikilvægt að í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð verði gert ráð fyrir skýrri aðkomu sveitastjórna, sem land eiga að þjóðgarðinum, í stjórnun þjóðgarðsins. Ef það verður ekki gert er hætt við því að verkefnið öðlist ekki þann trúverðugleika á heimavígstöðvunum sem er nauðsynlegur til þess að þetta mikilvæga verkefni gangi upp með markmiðum um náttúruvernd að leiðarljósi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband