Leita í fréttum mbl.is

Bæjarstjórnarfundur - samstarf sveitarfélaga

Venju samkvæmt var líf og fjör á bæjarstjórnarfundi í gær. Mörg brýn mál samfélagsins voru rædd eins og málefni heilbrigðisstofnunarinnar og þjónustusamningur okkar við heilbrigðisráðuneytið. Óþarft er að tíunda þær umræður sérstaklega þar sem þær ættu að vera öllum, sem fylgst hafa með umræðum á bæjarstjórnarfundum undanfarna mánuði, ljósar. Nýtt orð, sem ég hef ekki heyrt áður í umræðum um málefni HÖR og HSSA á bæjarstjórnarfundum, kom fram á fundinu en það var orðið sjónarspil. Alltaf ánægjulegt þegar fólk getur bryddað upp á nýjungum í málflutningi sínum. Að öðru leyti var sami söngurinn sunginn í bæjarstjórnarkórnum um þessi mál.

Málefnalegar umræður sköpuðust um greinargerð starfshóps um félagslíf grunnskólanema. Voru bæjarfulltrúar allir sammála um að greinargerðin væri gott innlegg í umræðuna um bætt félgaslíf barna og unglinga. Í greinargerðinni koma fram ýmsar góðar tillögur sem hægt er að vinna út frá. Bæjarráð fól starfsmönnum að útfæra nánar þessar hugmyndir og tillögur starfshópsins og verða þær teknar til nánari umfjöllunar á næsta bæjarráðsfundi.

Einnig var töluvert rætt um samstarf sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög. Það hefur verið í umræðunni hjá bæjarfulltrúum hvort skynsamlegt geti verið fyrir okkur að hverfa af vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og snúa samstarfi okkar að Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi. Ég hef verið talsmaður þess að við skoðuðum kosti þess að ganga í Samband sveitarfélaga á Suðurlandi. Ástæðan fyrir því er sú að ég tel mikilvægt að sveitarfélagið tengist betur sveitarfélögunum sem deila með okkur kjördæmi og þingmönnum. Við þurfum að sameinast með þeim um hagsmunamál sem hægt er að vinna brautargengi á kjördæmisvísu.

Með þessu er ég ekki að leggja neinn dóm á samstarfið við Samband sveitarfélaga á Austurlandi. Það hefur verið mikilum ágætum en ég tel einfaldlega að pólitískum hagsmunum okkar sé betur borgið innan sambands sem vinnur innan okkar kjördæmis.


Slöpp stjórnarandstaða

Nú þegar tæpt ár er liðið af fyrstu ríkisstjórnarsetu Samfylkingarinnar hef algjörlega sannfærst um að eina raunhæfa stjórnarmynstrið sem var í spilunum síðastliðið vor var ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Vinstri Grænir ósköp einfaldlega fóru á taugum eftir kosningarnar og eru ennþá ekki búnir að jafna sig. Flokkurinn talar út og suður og eina sem sameinar hann er að vera á móti einhverju sem ekki er uppi á borðinu, t.d. einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það eina sem gæti bjargað VG er ef álversbrölt Árnanna suður með sjó nær einhverju flugi.

Þá er rétt að minnast orða Steingríms J. Sigfússonar í hádegisviðtali á Stöð 2 þremur dögum eftir kosningar þess efnis að VG myndi ekki gera álver í Helguvík að úrslitaatriði í myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum. Út frá þeim orðum formannsins má álykta að álver við Helguvík væri lengra á veg komið ef Steingrímur hefði náð inn í ríkisstjórn með íhaldinu. Í ljósi þessara orða formannsins er skiljanlegt að hann sé pirraður yfir því að hafa ekki komist í ríkisstjórn, hann var jú búinn að kasta á bálið helstu hugsjónum flokks síns til þess að komast í ríkisstjórn með Geir og Þorgerði. E.t.v. hafa sjálfstæðismenn áttað sig á því að flokkur sem tilbúinn er að ganga svo langt til þess að komast í ríkisstjórn er ekki besti kosturinn í stöðunni.

Framsóknarflokkurinn á í verulegri tilvistarkreppu. Hann virðist algjörlega klofinn í afstöðunni til Evrópumála. Þó má ljóst vera að á meðan Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson ráða ríkjum þar innan dyra þá muni Evrópusambandið ekki skora hátt í Framsóknarflokknum. Flokkurinn virðist einnig svo illa plagaður af innanflokksmeinum á Höfuðborgarsvæðinu að hann hendir á öskuhaugana sínum eina borgarfulltrúa. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Ég á erfiðara með átta mig á Frjálslyndum. Það virðist vera nokkuð ósamstæður hópur ólíkra einstaklinga. T.d. á ég mjög erfitt með sjá hvaða málefni sameina Kristinn H. Gunnarsson og Jón Magnússon í pólitík.

Þessu öllu til viðbótar á stjórnarandstaðan öll afar erfitt með að sameinast um nokkuð gegn ríkisstjórninni. Hægt er að taka þingskaparmálið sem dæmi. Þar tóku Framsókn og Frjálslyndir þá skynsömu afstöðu að leggjast á sveif með ríkisstjórninni enda um skynsamlegt mál að ræða en VG gerði heiðarlega og einlæga tilraun til þess að einangra sig algjörlega í íslenskri pólitík. Ég held að það hafi tekist að einhverju leyti hjá þeim.


Samstarf sveitarfélaga og kjördæmaskipan

Eitt af því sem bæjarráð ræddi á síðasta fundi sínum var úttekt bæjarstjóra á áframhaldandi samstarfi sveitarfélagsins við Samband Sveitarfélaga á Austurlandi og hugsanleg innganga sveitarfélagsins í Samband Sveitarfélaga á Suðurlandi.

Eins og flestir vita þá var kjördæmaskipaninni breytt í kosningunum 1999. Bæjarstórn Hornafjarðar hafði þá tekið þá ákvörðun að verða hluti af Suðurkjördæmi í samræmi við vilja íbúa sem kom fram í könnun sem framkvæmd var af þessu tilefni. Með því var slitið á tengslin við okkar gamla Austurlandskjördæmi sem rann inn í Norðausturkjördæmi. Um leið og bæjarstjórn tók þessa ákvörðun var ákvað hún líka að halda áfram samstarfinu við SSA (samband sveitarfélaga á Austurlandi) enda hafði samstarfið þar verið með miklum ágætum og SSA verið í fararbroddi í ýmsum málefnum.

Nú er hins vegar svo komið að bæjarfulltrúar velta því alvarlega fyrir sér hvort hagsmunum sveitarfélagsins sé betur komið innan samtaka sveitarfélaga sem starfa innan okkar kjördæmis. Auðvitað er það svo að kanna verður málið til hlítar, kanna kosti og galla og taka rökstudda ákvörðun á þeim grunni. Undanfarin ár hefur verið unnið mjög gott starf innan SSA og nauðsynlegt að taka með inn í reikninginn það sem við komum til með að tapa með því að skipta um samstarfsvettvang.

Hins vegar er ég ekki í nokkrum vafa um það að pólitískum hagsmunum okkar er betur borgið í samtökum sveitarfélaga sem starfa innan kjördæmisins. Þannig komumst við í betri snertingu við þau sveitarfélög sem liggja næst okkur innan kjördæmisins og við komumst betur í snertingu við kjördæmið sjálft. Ég hef enga trú á því að menn eigi eftir að breyta kjördæmaskipaninni á næstu árum og ég held að það geti ekki gengið til lengdar fyrir okkur að eiga ekki í samstarfi við sveitarfélögin í okkar kjördæmi. Því er heldur ekki að neita að tengslin og böndin við gamla Austurlandskjördæmið hafa eilítið rofnað á síðustu árum og að mínu mati munu þau halda áfram að gera það. Ástæðan fyrir því er ekki sú að Austfirðingum sé eitthvað illa við Hornfirðinga eða Hornfirðingum illa við Austfirðingum heldur einfaldlega vegna þess að við tilheyrum ekki sama kjördæmi.

Þess vegna tel ég tímabært að við íhugum breytingar í þessum efnum.


Fólksfækkun á landsbyggðinni - skortur á kvenhylli?

Þær eru ískyggilega tölurnar sem nú berast frá Hagstofunni um hvernig Íslendingar hafa safnast saman á einum litli bletti á landinu, þ.e. suðvesturhorninu. Nú er svo komið að tæplega 63% landsmanna búa á höfuðborgarsvæðinu sjálfu og tæplega 75% á suðvesturhorninu sem er svæði sem nær frá Suðurnesjum, í Árborg og norður í Borgarnes. Þetta er óheillaþróun.

Þegar menn taka svo inn í þetta tölur frá Akureyri og vaxtarsvæðinu á Miðausturlandi þá er ekki mikið eftir til skiptanna fyrir önnur landssvæði. Ef litið er á tölur frá Hornafirði fyrir síðustu 10 ár hjá Hagstofunni þá er ljóst að þróunin hjá okkur alls ekki nógu góð. Á síðustu 10 árum hefur hér fækkað um 326 einstaklinga í sveitarfélaginu. Ef marka má fólksfækkunartölurnar á þessu tímabili, þá virðist kenning Dofra Hermannsonar um að skortur á kvennhylli sé rót byggðavandans, ekki vera ástæðan fólksfækkunar á Hornafirði. Á þessu 10 ára tímabili hefur konum fækkað um 165 en körlum um 161 þannig að ekki er mikill munur þar á. Á hinn bóginn er slagsíða körlunum í vil í sveitarfélaginu þar sem karlarnir 108 fleiri en konurnar.

Það ætti því öllum að vera ljóst að við erum að berjast við byggðavanda eins og svo mörg byggðalög vítt og breitt um landið. Hornfirðingar hafa hins vegar verið þeirrar gæfu aðnjótandi að tala með jákvæðum hætti um sitt samfélag þótt gefið hafi á bátinn tímabundið. Ég tel hins vegar að hér sé ekki um tímabundinn vanda að ræða, þessi þróun hefur verið í gangi undanfarin 10 ár og það er ekki hægt að kalla tímabundið ástand. Það er því full ástæða fyrir okkur að setjast niður fara yfir málin, greina stöðuna og reyna að átta okkur á því hvað það er sem veldur þessari þróun.

Við megum þó alls ekki láta hendur fallast og gefast upp þótt á móti blási. Margt jákvætt er í gangi í okkar ágæta sveitarfélagi sem við verðum að hlúa að og treysta í sessi en það er líka alveg morgunljóst að við verðum að leita allra tiltækra leiða til þess að sporna gegn þessari þróun.

Ég held t.d. byggðastefna sem byggir á svokallaðri kjarnahugsun, eins og hún er útfærð í dag, sé algjörlega vonlaus og að það sannist á þeim tölum sem Hagstofan nú birtir. Það er ómögulegt að ímynda sér að jafnaðarmenn í ríkisstjórn geti starfað eftir slíkri ójafnaðarstefnu í byggðamálum. Sú stefna felur einfaldlega í sér að þá er í raun ákveðið með handafli að sumar byggðir lifi en aðrar deyi. Þannig stefna getur aldrei gengið til lengdar að mínu mati.

Það verður fróðlegt að fylgjast með þingi um nýsköpun í atvinnumálum og umhverfisvæna framtíð sem Framtíðarlandið og Nýheimar efna nk. laugardag, þ.e. 8. mars í Nýheimum. Þingið ber heitið Austurþing og þar verður fjallað um atvinnumál, menntun og almenn lífsgæði með sérstakri áherslu á landsbyggðina. Ég hvet alla sem áhuga hafa á eflingu byggðanna til þess að mæta, hlýða á, taka þátt í umæðum og koma sínum skoðunum á framfæri.

 


ESB umræðan

Þunginn í Evrópuumræðunni hefur aukist mjög á undanförnum mánuðum. Mér hefur fundist að eftir því áföllunum í efnahagslífi þjóðarinnar fjölgar þeim mun meira líf færist yfir umræðuna um Evru og ESB. Það er sjálfu sér hlutur sem ég fagna. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við eigum að taka til alvarlegrar skoðunar inngöngu í Evrópusambandið, a.m.k. þannig að við metum kostina og gallana og leggjum ákvörðunina í hendur landans í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Það virðist vera að sú að staðreynd að okkar ágæta króna er orðin viðskiptahindrun knýji mest á um að umræðan fari fram. Mér hefur reyndar fundist það síðustu mánuði að málsvörum krónunnar sé alltaf að fækka. Það hlýtur ennþá að auka á þungann í umræðunni. Einnig virðast flestir orðnir sammála um það að einhliða upptaka Evru án inngöngu í ESB sé ekki tæk leið og yrði aldrei trúverðug hjá stöndugri þjóð.

Þess vegna virðast kostirnir vera nokkuð einfaldir. Annað hvort höldum við í krónuna sem flestir telja vera orðna viðskiptahindrun eða við stefnum að inngöngu í Evrópusambandið og að lokum í myntbandalagið. Að vísu gerir ríkisstjórnarsáttmáli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks ráð fyrir því að ekki verði hugað að aðild að Evrópusambandinu á kjörtímabilinu. Ég held að það myndi þó ekki saka að ríkisstjórnin setti sér það markmið að standast kröfur Evrópusambandsins í efnahagslegu tilliti svo að það væri a.m.k. valmöguleiki í stöðunni. Það getur varla skaðað að stefna að stöðugleika í efnahagsmálum.

Varla eru evrópuandstæðingar svo illa haldnir af hatri í garð ESB að ekki megi huga að því að ná þeim stöðugleika sem krafist er svo við uppfyllum skilyrði herranna í Brussel.


Góður málefnasamningur tryggir 9% stuðning

Það er engum blöðum um það að fletta að það er málefnasamningnum góða að þakka að borgarstjórnin nýtur 9% stuðnings.

Síðast meirihluti starfaði án þess að koma sér saman um málefnasamning og núverandi meirihluti heldur því gjarnan á lofti að það hafi verið ástæðan fyrir því að upp úr slitnaði.

Sennilega hefur traustið á borgarstjórn verið enn minna á meðan enginn málefnasamningur var í gildi hjá borgarstjórnarmeirihlutanum en núverandi meirihluti er nú aldeilis búinn að kippa því í liðinn og ætlar sér að láta verkin tala. Það eina sem kemur á óvart er að þessi gríðarlega góði málefnasamningur og viljinn til að láta verkin tala skuli ekki skila sér í meira trausti.

Allar aðstæður eru fyrir hendi til þess að fólk geti öðlast trú á störf þessa meirihluta. Góður málefnasamningur, viljinn til góðra verka, borgarstjóri með sterkt bakland og gríðarlega skemmtilegt kapphlaup í uppsiglingu hjá Íhaldinu í borgarstjórastólinn. Það besta við kapphlaupið er að það gæti tekið upp undir ár.

Þetta eru sannarlega kjöraðstæður til þess að byggja upp traust. Eða þannig.


mbl.is Aðeins 9% treysta borgarstjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svör fjármálaráðherra

Í pistli fyrir stuttu gerði ég að umtalsefni bið sveitarfélagsins eftir svörum frá fjármálaráðherra varðandi túlkun á samningi eða samkomulagi á milli sveitarfélagsins annars vegar og heilbrgðisráðuneytisins hins vegar. Túlkunin snerist um það hvort fjármálaráðneytið liti svo á að greiða ætti Heilbrigðisstofnun Suðausturlands samkvæmt munnlegu samkomulagi sem við töldum að hefði verið í gildi á gildistíma síðasta þjónustusamnings. Um 30 milljónir er að ræða í greiðslum til stofnunarinnar.

Eftir nokkra yfirferð fjármálaráðherra frá því í nóvember þá hefur ráðherra komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að líta svo á að munnlegt samkomulag hafi verið í gildi. Heldur hafi verið um að ræða hefð sem skapast hefði á undanförnum árum og hlutirnir hafi einfaldlega verið framkvæmdir með þessum hætti. Nú er gott að niðurstaða er komin í þetta tiltekna mál og ekki er ástæða til þess að velta sér meira upp úr því hvernig þessi staða er tilkomin. Svör fjármálaráðherra voru skýr hvað þetta varðaði, ekkert munnlegt samkomulag var fyrir hendi. Ekki er því hægt að byggja lausn vandans fyrir síðasta ár á því - enda giska erfitt að byggja lausn á einhverju sem ekki er til. En það kom líka skýrt fram að þrátt fyrir þessa niðurstöðu ráðherrans þá hefði framkvæmd síðasta samnings verið með þessum hætti og því ekki óeðlilegt að við hefðum væntingar til þess að svo yrði áfram meðan ekki hefði verið skrifað undir nýjan samning.

Á fundinum með ráðherra voru ræddar ýmsar leiðir til þess að vinna sig út úr vandanum og var það ánægjulegt. Ég hef fulla trú á því að okkur takist að ljúka málinu farsællega. Nú er mikilvægt fyrir alla að draga lærdóm af þeim mistökum sem bæði hafa átt sér stað þegar skrifað var undir síðasta þjónustusamning sem og þau mistök sem kunna að hafa orðið í þeim samningaviðræðum sem nú hafa átt sér stað.

En stóri lærdómurinn af þessu öllu saman hlýtur að vera sá að þjónustusamningar eru ekki besti kosturinn í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Best væri ef ríkisstjórnin og sveitarfélögin einhentu sér í þá vinnu að undirbúa flutning þessara verkefna frá ríki til sveitarfélaga sem allra fyrst. Reynslan frá Hornafirði sýnir svo ekki verður um villst að samrekstur heilsugæslunnar og öldrunarþjónustunnar hefur ótvíræða kosti í för með sér.

Að því leyti var síðasti samningur góður, þ.e. að hann gerði mönnum kleift að stuðla samrekstri ýmiss konar velferðarþjónustu. T.a.m. hefur samningurinn sannarlega orðið til þess að heimahjúkrunin og heimilisþjónustan eru rekin undir hatti heilsugæslunnar. Þetta hefur auðvitað orðið til þess að styrkja þessa þjónustu mjög og hefur leitt til þess að tekist hefur að fækka svo um munar einstaklingum í langlegu.

Samningurinn var hins vegar lélegur að því leyti að ekki var skýrt greint frá fjármögnun þessara verkefna. Hann stendur ekki nógu styrkum fótum, sbr. ákvörðun Tryggingastofnunar frá því í sumar að hætta að greiða okkur m.v. fulla nýtingu hjúkrunarrýma. Þess samkomulags eða hefðar var hvergi getið, hvorki í samningnum, viðauka við hann né hafði það varðveist í munnlegri geymd innan stjórnarráðsins. Að þessu leyti var síðasti þjónustusamningur slæmur. Hann stóðst ekki prófið þegar á reyndi.

Ég efast ekki um að aðstæður sveitarstjórnarmanna og embættismanna til samningsgerðar á þeim tíma hafa verið erfiðar líkt og við höfum upplifað í gerð nýs samnings. En það breytir því ekki að þetta er sá raunveruleiki sem við erum að glíma við í dag og ég tel það brýnt að fólk sé upplýst um hann. Harðar umærður hafa skapast um málið og málsmeðferðina í bæjarstjórn og þung orð hafa fallið í umræðunni.

T.a.m. hefur verið gefið í skyn að mennn ætli sér, með einu pennastriki að eyðileggja allt það góða starf sem unnið hefur verið á stofnuninni undanfarin ár. Einnig hefur því verið haldð að fólki að við ætluðum okkar að leggja af fæðingar á Hornafirði og talað hefur verið um misvitra bæjarfulltrúa í þessum efnum á bæjarstjórnarfundum. Í ljósi þessarar miklu og oft á tíðum hörðu umæðum, sem ég kveinka mér ekki undan, taldi ég mikilvægt að allir væru vel upplýstir um öll meginatriði málsins til þess að allrar sanngirni væri gætt.


Fundir í Reykjavík

Bæjarráð hefur gert víðreist um Reykjvavík síðustu tvo daga. Hefur bæjarráð m.a. fundað með fjármálaráðherra, samgönguráðherra og iðnaðarráherra. Við höfum einnig fundað með Vegamálastjóra, þingmönnum Suðurkjördæmis og fjölda annarra. Auk þess hefur bæjarráð skoðað nokkur knattspyrnuhús í ferðinni en það er liður í undirbúningi okkar að byggingu knattspyrnuhúss. Þetta var gagnlegar heimsóknir.

Á fundinum með fjármálaráðherra var sérstök áhersla lögð á heilbrigðis - og öldrunarmálin. Eftir fundinn þá er maður bjarsýnni en áður á að ásættanleg lausn náist í þeim málum fljótlega. Á öllum fundum hefur auðvitað farið fram heilmikil umræða um nýtt vegstæði yfir Hornafjörð. Sérstaklega var þingmönnum kjördæmisins gerð grein fyrir skoðunum bæjarstjórnar á því máli. Það mál ræddum við líka við samgönguráðherra og fjármálaráðherra og auðvitað Vegamálastjóra.

Annað sem hefur auðvitað líka verið mikið rætt í ferðinni eru atvinnumálin. Í öllum okkar heimsóknum þar sem þau hefur borið á góma höfum við rætt um fjölgun starfa á svæðinu. Það er mjög mikilvægt að fjölga og styrkja atvinnuundirstöður svæðisins. Í þeim efnum styrkir hvert starf sem kemur inn á svæðið samfélagið og styrkir grunnstoðirnar. Ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar í þessu sambandi, t.a.m. kom fram hugmynd um svokallaðð netþjónabú á fundi okkar með Össuri Skarphéðinssyni. Slík stöð yrði þó alltaf háð getunni til að flytja rafmagn. En sannarlega er hér um hugmynd að ræða sem vert er að skoða.


Góð mæting á fund með Vegagerðinni

Mjög góð mæting var á fundinn með Vegagerðinni í Nýheimum í kvöld. Þar var rætt um umhverfismat Vegagerðarinnar á nýjum vegi um Hornafjörð. Þessi góða mæting á fundinn undirstrikar hversu stórt og mikilvægt málið er sveitarfélaginu og íbúum þess.

Ekki var síst rætt um þá ákvörðun Vegagerðarinnar leggja til að farin verði svokölluð leið 1. Því verður ekki neitað að allur þunginn í umræðum á fundinum var á þá leið að fara beri leið 3. Sú leið styttir vegalengdir innan sveitarfélagsins mest. Algjör einhugur er í bæjarstjórn um að fara eigi þá leið.

Nú þurfum við að bíða eftir því að heyra niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Athugasemdafrestur rennur út 7. mars. Reynir Arnarson, formaður bæjarráðs, notaði tækifærið á fundinum áðan til þess að hvetja alla þá sem hefðu athugasemdir við skýrlsu Vegagerðarinnar að senda þær inn til Skipulagsstofnunar. Þar fá þær efnislega meðferð og Vegagerðinni ber að svara þeim með rökstuddum hætti.

Fram kom á fundinum að þingmenn Suðurkjördæmis hafa fengið sömu kynningu á framkvæmdinni og sýnd var í Nýheimum í kvöld. Þannig að þeir eru vel upplýstir um stöðu málsins og ættu því að geta lagt málinu lið.


Beðið eftir fjármálaráðherra

Eftirfarandi grein eftir mig birtist á vefmiðlum sveitarfélagsins í dag:

Beðið eftir fjármálaráðherra

Undanfarin ár hefur verið í gildi þjónustusamningur um rekstur heilsugæslu og öldrunarþjónustu á milli sveitarfélagsins og Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytisins, eða heilbrigðisráðuneytisins eftir breytingar innan stjórnarráðsins. Þjónustusamningurinn rann út 31. desember 2006. Sveitarfélagið hefur því verið að reka heilbrigðisstofnunina án samnings í rúmt ár. Óvissan sem þessi staða hefur skapað hefur óneitanlega tafið alla þróun og stefnumótun í starfi stofnunarinnar. Einnig hvílir ákveðin stjórnsýsluleg óvissa yfir henni. Mikilvægt er því að niðurstaða náist í málum stofnunarinnar eins fljótt og auðið er.

Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarnar vikur, mánuði og jafnvel ár um heilbrigðis - og öldrunarmál á Hornafirði, sérstaklega hafa málin verið ítarlega rædd á bæjarstjórnarfundum. Þar hafa þau einatt verið rædd á þann hátt af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að meirihlutinn sé með allt niðrum sig í samningaviðræðunum við ríkisstjórnina. Oddvita Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn hefur blöskrað hvernig núverandi meirihluti hefur haldið á málum og hvernig hann hefur farið með þetta óskabarn oddvitans sem þjónustusamningurinn er. Hefur oddvitinn m.a. annars sagt að eftir framgöngu meirihlutans treysti hún ekki lengur misvitrum bæjarfulltrúum fyrir þessum málaflokkum. Í sjálfu sér get ég tekið undir þetta sjónarmið Halldóru Bergljótar Jónsdóttur í ljósi þess hvernig haldið var utan um þennan málaflokk þegar síðasti samningur var undirritaður þegar hún var formaður heilbrigðis - og öldrunarráðs Hornafjarðar.

Lélegur samningur og munnlegt samkomulag 

Það sem núverandi meirihluti hefur allan tímann þurft að glíma við er að þjónustusamningurinn sem undirritaður var árið 2002 er langt frá því að vera nógu góður. Í raun var hann svo slæmur að gera þurfti sérstakt munnlegt samkomulag um greiðslur óháðar nýtingu á hjúkrunarrýmum frá Tryggingastofnun Ríkisins til HSSA. Þetta þýðir að grundvöllur síðasta þjónustusamnings byggðist á munnlegu samkomulagi sem fól í sér að HSSA fékk alltaf greitt fyrir fulla nýtingu hjúkrunarrýma óháð því hver raunnýtingin var.

Síðastliðið sumar ákvað Tryggingastofnun svo einhliða að skerða þessar greiðslur, þ.e. að byrja að greiða HSSA skv. nýtingu hjúkrunarrýma. Þessi skerðing þýðir einfaldlega að rekstrarhalli HSSA árið 2007 verður rúmar 30 milljónir. Munnlega samkomulagið, sem komið var á laggirnar á samningstíma síðasta þjónustusamnings, hljóðaði s.s. upp á litlar 30 milljónir fyrir síðasta ár hefði samkomulagið haldið. Það er því við ramman reip að draga í rekstri stofnunarinnar um þessar mundir. Ljóst er að bæjarsjóður mun ekki taka þennan rekstrarhalla á sig.

Meirihluti bæjarstjórnar hefur tekið þá ábyrgu afstöðu að halda ekki áfram samningaviðræðum við heilbrigðisráðuneytið fyrr en viðunandi niðurstaða fæst hjá fjármálaráðuneytinu varðandi uppgjör fyrir síðasta ár. Meirihlutinn er ekki tilbúinn að skrifa undir nýjan samning með 30 milljónir á bakinu ef svo mætti að orði komast.

1. þingmaður Suðurkjördæmis veiti skýr svör

Um leið og ljóst var að ekki væri hægt að klára nýjan samning í heilbrigðisráðuneytinu með viðunandi hætti var fjármálaráðherra gert ljóst hver staðan væri. Honum var gerð grein fyrir hinu munnlega samkomulagi sem í gildi var á milli þáverandi fjármálaráðherra og þáverandi bæjarstjórnar. Á fundi í ráðuneytinu í nóvember kom fram að vinna yrði sett í gang til þess að kanna möguleikann á því að gera upp við stofnunina fyrir síðasta ár á grundvelli hins munnlega samkomulags.

Í þessari viku mun bæjarráð Hornafjarðar fara í fundaherferð til Reykjavíkur. Fyrsti fundur bæjarráðs verður einmitt með fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen 1. þingmanni Suðurkjördæmis og það er einlæg von mín að bæjarráð fái skýr svör frá honum á fundinum. Ég tel það reyndar orðið löngu tímabært.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar

Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband