Leita í fréttum mbl.is

Bæjarstjórnarfundur - samstarf sveitarfélaga

Venju samkvæmt var líf og fjör á bæjarstjórnarfundi í gær. Mörg brýn mál samfélagsins voru rædd eins og málefni heilbrigðisstofnunarinnar og þjónustusamningur okkar við heilbrigðisráðuneytið. Óþarft er að tíunda þær umræður sérstaklega þar sem þær ættu að vera öllum, sem fylgst hafa með umræðum á bæjarstjórnarfundum undanfarna mánuði, ljósar. Nýtt orð, sem ég hef ekki heyrt áður í umræðum um málefni HÖR og HSSA á bæjarstjórnarfundum, kom fram á fundinu en það var orðið sjónarspil. Alltaf ánægjulegt þegar fólk getur bryddað upp á nýjungum í málflutningi sínum. Að öðru leyti var sami söngurinn sunginn í bæjarstjórnarkórnum um þessi mál.

Málefnalegar umræður sköpuðust um greinargerð starfshóps um félagslíf grunnskólanema. Voru bæjarfulltrúar allir sammála um að greinargerðin væri gott innlegg í umræðuna um bætt félgaslíf barna og unglinga. Í greinargerðinni koma fram ýmsar góðar tillögur sem hægt er að vinna út frá. Bæjarráð fól starfsmönnum að útfæra nánar þessar hugmyndir og tillögur starfshópsins og verða þær teknar til nánari umfjöllunar á næsta bæjarráðsfundi.

Einnig var töluvert rætt um samstarf sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög. Það hefur verið í umræðunni hjá bæjarfulltrúum hvort skynsamlegt geti verið fyrir okkur að hverfa af vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og snúa samstarfi okkar að Sambandi sveitarfélaga á Suðurlandi. Ég hef verið talsmaður þess að við skoðuðum kosti þess að ganga í Samband sveitarfélaga á Suðurlandi. Ástæðan fyrir því er sú að ég tel mikilvægt að sveitarfélagið tengist betur sveitarfélögunum sem deila með okkur kjördæmi og þingmönnum. Við þurfum að sameinast með þeim um hagsmunamál sem hægt er að vinna brautargengi á kjördæmisvísu.

Með þessu er ég ekki að leggja neinn dóm á samstarfið við Samband sveitarfélaga á Austurlandi. Það hefur verið mikilum ágætum en ég tel einfaldlega að pólitískum hagsmunum okkar sé betur borgið innan sambands sem vinnur innan okkar kjördæmis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband