Leita í fréttum mbl.is

Slöpp stjórnarandstaða

Nú þegar tæpt ár er liðið af fyrstu ríkisstjórnarsetu Samfylkingarinnar hef algjörlega sannfærst um að eina raunhæfa stjórnarmynstrið sem var í spilunum síðastliðið vor var ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Vinstri Grænir ósköp einfaldlega fóru á taugum eftir kosningarnar og eru ennþá ekki búnir að jafna sig. Flokkurinn talar út og suður og eina sem sameinar hann er að vera á móti einhverju sem ekki er uppi á borðinu, t.d. einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Það eina sem gæti bjargað VG er ef álversbrölt Árnanna suður með sjó nær einhverju flugi.

Þá er rétt að minnast orða Steingríms J. Sigfússonar í hádegisviðtali á Stöð 2 þremur dögum eftir kosningar þess efnis að VG myndi ekki gera álver í Helguvík að úrslitaatriði í myndun ríkisstjórnar með Sjálfstæðisflokknum. Út frá þeim orðum formannsins má álykta að álver við Helguvík væri lengra á veg komið ef Steingrímur hefði náð inn í ríkisstjórn með íhaldinu. Í ljósi þessara orða formannsins er skiljanlegt að hann sé pirraður yfir því að hafa ekki komist í ríkisstjórn, hann var jú búinn að kasta á bálið helstu hugsjónum flokks síns til þess að komast í ríkisstjórn með Geir og Þorgerði. E.t.v. hafa sjálfstæðismenn áttað sig á því að flokkur sem tilbúinn er að ganga svo langt til þess að komast í ríkisstjórn er ekki besti kosturinn í stöðunni.

Framsóknarflokkurinn á í verulegri tilvistarkreppu. Hann virðist algjörlega klofinn í afstöðunni til Evrópumála. Þó má ljóst vera að á meðan Guðni Ágústsson og Bjarni Harðarson ráða ríkjum þar innan dyra þá muni Evrópusambandið ekki skora hátt í Framsóknarflokknum. Flokkurinn virðist einnig svo illa plagaður af innanflokksmeinum á Höfuðborgarsvæðinu að hann hendir á öskuhaugana sínum eina borgarfulltrúa. Það kann ekki góðri lukku að stýra.

Ég á erfiðara með átta mig á Frjálslyndum. Það virðist vera nokkuð ósamstæður hópur ólíkra einstaklinga. T.d. á ég mjög erfitt með sjá hvaða málefni sameina Kristinn H. Gunnarsson og Jón Magnússon í pólitík.

Þessu öllu til viðbótar á stjórnarandstaðan öll afar erfitt með að sameinast um nokkuð gegn ríkisstjórninni. Hægt er að taka þingskaparmálið sem dæmi. Þar tóku Framsókn og Frjálslyndir þá skynsömu afstöðu að leggjast á sveif með ríkisstjórninni enda um skynsamlegt mál að ræða en VG gerði heiðarlega og einlæga tilraun til þess að einangra sig algjörlega í íslenskri pólitík. Ég held að það hafi tekist að einhverju leyti hjá þeim.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þegar VG var ykkar kærasti vinur í stjórnarandstöðunni, þá vorum við sjálfstæðismenn fyrir löngu búnir að átta okkur á innræti þeirra. Lengi vel fannst mér sama rassgatið undir Samfylkingunni en hún hefur komið mér þægilega á óvart, nú þegar hún fær loks að axla ábyrgð.

Gunnar Th. Gunnarsson, 7.3.2008 kl. 14:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband