24.2.2008 | 15:00
Villi ákveður að dingla áfram
Hún er makalaus ákvörðunin hans Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem kynnt var í dag. Borgarstjórnarflokkur íhaldsins lýsti yfir óskoruðum stuðningi við þessa ekki ákvörðun oddvita þeirra. Eftir stendur að stærsti og valdamesti flokkurinn í borgarstjórn Reykjvavíkur virðist ekki geta komið sér saman um það hver er þeirra borgarstjóraefni. Þau hafa nú 12 mánuði til þess að koma sér saman um það. Á meðan ætla þau að styðja við oddvitann sinn, gamla góða Villa til þess að halda áfram sem þeirra oddviti. Þetta eru þau tilbúin að gera þrátt fyrir það að Hanna Birna og Gísli Marteinn séu nýbúin að skrifa undir það í Rei - skýrslunni að Vilhjálmur hafi gerst sekur um slík embættisafglöp að annað eins þekkist varla.
Ekki er von á góðu fyrir Reykvíkinga þegar stærsti flokkur borgarinnar og sá valdamesti í dag getur ekki með nokkrum hætti komist að niðurstöðu í jafn einföldu máli og þessu.
Er það furða að einhverjir ónefndir bloggarar hafa talað um sjálfseyðingu í þessu sambandi. Nú er kannski komið tilefnið, sem Sigurður Kári taldi að hefði að vantað í umræddri bloggfærslu, í Kastljósinu í vikunni?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2008 | 22:14
Fundaherferð bæjarráðs
Í næstu viku hefur bæjarráð Hornafjarðar, ásamt bæjarstjóra, ákveðið að ráðast í útrás. Ferðinni er heitið til höfuðborgarinnar. Meiningin er vera þar í þrjá daga og funda með ráðherrum, þingmönnum og stofnunum sem við eigum erindi við.
Ýmislegt verður eflaust rætt í ferðinni en vafalaust verður þungamiðjan í fundaherferðinni alvarlegt ástand í atvinnumálum í kjölfar niðurskurða aflaheimilda í þorski og nú síðast eftir að sjávarútvegsráðherra ákvað að stöðva loðnuveiðar. Það var gríðarlegt áfall fyrir samfélagið þó maður voni að sjálfsögðu að loðnan komi til með að finnast.
Auðvitað kallar ákvörðun sjávarútvegsráðherra á endurskoðun mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar sem ákveðnar voru í sumar. Þar er ástæða til spýta frekar í lófana en hitt.
Einnig munum við leggja mikla áherslu á það við ráðherra og þingmenn Suðurkjördæmis að slást í lið með okkur í því að hnekkja tillögum Vegagerðarinnar að fara svokallaða leið 1 um Hornafjörð. Við munum greina þeim frá mikilvægi þess að stytta vegalengdir innan sveitarfélagsins sem mest og þess vegna m.a. sé bæjarstjórn ósammála Vegagerðinni og leggur mikla áherslu á að leið 3 verði farin. Í samgöngumálum verður líka minnst á mikilvægi þess að hraða rannsóknum og undirbúningsvinnu á göngum undir Lónsheiði. Hvalnes - og Þvottárskriður eru án efa einn versti og hættulegasti hluti þjóðvegar 1.
Beðið eftir fjármálaráðherra
Eitt er það mál sem hefur verið mikið til umræðu á yfirstandandi kjörtímabili, sem við munum ræða sérstaklega við fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, en það eru heilbrigðis - og öldrunarmál. Í sumar ákvað Tryggingastofnun Ríkisins að skerða greiðslur til Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands sem byggðar voru á munnlegu samkomulagi Geirs H. Haarde, núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra og bæjarstjórnar á síðasta kjörtímabili. Ástæða munnlega samkomulagsins var sú að þjónustusamningur sá er heilbrigðis -og tryggingamálaráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður skrifuðu undir á sínum tíma reyndist ekki nógu traustur.
Ákvörðun Tryggingastofnunar veldur því að heilbrigðisstofnunin var rekin með rúmlega 30 milljón króna halla á síðasta ári. Meirihlutinn í bæjarstjórn hefur sagt að ekki komi til greina að semja um nýjan þjónustusamning fyrr en síðasta ár hefur verið gert upp við okkur á grunni hins munnlega samkomulags. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og 1. þingmaður Suðurkjördæmis hefur verið að vinna í þessu máli síðan á haustmánuðum. Það er mín einlæga von að hann verði með skýr svör fyrir okkur fundi okkar með honum á miðvikudaginn. Ég tel það orðið tímabært.
23.2.2008 | 21:37
Vandræðagangurinn endalausi
Vandræðagangur íhaldsins ætlar engan endi að taka í borginni. Þær eru misvísandi fréttirnar sem berast núna af fyrirætlan Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Fréttir herma að hann ætli að halda áfram sem oddviti flokksins og taka við sem borgarstjóri eftir eitt ár. Aðrar fréttir herma að þetta liggi ekki endanlega fyrir. Enn aðrar fréttir segja að formaður og varaformaður flokksins muni ekki styðja Vilhjállm til þess að halda áfram sem oddviti og þau vilji að Hanna Birna taki við.
Það hlýtur að vera erfið tilhugsun fyrir Vilhjálm að ætla að sitja áfram í oddvitasætinu án þess að hafa til þess stuðning Geirs og Þorgerðar.
Verst er til þess að vita að þessi flokkur framdi valdarán í Reykjavík í byrjun árs og eftirlétu borgarstjórastólinn til eins manns flokks sem nýtur minni stuðnings í borginni en Villi sjálfur til þess að vera borgarstjóri og er þá mkið sagt. Enda lét Vilhjálmur sjálfur þau hörðu orð falla um Ólaf að Ólafur væri jafn tilbúinn og hann hefði verið eftir kosningarnar 2006 til þess að taka við borgarstjóraembættinu. Það þótti mér harður dómur.
Já, það er óhætt að segja að höfuðborgin okkar sé í traustum og öruggum höndum þeirra Ólafs F. og Villa Þ.
21.2.2008 | 23:40
Fórnarlambshefð Íhaldsins
Ég hef áður rætt það að mér finnst Íhaldið hafa gert það að listgrein að vera í fórnarlambssætinu í íslenskri stjórnmálaumræðu. Nú finnst mér það hafa náð nýjum hæðum þegar Sigurður Kári Kristjánsson hefur tekið að sér að vera fórnarlambið fyrir Gísla Martein Baldursson vegna skrifa Össurar Skarphéðinssonar. Það var athyglisvert að hlusta á Sigurð Kára og Lúðvík Bergvinsson í Kastljósinu í kvöld.
Sigurður Kári taldi að skrifin væru algerlega tilefnislaus. Hefur alþingismaðurinn ekki fylgst með umræðum og viðburðum síðustu mánaða í borgarstjórn? Tók þingmaðurinn ekki eftir könnun Capacent þar sem fram kom að Gísli Martein nýtur ákaflega lítils stuðnings meðal borgarbúa til þess að verða borgarstjóri? Ef það er ekki tilefni til þess að ræða málið þá veit ég ekki hvað tilefni er. En ég get tekið undir það með Lúðvíki að ýmislegt í orðfæri Össurar var óviðeigandi. Hins vegar finnst mér Sigurður Kári Kristjánssonar full viðkvæmur gagnvart myndmáli og hann virðist ekki skilja eðli myndmálsins og tilganginn með hressilegu stílfæri Össurar Skarphéðinssonar.
Sigurður Kára finnst hér um rætin skrif að ræða hjá Össuri. Ég get ekki tekið undir það. Össur er einfaldlega að lýsa afleiðingum atburðarásar í borgarstjórnar eins og hann sér þær. Þegar Sigurður Kári fór að kalla þessi skrif Össurar rætin þá fannst mér það gott hjá Lúðvíki að nefna Staksteina Morgunblaðsins sem dæmi um rætin pólitísk skrif. Þá var staðan þægileg hjá þingmanni Íhaldsins, því hann getur jú ekki svarað fyrir skrfi málgagnsins. En hann mætti kannski fordæma þau með sama hætti og hann fordæmir skrif Össurar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2008 | 19:51
Endurþjóðnýting
Í dag lærði ég nýtt orð. Mér finnst alltaf svolítið skemmtilegt þegar það gerist. Orðið lærði ég þegar ég las skemmtilega grein eftir Þorvald Gylfason sem m.a. fjallaði um íslensku bankana. Orðið var endurþjóðnýting. Þar kemur fram, sem auðvitað er sjálfsagður sannleikur, að bankarnir afsöluðu sér ríkisábyrgð um leið og þeir voru einkavæddir á útsöluprís eins og Ríkisendurskoðun vitnaði til um. Þó er rétt í ljósi aðstæðna hjá bönkunum nú um stundir að minna á þetta.
Útlitið á fjármálamarkaði er ekkert sérstaklega gott. Ef marka má fréttir þá virðist staða íslensku bankanna ekki upp á marga fiska. Niðursveiflan á undradrengjunum, sem lofsamaðir voru um allar grundir fyrir að kunna betur en allir aðrir að búa til pening úr pening, er hafin að því er virðist.
Ég er sammála Þorvaldi Gylfasyni varðandi það að bankarnir geta ekki verið þekktir fyrir það, eftir þá óheftu frjálshyggju sem menn þar innanborðs hafa boðað, að hlaupa undir pilsfald ríkisvaldsins. Að hans mati er eina mögulega útrétta hjálparhöndin frá hendi ríkisins tímabundin endurþjóðnýting.
Hitt atriðið sem Þorvaldur ræddi í grein sinni var hin undarlega umræða um ESB - og Evrumál í landinu. Sú umræða virðist af einhverjum orsökum alltaf vera föst í einhverjum bullhjólförum og almenningi er aldrei gefið tækifæri á að kynna sér málin á hófstilltan og skynsaman hátt. Um leið og einhver leyfir sér að nefna ESB aðild þá eru einhverjir snillingar tilbúnir hrópa, fullveldisafsal eða eitthvað þaðan af verra.
20.2.2008 | 23:31
Loðnuleysi og niðurskurður aflaheimilda
Þær voru ekki góðar fréttirnar í dag um ákvörðun sjávarútvegsráðherra varðandi stöðvun á loðnuveiðum á hádegi á morgun. Þetta er auðvitað reiðarslag fyrir samfélag eins og Hornafjörð sem byggir afkomu sína á stórum hluta á sjávarútvegi. Í ljósi þess að niðurskurður aflaheimilda á þorski var ákveðinn á síðastliðið sumar þá eru þessar fréttir enn alvarlegri. Ljóst er að útgerðarfyrirtækin munu verða af gríðarlegum tekjum sem og starfsmenn þeirra.
Þessi ákvörðun staðfestir enn frekar nauðsyn þess að í sveitarfélagi eins og okkar er mikilvægt að styrkja grunnstoðirnar, fjölga atvinnutækifærum og að auka lífsgæði. Við verðum að leitast við að gera samfélögin öflugri svo þau verði betur í stakk búin til þess að takast á við áföll af þessum toga.
Auðvitað vonar maður að sú ákvörðun sem ríkisstjórnin tók í sumar, þ.e. að fara að tillögum Hafrannsóknarstofnunar og skera niður þorskkvótann, sé tímabundin. Vonandi verður þetta til þess að hægt verður að byggja upp stofnana þannig að hægt verði að auka við kvótann eins fljótt og hægt er. Tilgangurinn með því að fara að tillögum Hafró var sá að láta á það reyna hvort að ráðgjöfin myndi skila þeim árangri að stofnarnir myndu stækka og eflast og það vonar maður svo sannarlega að verði raunin.
18.2.2008 | 21:15
Áherslur jafnaðarmanna
Það er mál manna er að vel hafi tekist til í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði að þessu sinni. Samstaða hefur myndast um það að bæta kjör þeirra verst stöddu, þ.e. þeirra sem ekki hafa notið góðs af launaskriði. Þetta var mjög skynsamleg ráðstöfun. En auðvitað þýðir það að einhverjir hópar njóta lítils af þessum samningum.
Það hefur væntanlega ekki verið vandalaust fyrir samningsaðila sigla samningunum endanlega í örugga höfn. En samningsaðilar hafa gert sér grein fyrir því að hversu mikilvægt það var að leiða þessi mál farsællega til lykta í því viðkvæma efnahagsástandi sem er nú um mundir.
Töluverð bið varð á útspili ríkisstjórnarinnar í tengslum við samningana. Þegar það svo loksins kom virðast það hafa fallið í nokkuð góðan jarðveg. Þó er það auðvitað þannig eins og er með alla svona samninga að enginn fær allt sem hann vill.
Mér sýnist á öllu að aðgerðir ríkisstjórnarinnar og svo samningarnir sjálfir séu til fallnir að auka jöfnuð og stuðla að jafnvægi í efnahagsmálum þjóðarinnar. Vonandi verður þetta til þess að hægt verður að hefja vaxtalækkunarferli.
En ég er sammála þessum hér um það hvaða áherslur eru ráðandi í þessu ríkisstjórnarsamstarfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.2.2008 | 14:14
Heimsókn umhverfisráðherra
Heimsókn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, umhverfisráðherra og Önnu Kristínar Ólafsdóttur, aðstoðarkonu ráðherra í gær var ánægjuleg og gagnleg. Anna Kristín er einnig formaður yfirstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs.
Daginn byrjuðum við á því að fara í Nýheima og kynna fyrir þeim starfsemina þar. Þar hittu þær m.a. Þorvarð, forstöðumanns Háskólasetursins sem þar er til húsa. Hann kynnti fyrir þeim ýmis verkefni á vegum stofnunarinnar sem tengjast með einum eða öðrum hætti stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Einnig hittu þær Rósu Björk Brynjólfsdóttur, framkvæmdastjóra ferðaþjónustuklasans á Suðausturlandi sem kallast Ríki Vatnajökuls. Hún ræddi við þær um ýmis mál tengd ferðamennsku og markaðssetningu svæðisins. Þau mál tengjast auðvitað mjög náið stofnun þjóðgarðsins hvað varðar almenna atvinnuuppbyggingu samfara stofnun þjóðgarðs. Undanfarin ár hefur verið mikill vöxtur í ferðaþjónustunni og við vonumst auðvitað til þess að hann aukist enn frekar með tilkomu þjóðgarðsins.
Í hádeginu funduðu þær með bæjarstjórn á Hótel Höfn. Á fundinum var farið yfir þau málefni sveitarfélagsins sem tengjast með beinum hætti umhverfisráðuneytinu. Að sjálfsögðu fór þó mestur tími í að ræða málefni þjóðgarðsins og bæjarstjórn kom á framfæri við ráðherra og formann yfirstjórnar óánægju sinni með þá niðurstöðu yfirstjórnarinnar að starf framkvæmdastjórans yrði ekki staðsett á Höfn. Um það mál urðu mjög hreinskiptnar og málefnalegar umræður. Einnig lagði bæjarstjórn mikla áherslu á það að settur yrði aukinn kraftur í viðræður við landeigendur sem hafa sýnt því áhuga að setja land inn í þjóðgarðinn. Töluverðrar óánægju hefur gætt meðal landeigenda vegna vinnubragða ráðuneytisins í þeim viðræðum. Á fundinum fengum við þær upplýsingar að frétta væri að vænta af þessum málum innan skamms og vonandi eru þær til þess fallnar að flýta fyrir lausn. Það á þó alveg eftir að koma í ljós. Eftir framgöngu ríkisstjórnarinnar í hinum svokölluðu þjóðlendumálum skal engan undra þótt landeigendur taki öllum tilboðum sem koma úr þeirri átt með ákveðnum fyrirvara.
Að loknum fundi með bæjarstjórn kynntu þær sér starfsemi Jöklasýningarinnar sem við vonumst til að falli inn í starfsemi þjóðgarðsins með tíð og tíma. Þar er sannarlega um að ræða veglegt framlag Austur - Skaftfellinga til þjóðgarðsins. Síðan funduðu þær með svæðisráði Suðursvæðis þjóðgarðsins og starfsfólki þjóðgarðsins á svæðinu. Þar voru rædd ýmis mál sem tengjast þjóðgarðinum með beinum hætti eins og t.d. gerð verndar - og öryggisáætlunar fyrir jökulinn og áhfrifasvæða hans.
Um kvöldið boðaði Samfylkingin á Hornafirði til opins stjórnamálafundar á Kaffi Horninu. Mæting á fundinn var góð og góðar umræður sköpuðust. Snörp gagnrýni á ákvörðun yfirstjórnarinnar vegna staðsetningar framkvmæmdastjóra yfirstjórnarinnar kom fram og mátti skilja það á fundarmönnum að þessi ákvörðun væri köld vatnsgusa framan í Austur - Skaftfellinga.
Þrátt fyrir að mestum tíma hafi verið varið til þess að ræða þessa ákvörðun yfirstjórnarinnar þá spunnust líka gagnlegar umræður um byggðamál almennt. Hjá fundarmönnum kom fram sú skoðun að eitt mikilvægasta skrefið í bættri byggðastefnu væri að leggja af hugsunina um kjarnabyggðir. Sú hugsun í byggðamálum hefur verið ríkjandi alltof lengi. Ég kom þeirri skoðun minni á framfæri að flokkur kenndur við jafnaðarstefnu gæri ekki og mætti ekki tileinka slíka hugsun og stefnu í byggðamálum í ríkisstjórnarsamstarfi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2008 | 23:26
Umhverfisráðherra í heimsókn
Á morgun, miðvikudaginn 13. febrúar, kemur Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra í heimsókn til Hornafjarðar ásamt aðstoðarkonu sinni, Önnu Kristínu Ólafsdóttur sem jafnframt er formaður yfirstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Hér er sannarlega um þarfa og tímabæra heimsókn að ræða.
Enda hafa málefni Vatnajökulsþjóðgarðs verið töluvert til umræðu undanfarna daga, vikur og mánuði. Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur, frá því að hugmyndin um stofnun þessa stóra þjóðgarðs, kom fyrst fram litið á stofnun hans sem einn helsta aflvakann í atvinnu - og byggðaþróun svæðisins. Á undanförnum árum og áratugum hefur ferðaþjónustunni á svæðin vaxið fiskur um hrygg og við sjáum fram á að þjóðgarðurinn kemur til með að hleypa enn styrkari stoðum undir greinina.
Þess vegna urðu það okkur mikil vonbrigði að ekki skyldi hafa náðst sátt um það innan yfirstjórnarinnar að starfsstöð framkvæmdastjóra þjóðgarðsins yrði staðsett í sveitarfélaginu. Allar aðstæður fyrir framkvæmdastjórann eru til staðar á Hornafirði og starfsemi yfirstjórnar þjóðgarðsins yrði gríðarlega öflug viðbót við það frumkvöðla - og nýsköpunarstarf sem unnið er í Nýheimum ekki síst á sviði rannsókna og atvinnuþróunar í tengslum við ferðaþjónustu, útivist og þjóðgarða. Starfsstöð framkvæmdastjóran myndi falla eins og flís við rass að þessari starfssemi og það sem meira er, við jaðar Vatnajökuls sem þjóðgarðurinn dregur nafn sitt af. Tengsl framkvæmdastjórans við Vatnjökul og umhverfi hans verða hvergi betri en á Hornafirði. Það hljóta allir að sjá.
Sveitarfélagið lætur ekki sitt eftir liggja í uppbyggingu þjóðgarðsins. Við höfum hug á því að láta hina glæsilegu jöklasýningu ganga inn í hinn nýstofnaða þjóðgarð. Þegar ný gestastofa þjóðgarðsins verður byggð upp í Stekkanesi er það okkar vilji að Jöklasýningin verði hluti þeirrar gestastofu. Þar væri sannarlega um að ræða veglegt framlag Austur - Skaftfellinga til þjóðgarðsins.
Opinn fundur með umhverfisráðherra og formanni yfirstjórnarinnar verður haldinn á Kaffi Horninu annað kvöld (mið. 13. feb.) kl. 20:00 á vegum Samfylkingarinnar á Hornafirði. Rétt er að hvetja alla þá sem hafa áhuga á málefnum Vatnajökulsþjóðgarðs, umhverfisins og stjórnmálanna almennt að fjölmenna á fundinn.
12.2.2008 | 22:19
Best fyrir Villa að fara líka út um kjallarann
Svona eftir á að hyggja þá held ég að það hefði farið betur á því í gær ef Villi hefði verið samferða Hönnu Birnu og Gísla Marteini út um kjallarann í Valhöll. En kannski hafa þau stungið hann af? Það er ómögulegt að segja til um það.
Hún var hins undarlega einmannaleg tilvera hjá Vilhjálmi á ljósvakamiðlafundinum í gær. Af hverju í ósköpunum ráku Sjálfstæðismenn suma fréttamenn út af fundinum í Valhöll en ekki aðra? Furðuleg ráðstöfun. Enginn vildi sitja hjá honum og hinn vaski hópur sem stóð að baki honum að Kjarvalsstöðum fyrir skemmstu horfinn eins og töfrabrögðum hefði verið beitt.
Það er beinlínis orðið raunalegt og sorglegt að fylgjast stærsta stjórnmálaflokki borgarinnar og landsins. Hver hendin uppi á móti annarri og menn þar innanborðs virðast ekki sjá neina lausn á vandamálunum. En málið er að þeir eiga ekkert betra skilið eftir vinnubrögðin í kringum meirihlutaskiptin í janúar. Vandamálið er fullkomlega heimatilbúið.
Vona bara að símarnir hjá Hönnu og Gísli starti sér aftur þegar þetta fár verður um garð gengið.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006