11.2.2008 | 15:50
Um Vatnajökulsþjóðgarð
Vatnajökulsþjóðgarður - höfuðstöðvar
Undanfarna daga og vikur hefur farið fram töluverð umræða í sveitarfélaginu um stofnun Vatnjökulsþjóðgarðs. Ekki síst hefur umræðan verið tengd væntingum okkar Hornfirðinga til stofnunar þjóðgarðsins. Þar höfum við gengið hart fram í því að reyna að sannfæra aðra um að höfuðstöðvar þjóðgarðsins eigi að vera hér í sveitarfélaginu. Því miður virðist það ætla að verða niðurstaða yfirstjórnar þjóðgarðsins að svo verði ekki þrátt fyrir okkar kröfur. Fyrir þessu var barist innan yfirstjórnarinnar en okkar sjónarmið hlutu ekki brautargengi.
Farin var sú leið að auglýsa starf framkvæmdastjóra yfirstjórnarinnar án staðsetningar, sem er reyndar í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, þ.e. að auglýsa störf án staðsetningar. Yfirlýst markmið með auglýsingu slíkra starfa er að fjölga störfum á landsbyggðinni enda segir í stjórnarsáttmálanum: Skilgreind verði þau störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar og þannig stuðlað að fjölgun starfa á landsbyggðinni."
Verður að samræmast markmiðunum með störfum án staðsetningar
Hægt er að færa rök fyrir því að ef starfið, sem hér um ræðir, endar á höfuðborgarsvæðinu sé beinlínis verið að vinna gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar. Við hljótum því að treysta því að starfið endi ekki á höfuðborgarsvæðinu. Gera verður þær kröfur til yfirstjórnarinnar að hún hagi vinnu sinni í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar.
Ekki má þó gleyma því að fleiri sveitarfélög eiga aðkomu að Vatnajökulsþjóðgarði en Sveitarfélagið Hornafjörður og eflaust hafa þau öll sínar væntingar til stofnunar þjóðgarðsins. Á hinn bóginn má öllum vera ljóst að ekkert sveitarfélag, í nálægð við væntanlegan þjóðgarð, hefur lagt jafn mikið af mörkum til þjóðgarðsins og Hornafjörður. Nægir í því tilliti að nefna Jöklasýninguna okkar og áherslu á atvinnuuppbyggingu í tengslum við þjóðgarðinn. Í mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar kemur glöggt fram hversu mikla áherslu sveitarfélagið leggur á Vatnajökulsþjóðgarð en í aðgerðum ríkisstjórnarinnar er gert ráð ráðningu tveggja nýrra starfsmanna í frumkvöðla - og háskólasetrinu í Nýheimum með áherslu á styrkingu starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs.
Ekki þarf annað en að líta í kringum sig innan marka sveitarfélagsins til þess að átta sig á því að starfsstöð yfirstjórnarinnar á heima hér í sveitarfélaginu. Vatnajökull er alltumlykjandi og hefur mótað líf og lífsskilyrði íbúa Austur - Skaftafellssýslu frá upphafi vega. Af þeim sökum yrði að mínu viti um alvarlegt stílbrot að ræða ef framkvæmdastjóri þjóðgarðsins yrði staðsettur einhvers staðar annars staðar en á Hornafirði. Tengsl framkvæmdastjórans við þjóðgarðinn verða hvergi betri en hér.
Ráðherra og formaður í heimsókn
Umhverfisráðherra, Þórunn Sveinbjarnardóttir og Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarmaður ráðherra, sem jafnfram er formaður yfirstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, eru væntanlegar í heimsókn til Hornafjarðar næsta miðvikudag. Í heimsókn þeirra munu þær funda með bæjarstjórn og kynna sér starfsemi helstu stofnana svæðisins. Þær munu t.d. kynna sér metnaðarfull verkefni Háskólasetursins í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð. Um kvöldið verður síðan haldin opinn fundur á Kaffi Horninu á vegum Samfylkingarinnar á Hornafirði kl. 20:00. Vill Samfylkingin á Hornafirði hvetja allt áhugafólk um umhverfismál, Vatnajökulsþjóðgarð og stjórnmálin almennt til þess að mæta á fundinn.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar og oddviti Samfylkingarinnar
10.2.2008 | 11:36
Nú falla öll vötn til Dýrafjarðar hjá Vilhjálmi
Mér sýnist á öllum fréttaflutningi að það styttist í afsögn Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, núverandi borgarstjóraefnis Sjálfstæðisflokksins. Hann er sagður íhuga pólitíska stöðu sína og er búinn að funda með formanninum.
Eina sem ég held að standi í vegi fyrir því að af þessu geti orðið strax er að Sjálfstæðismenn þurfa að gera upp við sig hver eigi að taka við af Villa sem þeirra forystumaður í borginni. Í bakherbergjunum fer fram valdabarátta á milli Hönnu Birnu og Gísla Marteins um það hver taki við af Vilhjálmi. Þegar úrslitin liggja fyrir í þeirri baráttu mun Vilhjálmur stíga niður af sviðinu.
Í mínum huga er ljóst að hvorugt þeirra er beinlínis trúverðugt til þess að taka að sér þetta verkefni eftir að hafa tekið þátt í koma núverandi meirihluta á koppinn sem gerði ráð fyrir því að Vilhjálmur tæki við sem borgarstjóri. Á sama tíma voru þau á fullri ferð í vinnu stýrihóps Svandísar að fara gaumgæfilega yfir embættisafglöp í borgarastjóratíð hans.
9.2.2008 | 17:53
Hvernig geta Hanna Birna og Gísli Marteinn stutt Villa áfram?
Það er með hreinum ólíkindum eftir það sem á undan er gengið að Hanna Birna Kristjánsdóttir og Gísli Marteinn Baldursson ætli að styðja Vlhjálm Þ. Vilhjálmsson í verða aftur borgarstjóri. Þau hafa í raun skrifað undir það að hann hafi brugðist trausti þeirra og borgarbúa.
En núna, í gegnum eitthvert ótrúlegasta valdrabrölt í íslenskri pólitík, ætla þau að klappa Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson aftur upp í borgarstjórastólinn með sérstakri aðstoð frá Ólafi F. Magnússyni, sem skv. síðustu mælingum, nýtur stuðnings 16 % borgarbúa.
Ég veit hreinlega ekki hvort er meira axarskaft:
Að gera það sem Hanna Birna og Gísli Marteinn skrifa upp á að Vilhjálmur hafi gert eða að klappa mann með slíka afrekaskrá aftur upp í borgarstjórastólinn.
Eins og staðan er í dag á Sjálfstæðisflokkurinn ekkert erindi í stjórn borgarinnar.
9.2.2008 | 10:46
Jákvæðir bloggarar
Á síðasta bæjarstjórnarfundi var töluvert rætt um fréttaflutning í sveitarfélaginu. Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins taldi að fréttaflutningur af vettvangi sveitarstjórnarmálanna væri hlutdrægur. Virtitst bæjarfulltrúinn draga þá ályktun að bloggsíða bæjarstjóra hefði of mikil áhrif á fréttaflutninginn. Taldið bæjarfulltrúinn m.a. að skrif bæjarstjórans á hans eigin bloggsíðu væru of jákvæð.
Nú er ég einn af virkum lesendum síðunnar hans Hjalta og get tekið undir það með bæjarfulltrúanum að pistlarnir hans einkennast af jákvæðni og gleði þannig að manni er oft hlátur í huga. Ég er nú þannig gerður að ég tel þessa eiginleika í pistlum bæjarstjórans vera heldur til bóta en greinilegt er að þetta á ekki við alla.
Meira að segja misvitrir bæjarfulltrúar gera sér grein fyrir því að bloggsíða bæjarstjóra er á hans eigin ábyrgð þar sem hann leitast við að segja bæjarbúum og öðrum frá þvi helst sem er á döfinni í starfi hans og sveitarfélaginu hverju sinni. Fleiri hafa tekið upp þetta háttalag t.a.m. æðsti prestur sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum og svo hefur einn tiltekinn ráðherra kenndur við dómsmál bloggað af miklum eldmóð í einhver ár.
Ef ritstjórnir annarra miðla kjósa að nýta sér skrif bæjarstjórans í sínum miðlum þá held ég að allir, og þar með taldir misvitrir bæjarfulltrúar, átti sig á því að ritstjórnirnar gera það á sína ábyrgð. Bæjarstjóri getur ekki stýrt því og hefur eftir minni bestu vitund ekki áhuga á því enda starf bæjarstjórans erilsamt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.2.2008 | 21:08
Frummatsskýrsla Vegagerðarinnar
Síðustu dagar og vikur hafa að miklu leyti farið í það að kynna sér niðurstöður Vegagerðarinnar í frummatsskýrslu hennar í tengslum við nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót. Þar kemur margt forvitnilegt í ljós og ýmsa spurningar vakna við lestur skýrslunnar. Vegagerðin ætlaði að halda opinn kynningarfun um málið í gær í Nýheimum en því miður þurfti að fresta honum þar sem ekki var hægt að fljúga vegna veðurs. Ákveðið hefur verið að halda fundinn að viku liðinni, fimmtudaginn 14. febrúar kl. 20:00.
Á bæjarstjórnarfundi á miðvikudaginn var samþykkt efitrfarandi bókun um málið sem bæjarstjórn Hornafjarðar mun senda inn til Skipulagsstofnunar sem athugasemd við frummatsskýrslu Vegagerðarinnar:
Niðurstaða matsvinnu Vegagerðarinnar vegna nýs hringvegar um Hornafjörð er að mæla með svokallaðri leið 1. Um þrjár meginleiðir er að ræða skv. tillögu Vegagerðarinnar en auk þeirra leggur Vegagerðin fram mismunandi útfærslu á þessum þremur leiðum, sbr. bls. 13 í frummatsskýrslu. Umhverfisáhrif, umferðaröryggi og greiðfærni ráða mestu um afstöðu Vegagerðarinnar. Bæjarstjórn Hornafjarðar er ósammála niðurstöðu Vegagerðarinnar í veigamiklum atriðum og leggur þar til grundvallar auknar vegstyttingar, umferðaröryggi og að draga sem mest úr áhrifum á hefðbundin landbúnaðarafnot.
Skipta má fyrirhugaðri framkvæmd í þrennt. Í fyrsta lagi liggur fyrirhugð leið um sveitina Mýrar sem er vestan Hornafjarðarfljóta. Í öðru lagi um Skógey sem er á milli Hornafjarðarfljóta og Hoffellssár. Í þriðja lagi liggur leiðin um Nesjasveit sem er austan Hornafjarðarfljóta.
Á Mýrum tekur Vegagerðin leið 1 umfram aðrar leiðir sem er með öllu óskiljanlegt vegna umferðaröryggis þar sem leið 1 liggur á sama stað og núverandi vegur við Holtabæi í gegnum þétta byggð og atvinnustarfsemi og sveigir þá til suðurs á milli Holts og Tjarnar. Bæjarstjórn Hornafjarðar telur mikilvægt að nýtt vegstæði liggi eins og leið 3 gerir ráð fyrir, þ.e. að sveigja frá núverandi hringvegi um 2,5 km fyrir austan Hólm og þaðan liggur hún sunnan við Stóraból og þverar Hornafjarðarfljót við móts við Skógey. Með þessu fækkar vegtengingum stórlega og eykur öryggi íbúa og vegfarenda.
Í matsvinnu Vegagerðarinnar segir á bls. 14 að hvaða leið sem sé valin um Skógey séu áhrifin sambærileg. Undir þetta mat getur Bæjarstjórn Hornafjarðar tekið.
Í Nesjum liggur leið 1 rétt norðan við ósa Laxá og þverar hana rétt neðan við Borgir og sveigir inn á núverandi hringveg við Árnanes. Bæjarstjórn Hornafjarðar vill benda á að á þessum slóðum er afar þétt byggð og mikil landbúnaðarstarfsemi. Á þessari leið liggur leiðin, skv. tillögu Vegagerðarinnar, yfir skeiðbraut hestamanna, yfir gróin tún í Borgum og yfir ræktunarlönd Akurness og Seljavalla. Ennfremur mun þessi leið ekki auka umferðaröryggi fram yfir núverandi ástand því vegtengingar verða jafnmargar og áður. Bæjarstjórn Hornafjarðar leggur áherslu á að vegurinn um Nesjasveit liggi sunnan við Árnanes eins og leið 3 gerir ráð fyrir. Sú veglagning styttir vegalengdir mest innan héraðsins og eykur umferðaröryggi stórlega umfram tillögu Vegagerðarinnar.
Stytting vegalengda innan Sveitafélagsins Hornafjarðar er grundvallaratriði að mati Bæjarstjórnar Hornafjarðar. Sú umtalsverða stytting sem verður samfara því að fara leið 3 samanborið við að fara leið 1 er það mikil að Bæjarstjórn Hornafjarðar telur að almannahagsmunir liggi við.
Bæjarstjórn Hornafjarðar er sammála um að leið 2 hafi umtalsverða ókosti í för með sér. Í fyrsta lagi hefur leiðin umtalsverð áhrif á landslag á austasta hluta leiðarinnar, þ.e. eftir að hún tekur land við Dilksnes. Þar er gert ráð fyrir að hún liggi í gegnum stór klapparholt sem geta talist einkennandi fyrir landslag á þessum slóðum. Ennfremur liggur hún yfir nær samfelldar sjávarfitjar á milli Árnaness og Dilksness. Þá liggur hún mun nær Árnanesbæjunum en leið 3. Bæjarstjórn Hornafjarðar hafnar því að leið 2 verði farin.
Bæjarstjórn Hornafjarðar telur einnig einsýnt að leið 3 hafi minni áhrif á landslag en leið 2 auk þess að leið 3 sker jarðir landeigenda í sveitafélaginu minnst þeirra þriggja leiða sem í mati eru. Helsti munur á milli leiðanna felst í því að leið 3 liggur yfir Flóa í Skarðsfirði sem er á náttúruminjaskrá. Á hinn bóginn liggur leið 3 ekki í sama mæli yfir sjávarfitjar og leið 2. Einnig bendir flest til þess að leið 3 hafi ekki jafn mikil áhrif á landslag og leið 2.
Til að milda umhverfisáhrif leiðar 3 leggur sveitarfélagið til að leiðin liggi ekki yfir Skarðsfjörð eins og núverandi tillaga gerir ráð fyrir heldur liggja austan Hafnarvegar í samræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins. Þessi leið mun ekki hafa umhverfisáhrif á Skarðsfjörð.
Leiðir 2 og 3 hafa það báðar sammerkt að stór hluti Nesjasveitar liggur ekki lengur í alfaraleið. Bæjarstjórn Hornafjarðar telur það mikilvægt að merkingar og auglýsingar verði settar upp við gatnamót þjóðvegar og Hafnarvegar þar sem þjónusta í sveitafélaginu verði auglýst.
Í frummatsskýrslu kemur fram á bls. 22 að kostnaður leiðar 1 sé samtals 2,324 milljarða kr. en leiðar 3 samtals 2,977 milljarða kr. Sveitarfélagið hefur áður gert athugasemdir við fjárhagslegt mat þessara kosta og telur útreikninga Vegagerðarinnar ótrúverðuga. Í útreikningum á kostnaði á leið 1 er ekki teknar inn í endurbætur á vegarkaflanum frá Hólmi að Holtum og einnig frá Árnanesi að Haga. Til að samanburður á milli valkosta Vegagerðarinnar sé sanngjarn þarf að taka endurbætur á þessum köflum með í dæmið. Fjárhagslegur munur á milli þessara kosta er því hverfandi að mati bæjarstjórnar og getur því ekki legið til grundvallar þegar endanlegt vegstæði verði valið.
Það er því niðurstaða Bæjarstjórnar Hornafjarðar að leið 3 í tillögum Vegagerðarinnar sé besti kosturinn af þeim leiðum sem hún leggur til að verði metnar í framkvæmdamati. Ekki síst vegna bætts umferðaröryggis sem og verulegra styttingu á vegalengdum innan sveitafélagsins sem leið 3 hefur í för með sér. Niðurstaða Bæjarstjórnar Hornafjarðar er því að leið 3 verði fyrir valinu með þeirri breytingu að ekki verði farið út í Skarðsfjörð með veginn.
Rétt er að hvetja alla sem áhuga hafa á málinu að kynna sér niðurstöðu í Frummatsskýrslunni sem og forsendur niðurstöðunnar.Hægt er að gera það hér, hér og hér. Eins og sjá má á bókuninni hér að ofan þá er bæjarstjórn algjörlega mótfallin niðurstöðu Vegagerðarinnar og ætti það ekki að koma nokkrum manni á óvart miðað við umræðuna.
8.2.2008 | 18:40
Stýrihópur Svandísar
Mér finnast niðurstöður stýrihóps Reykjavíkurborgar um Rei - málið um margt mjög merkilegar. Hins vegar fannst mér spyrillinn í Kastljósi í gær eyða helst til miklum tíma í að leggja fyrir Svandísi spurningar sem ekki komu þessari skýrslu á nokkurn hátt við. Það getur ekki verið í verkahring stýrihóps, sem skipaður er pólitískt kjörnum fulltrúum, að ákveða það hvort embættismenn hjá OR verði látnir sæta ábyrgð. Einnig getur svona hópur aldrei látið einstaklinga sæta pólitískri ábyrgð.
Ef fyrrverandi borgarstjóri, Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, telur að hann þurfi að endurskoða stöðu sína í ljósi þess hvað kemur fram í skýrslunni um umboðsleysi hans þá er það bara eðlilegt en stýrihópurinni getur aldrei farið fram á það. Sú endurskoðun verður fyrst og fremst að fara fram hjá honum og félögum hans í borgarstjórninni hjá Sjálfstæðisflokknum.
Ég held að spyrillinn hefði átt að gera meira úr niðurstöðum stýrihópsins. Þegar ég les niðurtöðurnar finnst mér meginlínan vera sú að það þurfi að skerpa á því að Orkuveitan er opinbert fyrirtæki og á starfa á þeim grunni. Bæta þurfi upplýsingastreymi til kjörinna fulltrúa, að skýra þurfi umboð annars vegar embættismannanna og kjörinna fulltrúa í stjórninni hins vegar og að eigendaaðhaldið verði virkara. Einnig er alveg ljóst að það er þverpólitísk sátt um það að Orkuveitan eigi að vera 100% í eigu opinberra aðila og það þykja mér mikilvæg tíðindi.
Niðurstöðurnar eru um margt forvitnilegar og ég held að þær ættu að geta orðið mönnum vegvísir um bætt vinnubrögð til framtíðar.
1.2.2008 | 22:38
Sjálfstæðisflokknum refsað fyrir brunaútsöluna á stefnuskránni
Reykvíkingar eru skynsamt fólk sem lætur ekki spila með sig. Það sýnir nýr þjóðarpúls Capacent Gallups á fylgi flokkanna í Reykjavík. Einnig kemur fram að nýr meirihluti og nýr borgarstjóri hafa ekki sterkt bakland á meðal borgarbúa svo ekki sé fastar að orði kveðið. Einungis 27% þáttakenda í könnuninni sögðust ánægð með nýja meirihlutann.
Sjálfstæðisflokkurinn verður að lifa við það að hafa selt öll sín stefnumál á brunaútsölu á altari pólitískrar endurreisnar Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar, sem áhöld eru um hvort njóti meira trausts en Ólafur F. Magnússon og er þá mikið sagt. En Ránfuglinn verður líka að lifa við það að hafa leitt til öndvegis í borgarstjórastólinn mann sem einungis 16% borgarbúa eru ánægðir með. Þetta verða Hanna Birna og Gísli Marteinn að lifa við þótt sá síðarnefndi hamist nú við að telja fólki trú um að hans hugsjónir hafi ekki verið hluti af brunaútsölunni.
Engar sögubækur, sem ég hef lesið um íslenska pólitík, segja frá jafn ömurlegri byrjun á nokkru pólitísku samstarfi og við höfum nú orðið vitni að. Ég veit ekki hvort það er hægt, en ég held að gamli góði Villi sé búinn að toppa sjálfan sig frá því í haust.
E.t.v. þagna nú raddirnar um það að þessi gjörningur Sjálfstæðismanna í borginni í síðustu viku hafi ekki ofboðið fólki. Menn ættu kannski að hugsa sig betur um þegar þeir segja að öll mótmælin hafi verið marklaus vegna þess að nýju minnihlutaflokkarnir hafi skipulagt þau. Mogginn gekk reyndar svo langt að segja að Samfylkingin ein og sér hefði staðið að mótmælunum. Gott ef Dagur hafi ekki bara skipulagt þau sjálfur, einn og óstuddur svo vondur og andlýðræðislegur er hann skv. Mogganum.
Hvernig ætli Styrmir bregðist við núna þegar í ljós kemur eftir þessi ósköp öll, að fólkið í borginni ber mest traust til Samfylkingarinnar og þar innan borðs er Dagur B. Eggertssonar? Hvaða ráðabrugg og óhróður koma Staksteinar til með að bjóða upp á þá? Óhróðurinn er alltaf í réttu hlutfalli við örvæntinguna þannig að við megum eiga von á flugeldasýningu núna.
En skynsemin er eina leiðin út úr þessum ógöngum fyrir félagana á ritstjórnarskrifstofunni og skynsemin felst í því að takast á við þá staðreynd að fólkið er einfaldlega hætt að taka mark á óhróðrinum eins og þjóðarpúls Gallups sýnir fram á.
1.2.2008 | 21:48
Skortur á heimilislæknum
Í Morgunblaðinu í gær var að finna ágætis frétt um þá stöðu sem upp er komin hjá heimilislæknum í landinu. Fyrirsjáanlegur er skortur á heimilslæknum og er vandamálið farið að koma fram á sumum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Fram kom hjá Elínborgu Bárðardóttur, formanni Félags heimilislækna, að á næstu 10 - 15 árum munu 75 heimilislæknar á landinu öllu hætta þegar þeir komast á eftirlaunaaldur. Einnig kom fram í máli hennar að um 25 læknar eru núna í sérnámi í heimilislækningum þannig að það er ljóst að endurnýjunin er ekki nógu mikil. Sá fjöldi lækna sem nú stundar nám í heimilislækningum mun hvergi nærri geta mannað allar þær stöður sem losna á næstu árum. Nú þegar er orðið alvarlegt ástand á ýmsum stöðum m.a. á höfuðborgarsvæðinu og í fréttinni kom fram álagið á starfandi heimilislækna er í mörgum tilvikum orðið gríðarlega mikið.
Í raun og veru eru þetta engar fréttir fyrir okkur sem störfum að heilbrigðismálum á Hornafirði og við erum þegar farin að finna fyrir þessu ástandi. Svona ástand kemur fyrst niður á þeim stöðum sem eru hvað mest einangraðir, þ.e. að langt er að sækja í aðra heilbrigðisþjónustu. Álag á lækna undir slíkum kringumstæðum er mjög mikið sem og ábyrgð.
Við höfum talað fyrir því að mikilvægt sé að taka upp umræðu um þessi mál með sérstakri áherslu á heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, sbr. þessa grein sem birtist í Morgunblaðinu 17. desember.
Í dreifbýlinu eru helsugæslan og heimilislæknarnir undirstaða allrar heilbrigðisþjónustu. Notendur eiga ekki um neina aðra kosti að velja þurfi þeir að sækja sér læknisaðstoð. Þess vegna er heilsugæslan ein mikilvægasta grunnstoðin í samfélagi eins og okkar á Hornafirði.
Sveitarfélagið stefnir að því að halda málþing í næsta mánuði um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Þar munu fulltrúar allra helstu fagstétta innan heilbrigðisgeirans, stjórnendur heilbrigðisstofnana taka þátt sem og kjörnir fulltrúar, bæði frá Alþingi og sveitastjórnum.
Vonir okkar standa til þess að málþingið verði vettvangur frjórra og opinskárra skoðanaskipta um þetta mikilvæga málefni sem geti orðið málefnalegt innlegg inn í hina eilífu umræðu um íslenska heilbrigðiskerfið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.1.2008 | 18:21
Bröltið í borginni borgarbúum og íhaldinu dýrt
Ljóst er að pólítísk endurreisn Vihjálms Þ. Vilhjálmssonar hefur verið dýru verði keypt. Ekki er nóg með að borgarbúar hafi þurft að punga út hundruðum milljóna fyrir Laugaveg 4 og 6 þá er ljóst að trúverðugleiki Sjálfstæðisflokksins hefur látið verulega á sjá ef marka má skoðanakönnun Fréttablaðsins í dag.
Búið er að opna tékkhefti borgarbúa upp á gátt til þess eins að koma Vilhjálmi aftur í borgarstjórastólinn sem hann hrökklaðist svo sneypulega úr fyrir nokkrum mánuðum. Húseigendur við Laugaveginn hljóta að kætast og þeir gætu í ljósi síðustu atburða ákveðið að reyna á vilja nýs meirihluta í friðunarmálum. Borgarstjórnarmeirihlutinn er búinn að gefa tóninn með það hvað slík kaup mega kosta borgarbúa. Allt til þess að gamli góði Villi fái annað tækifæri sem borgarstjóri. Sexmenningarnir virðast tilbúnir að fórna öllum fyrri gildum og sannfæringu til þess eins að taka þátt í pólitískum björgunarleiðangri fyrir gamla góða Villa.
Það er vonandi að skoðanakönnun Fréttablaðsins um fylgi flokkanna landsvísu sé ábending um það að fólki sé misboðið vegna skefjalauss valdabrölts Sjálfstæðismanna í borginni. Mikilvægt er að því sé haldið á lofti, fram að næstu sveitarstjórnarkosningum, hvernig Sjálfstæðisflokkurinn komst aftur til valda í borginni og að sexmenningarnir svokölluðu tóku þátt í því af heilum hug. Þetta segi ég vegna þess að það má vera öllum ljóst að sexmenningarnir munu, minnugir þess hvernig Villi hélt þeim fyrir utan REI - málið, kosta öllu til svo Vilhjálmur komi hvergi nálægt borgarmálunum aftur. Þá má ekki gleyma því að þau lögðu blessun sína yfir þann hildarleik sem fram fór í ráðhúsinu í síðustu viku.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
30.1.2008 | 22:51
Störf án staðsetningar
Eitt af því sem ég fylgist sérstaklega með í ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks eru störf án staðsetningar. Þetta var eitt þeirra byggðamálefna sem Samfylkingin setti á oddinn í síðustu kosningum. Enda segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar undir millifyrirsögninnni, landið verði eitt búsetu - og atvinnusvæði:
"Skilgreind verði þau störf á vegum ríkisins sem hægt er að vinna án tillits til staðsetningar og þannig stuðlað að fjölgun starfa á landsbyggðinni."
Það er sérstaklega markmiðið með stefnunni sem vekur áhuga minn en það er að stuðla að fjölgun starfa á landsbyggðinni. Starf framkvæmdastjóra yfirstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs er í mínum huga þess eðlis að starfsmaðurinn á að vera staðsettur í nærumhverfi þjóðgarðsins. Í Sveitarfélaginu Hornafirði höfum við lengið bundið vonir við það að starfsstöð yfirstjórnar eða höfuðstöðvar þjóðgarðsins verði staðsettar í sveitarfélaginu. Fyrir því barðist okkar fulltrúi í yfirstjórninni, Hjalti Þór Vignisson bæjarstjóri, með kjafti og klóm. Það urðu okkur því nokkur vonbrigði þegar okkar sjónarmið urðu undir í stjórninni.
Að auglýsa þetta starf án tillits til staðsetningar finnst mér þó að sumu leyti ganga gegn markmiðum ríkisstjórnarinnar um störf án staðsetningar. Það gæti hreinlega þýtt að starfsmaðurinn yrði staðsettur á höfuðborgarsvæðinu og miðað við stefnuyfirlýsinguna þá var það aldrei ætlunin. Við þekkjum það úr þjóðgarðinum í Skaftafelli hvernig það er að láta fjarstýra þjóðgarði úr 400 km. fjarlægð. Það gaf ekki nógu góða raun og þess vegna viljum við fyrir alla muni forðast að það verði raunin á nýjan leik.
Þetta eru að mínu mati málefnaleg rök sem ég trúi og vona að yfirstjórn Vatnajökulsþjóðgarðs taki til athugunar þegar að ráðningu framkvæmdastjóra kemur.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Af mbl.is
Íþróttir
- Stórleikurinn olli vonbrigðum
- Hef aldrei upplifað annað eins
- Diljá skoraði þegar Leuven komst á toppinn
- Meistararnir niðurlægðir á heimavelli (myndskeið)
- Stórleikur Ómars dugði ekki til
- Sveindís kom af bekknum og skoraði tvö
- Fjögurra marka veisla í Birmingham (myndskeið)
- Brasilískt þema í frábærum útisigri (Myndskeið)
- Rautt spjald í markalausu jafntefli (myndskeið)
- Sterkur sigur Brighton (myndskeið)