Leita í fréttum mbl.is

Sundabraut - Sundagöng

Ég er búinn að fylgjast vel með umræðunni um Sundabraut eða Sundagöng eftir því hvaða leið mönnum finnst að eigi að fara. Það dylst engum sem fylgst hafa með því máli að einhugur er í borgarstjórn um að fara gangnaleiðina. Um eitthvað verður borgarstjórn að vera sammála. Það hefur heldur ekki farið fram hjá nokkrum manni að Vegagerðin leggur til að farin verði svokölluð Eyjaleið. Mismunurinn í verði á milli þessara tveggja kosta eru litlir 9 milljarðar. Þar er um umtalsverða peninga að ræða.

Ég get auðvitað vel skilið afstöðu borgarstjórnar í þessu máli. Borgarfulltrúarnir eru einfaldlega að berjast fyrir þeirri leið sem þeir trúa að muni koma Reykvíkingum best. Aðstæður mínar eru ekki þannig að ég treysti mér til að dæma um það hvor leiðin er betri en ég treysti því og trúi að borgarfulltrúarnir viti hvað þeir eru að tala um. En að sama skapi treysti ég líka Vegagerðinni til þess að vinna sína vinnu af fagmennsku og heilindum.

Mér fannst t.a.m. undarlegt að heyra það hjá einum borgarfulltrúa, Svandísi Svavarsdóttur, að hún teldi pólitískar ástæðurn vera fyrir því að Vegagerðin leggði fram tillögu um Eyjaleið. Fleiri kjörnir fulltrúar í Reykjavík. bæði í borgarstjórn og á Alþingi, hafa talað á svipuðum nótum og ég hef verið töluvert hugsi yfir málflutningnum oft á tíðum.

Nú er þetta örugglega ekki fyrsta sinn sem Vegagerðin leggur fram tillögur sem sveitarstjórnum vítt og breitt um landið hugnast ekki. Er Vegagerðin í þeim tilvikum einnig í pólitískum leik? Ég neita að trúa því. Ég held að Árni Johnsen hafi viðhaft svipaðan málflutning um útreikninga Vegagerðarinnar á jarðgöngum til Vestmannaeyja. Mig minnir að fáir hafi beinlínis tekið mark á honum.

Nú hefur Vegagerðin lagt fram frummatsskýrslu sína um nýjan hringveg um Hornafjörð. Niðurstaða Vegagerðarinnar í þeirri skýrslu gengur þvert gegn viljar bæjarstjórnarinnar. Bæjarstjórnin vill fara leið 3 sem liggur næst þéttbýlinu á Höfn og styttir vegalengdir innan sveitarfélagsins mest. Okkar mat er því að hún muni hafa jákvæðustu áhrifin á búsetuskilyrði í sveitarfélaginu og við teljum einnig að sú leið stuðli að mestu umferðaröryggi. Sú leið sem bæjarstjórninni hugnast best er skv. útreikningum Vegagerðarinnar um 600 milljónum króna dýrari en leið Vegagerðarinnar. Reyndar erum við ekki sammála útreikningum Vegagerðarinnar. Við teljum óskiljanlegt að Vegagerðin skuli í útreikningum sínum á þeirri leið, sem hún leggur til, ekki gera ráð fyrir endurbótum á ákveðnum köflum þjóðvegarins sem hefðu lent fyrir utan nýtt vegstæði ef leið bæjarstjórnar hefði orðið ofan á. Þangað til það verður gert er það skoðun okkar að verið sé að bera saman epli og appelsínur.

Ég lít í raun og veru svo á, að við séum í nákvæmlega sömu stöðu gagnvart Vegagerðinni og samgönguyfirvöldum í landinu og Reykjavík er í Sundabrautarmálinu en upphæðirnar og stærðirnar eru e.t.v. ekki þær sömu. Þannig kýs ég einnig að líta svo á, að ef menn ákveða að ganga gegn faglegu mati Vegagerðinnar í Reykjavík, þá ætti þessum sömu aðilum ekki að verða skotaskuld úr því að láta slíkt verklag dreifast til annarra landshluta.

Annars fannst mér Þorsteinn Pálsson lýsa því vel í þessum leiðara í hvers lags blindgötu skipulagsmál eins og þessi geta ratað.   


Óhróður Morgunblaðsins - hrunadans Styrmis

Síðustu vikur Styrmis í ritstjórastjól Morgunblaðsins ætla að verða einn samfelldur hrunadans. Afrek samflokksmanna Styrmis í borginni í síðastliðinni viku eru með því ógeðfelldara sem maður hefur orðið vitni að. Þetta veit ritstjórinn og er þess vegna tilbúnari en oft áður til þess að ástunda smjörklípuhernaðinn (hans sérgrein) sem aldrei fyrr. Hverjum hafa þeir ákveðið að ráðast að? Jú, auðvitað Degi B. Eggertssyni, fyrrverandi borgarstjóra.

Ritstjóranum hefur auðvitað ekki líkað að Dagur B. Eggertsson er sá einstaklingur sem ber höfuð og herðar yfir aðra sem koma að þessum málum. Honum líkar ekki að Reykvíkingar hafa sagt með mjög skýrum hætti að Dagur B. Eggertsson verði áfram borgarstjóri. Þetta þolir Mogginn ekki. Auðvitað þarf það ekki að koma neinum á óvart. En það sem gerir þessar aðstæður verri en venjulega er sú staðreynd að Sjálfstæðisflokkurinn á sjálfur í mikilli tilvistakreppu í Reykjavík og þeirra forystumaður, gamli góði Villi er algjörlega rúinn trausti sinna eigin flokkamanna. Þegar Sjálfstæðismenn eru í slíkum örvæntingardansi helgar tilgangurinn alltaf meðalið hjá Mogganum og Styrmi og öllum brögðum er beitt. Fréttum, svokölluðum fréttaskýringum og staksteinum er beint að Degi B. Eggertssyni og sögur beinlínis búnar til á ritstjórnarskrifstofunni til þess að gera Dag ótrúverðugan.

Það er vont að ekki er hægt að kjósa í Reykjavík í dag til að veita kjósendum tækifæri til þess að refsa Íhaldinu. Þess vegna er það mjög mikilvægt fyrir kjósendur í Reykjavík að muna það þegar gengið verður til kosninga næst og búið verður fleygja gamla góða Villa á pólitíska ruslahauga Reykjavíkurborgar, að Gísli Marteinn og Hanna Birna tóku fullan þátt í útsölu stefnumálanna og uppboði borgarstjórastjólsins.

Hitt þótti mér verra þegar Vilhjálmur sjálfur hæddist að núverandi borgarstjóra áður en hann tók við embætti og sagði að Ólafur F. væri jafn tilbúinn og hann sjálfur hefði verið fyrir einu og hálfu ári síðan til þess að taka við borgarstjórastólnum. Það fannst mér illa sagt.


Fundarsköp borgar - og bæjarstjórnar

Mótmælin á pöllum fundarsals ráðhúss Reykjavíkurborgar hafa orðið ýmsum spekúlöntum tilefni til umræðna um fundarsköp í bland við annað t.d. skrílslæti sem er auðvitað ofmælt. Þó er e.t.v. hægt að segja svona eftir á að mótmælin hafi farið aðeins úr böndunum. Það segi ég ekki vegna þess að ég hafi einhverja samúð með Ólafi F., Villa og co heldur vegna þess að svona uppákomur koma Sjálsfstæðismönnum alltaf í það sæti sem þeim líður best í, þ.e. fórnarlambssætinu. Að vera fórnarlamb er auðvitað eitthvað sem mér finnst Davíð, bankastjóri hafa gert að listgrein á sínum ferli sbr. þessa frétt. En umræðan um fundarsköpin í tengslum við mótmælin á pöllunum hefur haldið hugsun minni um nauðsyn þess að endurskoða samþykkt míns sveitarfélags um fundarsköp þess. En það er ekki vegna þess að ég óttast aðra eins uppákomu hér á Hornafirði og átti sér stað í Reykjavík á fimmtudaginn heldur hef ég talið tímabært að endurskoða þessi mál á almennum grunni.

Á bloggi sínu í gær minnist bæjarstjóri, Hjalti Þór Vignisson (nýskriðinn yfir þrítugt) á þetta mikilvæga mál sem ég hef velt töluvert fyrir mér undanfarna mánuði en það er samþykkt sveitarfélagsins um stjórn og fundarsköp. Ég held að það sé full ástæða fyrir okkur í sveitarstjórninni að taka þessi mál til gagngerrar endurskoðunar. Það er orðið löngu tímabært.

Í þessu sambandi held ég líka, eins og bæjarstjóri tæpir á í sínum pistli, að mikilvægt sé líka að fara vel yfir verksvið nefnda sveitarfélagsins og nefndakerfið allt í heild sinni. Ég held að það verði að vera markmið endurskoðunarinnar að auka vald og vægi nefnda sveitarfélagsins. Með því væri stuðlað að aukinni valddreifingu innan hins pólitíska stjórnkerfis sveitarfélagsins. Í dag er málum þannig háttað að nánast öll mál sveitarfélagsins rata inn á borð bæjarráðs. Það er full ástæða til þess að kanna það hvort hægt er breyta þessu með einhverjum hætti þannig að nefndum sé heimil fullnaðarafgreiðsla mála til bæjarstjórnar.

Ég vonast til þess að geta átt góðar umræður um málið á næsta bæjarstjórnarfundi sem haldinn verður miðvikudaginn 6. febrúar. Ástæðan fyrir þessum afbrigðilega fundartíma bæjarstjórnar er sú að fimmtudaginn 7. febrúar fyrirhugar Vegagerðin að halda opinn borgarafund um frummatsskýrslu sína um nýtt vegstæði yfir Hornafjarðarfljót. Set inn pistil um það fljótlega.


Það er spurning hvort það myndist stemning

Mér fannst svolítið hjákátlegt að hlusta á Geir H. Haarde og Gísla Martein kallast á í fréttatímum í þessari viku. Geir segir ekki sé stemning fyrir því í þjóðfélaginu í dag að einkavæða Landsvirkjun en Gísli Marteinn svarar á móti að það sé vel mögulegt að með umræðunni þá komi sú stemning til með að myndast.

Það sem forsætisráðherrann var örugglega að meina var að í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi er alls enginn pólitískur vilji fyrir því að einkavæða Landsvirkjun og því tómt mál að tala um. Þvert á móti er unnið að því hörðum höndum í iðnaðarráðuneytinu þessa dagana að sníða löggjöfina um orkuauðlindirnar að almannahagsmunum. Þannig að það verði tryggt að auðlindirnar sjálfar verði alltaf í almannaeigu. Þetta hlýtur að verða eitt af forgangsverkefnum jafnaðarmanna í ríkisstjórn að þessar stórkostlegu auðlindir verði um ókomna tíð í almannaeigu. Það yrði stórkostlegt áfall fyrir okkur jafnaðarmenn ef ekki tækist að hrinda þessum áformum í framkvæmd á kjörtímabilinu. Miðað við köll Gísla Marteins að forsætisráðherranum er ljóst að Samfylkingin verður að standa almannavaktina í stjórnarráðinu eins og venjulega þar sem einkavæðing Landsvirkjunar á sér greinilega mikinn hljómgrunn innan Sjálfstæðisflokksins. 

Þannig að það er vonandi að stemningsleysið verði áfram allsráðandi í Valhöll í þessum málum.

 


Fjölskyldustefna sveitarfélagsins

  Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Eystra Horni fimmtudaginn 13. desember:

 

Á næsta ári fyrirhugar bæjarstjórn Hornafjarðar að hrinda af stað metnaðarfullri vinnu við gerð fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið. Að mínu mati er það sannarlega orðið tímabært verkefni fyrir okkur sem störfum á vettvangi sveitarstjórnarmála að skoða málefni fjölskyldunnar hér í okkar samfélagi og taka á þeim með heildstæðum hætti. Auðvitað eru málefni tengd fjölskyldunni ávallt inni á borði okkar sveitarstjórnarmanna og flest þau mál sem rata til okkar tengjast með einum eða öðrum hætti fjölskyldunum. Um það eru bæjarfulltrúar meðvitaðir og þess vegna hefur bæjarstjórn lagt á það áherslu að vinnu við gerð fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið verði hrundið af stað.

            Að mínu mati er hér um að ræða eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið sem núverandi bæjarstjórn kemur til með að vinna að á kjörtímabilinu. Verkefnið nær yfir mjög vítt svið og kemur inn á marga þætti sem snerta okkar daglega líf. Eitt stærsta verkefnið í þessari stefnumótunarvinnu verður að greina kostnað fjölskyldna í sveitarfélaginu vegna leikskólagöngu, tónlistarnáms, lengdrar viðveru og iðkendagjalda í æskulýðs - og íþróttastarfi. Sérstök áhersla verður lögð á það að skoða þann systkinaafslátt sem er í boði  hjá sveitarfélaginu og hvort hægt sé að útvíkka hann með einhverjum hætti, t.d. hvort mögulegt er að láta hann gilda á milli skólastiga. Einnig er lögð áhersla á að kanna kosti þess að taka upp svokölluð frístundakort í tengslum við æskulýðs - og íþróttastarf í sveitarfélaginu.

            En fjölskyldustefna getur ekki bara tekið mið af þörfum yngstu kynslóðarinnar. Í fjölskyldustefnunni er mikilvægt að staða aldraðra í sveitarfélaginu verði tekin til sérstakrar skoðunar þannig að hægt verði að greina og meta þörfina á úrbótum í húsnæðismálum, félagslífi og stoðþjónustu fyrir aldraða. Góðar aðstæður fyrir aldraða í sveitarfélaginu skipta ekki síður miklu máli fyrir þær fjölskyldur sem hér búa.

            Öll sveitarfélög landsins velta mjög fyrir sér málefnum fjölskyldunnar um þessar mundir. Forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa gert sér grein fyrir því að samkeppnishæfni sveitarfélaganna felst ekki síst í því að geta boðið fjölskyldunum upp á sem best lífsskilyrði. Opinber þjónusta á vegum sveitarfélagsins er stór þáttur í lífi fjölskyldnanna. Þess vegna er það mikilvægt að hún sé skoðuð sérstaklega þannig að íbúarnir fái notið metnaðarfullrar þjónustu á vegum sveitarfélagsins. Markmiðið með mótun fjölskyldustefnunnar verður því alltaf að vera bætt þjónusta og þar með aukin ánægja íbúanna.


Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag:

Frá árinu 2003 hefur verið í gildi þjónustusamningur á milli Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytisins og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um rekstur heilbrigðis - og öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu. Þjónustusamningurinn frá 2003 á rætur sínar að rekja í reynslusveitarfélagsverkefnið um heilbrigðis - og öldrunarmál frá árinu 1996. Bæði Sveitarfélagið Hornafjörður og Akureyrarbær voru þátttakendur í því verkefni. Verkefninu var ætlað að skera úr um það hvort sveitarfélögin í landinu væru í stakk búin til þess að taka við þessum verkefnum af ríkinu. Að reynslusveitarfélagsverkefninu loknu var tekin ákvörðun um að halda samstarfinu áfram í gegnum þjónustusamninga.

Það er enginn vafi á því í mínum huga eftir reynslu mína í tengslum við þjónustusamninginn að öldrunarþjónustan á heima hjá sveitarfélögunum. Þar er um að ræða nærþjónustu sem sveitarfélögin geta vel leyst af hendi. Ef sveitarfélögin á landsvísu eiga að taka við þessari þjónustu þá geri ég mér grein fyrir því að það verður aldrei gert í gegnum þjónustusamninga. Slík tilfærsla verkefna mun aldrei eiga sér stað nema sveitarfélögin taki við verkefninu af hendi ríkisins og tekjustofnarnir fylgi með.

            Auðvitað er um að ræða gríðarstórt verkefni og úrlausnarefnin eru brýn. Það er hins vegar mín skoðun að reynslan á Akureyri og Hornafirði sýni að þetta er svo sannarlega gerlegt. Þessi sveitarfélög eru a.m.k. ekki á þeim buxunum að eftirláta ríkinu verkefnið á nýjan leik. Sú afstaða sýnir betur en margt annað hvar sveitarstjórnarmenn, á þessum stöðum, telja að vista eigi öldrunar - og heilbrigðismálin til framtíðar.

Bætt öldrunarþjónusta

Það er engum blöðum um það að fletta að samningurinn hefur skilað Hornfirðingum bættri öldrunarþjónustu. Í þjónustukönnun, sem Capacent framkvæmdi fyrir sveitarfélagið fyrr á þessu ári kom fram mikil ánægja með öldrunarþjónustuna. Samningurinn hefur gert okkur kleift að þróa samrekstur ýmissar þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Nægir þar að nefna heimahjúkrun og félagslega heimilisþjónustu. Af þessu hefur hlotist töluvert hagræði.

            Á samningstímanum og á grundvelli samningsins hefur tekist að stórefla heimahjúkrun í sveitarfélaginu en á móti hefur þeim einstaklingum sem eru í langlegurýmum fækkað umtalsvert. Það má því til sanns vegar færa að stjórnendur hafi náð góðum árangri í öldrunarþjónustunni og hafi tekist að framfylgja stefnu stjórnvalda, þ.e. að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í heimahúsum. Heimahjúkrun er hins vegar ekki ókeypis og mikilvægt að gert sé ráð fyrir áframhaldandi öflugri heimahjúkrun í nýjum samningi til þess að hægt verði að halda áfram á sömu braut.

Skýrlsa Ríkisendurskoðunar og erfið staða í læknamálum

Í janúar síðastliðnum óskuðu forsvarsmenn Sveitarfélagsins Hornafjarðar eftir því við Ríkisendurskoðun að stofnunin framkvæmdi stjórnsýsluúttekt á framkvæmd samningsins. Töluverð fjölmiðlaumræða fór af stað í kjölfar útkomu skýrslunnar.

Eitt þeirra atriða, sem Ríkisendurskoðun nefnir í sinni skýrslu, er mönnunarvandi heilbrigðisstofnunarinnar þegar kemur að læknaráðningum. Illa hefur gengið á undanförnum árum að ráða lækna til stofnunarinnar á heilsársgrunni. Í skýrslunni kemur hins vegar fram að mönnunarvandi lækna einskorðist ekki við Hornafjörð heldur sé ljóst að um landsbyggðarvanda er að ræða. Ekki sé því eingöngu við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands að sakast hvað þetta varðar. Þessi sjónarmið Ríkisendurskoðunar getur undirritaður tekið undir.

            Ríkisendurskoðun bendir á að starfsaðstæður heimilislækna hafi breyst á undanförnum árum. Margt bendir til þess að álag á lækna á landsbyggðinni sé umtalsvert meira en annars  staðar vegna fjarlægðar í sjúkrahús og mikils vaktaálags.  Í fámennum læknahéruðum þurfa heimilislæknar að glíma við erfiða sjúkdóma og bráðatilfelli sem annars staðar eru leyst á sjúkrahúsum. Einnig er launamunur lækna á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni umtalsvert minni en fyrir nokkrum árum sem dregur úr hvata lækna til að setjast að á landsbyggðinni. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að ráðuneytið, ásamt hlutaðeigandi aðilum, ráðist í greiningu á þessum vanda sem fyrst og þar er ég sammála skýrlsuhöfundum.

Ég tel það orðið tímabært að stjórnmálamenn og aðrir sem með þennan málaflokk fara setji heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni ofar á dagskrá stjórnmálanna en verið hefur. Sérstaklega í ljósi þess að í náinni framtíð er fyrirsjáanlegur enn meiri vandi við að manna læknastöður á landsbyggðinni. Við þurfum því að setjast niður og leita leiða til þess að bregðast við. Meðal þeirra spurninga sem stjórnmálamenn verða að velta fyrir sér er hvort heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni lúti öðrum lögmálum en á höfuðborgarsvæðinu. Við verðum að velta fyrir okkur hvernig hægt verður að tryggja hámarksgæði án þess að þeir starfsmenn sem eiga að veita þjónustuna kulni í starfi. Það er afar brýnt að strax verði hafin stefnumótunarvinna í málefnum heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar.    


Ríkisstjórn jafnaðarmanna

Greinilegt er af fréttum dagsins að dæma að jafnaðarmenn eru sestir í ríkisstjórn. Í dag kynnti ríkisstjórnin mjög þörf og brýn skref í þá átt að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja. Ég var sérstkaklega ánægður með að sjá að afnumið verði hið niðurlægjandi ákvæði að skerða tryggingabætur aldraðra og öryrkja vegna tekna maka.

Hér er að mínu mati verið að stíga mikil framfaraspor í íslensku samfélagi. Eftir áratuga stöðnun í málefnum þessara hópa er komin ríkisstjórn sem tilbúin er að taka á þessum málum. Þetta eru mál sem Samfylkingin lagði gríðarlega mikla áherslu á í kosningabaráttunni síðastliðið vor. Þess vegna er það mjög ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli kynna þessar áherslur sínar svona snemma á kjörtímabilinu.

Það er greinilegt áherslur jafnaðarmanna hafa orðið ofan í ríkisstjórnarsamstarfinu og er það mjög gleðilegt. Eins og fyrri daginn, þá hefur það sannast að það þarf jafnaðarmenn til þess þess að reka jafnaðarstefnu.


Fjölskyldustefnu hrundið af stað

Á bæjarráðsfundi í dag var til umræðu, ásamt ýmsu öðru, drög að erindisbréfi fyrir stýrihóp sem verður falið að halda utan um vinnu sveitarfélagsins við gerð fjölskyldustefnu.

Eitt helsta markmiðið með gerð stefnunnar er að ná fram heildarsýn og markvissu starfi í málefnum fjölskyldunnar. Það er brýnt mál fyrir sveitarfélag eins og okkar að það sé samkeppnishæft við önnur sveitarfélög í málefnum fjölskyldunnar. Með þessu er átt við að sveitarfélagið leiti ávallt leiða til þess að bjóða fjölskyldum og fjölskyldufólki upp á sem besta þjónustu með eins litlum kostnaði og mögulegt er.

Samfylkingin á Hornafirði var í framboði til sveitarstjórnar undir kjörorðinu sterkara samfélag - allir með, sem var reyndar kjörorð Samfylkingarinnar á landsvísu í þeim kosningum. Verkefni eins og þetta, sem miðar að því að bæta hag fjölskydnanna í sveitarfélaginu og að gera samfélagið eins fjölskylduvænt og mögulegt er ríma svo sannarlega vel við slagorð okkar frá því í kosningabaráttunni.

Vinna við slíka stefnumótun er líka kjörið tækifæri til þess að greina stöðuna eins og hún er í sveitarfélaginu. Þá fáum við tækifæri til þess að sjá hvað er vel gert og hvar tækifærin til framfara liggja.

Hluti af starfi stýrihópsins verður væntanlega að greina kostnað fjölskyldna vegna leikskólagöngu, tónlistarnáms, lengdrar viðveru og iðkendagjalda í æskulýðs - og íþróttastarfi. Hérna er mikilvægt að gerður verði samanburður við önnur sveitarfélög og okkar staða könnuð með tilliti til stöðunnar hjá öðrum sveitarfélögum. Einnig verður það í verkahring stýrihópsins að kanna sérstaklega kosti systkinaafslátta og kosti þess að taka upp frístundakort.

Þetta var mál Samfylkingin á Hornafirði lagði mikla áherslu á að yrðu skoðuð á þessu kjörtímabili í kosningabaráttunni. Það er sannarlega gleðilegt að hreyfing er komin á málin.


Gagnlegur borgarafundur

Ég var rétt í þessu að koma af mjög gagnlegum og skemmtilegum borgarafundi á Hrollaugsstöðum í Suðursveit. Á fundinum sköpuðust mjög málefnalegar umræður sem munu án efa gagnast kjörnum fulltrúum sem og starfsmönnum sveitarfélagsins í vinnu sinni á næstunni.

Fundurinn byrjaði á því að Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri kynnti metnaðarfulla fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, sem tekin verður til annarrar umræðu í bæjarstjórn í næstu viku. Töluverðar umræður sköpuðust um málefni sveitarfélagsins í heild út frá kynningu bæjarstjórans.

Annar liður á dagskrá fundarins voru málefni Vatnajökulsþjóðgarðs. Í þeim umræðum kom berlega í ljós að fundurinn í Suðursveit gat ekki komið á betri tíma. Fram kom að landeigendur eru alls ekki sáttir við gang viðræðna við umhverfisráðuneytið. Í máli þeirra kom fram að ekkert hefur verið rætt við þá síðan um mitt sumar. Þetta er auðvitað ekki nógu gott og ráðuneytið verður að setja meiri kraft í þessa vinnu.  

Í tengslum við Vatnajökulsþjóðgarð var einnig töluvert rætt um tillögu svæðisráðsins okkar innan Vatnajökulsþjóðgarðs vegna staðsetningar á gestastofu þjóðgarðsins við Hornafjörð. Sitt sýndist hverjum um það mál en ég tel þó að það hafi tekist nokkuð vel að útskýra okkar sjónarmið í því máli.  En þetta var umfram allt mjög skemmtilegur og gagnlegur fundur. Fulltrúar sveitarfélagsins fóru vel nestaðir og fóðraðir af fundinum með Suðursveitungum, það er víst.


Suðurlindir og kostuleg fundargerð

Það voru sannarlega glæsileg tilþrif hjá Hafnfirðingum, Grindvíkingum, Sveitarfélaginu Vogum að stofna félag um orkuauðlindrinar í iðrum jarða innan sinna sveitarfélaga. Þetta samkomulag skapar að mínu mati mikil tækifæri til framtíðar fyrir þessi sveitarfélög. Eftir darraðadansinn í kringum Hitaveitu Suðurnesja og lausatök Árna Sigfússonar á því fyrirtæki þarf það ekki að koma neinum á óvart að sveitarfélögin sáu sér þann kost vænstan að bjarga auðlindunum sjálfum undan braski kaupsýslumanna.

Orkumálin hafa verið mál málanna í pólitíkinni á þessu hausti og ég held að flestir Íslendingar séu þeirrar skoðunar að auðlindirnar sjálfar eigi að vera í almannaeigu. Stofnun Suðurlinda er sannarlega liður í því að tryggja það en ég bind miklar vonir við það að Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra nái, í gegnum lagasetningu, að tryggja það að aulindirnar verði um alla tíð í almannaeigu.

Kostuleg fundargerð

Að lokum vil ég benda lesendum á þessa stórskemmtilegu fundargerð frá fundi bæjarstjórnar Hornafjarðar í síðustu viku. Vil ég sérstaklega benda fólki á þá þau stórkostlegu stílbrögð minnhlutans að halda því fram að "meirihlutinn sé kominn út úr skápnum". Á einum stað í fundargerðinni sér annar fulltrúa minnihlutans sérstaka ástæðu til þess að árétta það að hann sé ennþá Sjálfstæðismaður. Áður hafði verið sleginn svo yndislega fallegur jafnaðarmannatónn í máli hans að ég sá sérstaka ástæðu til þess að bjóða hann velkominn í hópinn. Það vildi hann hins vegar ekki kannast við og sá ástæðu til þess að koma því á framfæri að hann væri sjálfstæðismaður og var það fært til bókar. Enda ekki vanþörf á því.

Ef þessi fundargerð er ekki skemmtilesning þá veit ég ekki hvað þótt hún sé að mínu mati heldur í lengri kantinum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband