Leita í fréttum mbl.is

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni

Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag:

Frá árinu 2003 hefur verið í gildi þjónustusamningur á milli Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytisins og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um rekstur heilbrigðis - og öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu. Þjónustusamningurinn frá 2003 á rætur sínar að rekja í reynslusveitarfélagsverkefnið um heilbrigðis - og öldrunarmál frá árinu 1996. Bæði Sveitarfélagið Hornafjörður og Akureyrarbær voru þátttakendur í því verkefni. Verkefninu var ætlað að skera úr um það hvort sveitarfélögin í landinu væru í stakk búin til þess að taka við þessum verkefnum af ríkinu. Að reynslusveitarfélagsverkefninu loknu var tekin ákvörðun um að halda samstarfinu áfram í gegnum þjónustusamninga.

Það er enginn vafi á því í mínum huga eftir reynslu mína í tengslum við þjónustusamninginn að öldrunarþjónustan á heima hjá sveitarfélögunum. Þar er um að ræða nærþjónustu sem sveitarfélögin geta vel leyst af hendi. Ef sveitarfélögin á landsvísu eiga að taka við þessari þjónustu þá geri ég mér grein fyrir því að það verður aldrei gert í gegnum þjónustusamninga. Slík tilfærsla verkefna mun aldrei eiga sér stað nema sveitarfélögin taki við verkefninu af hendi ríkisins og tekjustofnarnir fylgi með.

            Auðvitað er um að ræða gríðarstórt verkefni og úrlausnarefnin eru brýn. Það er hins vegar mín skoðun að reynslan á Akureyri og Hornafirði sýni að þetta er svo sannarlega gerlegt. Þessi sveitarfélög eru a.m.k. ekki á þeim buxunum að eftirláta ríkinu verkefnið á nýjan leik. Sú afstaða sýnir betur en margt annað hvar sveitarstjórnarmenn, á þessum stöðum, telja að vista eigi öldrunar - og heilbrigðismálin til framtíðar.

Bætt öldrunarþjónusta

Það er engum blöðum um það að fletta að samningurinn hefur skilað Hornfirðingum bættri öldrunarþjónustu. Í þjónustukönnun, sem Capacent framkvæmdi fyrir sveitarfélagið fyrr á þessu ári kom fram mikil ánægja með öldrunarþjónustuna. Samningurinn hefur gert okkur kleift að þróa samrekstur ýmissar þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Nægir þar að nefna heimahjúkrun og félagslega heimilisþjónustu. Af þessu hefur hlotist töluvert hagræði.

            Á samningstímanum og á grundvelli samningsins hefur tekist að stórefla heimahjúkrun í sveitarfélaginu en á móti hefur þeim einstaklingum sem eru í langlegurýmum fækkað umtalsvert. Það má því til sanns vegar færa að stjórnendur hafi náð góðum árangri í öldrunarþjónustunni og hafi tekist að framfylgja stefnu stjórnvalda, þ.e. að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í heimahúsum. Heimahjúkrun er hins vegar ekki ókeypis og mikilvægt að gert sé ráð fyrir áframhaldandi öflugri heimahjúkrun í nýjum samningi til þess að hægt verði að halda áfram á sömu braut.

Skýrlsa Ríkisendurskoðunar og erfið staða í læknamálum

Í janúar síðastliðnum óskuðu forsvarsmenn Sveitarfélagsins Hornafjarðar eftir því við Ríkisendurskoðun að stofnunin framkvæmdi stjórnsýsluúttekt á framkvæmd samningsins. Töluverð fjölmiðlaumræða fór af stað í kjölfar útkomu skýrslunnar.

Eitt þeirra atriða, sem Ríkisendurskoðun nefnir í sinni skýrslu, er mönnunarvandi heilbrigðisstofnunarinnar þegar kemur að læknaráðningum. Illa hefur gengið á undanförnum árum að ráða lækna til stofnunarinnar á heilsársgrunni. Í skýrslunni kemur hins vegar fram að mönnunarvandi lækna einskorðist ekki við Hornafjörð heldur sé ljóst að um landsbyggðarvanda er að ræða. Ekki sé því eingöngu við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands að sakast hvað þetta varðar. Þessi sjónarmið Ríkisendurskoðunar getur undirritaður tekið undir.

            Ríkisendurskoðun bendir á að starfsaðstæður heimilislækna hafi breyst á undanförnum árum. Margt bendir til þess að álag á lækna á landsbyggðinni sé umtalsvert meira en annars  staðar vegna fjarlægðar í sjúkrahús og mikils vaktaálags.  Í fámennum læknahéruðum þurfa heimilislæknar að glíma við erfiða sjúkdóma og bráðatilfelli sem annars staðar eru leyst á sjúkrahúsum. Einnig er launamunur lækna á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni umtalsvert minni en fyrir nokkrum árum sem dregur úr hvata lækna til að setjast að á landsbyggðinni. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að ráðuneytið, ásamt hlutaðeigandi aðilum, ráðist í greiningu á þessum vanda sem fyrst og þar er ég sammála skýrlsuhöfundum.

Ég tel það orðið tímabært að stjórnmálamenn og aðrir sem með þennan málaflokk fara setji heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni ofar á dagskrá stjórnmálanna en verið hefur. Sérstaklega í ljósi þess að í náinni framtíð er fyrirsjáanlegur enn meiri vandi við að manna læknastöður á landsbyggðinni. Við þurfum því að setjast niður og leita leiða til þess að bregðast við. Meðal þeirra spurninga sem stjórnmálamenn verða að velta fyrir sér er hvort heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni lúti öðrum lögmálum en á höfuðborgarsvæðinu. Við verðum að velta fyrir okkur hvernig hægt verður að tryggja hámarksgæði án þess að þeir starfsmenn sem eiga að veita þjónustuna kulni í starfi. Það er afar brýnt að strax verði hafin stefnumótunarvinna í málefnum heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband