Leita í fréttum mbl.is

Beðið eftir fjármálaráðherra

Eftirfarandi grein eftir mig birtist á vefmiðlum sveitarfélagsins í dag:

Beðið eftir fjármálaráðherra

Undanfarin ár hefur verið í gildi þjónustusamningur um rekstur heilsugæslu og öldrunarþjónustu á milli sveitarfélagsins og Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytisins, eða heilbrigðisráðuneytisins eftir breytingar innan stjórnarráðsins. Þjónustusamningurinn rann út 31. desember 2006. Sveitarfélagið hefur því verið að reka heilbrigðisstofnunina án samnings í rúmt ár. Óvissan sem þessi staða hefur skapað hefur óneitanlega tafið alla þróun og stefnumótun í starfi stofnunarinnar. Einnig hvílir ákveðin stjórnsýsluleg óvissa yfir henni. Mikilvægt er því að niðurstaða náist í málum stofnunarinnar eins fljótt og auðið er.

Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarnar vikur, mánuði og jafnvel ár um heilbrigðis - og öldrunarmál á Hornafirði, sérstaklega hafa málin verið ítarlega rædd á bæjarstjórnarfundum. Þar hafa þau einatt verið rædd á þann hátt af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að meirihlutinn sé með allt niðrum sig í samningaviðræðunum við ríkisstjórnina. Oddvita Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn hefur blöskrað hvernig núverandi meirihluti hefur haldið á málum og hvernig hann hefur farið með þetta óskabarn oddvitans sem þjónustusamningurinn er. Hefur oddvitinn m.a. annars sagt að eftir framgöngu meirihlutans treysti hún ekki lengur misvitrum bæjarfulltrúum fyrir þessum málaflokkum. Í sjálfu sér get ég tekið undir þetta sjónarmið Halldóru Bergljótar Jónsdóttur í ljósi þess hvernig haldið var utan um þennan málaflokk þegar síðasti samningur var undirritaður þegar hún var formaður heilbrigðis - og öldrunarráðs Hornafjarðar.

Lélegur samningur og munnlegt samkomulag 

Það sem núverandi meirihluti hefur allan tímann þurft að glíma við er að þjónustusamningurinn sem undirritaður var árið 2002 er langt frá því að vera nógu góður. Í raun var hann svo slæmur að gera þurfti sérstakt munnlegt samkomulag um greiðslur óháðar nýtingu á hjúkrunarrýmum frá Tryggingastofnun Ríkisins til HSSA. Þetta þýðir að grundvöllur síðasta þjónustusamnings byggðist á munnlegu samkomulagi sem fól í sér að HSSA fékk alltaf greitt fyrir fulla nýtingu hjúkrunarrýma óháð því hver raunnýtingin var.

Síðastliðið sumar ákvað Tryggingastofnun svo einhliða að skerða þessar greiðslur, þ.e. að byrja að greiða HSSA skv. nýtingu hjúkrunarrýma. Þessi skerðing þýðir einfaldlega að rekstrarhalli HSSA árið 2007 verður rúmar 30 milljónir. Munnlega samkomulagið, sem komið var á laggirnar á samningstíma síðasta þjónustusamnings, hljóðaði s.s. upp á litlar 30 milljónir fyrir síðasta ár hefði samkomulagið haldið. Það er því við ramman reip að draga í rekstri stofnunarinnar um þessar mundir. Ljóst er að bæjarsjóður mun ekki taka þennan rekstrarhalla á sig.

Meirihluti bæjarstjórnar hefur tekið þá ábyrgu afstöðu að halda ekki áfram samningaviðræðum við heilbrigðisráðuneytið fyrr en viðunandi niðurstaða fæst hjá fjármálaráðuneytinu varðandi uppgjör fyrir síðasta ár. Meirihlutinn er ekki tilbúinn að skrifa undir nýjan samning með 30 milljónir á bakinu ef svo mætti að orði komast.

1. þingmaður Suðurkjördæmis veiti skýr svör

Um leið og ljóst var að ekki væri hægt að klára nýjan samning í heilbrigðisráðuneytinu með viðunandi hætti var fjármálaráðherra gert ljóst hver staðan væri. Honum var gerð grein fyrir hinu munnlega samkomulagi sem í gildi var á milli þáverandi fjármálaráðherra og þáverandi bæjarstjórnar. Á fundi í ráðuneytinu í nóvember kom fram að vinna yrði sett í gang til þess að kanna möguleikann á því að gera upp við stofnunina fyrir síðasta ár á grundvelli hins munnlega samkomulags.

Í þessari viku mun bæjarráð Hornafjarðar fara í fundaherferð til Reykjavíkur. Fyrsti fundur bæjarráðs verður einmitt með fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen 1. þingmanni Suðurkjördæmis og það er einlæg von mín að bæjarráð fái skýr svör frá honum á fundinum. Ég tel það reyndar orðið löngu tímabært.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar

Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband