Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

Mikilvæg yfirlýsing

Yfirlýsingin frá ríkisstjórninni í dag um hún myndi formlega hefja viðræður við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn á næstu dögum er gríðarlega mikilvægt skref í átt að endurreisn íslenska hagkerfisins. Forsenda þess að aðrar þjóðir rétti okkur hjálparhönd er aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Með þessari yfirlýsingu getur ríkisstjórnin farið að vinna markvisst að koma þjóðinni úr þeim vandræðum sem nú blasa við okkur. Ríkisstjórnin hefur - í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn - samið ítarlega efnahagsáætlun. Hún er grundvöllur þeirrar vinnu sem framundan er til þess að við getum unnið okkur út úr þessum aðstæðum.

Ég held að staðan hafi einfaldlega verið þannig að ekki var um aðrar leiðir að ræða fyrir ríkisstjórnina en að leita til sjóðsins. Auðvitað hefði maður viljað sjá þessa niðurstöðu fyrr en úr því verður ekki bætt núna. Mikilvægast er að niðurstaða er komin í málið.


IMF - ekki eftir neinu að bíða

Það er vonandi að fréttir dagsins í dag séu á rökum reistar, þ.e. að stutt sé í það að Íslendingar óski formlega eftir aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Flest bendir til þess að aðkoma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að lausn okkar mála sé nauðsynleg til þess að við getum náð sátt við alþjóðasamfélagið.

Raunar virðist það nokkuð ljóst, að um leið og það verður kunngjört, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ætlar að leggja okkur lið þá muni aðrir aðilar og vinaþjóðir okkar stökkva á þann vagn. Það er einfaldlega frumforsenda þess að við getum hafið endurreisnarstarfið og endurskipulagningu þjóðfélagsins að lag komist á gjaldeyriviðskipti þjóðarinnar. Lánveiting IMF er forsenda þess að svo geti orðið.

Þess vegna er það mín skoðun að það sé ekki eftir neinu að bíða í þessum efnum. Við verðum einfaldlega að fá Alþjóðagjaldeyrissjóðinn að borðinu með okkur. Það er því vonandi rétt sem fram hefur komið í fjölmiðlum í dag - og reyndar síðustu daga - að starfsmenn sjóðsins og fulltrúar íslenskra stjórnvalda séu að leggja að lokahönd á aðgerðaáætlun með tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, benti á það á fundi með Samfylkingarfólki í gær, að Samfylkingin hefði lagt þunga áherslu á aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til þess að leysa úr efnahagagsvanda okkar. Það er vonandi að þær áherslur séu nú að skila sér.


Meirihluti fylgjandi þjóðaratkvæði um aðildarviðræður

Þær eru athyglisverðar niðurstöðurnar í  skoðanakönnun, sem hópur áhugafólks innan Framsóknarflokksins um Evrópumál lét framkvæma, og birtust í Fréttablaðinu í dag. Þar kemur fram að að rúmlega 70% svarenda er því hlynntur því að fram fari þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort hefja eigi aðildarviðræður að ESB. Í könnuninni kemur líka fram að tæplega helmingur svarenda er hlynntur aðild að ESB en tæplega þriðjungur er mótfallinn aðild.

Ummæli formanns Framsóknarflokksins um að Samfylkingin hrærði í blóði Sjálfstæðisflokksins vegna daðurs hennar við Evrópuasambandið eru athyglsiverð í ljósi þessara niðurstaðna. Hún er ekki síður áhugaverði í ljósi þess hverjir létu framkvæma skoðanakönnunina. Þá vaknar sú spurning hvort formaðurinn hafi ekki í raun verið verið að hræra í blóði síns eigins flokks með því að staðhæfa það að Evrópusambandsaðild væri ekki á dagskrá núna. Það má a.m.k. lesa út úr ummælum Páls Magnússonar, fyrrverandi varaþingmanns Framsóknarflokksins og núverandi bæjarritara í Kópavogi, í Fréttablaðinu í dag.

Það vekur athygli að meirihluti er meðal kjósenda allra flokka fyrir því að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Einnig kemur fram í könnuninni að mikill meirihluti kjósenda Samfylkingarinnar eru hlynntir aðild að ESB en það er í sjálfu sér ekkert nýtt. Samkvæmt könnuninni er líka meirihluti fylgjandi aðild innan raða Framsóknarflokksins. Það kemur líka á óvart að nokkurn veginn jafn margir af stuðningsmönnum VG eru fylgjandi aðild og þeir sem eru mótfallnir henni.

En hvað sem öðru líður, þá er hægt að draga þá  ályktun - út frá niðurstöðum könnunarinnar - að Evrópumálin eru á dagskrá hvað sem formaður Framsóknarflokksins ber höfðinu í steininn.

Mér finnst það mjög einkennilegur málflutningur að Samfylkingin nýti sér þessar aðstæður til þess að setja Evrópumálin á dagskrá. Samfylkingin hefur alltaf haft þessa stefnu í Evrópumálum og því er það fjarstæða að halda því fram að menn séu að nýta sér þessar aðstæður til þess að ræða málið. Það er hins vegar ámælisvert hjá formönnum annarra flokka að nýta sér núverandi ástand í efnahagsmálum til þess að stöðva umræður um þetta mikilvæga mál.

Hjá Samfylkingunni er ekki um neina stefnubreytingu að ræða í Evrópumálum og því alls ekki neitt lýðskrum á ferðinni eins og formaður bankastjórnar Seðlabankans hélt svo smekklega fram fyrir skemmstu. Það væru hins vegar svik við kjósendur Samfylkingarinnar að segja skilið við stefnu flokksins á erfiðum tímum.


Hjól atvinnulífsins haldist gangandi

Í dag birtist grein eftirfarandi grein, eftir mig, á vefmiðlinum hornafjordur.is:

Kreppan á fjármálamörkuðum og Hornafjörður

Öll þekkjum við mátt samstöðunnar þegar við verðum fyrir áföllum. Hver gleymir samstöðu Íslendinga þegar Vestfirðingar urðu fyrir barðinu á snjóflóðum á síðasta áratug síðustu aldar? Í dag hefur öll þjóðin orðið fyrir áfalli. Nú er hins vegar um að ræða efnahagslegar hamfarir. Þó þær séu ekki sambærilegar við það að missa ástvini er ljóst að margir einstaklingar eiga um sárt að binda núna og það er mikilvægt að við hlúum að þeim og látum vita að þeir eru ekki einir á báti. Allir hafa tapað á þeim atburðum á fjármálamörkuðum, sem skekið hafa heimsbyggðina alla. Á sama tíma megum við ekki gleyma þeim búsifjum, sem gengishrun gjaldmiðilsins okkar og okkar forni fjandi, verðbólgan, hafa valdið mörgum íslenskum fjölskyldum og heimilum.  

 Hjól atvinnulífsins haldist gangandi

Á síðustu dögum og vikum hafa Íslendingar fengið rækilega áminningu um það hver hin raunverulegu verðmæti eru í lífinu. Við höfum orðið vitni að ótrúlegum hildarleik á erlendum og íslenskum fjármálamörkuðum. Þegar fréttir byrjuðu að leka út, snemma á þessu ári, um alvarlega stöðu ýmissa frægra og rótgróinna bankastofnana þá læddist að manni sá grunur að áföll á fjármálamarkaði á heimsvísu myndu hafa mikil áhrif á Íslandi. Sá grunur reyndist á rökum reistur, því miður.  

Íslensku bönkunum hafði vaxið fiskur um hrygg svo um munaði án þess að Seðlabanki Íslands hefði fylgt þeirri þróun eftir eða reynt að hægja á henni. Þetta tvennt olli því að fjárfestar og lánveitendur víða um heim misstu trúna á íslensku útrásinni og íslensku bönkunum. Þegar það gerðist hrundi spilaborgin með eftirminnilegum afleiðingum. Viðskiptabankarnir þrír, sem einkavæddir voru með miklum lúðraþyti fyrir nokkrum árum, hafa verið þjóðnýttir og íslenskur almenningur þarf að borga brúsann vegna skuldsetningar bankanna erlendis og ónógs aðhalds opinberra aðila.

Nú er staðan sú að íslenska ríkisstjórnin rær lífróður til þess að bjarga íslenska hluta bankakerfisins þannig að hjól atvinnulífsins stöðvist ekki. Margt bendir til þess að henni eigi eftir að takast það ætlunarverk sitt. Til þess að styðja enn frekar við atvinnulífið, þá þarf Seðlabankinn einnig að koma að málum, m.a. með lækkun stýrivaxta.

Það er ljóst að margir koma til með að missa atvinnuna í þessum hremmingum, jafnvel þótt við tökum bara mið af þeim einstaklingum sem tapa sínum störfum innan bankakerfisins. Sá hópur einn og sér - innan bankakerfisins sem missir sína atvinnu - er það stór að það mun grundvallaráhrif á atvinnuumhverfið á Íslandi. Þess vegna er mikilvægasta verkefni stjórnvalda á þessum tímapunkti, að halda hjólum atvinnulífsins gangandi.  

Grunnþjónusta skerðist ekki

Í ástandi eins og nú hefur skapast er það lykilatriði að ríki og sveitarfélög samræmi aðgerðir sínar þannig að almenningur verði fyrir sem minnstum skaða. Nú þegar hefur almenningur þurft gjalda fyrir ástandið nógu dýru verði. Ríki og sveitarfélög verða að leggjast á árarnar til þess að koma í veg fyrir að grunnþjónusta hins opinbera skerðist. Á tímum sem þessum verða stjórnmálamenn að standa vörð um velferðarkerfið. Á undanförnum árum hefur velferðarkerfið íslenska verið þróað í þá átt, að áherslan hefur verið sú að styðja helst við bakið á þeim allra verst settu. Nú er hins vegar ljóst að velferðarkerfið þarf að þróast í þá átt að geta staðið við bakið á fleiri einstaklingum en það hefur gert hingað til. Í þessu ástandi er mikilvægt að benda fólki á að það er engin skömm fólgin í því að leita sér aðstoðar.  Í því felst miklu frekar styrkur.

Sveitarfélagið Hornafjörður fer ekki varhluta af þessum efnahagslegu þrengingum þjóðarinnar. Tekjur þess munu minnka á næsta ári ef ekkert breytist. Ljóst er að þær tekjur sem við fáum frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga munu dragast saman þar sem framlög í sjóðinn eru veltutengd. Erfiðara er að meta hvaða áhrif ástand efnahagsmála mun hafa á útsvarstekjur sveitarfélagsins. Atvinnuástand er gott á svæðinu eins og sakir standa og vonandi verður svo áfram. Í þessari umræðu er rétt að benda á að fjárhagsleg staða sveitarfélagsins var mjög sterk áður en þessi áföll dundu yfir okkur. Það kemur til með að hjálpa okkur yfir erfiðasta hjallann.

Hins vegar verður ekki horft fram hjá því að þessi efnahagslegu áföll koma til með að hafa áhrif - og hafa nú þegar haft töluverð áhrif - á íbúa Hornafjarðar eins og aðra landsmenn. Eins og aðrir landsmenn horfum við upp á lánin okkar hækka, höfuðstóll verðtryggðu lánanna hækkar á verðbólgubálinu, vörur hækka í verði og sparifjáreigendur, sem hafa fjárfest hafa í sjóðum bankanna og hlutabréfum, hafa margir tapað umtalsverðum fjármunum. Fjölskyldur á Hornafirði og atvinnulíf svæðisins horfa fram á breytta tíma á sama hátt og aðrir Íslendingar. Við þessu þarf að bregðast.

Samstillt átak

Bæjarráð Hornfjarðar hefur nú þegar ákveðið, í ljósi þeirrar stöðu sem nú er uppi í þjóðfélaginu, að fjárhagsáætlun 2009 verði unnin frá grunni.  Í þeirri yfirferð verður farið gaumgæfilega yfir rekstur allra stofnana sveitarfélagsins samhliða fjárhagsáætlunargerð. Í þessari vinnu verður lögð sérstök áhersla á gott samstarf meiri - og minnihluta bæjarstjórnar enda um að ræða verkefni sem allir þurfa að koma að. Við munum leggja sérstaka áherslu á að grunnþjónusta sveitarfélagsins skerðist ekki, þannig að íbúar sveitarfélagsins fái notið sömu þjónustu og áður. Einnig munum við skoða hvaða leiðir eru mögulegar fyrir sveitarfélagið til þess að koma til móts við fjölskyldurnar og heimilin í samfélaginu, sem öll hafa orðið fyrir skakkaföllum á undanförnum mánuðum. Vert er að minnast á að bæjarstjórn Hornafjarðar samþykkti fyrir skömmu umfangsmiklar tillögur um að lækka álögur á fjölskyldur, sem byggðu á vinnu nefndar um mótun fjölskyldustefnu. Þær fólu í sér lækkun leikskólagjalda og gjalda fyrir lengda viðveru og að sysktkinafsláttur gilti á milli skólastiga. Í þessum tillögum var gert einnig ráð fyrir upptöku tómstundakorta fyrir ungmenni á aldrinum 6 - 18 ára frá og með næstu áramótum.

Atvinnulífið stendur traustum fótum á Hornafirði og atvinnustigið er gott eins og áður segir. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er hin ábyrga afstaða sú að að gera ráð fyrir því að þessar aðstæður geti breyst. Þá þurfum við að skoða með opnum huga með hvaða hætti við getum sem best komið til móts við atvinnulífið á staðnum til þess að við getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar til þess að halda hjólum þess gangandi ef aðstæður breytast. Það felur í sér að við verðum að endurskoða framkvæmdaáætlun sveitarfélagsins. Við þessar aðstæður sem nú eru uppi vaknar sú spurning hvort ekki sé heppilegra að leggja áherslu á mannaflsfrekar framkvæmdir í stað framkvæmda sem krefjast mikilla efniskaupa.

Tækifæri til framtíðar

Framundan er mikil vinna á vettvangi sveitarstjórnar. Í þeirri vinnu felst líka mikil áskorun, sem menn geta nýtt sér til að koma auga á þau tækifæri sem kunna að skapast í tímabundinni kreppu. Gleymum því ekki, á þessum umrótatímum, að Sveitarfélagið Hornafjörður hefur alla burði og forsendur til þess að koma sterkt út úr þessari efnahagslegu lægð. Hér eru grunnstoðirnar sterkar; öflugt og kraftmikið atvinnulíf, öflug velferðarþjónusta, vel rekinn sveitarsjóður, mikill mannauður og heilbrigt samfélag. Eitt hafa Ausut - Skaftfellingar fram yfir marga aðra en það er sú samstaða um stóru málin sem einkennir samfélagið. Það er gulls ígildi í dag. Þessar mikilvægu stoðir og fleiri eiga eftir að gera okkur kleift að vinna vel úr þeim aðstæðum sem uppi eru í dag. Í öllum erfiðleikum og áföllum felast ný tækifæri ef rétt er á málum haldið.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Formaður bæjarráðs


Skýr sýn Ingibjargar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar skrifaði mikla grein í Morgunblaðið í dag. Í henni kemur fram sú skoðun hennar að til þess að ná stöðugleika í efnahagskerfi okkar þurfum við fyrist að leita á náðir Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, því næst að sækja um aðild að ESB og stefna að upptöku Evru.

Þetta er skýr framtíðarsýn og vegvísir út úr þeim vanda sem stöndum frammi fyrir í dag. Við þurfum á slíkrki sýn og leiðtogahæfileikum hennar að halda um þessar mundir.

Þess vegna er það sérstakt ánægjuefni að hún sé á batavegi og á leið heim til Íslands. Þó er auðvitað ekki útséð með það hvað hún getur tekið virkan þátt í vinnunni fyrst um sinn.

Það er allta jafn yndislegt að sjá hvað Ingibjörg Sólrún vekur upp hörð viðbrögð hjá andstæðingum hennar eins og sjá má af sótillum bloggurum sem vilja koma skoðun sinni á framfæri við fréttina.

Þessi hörðu viðbrögð sannfæra mig bara ennfrekar að hún sé á réttri leið með framsetningu sinni og áherslum.


Erfiðir tímar

Það er ljóst að íslenska þjóðin gengur núna í gegnum erfiðari tíma en hún hefur þekkt í langan tíma. Staðan virðist svo þung að málsmetandi menn eru farnir að tala um eiginlegt þjóðargjaldþrot. Það held ég reyndar að standist enga skoðun vegna þess að ríkissjóður er nánast skuldlaus. Þannig að það er ekki með neinni sanngirni hægt að halda því fram að við blasi þjóðargjaldþrot. Hins vegar er ljóst að bankarnir hafa vaxið of langt fram úr landsframleiðslunni. Það yrði þess vegna erfitt fyrir ríkið að standa við skuldbindingar bankanna í útlöndum.

Fyrir einu ári hefði engan órað fyrir því að íslensku viðskiptabankarnir yrðu komnir hendur ríkisins á nýjan leik. Engan hefði órað fyrir því að einkavæðing bankanna myndi kolfalla á svo skömmum tíma. Það eru gríðarleg vonbrigði. Nú er líka rætt um það fullum fetum að í það styttist að Íslendingar leiti ásjár Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Atburðir síðustu daga hafa síðan valdið því að Ísland er - að því er virðist - komið í milliríkjadeilu við okkar ágætu vini í Bretlandi. Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, vandar Íslendingum ekki kveðjurnar í sínum blaða - og sjónvarpsviðtölum. Hins vegar má ætla eftir síðasta blaðamannafund forsætis - og viðskiptaráðherra, að búið sé að koma þessum málum á milli þjóðanna í betri farveg. Vonandi veit það á gott. Það gengur auðvitað ekki að vera í deilum við gamlar vinaþjóðir á erfiðum tímum. Reyndar er það svo að Bretar hafa gengið alltof langt í þessum málum og Brown virðist vera að nota þessa atburðarrás til þess að styrkja pólitíska stöðu sína.

Til þess að bregðast við vandanum og bankakreppunni þurfti ríkisstjórnin að leggja fram frumvarp um neyðarlög á Alþingi. Þegar það gerðist á mánudagskvöldið held ég að íslenska þjóðin hafi fyrst áttað sig á því hversu alvarleg staðan var orðin. Íslendingar hafa orðið fyrir miklu áfalli sem mikilvægt er að vinna úr. Það gerist auðvitað ekki nema með samstilltu átaki þar sem allir leggja lóð sín á vogarskálarnar til þess að vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin.

Með þessu er ég ekki að segja að við eigum ekki að fara yfir það hvað hefur farið úrskeiðis og hvað hefur valdið því að við erum í þeirri stöðu sem við erum í.  Það er nauðsynlegt eftir svona öldurót og erfiðleika að rannsaka það sem gerst hefur. Ef einhverjir bera ábyrgð á því hvernig er komið fyrir okkur þá þurfa þeir hinir sömu að sæta ábyrgð. En rétti tíminn til þess að fara yfir það er ekki í storminum miðjum. En ef við förum ekki yfir þessa atuburðarrás og ástæður þess að við stöndum í þessum sporum nú, þá er hætt við því að við komum ekki til með að læra af reynslunni.

Staðan er auðvitað grafalvarleg og kemur harðast niður á atvinnulífinu og öllum almenningi. Einnig tapa margir fjárfestar miklum fjármunum á öllu þessu verðhruni hlutbréfa um allan heim. Fjölmargir aðilar hafa tapað sparnaði sínum í sjóðum og á peningamarkaðsbréfum bankanna. Maður finnur til með því fólki og stjórnvöld hafa sagt að þau ætli sér að reyna að tryggja innistæður fólks á þessum reikningum að því marki sem það er hægt. En innistæður fólks á venjulegum bankabókum eru tryggar og það er gríðarlega mikils virði. Einnig finnur maður til með öllu því fólki sem núna er að missa vinnuna sína í þeim erfiðleikum sem yfir okkur ganga.

Mikilvægast núna er að Fjármálaeftirlitinu takist að koma bönkunum í starfhæft ástand þannig að hægt sé að halda hjólum atvinnulífsins gangandi. Það er lykilatriði. Mér sýnist á öllu að verið sé að vinna að því af krafti innan Fjármálaeftirlitsins í samstarfi við starfsfólk bankanna.

Ég er ánægður með það hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum á undanförnum vikum. Geir H. Haarde hefur staðið vaktina vel og haldið yfirvegun. Það er ómetanlegt á tímum eins og þessum. Á reglulegum blaðamannafundum í Iðnó hafa þeir Geir og Björgvin G. Sigurðsson svarað spurningum blaðamanna af yfirvegun og þekkingu. Í öllum þessum látum er það mikilvægast að ríkisstjórnin standi í lappirnar, láti ekki undan þrýstingi og haldi sínu striki. Mér sýnist á öllu að það gangi eftir.

Ég er þess handviss - þrátt fyrir þessi vandræði - að Íslendingar munu á endanum koma standandi út úr þessa tímabundna ástandi. Við stöndum að mörgu leyti vel. Hér eru undirstöðurnar góðar, miklar auðlindir og duglegt fólk. Þetta er allt saman grundvöllur fyrir því að við getum komist standandi út úr þessu og það er mikilvægt að hafa þetta í huga á meðan það versta gengur yfir. Ég er ekki nokkrum vafa um það að við verðum fljót að aðlaga okkur að breyttum aðstæðum þegar það versta er yfirstaðið. Það er okkar eðli.

Í öllum erfiðleikum felast ný tækifæri. Öllu skiptir hvernig við vinnum úr vandanum þannig að við getum hafið endurreisnina á íslensku þjóðfélagi sem fyrst.


Öldurótið og sveitarfélögin

Staðan á fjármálamörkuðum og íslensku bankanna hefur auðvitað víðtæk áhrif á stöðu sveitarfélaganna. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, hefur bent á sveitarfélögin séu misvel í stakk búin til þess að mæta vandanum, sem að okkur öllum steðjar um þessar mundir.

Öll sveitarfélög í landinu eiga eftir að finna fyrir þeirri niðursveiflu í efnahagslífinu sem nú ríður yfir. Flest ef ekki öll sveitarfélög þurfa að fara vel yfir sínar fjárhagsáætlanir vegna þess að forsendur allra áætlana eru í raun brostnar eins og staðan er í dag. Sveitarfélagið Hornafjörður er þar engin undantekning. Við þurfum að fara yfir okkar áætlanir og endurmeta þær.

Í þessu ljósi er þó vert að minnast þess að staða bæjarsjóðs Sveitarfélagsins Hornafjarðar er sterk um þessar mundir og sveitarfélagið hefur siglt nokkuð lygnan sjó í gegnum það þennslutímabil sem nú er að líða undir lok. Sveitarfélagið hefur ekki verið skuldsett að neinu marki og fjárhagsleg staða þess er sterk. Það er því mín trú að við munum sigla lygnari sjó en margir aðrir á þessum erfiðu tímum en við munum finna fyrir þessu ástandi eins og aðrir.

Á stundum sem þessum er mikilvægt að fara vel yfir stöðuna og meta hana af yfirvegun. Við verðum að fara varlega í alla áætlnagerð og gæta þess að aðgerðir og áherslur okkar lúti að því að styðja við bakið á heimilinum og atvinnulífinu á svæðinu að því marki sem okkur er mögulegt.

En í öllu þessu ölduróti er mikilvægt að fólk reyni eftir megni að halda ró sinni. Einnig þurfa menn að muna það að þetta ástand sem nú blasir við okkur í efnahagsmálunum verður ekki leyst í einu vetfangi. Það tekur tíma og það sem sveitarfélögin þurfa að gera er að taka mið af ástandinu, fara yfir sínar áætlanir og endurmeta þær. Það munum við gera og ef við komumst að þeirri niðurstöðu að breytingar séu nauðsynlegar þá munum við reyna að haga þeim þannig að almenningur finni sem minnst fyrir þeim í þjónustu sveitarfélagsins.


Alvarleg og ítrekuð mistök

Það er óhætt að segja að ástandið í þjóðfélaginu sé spennuþrungið þessa helgina. Umræðan í Silfri Egils endurspeglaði það. Það er augljóst að ríkisstjórnin er að leita allra leiða til þess að komast í gegnum þennan brimskafl. Aðilar vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðirnir og bankarnir sjálfir hafa verið kallaðir til auk fjölda sérfræðinga á þessu sviði.

Viðtalið við Þorvald Gylfason þótti mér athyglisverðast. Hann færði gild rök fyrir því að Seðlabankinn hefði gert margháttuð mistök á undanförnum árum. Þetta er raunar eitthvað sem hann hefur bent á áður. Það er a.m.k. ljóst í mínum huga að Seðlabankinn hefur brugðist því meginhlutverki sínu að passa upp á að bankarnir myndu ekki verða of stórir miðað við landsframleiðslu. Nú súpum við seyðið af því.

Þó menn telji að þessi helgi sé ekki rétti tíminn til þess að leita sökudólga þá kom fram í máli Þorvaldar að liður í því að endurreisa trúverðugleika íslenska hagkerfisins væri að tilkynna brotthvarf núverandi Seðlabankastjórnar, henni hefði orðið á alvarleg og ítrekuð mistök. Undan því verkefni yrði ekki komist.

Mér finnst líka ljóst eftir alla þessa atburðarrás að ekki var staðið nógu vel að einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Þar hafi verið gerð margháttuð mistök, sem t.d. lutu að því að passað var sérstaklega upp á að menn tengdir pólitíkinni eignuðust bankana.

En stóri lærdómurinn er þó sennilega sá að skefjalaus markaðshugsun, þar sem menn trúa því að markaðurinn einn geti leyst öll mál, gengur ekki upp. Markaðnum verður að veita virkt aðhald með öflugu regluverki, öflugum eftirlitsstofnunum og skýrum leikreglum. Ekki gengur að gefa mönnum frjálsar hendur ef leita þarf til opinberra aðila - að ekki sé talað um lífeyrissparnað almennings - þegar í harðbakkan slær.

Þrátt fyrir þetta spennuþrungna ástand voru menn sammála um að horfurnar til lengri tíma væri nokkuð góðar. En við yrðum samt að komast í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika, sem vissulega væru miklir.


Þarfur þjónn en vondur herra

Það er hrikalegt að fylgjast með átökunum í kringum Glitni þessa dagana. Af umræðum Agnesar Bragadóttur og Sigurðar G. Guðjónssonarí Íslandi í dag og viðtalinu við Þorstein M. Baldvinsson í Kastljósi í gær má draga þá ályktun að ýmislegt á enn eftir að ganga á áður en rykið sest.

Á meðan er krónan enn við sama heygarðshornið - hún fellur og fellur. Ósköp væri nú gott ef einhver gæti sagt okkur fyrir víst hvenær botninum væri náð. Það myndi a.m.k. minnka óvissuna hjá almenningi í landinu. Hvað getur hún eiginlega fallið mikið? Maður heldur alltaf einhvern veginn að botininum hljóti að vera náð en nýr dagur afsannar það iðulega. Það er vond tilfinning að þetta geti bara haldið svona áfram endalaust.

Þegar Bandaríkjaþing felldi tillöguna um björgunaráætlunina fyrir fjármálageirann á mánudag þrátt fyrir stuðning forystumanna flokkanna í þinginu þá kviknaði sú tilfinning að um óviðráðanlegt ástand væri að ræða. Þegar þessi spilaborg byrjar að hrynja þá virðast stjórnvöld lítið geta gert til þess að koma í veg fyrir hrunið.

Lærdómurinn af þessari atburðarrás hlýtur að vera sá að nauðsynlegt sé að bæta og efla regluverkið í kringum fjármálamarkaði heimsins. Markaðurinn virðist eiga mjög erfitt með klóra sig út úr vanda sem þessum. Það sýna björgunaraðgerðir fjölmargra ríkja. Almenningur í þeim ríkjum hlýtur að eiga kröfu til þess að fjármálamarkaðurinn starfi eftir skýrum og gegnsæjum reglum ef það lendir á almenningi að koma fjármálafyrirtækjunum til aðstoðar þegar illa árar.

Markaðurinn er þarfur þjónn en vondur herra. Þessi orð eiga - eins og alltaf - mjög vel við núna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband