Leita í fréttum mbl.is

Alvarleg og ítrekuð mistök

Það er óhætt að segja að ástandið í þjóðfélaginu sé spennuþrungið þessa helgina. Umræðan í Silfri Egils endurspeglaði það. Það er augljóst að ríkisstjórnin er að leita allra leiða til þess að komast í gegnum þennan brimskafl. Aðilar vinnumarkaðarins, lífeyrissjóðirnir og bankarnir sjálfir hafa verið kallaðir til auk fjölda sérfræðinga á þessu sviði.

Viðtalið við Þorvald Gylfason þótti mér athyglisverðast. Hann færði gild rök fyrir því að Seðlabankinn hefði gert margháttuð mistök á undanförnum árum. Þetta er raunar eitthvað sem hann hefur bent á áður. Það er a.m.k. ljóst í mínum huga að Seðlabankinn hefur brugðist því meginhlutverki sínu að passa upp á að bankarnir myndu ekki verða of stórir miðað við landsframleiðslu. Nú súpum við seyðið af því.

Þó menn telji að þessi helgi sé ekki rétti tíminn til þess að leita sökudólga þá kom fram í máli Þorvaldar að liður í því að endurreisa trúverðugleika íslenska hagkerfisins væri að tilkynna brotthvarf núverandi Seðlabankastjórnar, henni hefði orðið á alvarleg og ítrekuð mistök. Undan því verkefni yrði ekki komist.

Mér finnst líka ljóst eftir alla þessa atburðarrás að ekki var staðið nógu vel að einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Þar hafi verið gerð margháttuð mistök, sem t.d. lutu að því að passað var sérstaklega upp á að menn tengdir pólitíkinni eignuðust bankana.

En stóri lærdómurinn er þó sennilega sá að skefjalaus markaðshugsun, þar sem menn trúa því að markaðurinn einn geti leyst öll mál, gengur ekki upp. Markaðnum verður að veita virkt aðhald með öflugu regluverki, öflugum eftirlitsstofnunum og skýrum leikreglum. Ekki gengur að gefa mönnum frjálsar hendur ef leita þarf til opinberra aðila - að ekki sé talað um lífeyrissparnað almennings - þegar í harðbakkan slær.

Þrátt fyrir þetta spennuþrungna ástand voru menn sammála um að horfurnar til lengri tíma væri nokkuð góðar. En við yrðum samt að komast í gegnum þessa tímabundnu erfiðleika, sem vissulega væru miklir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband