Færsluflokkur: Bloggar
6.12.2006 | 23:02
Göng undir Lónsheiði
Bæjarráð Sveitarfélagsins Hornafjarðar samþykkti á fundi sínum í dag eftirfarandi bókun sem Björn Ingi Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram:
Bæjarráð Hornafjarðar vill beina þeim tilmælum til samgönguráðherra og samgöngunefndar Alþingis að í stað þess að ætla 200 milljónir króna til lagfæringar á veginum um Hvalnes- og Þvottárskriður, eins og nú er áætlað í Samgönguáætlun, þá verði þeir fjármunir notaðir til að hefja undirbúning á gerð jarðgangna undir Lónsheiði. Þjóðvegur 1 um skriðurnar er stórvarasamur og öllum ljóst að ekki er um framtíðarvegstæði að ræða með öllu því grjóthruni og skriðuföllum sem þar eru. Einnig er Hvaldalur þekkt veðravíti. Mikilvægt er að sem fyrst verði unnið að framtíðarlausn á þessum vegkafla.
Í þau skipti sem Íhaldið leggur fram góð og mikilvæg mál með málefnalegum hætti líkt og gert var í dag er sjálfsagt og eðlilegt að styðja við bakið á þeim málum.
Bloggar | Breytt 12.12.2006 kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.12.2006 | 13:04
Uppröðun á framboðslista og trúverðug Samfylking
Í Alþingiskosningum í vor er mikilvægt að vel takist til hjá Samfylkingunni þannig að ríkisstjórnin falli. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Samfylkinguna að starfa í ríkisstjórn að loknum kosningum. Ef ríkisstjórnin fellur sem allt bendir til þessa dagana þá er það skylda stjórnarandstöðuflokkanna að setjast niður og ræða saman um hugsanlega stjórnarmyndun.
Verðum að ganga í takt
Til þess að Samfylkingunni geti gengið vel í vor er mikilvægt að menn fari að stilla saman strengi og snúi bökum saman. Við verðum að standa þétt við bakið á formanninum og treysta honum fyrir stjórn flokksins. Ekki er hægt að sætta sig við það að innanbúðardeilur dragi okkur niður á kosningavetri. Þar ber þingflokkurinn mikla ábyrgð. Hann verður að ganga á undan með góðu fordæmi og draga okkur ekki niður út af deilum sem engu máli skipta þegar á heildina er litið. Fýluhundar út af prófkjörum, formannskosningum eða öðrum smáatriðum eiga ekkert erindi í okkar ágæta flokk. Við höfum ekkert við slíkt fólk að gera á ögurstundu.
Ég treysti okkar glæsilega formanni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyllilega til þess að mynda þannig heild og liðsanda í Samfylkingunni fyrir kosningarnar í vor að kjósendur munu treysta okkur fyrir landsstjórninni. Til þess að Samfylkingin geti orðið trúverðugur kostur verður þingflokkurinn að standa sína vakt og hlaupa ekki undan merkjum þegar erfið mál koma upp. Þar á ég við mál sem geta, t.d. valdið reiði á einstökum svæðum á landinu eða hjá einstökum hópum. Ekki gengur að Samfylkingin hafi eina stefnu á Hornafirði, aðra á Selfossi, enn aðra á Reyðarfirði, eina til auka á Vestfjörðum og svo eina til viðbótar í höfuðborginni. Jafnt verður yfir alla að ganga. Þannig sköpum við trúverðugan flokk sem getur unnið stóran sigur í vor.
Því þegar öllu er á botninn hvolft eru það grundvallarstef jafnaðarmennskunnar sem sameina okkur og það eru þau stef sem eiga vera ríkjandi í næstu ríkisstjórn. Það verður bara gert með sterkri hlutdeild Samfylkingarinnar.
Núna eru stjórnir kjördæmisráða og uppstillinganefndir innan Samfylkingarinnar að ráða ráðum sínum með endanlega uppstillingu á framboðslista í hverju kjördæmi fyrir sig. Ég hygg að Samfylkingin í Suðvesturkjördæmi hafi verið fyrst til þess að birta endanlegan lista. Fljótlega fylgja önnur kjördæmi í kjölfarið.
Samfylkingin í Suðurkjördæmi
Samfylkingin í Suðurkjördæmi hyggst birta sinn lista næsta sunnudag, þ.e. 10. desember á kjördæmisþingi. Til stendur að halda kjördæmisþingið í öðrum enda þessa stóra kjördæmis eða í Reykjanesbæ. Svo fólk geti gert sér grein fyrir stærð kjördæmisins þarf Samfylkingarfólk á Hornafirði að keyra samtals 1.200 km. til þess að vera viðstatt. En við teljum það ekki eftir okkur. Ef menn ætla á annað borð að vera þáttakendur í þessu gríðastóra kjördæmi okkar er mikilvægt að menn séu tilbúnir til þess að ferðast um langar vegalengdir.
En þar sem um gríðarstórt kjördæmi er að ræða tel ég mikilvægt að við endanlega uppröðun á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi verði gætt sannmælis og réttlætis gagnvart öllu kjördæminu. Ég tel t.d. mjög mikilvægt að uppstillingarnefnd taki tillit til beggja jaðarsvæða kjördæmisins.
Einnig er að mínu mati mikilvægt að taka tillit þess mikla starfs sem Samfylkingin á Hornafirði er búin að vinna á undanförnum árum. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum buðum við fram undir merkjum Samfylkingarinnar og unnum glæsilegan sigur. Að loknum kosningum var Hornafjörður annað tveggja sveitarfélaga í kjördæminu þar sem Samfylkingin er þátttakandi í meirihlutasamstarfi. Að vísu hefur Árborg bæst í hópinn síðan þá.
Við Samfylkingarfólk á Hornafirði teljum okkur því eiga drjúgan þátt í uppbyggingu flokksins í kjördæminu.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2006 | 14:59
Tvöföldum Suðurlandsveg
Eitt af forgangsverkefnum næstu ríkisstjórnar í samgöngumálum hlýtur að vera tvöföldun Suðurlandsvegar. Sú umferð sem þar fer um á hverjum degi er svo gríðarlega mikil að hún beinlínis æpir á að vegurinn verði tvöfaldaður. Öll rök hníga að því.
Út frá öryggissjónarmiðum á að tvöfalda Suðurlandsveg. Fjöldi sunnlendinga keyrir um þennan veg á hverjum degi til og frá vinnu. Við viljum líta svo á að atvinnusvæði Reykavíkursvæðisins nái yfir Hellisheiðina en til þess að viðhalda því þurfa samgöngur að vera í lagi og öruggar fyrir alla sem þar fara um. Eina raunhæfa leiðin til þess er að tvöfalda Suðurlandsveginn.
Gleymum því ekki að hér erum við að tala um þjóðveg 1 og stærsur hluti Íslendinga keyrir um þennan veg á hverju ári. Það verður að gera þennan veg boðlegan út frá öryggissjónarmiðum. Það þýðir ekkert að hafa þetta þannig að fólk óttist um líf sitt í hvert sinn það keyrir þessa leið.
Eyþór Arnalds hefur ásamt fleiri góðum sveitarstjórnarmönnum og þingmönnum komið þessari skoðun rækilega á framfæri og því ber að fagna. Það er svo vonandi að stjórnvöld fari að átta sig á mikilvægi þessarar framkvæmdar og fari að láta verkin tala.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2006 | 15:34
Nýr bæjarstjóri í Árborg
Nú er það ljóst að Ragnheiður Hergeirsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Árborg verður næsti bæjarstjóri Árborgar. Það eru sannarlega gleðileg tíðindi fyrir íbúa í Árborg. Ragnheiður er vel að starfinu komin. Ég er ekki nokkrum vafa um hún mun vinna íbúum Árborgar mikið gagn. Ragnheiður er líka glæilegur fulltrúi Samfylkingarnnar á Suðurlandi og mun auka hróður okkar á landsvísu. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Ég óska Ragnheiði velfarnaðar í nýju starfi.
En um leið og Ragnheiður tekur við sæti bæjarstjóra hefur hún ákveðið að þiggja ekki 4. sætið á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sem hún náði með glæsilegri kosningu í prófkjöri í nóvember. Það verður kjördæmisstjórnar að stilla endanlega upp á listann og ákveða hver tekur sæti hennar á listanum. Fundur er boðaður í kjördæmisstjórn sunnudaginn 10. desember í Reykjanesbæ. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig spilað verður úr þessum spilum.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2006 | 15:26
Sprengir Írak ríkisstjórnina?
Sorglegt var að fylgjast með Hjálmari Árnasyni , þingflokksformanni Framsóknarflokksins í Kastljósi um daginn. Þangað var hann mættur til þess að til þess að telja áhorfendum trú um að Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins hefði unnið eitt helsta afrek flokksins á undanförnum árum með því að viðurkenna það að stuðningurinn ríksstjórnarinnar við innrásina í Íraka hafi verið mistök. Eiginlega bara tæknileg mistök vegna þess að stuðningurinn byggðist á fölskum forsendum. Einnig mátti skilja orð Hjálmars þannig að hann hefði bara stutt þetta vegna þess að þáverandi formaður flokksins hafði gert þessi mistök og það er nú einu sinni þannig að Hjálmar ver sína menn. En nú er Halldór horfinn á braut og því engin ástæða til þess að verja hann lengur og þess vegna er Framsóknarflokkurinn kominn í stjórnarandstöðu við sjálfan sig á kosningavetri.
En Íhaldið stingur höfðinu í sandinn og þau fáu skipti sem höfuðið kemur upp úr sandinum berja Sjálfstæðismenn því í steininn og neita því að um mistök hafi verið að ræða. Björn Bjarnason er líkur þingflokksformanni Framsóknarflokksins í málflutningi sínum að því leyti að hann telur það eðlilegt að við fylgjum vinaþjóðum okkar, Bretum og Bandaríkjamönnum að málum hversu vitlaus sem þau mál kunna að vera. Það er nú einu sinni þannig að Björn er tilbúinn að verja sína menn líkt og Hjálmar. Björn virðist einnig styðja innrásina í Írak á þeim forsendum að það hefði hvort eð er engu skipt þótt íslenska ríkisstjórnin hefði verið á móti innrásinni. Þá sé betra að vera samsekur með vinum sínum heldur en að benda þeim á að e.t.v. sé um feigðarflan að ræða. En það hefði verið mun meira vinarþel fólgið í því að benda okkar ágætu vinum í Bretlandi og Bandaríkjunum á þá vitleysu sem hugmyndin um innrás í Írak var og stuðla þannig að því að þessar vinaþjóðir okkar gerðu ekki þessi stórkostlegu mistök. Það hefði verið meiri og betri bragur á þeim vinskap. Það skiptir engu máli í mínum huga hvort slík mótmæli hefðu haft eitthvað að segja eða ekki. Það var okkar skylda að mótmæla styrjaldarbrölti vopnabræðranna, Bush og Blair.
Íraksmálið er hið vandræðalegasta fyrir ríkisstjórnina og greinlegt að málið er fara að valda titringi í samstarfinu. Þess vegna kæmi mér það ekki á óvart þótt íraksdeilan verði til þess að þetta ríkisstjórnarsamstarf springur í loft upp vegna þess trúnaðarbrests sem kominn er upp innan ríkisstjórnarflokkanna vegna málsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2006 | 14:57
Uppbygging íþróttamannvirkja á Sindravöllum
Á 106. fundi bæjarstjórnar Hornafjarðar sem haldinn var 7. september síðastliðinn var samþykkt tillaga meirihlutans í bæjarstjórn þess efnis að hefja framkvæmdir á Sindravöllum. Þar verður byggð upp aðstaða fyrir frjálsar íþróttir en eins og menn vita þá hefur aðstöðuleysi lengi háð iðkendum í frjálsum íþróttum. Tillaga meirihlutans felur einnig í sér að byggður verður upp nýr knattspyrnuvöllur. Ekki hefur verið tekin endanlega ákvörðun um það hvort um verður að ræða keppnisvöll með gervigrasi eða náttúrugrasi. Meirihluti Samfylkingar og Framsóknar vill í samstarfi og samráði við íþróttahreyfinguna í sveitarfélaginu gefa henni tíma til þess að fjármagna verkefnið til þess að hægt verði að byggja upp gervigrasvöll fyrir knattspyrnuiðkendur. Um þetta skapaðist nokkuð góð sátt á vinnufundi sem haldinn var í bæjarstjórn með fulltrúum íþróttahreyfingarinnar í sveitarfélaginu þann 29. ágúst síðastliðinn.
Minnihluti íhaldsins ákvað að styðja ekki við bakið á uppbyggingu íþróttamannvirkja
Afstaða íhaldsins í bæjarstjórn sem kaus að sitja hjá við afgreiðslu málsins til þess að gera það að pólitískum sandkassaleik urðu mér mikil vonbrigði. Hver möguleg ástæða fyrir því kann að vera er erfitt að gera sér í hugarlund nema þeir séu e.t.v. á höttunum eftir tímabundnum vinsældum. Engin tillaga var lögð fram af minnihlutanum sem hægt var að ræða af einhverri alvöru. Eini tilgangurinn virtist vera sá að reyna að slá andstæðingana pólitískum höggum. En eins og gjarnan er með högg íhaldsins þá vara bara um vindhögg að ræða.
Spennandi tímar framundan
Ljóst er að spennandi tímar eru framundan hjá íþróttaiðkendum á Hornafirði. Hvort sem á endanum verður gerður gervigrasvöllur eða keppnisvöllur með náttúrugrasi þá er kristaltært að aðstaðan sem byggð verður upp fyrir unglingalandsmótið 2007 verður þannig úr garði gerð að við íbúar þessa sveitarfélags getum verið stoltir af þessu framtaki. Ég ætla því að nota þetta tækifæri til þess að hvetja alla bæjarbúa hvar í flokki sem þeir standa til þess að ganga í lið með íþróttahreyfingunni á staðnum og leggja henni lið í því fjáröflunarverkefni sem nú fer í hönd.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2006 | 14:51
Eflum sveitarstjórnarstigið
Á hátíðarstundum verður mönnum tíðrætt um nauðsyn þess að efla sveitarstjórnarstigið. Á síðustu árum hefur nokkuð þokast í þeim málum. Grunnskólinn er kominn til sveitarfélaganna sem er stærsta einstaka verkefnið sem sveitarfélögin hafa tekist á hendur. Nú er svo komið að sveitarfélögin vildu gjarnan taka við fleiri verkefnum af ríkinu til þess að flytja þjónustuna nær íbúunum. Ríkið hins vegar bíður eftir því að fleiri sameiningar eigi sér stað áður en svo getur orðið og á meðan eru tekjustofnamál sveitarfélaganna í uppnámi.
Ef það er raunverulegur vilji til þess hjá yfirvöldum til þess að efla sveitarstjórnarstigið þurfa að koma fjármunir frá ríkinu á móti. Til þess að hraða fyrir sameiningaferlinu þyrfti að liggja fyrir tillögur á lagfæringum á tekjustofnum sveitarfélaganna. Það þarf að styrkja sveitarfélögin svo þau geti tekið við fleiri verkefnum frá ríkinu. Ríkið þarf líka að viðurkenna að grunnskólinn er beinlínis orðinn dýrari í rekstri vegna reglugerða og laga frá Alþingi.
Framhaldsskóli, öldrunarþjónusta og löggæsla
Eitt er ljóst að ef efla á sveitarstjórnarstigið á Íslandi enn frekar þarf meira að koma til heldur en að ríkið afhendi sveitarfélögunum verkefni sem menn telja að sé betur borgið heima í héraði. Verkefnunum þarf að fylgja fjármagn og það umtalsvert fjármagn til þess að sveitarfélögin geti rækt skyldur sínar.
Verkefni sem ég vil sjá koma til sveitarfélaga eru rekstur framhaldsskólans, löggæslunnar og öldrunarmála. Vel hefur tekist til með þau í tilraunaverkefninu hér á Hornafirði. Þessu verða að fylgja styrkari tekjustofnar og umfang til að standa undir verkefnunum. Það er hlutdeild í veltusköttum stórt mál að mínu mati.
Slíkum verkefnaflutningum fylgir valddreifing. Valddreifing sem er eftirsóknarverð í sjálfu sér enda er það eitt af meginmálum okkar jafnaðarmanna að flytja völd og verkefni til fólksins sjálf. Sveitarfélögin sjá um nærþjónustuna og þar eiga mörg stór verkefni að vera. Þessi legg ég til að flytjist þangað á næstu árum. Fyrst öldrunarmálin, þá framahldsskólinn og síðan skoðum við fyrirkomulag löggæslunnar í framhaldi af því. Þetta eflir sveitarstjórnastigið, stækkar sveitarfélögin og gerir þau að öflugu stjórnsýslustigi til mótvægis við ríkisvaldið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2006 | 14:33
Samgöngur í Suðurkjördæmi
Samgöngumál eru flestum íbúum landsins ofarlega í huga því góðar samgöngur eru forsenda þess að byggðalög fái tækifæri til þess að dafna og þróast. Þar eru íbúar í Suðurkjördæmi engin undantekning. Samgöngumálin eru málaflokkur sem verður að taka föstum tökum því þar eru verkefnin aðkallandi.
Hægt er að taka sem dæmi samgöngur til Vestmannaeyja. Þau mál eru í ólestri og hafa verið í ólestri í þó nokkurn tíma. Ferðum Herjólfs verður að fjölga og mikilvægt er að sá flugrekstraraðili sem á að sjá um flug á milli lands og eyja sé í stakk búinn til þess að sinna verkefninu. Eyjamenn geta ekki búið við óvissu í sambandi við flug. Ekki er langt síðan fregnir bárust af því að Flugfélag Íslands væri hefja áætlunarflug til Eyja á nýjan leik. Því fögnuðu Eyjamenn og það er vonandi að það komi til með að treysta stoðirnar undir byggðinni í Eyjum. Traustar flugsamgöngur munu líka efla ferðaþjónustu til muna í Eyjum.
Til lengri tíma litið er gríðarlega mikilvægt að samgöngur til og frá Vestmannaeyjum verði bættar. Til þess að það geti gerst er nauðsynlegt að skoða gaumgæfilega alla þá möguleika sem í boði eru. Kanna þarf hvaða leiðir henta, hagkvæmni þeirra og nýtingarmöguleika.
Í mínum huga hlýtur tvöföldun Suðurlandsvegar líka að vera eitt af forgangsmálum verðandi þingmanna Suðurkjördæmis. Sá fjöldi bíla sem þar fer um á hverjum degi kallar á að ráðist verði sem allra fyrst í þá framkvæmd. Sá mikli byggðakjarni sem hefur byggst upp á undanförnum árum og áratugum austan við Hellisheiðina treystir á að þessi framkvæmd komist á dagskrá hjá stjórnvöldum.
Í austasta hluta kjördæmisins er ein samgöngubót orðin mjög aðkalland og það eru göng undir Lónsheiði. Vegurinn um Hvalnes og Þvottárskriður er orðinn mikil hindrun á þjóðvegi 1. Miklum fjármunum er varið í halda þessum farartálma opnum á ári hverju. Nauðsynlegt er að skoða hvort ekki sé orðið tímabært að skoða kosti þess að setja þjóðveg 1 í göng undir Lónsheiði. Göng á þessum vegarkafla myndu sannarlegar auka öryggi og áreiðanleika á þessum hluta þjóðvegarins og myndi þjóna hagsmunum allra landsmanna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.11.2006 | 15:00
Styttist í Unglingalandsmót UMFÍ á Hornafirði
Næsta verslunarmannahelgi verður stór helgi í lífi okkar Hornfirðinga. Þá höldum við Unglingalandsmótið sem UMFÍ hefur staðið fyrir undanfarin ár. Við vonumst til þess að um 10.000 manns sæki okkur heim þessa helgi. Ungmennasambandið Úlfljótur hefur yfirumsjón með mótinu en sveitarfélgagið er samstarfsaðili. Það er ætlun okkar að taka vel á móti gestum okkar þessa helgi sem aðrar helgar. En þegar 10.000 manns sækja okkur heim er ljóst að vanda verður til verka og öll skipulagning þarf að vera í lagi. Unglingalandsmótsnefnd hefur þegar tekið til starfa og situr stjórn USÚ í nefndinni auk annarra. Frá sveitarfélaginu kemur Matthildur Ásmundardóttir, formaður Æskulýðs - og tómstundaráðs. Einnig situr Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri í nefndinni. Formaður nefndarinnar er Ragnhildur Einarsdóttir sem einnig er formaður USÚ.
Unglingalandsmótsnefndin er skipuð öflugu fólki sem tilbúið er að leggja sín lóð á vogarskálarrnar til þess að gera mótið sem glæsilegast og þannig að Hornfirðingar getið verið stoltir af framkvæmd þess. En það þarf meira til svo að mótið heppnist vel. Gríðarlega marga sjálfboðaliða þarf til þess að allt gangi upp. Þess vegna skora ég á alla sem vettlingi geta valdið að leggjast á eitt með nefndinni og bjóða sig fram sem sjálfboðaliða á mótinu. Á mótinu verða að vera dómarar úr hinum ýmsu íþróttagreinum, t.d. knattspyrnu, körfubolta og frjálsum íþróttum. Auk dómaranna þarf fjöldann allan af sjálfboðaliðum í hin ýmsu störf á mótinu.
Í tengslum við mótið hyggur sveitarfélagið á stórfellda uppbyggingu íþróttamannvirkja. Á vegum sveitarfélagsind er að störfum sérstök nefnd um íþróttamannvirki. Formaður hennar er Friðrik Ingvaldsson, fyrrverandi formaður Æskulýðs - og tómstundaráðs Hornafjarðar. Nú þegar hefur verið ákveðið að ráðast í byggingu nýrrar sundlaugar en ljóst er að hún verður aldrei fullkláruð fyrir Unglingalandsmót. Vonir standa þó ennþá til að sundlaugarkerið sjálft verði tilbúið til keppni á mótinu. Svæðið sem hefur verið lagt undir sundlaug er þó ekki ennþá tilbúið svo hægt sé að hefja framkvæmdir. Þess vegna er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að sundlaugarkerið verði tilbúið fyrir sundiðkendur um næstu verslunarmannahelgi.
Uppbygging aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir hefur einnig verið ákveðin á Sindravöllum. Um 400 metra hlaupabraut úr tartanefni verður að ræða auk annarrar hefðbundinnar aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir. Auk þess verður knattspyrnuvöllur Sindravalla hækkaður upp og endurgerður. Ekki hefur verið tekin endanleg ákvörðun um það hvort knattspyrnuvöllurinn skuli lagður gervigrasi eða náttúrulegu grasi. Það ræðst af fjármögnun verkefnisins. Bæjarstjórn hefur ákveðið að leggja 30 milljónir í verkefnið en stjórn USÚ mun á næstu dögum fara í frekara fjármögnunarátak.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.11.2006 | 15:08
Samblásturinn gegn Árna Johnsen eykst
Nú hefur Landssamband Sjálfstæðiskvenna bæst í hóp þeirra innan raða Sjálfstæðisflokksins sem draga dómgreind félaga sinna í flokknum í Suðurkjördæmi í efa. Þær telja að framboð Árna Johnsens geti skaðað framavonir kvenna ínnan Sjálfstæðisflokksins í komandi kosningum. Vantraustið sem Árna er sýnt af sínum eigin flokksmönnum hlýtur að valda honum hugarangri og það hlýtur líka að valda þeim Sjálfstæðismönnum í Suðurkjördæmi sem veittu Árna brautargengi í prófkjörinu hugarangri. Það er langt síðan maður hefur séð jafn kerfisbundið unnið að því að grafa undan trúverðugleika eins af forystumönnum Sjálfstæðisflokksins. Ef Árni Johnsen finnur að hann á ekki lengur samleið með Íhaldinu hlýtur hann að íhuga sérframboð miðað við þann stuðning sem hann hlaut í prófkjörinu.
Framsókn virðist ætla að gera úrstlitatilraun á kosningavetri til þess að losna undan ægivaldi Sjálfstæðisflokksins. Björn Ingi Hrafnsson segist finna fyrir mikilli andstöðu í röðum Framsóknarmanna við hlutafélagavæðingu Rúv. Formaðurinn, Jón Sigurðssson hefur líka stigið fram og bent á það að stuðningurinn við innrásina í Írak hafi verið mistök. Það eru engar fréttir fyrir okkur sem vorum alltaf á móti stuðningnum við innrásina í Írak.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006