Færsluflokkur: Bloggar
23.11.2006 | 23:17
Prófkjör - vörn sitjandi þingmanna?
Að undanförnu hefur mikil umræða farið fram um gildi prófkjara og hvort þau þjóni tilgangi sínum. Margir telja þau í dag vera vörn sitjandi þingmanna. Ég held að það sé alveg sama hvaða kerfi notuð verða til þess að raða á framboðslista þá komi sitjandi þingmenn alltaf til með að verja sín sæti með öllum tiltækum ráðum. Annað væri óeðlilegt. Ef einhver reynir að taka eitthvað af þér þá reynirðu að passa það. Þetta lærðum við í sandkassanum á leikskólanum og það þurfti enginn að kenna okkur þessi viðbrögð, þau eru meðfædd.
Það er rétt að það er erfitt að etja kappi við sitjandi þingmenn og nýliðar sitja að sjálfsögðu ekki við sama borð og þingmenn. Þingmennirnir njóta þess að vera þekkt andlit og eiga auðveldara með það að stunda og stjórna kosningabaráttu heldur en nýliðarnir. Við þessu er lítið að gera og sama hvaða kerfi menn notast við. Þessi skekkja verður alltaf til staðar. En gleymum því ekki að þeir sem við köllum sitjandi þingmenn voru einu sinni nýliðar í þessum bransa. Rétt eins og nýliðarnir í nýafstöðnum prófkjörum.
Prófkjör Samfylkingarinnar vítt og breitt um landið sýna okkur líka svo ekki verður um villst að nýliðarnir geta vel komist upp fyrir þingmennina. Lítum á prófkjörin í Norðvestri þar sem Guðbjartur Hannesson vinnur sigur og í Suðvestri þar sem Gunnar Svavarsson, forseti bæjarstjórnar Hafnarfjarðar vinnur glæsilegan sigur. Þessir tveir eru að vísu þekktir einstaklingar en engu að síður lenda þeir fyrir ofan sitjandi þingmenn í prófkjörum þannig að prófkjörin eru ekki alltaf sú vörn fyrir sitjandi þingmenn sem margir telja að þau séu.
En það er líka sorglegt að fylgjast með sitjandi þingmönnum sem tapa í prófkjörum fara í fýlu líkt Valdimar Leó Friðriksson gerði að loknu prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi. Mér finnst að hann eigi sjá sóma sinn í því að hætta á þingi og eftirláta næsta manni á lista Samfylkingarinnar í Suðvesturkjördæmi þingsætið fyrst hann sér sig knúinn til þess að segja sig úr Samfylkingunni af þeirri einu ástæðu að vera í fýlu eftir prófkjör. Ekki er um málefnaágreining að ræða. Það má heldur ekki gleyma því að Valdimar kom inn á þing eftir að Guðmundur Árni Stefánsson hætti á þingi og Ásgeir Friðgeirsson, fyrsti varamaður hafnaði þingsætinu og þá fyrst var röðin komin að Valdimar Leó.
Ég sá í Kastljós þætti um daginn að Ragnheiður Ríkharðsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ taldi að endurskoða þyrfti prófkjörin í ljósi þess að það væru mikil særindi eftir þau. Hún sjálf virtist aðallega vera sár yfir því að kjósendur í prófkjöri Íhaldsins í Kraganum hefðu kosið eftir póstnúmerum. Í raun er ekkert undarlegt við það þar sem fólk kýs frekar þá einstaklinga sem það treystir og þekkir. Fólk er líklegra til þess að treysta og þekkja þá sem standa því næst. Þar fyrir utan þekki ég enga leið til þess að koma í veg fyrir að fólk kjósi eftir póstnúmerum. Lýðræðið virkar nefnilega bara þannig að kjósendur hafa fullkominn rétt til þess að ráðstafa sínum atkvæðum eins og þeim sýnist. Kjósendur kjósa eftir póstnúmerum ef þeir vilja það en þeir hafa líka rétt á því að gera það ekki. Það er okkar að sannfæra þá um að gera það ekki ef við teljum hag okkar betur borgið með því.
Sjallarnir virðast heldur ekkert vera neitt sérstaklega ánægðir með það hvernig prófkjörið fór hjá þeim í Suðurkjördæmi. Þar var eini sigurvegarinn Árni Johnsen. Nafni hans, Mathiesen úr Hafnarfirði fékk háðulega útreið og hafði ekki helming atkvæða í fyrsta sætið. Fjármálaráðherrann var sendur sérstaklega úr Firðinum til þess að bjarga Íhaldinu í Suðurkjördæmi á grundvelli þess að hann hafi í rauninni alltaf verið þingmaður Reyknesinga og vegna þess að hann starfaði sem dýralæknir í uppsveitum Árnessýslu á árum áður. Byrjun hans í kjördæminu er ekki sterk. Drífa Hjartardóttir, sem menn kappkosta að mæra núna eftir að hún féll í prófkjörinu, hafði ekki kjark til þess að sækast eftir efsta sætinu sem hefði verið eðlilegt í ljósi reynslu hennar og dugnaðar. Mér þykir einsýnt að Sjálfstæðismönnum hafi ekki líkað þetta kjarkleysi Drífu sem þekkir málefni kjördæmisins betur en flestir og því hafi þeir hafnað henni. Það eftirsjá í Drífu fyrir kjördæmið og Hornfirðingar eiga eftir að sakna hennar.
Annars held ég að það sé ekki útséð með framboðsmál Íhaldsins í Suðurkjördæmi í ljósi tæknilegra mistaka Árna Johnsens þegar hann talaði um brot sín í opinberu starfi sem tæknileg mistök. Mér sýnist að samblástur gegn honum innan raða Sjálfstæðisflokksins sé að magnast heldur betur. Í kvöld heyrði ég formann flokksins segja, í viðtali við Þóru Arnórsdóttur á Stöð 2, að mjög hefði borið á úrsögnum úr flokknum. Hver var ástæðan sem formaðurinn tilgreindi fyrir úrsögnunum? Hún var kjör Árna Johnsens í 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Ég held að formaðurinn hafi ekki verið að tala um þetta vegna þess að hann hafi verið svona ánægður með úrsagnirnar. En kjör Árna í 2. sætið var sterkt og Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafa greinilega mikla trú á honum. Þar dansa þeir greinilega ekki takt við forystu flokksins.
Bloggar | Breytt 25.11.2006 kl. 19:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2006 | 13:48
Stýrihópur um skólastefnu
Á bæjarráðsfundi 14. nóvember síðastliðinn lagði ég fram bókun þar sem ég segi mig úr stýrihópi um skólastefnu. Ástæðan fyrir því að ég geri það er sú að stýrihópurinn á að fjalla um stjórnunarþátt grunnskólanna á Hornafirði. Í þeirri vinnu er leikur vafi á um hæfi mitt vegna tengsla við einn af skólastjórnendum sem ekki verða umflúin með nokkrum hætti. En það er alveg ljóst að ég er ekki vanhæfur til þess að fjalla skólastefnuna sem slíka.
Mitt sæti í stýrihópnum tekur Anna María Ríkharðsdóttir sem situr í skólanefnd. Hún var minn varamaður áður en ég sagði mig úr stýrihópnum og hennar varamaður verður Torfi Friðfinnsson sem einnig situr í skólanefnd sveitarfélagsins. Þessu fólki treysti ég fullkomlega til að ljúka þessari vinnu.
Annars hljóðar bókunin svona en hún birtist líka í Eystrahorni 16. nóvember, á Degi íslenskrar tungu:
Í ljósi umræðu um hugsanlegt vanhæfi undirritaðs til þess að fjalla um stjórnunarþátt grunnskólanna á Hornafirði hefur undirritaður ákveðið að draga sig út úr starfi stýrihópsins.Þegar fjallað er um stjórnunarþátt grunnskólanna er ljóst að vanda þarf til verka þar sem rekstur grunnskóla er stærsta einstaka verkefnið á hendi sveitarfélagsins. Því er mikilvægt að vel takist til með vinnu stýrihópsins. Ef þátttaka undirritaðs torveldar vinnu stýrihópsins er rétt að hann víki sæti svo það góða starf sem stýrihópurinn hefur unnið og það mikilvæga starf sem hann á eftir að vinna skaðist ekki. Um leið og undirritaður harmar að ekki hafi tekist að ljúka vinnu við nýja skólastefnu á síðasta kjörtímabili vegna ósamstöðu vill undirritaður ítreka þá ósk sína að vinnu við nýja skólastefnu og stjórnunarþátt grunnskólans ljúki sem fyrst, skólastarfi í sveitarfélaginu til heilla. Í febrúar árið 2005 var haldið skólamálaþing þar sem umræða hófst með formlegum hætti um nýja skólastefnu og stjórnunarþátt grunn og leikskóla. Niðurstaða er fengin í stjórnunarþátt leikskólanna en eftir er að klára skólastefnuna sjálfa og stjórnunarþátt grunnskólanna. Það er ljóst að bið í óvissu um framtíðarskipulag í skólamálum er skólasamfélaginu á Hornafirði ekki til framdráttar og því leggur undirritaður nú sem endranær höfuðáherslu á að stýrihópurinn einhendi sér í að ljúka þessum málum sem allra fyrst vegna þess að þau hafa nú þegar tekið alltof langan tíma. Við enga er að sakast í þeim efnum nema kjörna fulltrúa.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Samfylkingunni
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.11.2006 | 10:58
Vatnajökulsþjóðgarður
Á vefsíðu Björgvins G. Sigurðssonar, alþingismanns og efsta manns á lista Samfylkingarinnar í Suðukjördæmi má lesa um fyrirspurn þingmannsins til umhverfisráðherra um starfsemi Vatnjökulsþjóðgarðar. Þingmaðurinn spyr hvort ekki sé inni í myndinni að rekstur Jöklaseturs á Höfn verði hluti af heildarrekstri Vatnajökulsþjóðgarðs. Það er gott til þess að vita þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi eru meðvitaðir um að uppbygging Vatnajökulsþjóðgarðs er samfélaginu á Suðausturlandi mikilvæg.
Það er rétt sem kemur fram hjá þingmanninum að Vatnajökulsþjóðgarður skiptir alla uppbyggingu á Suðausturlandi gríðarlega miklu máli og þá sérstaklega í atvinnutilliti. Á Suðausturlandi hefur mikil uppbygging á sviði ferðamennsku átt sér stað og öflugur Vatnajökulsþjóðgarður myndi sannarlega styðja við og efla þann rekstur. Þess vegna skiptir það okkur mjög miklu máli að vandað verði til verka við stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs svo vel megi til takast og uppbyggingin skili sér inn í samfélagið.
Mörg ár eru liðin síðan Hornfirðingar áttuðu sig á því hvað jökullinn væri mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og hér hefur verið markviss uppbygging ferðaþjónustu frá þeim tíma sem byggist að miklu leyti á aðdráttarafli jökulsins. Ekkert eitt svæði á landinu býr í jafn mikilli nálægð við það glæsilega ferlíki sem Vatnjökull svo sannarlega er. Við tölum gjarnan um að við búum í Ríki Vatnajökuls. Vatnajökull er fyrir augum okkar alla daga allt árið um kring. Þess vegna er eðlilegt að stór hluti uppbyggingarinnar í kringum Vatnjökulsþjóðgarð fari fram í Sveitarfélaginu Hornafirði.
Jöklasýningin á Höfn í gamla vöruhúsinu er gott dæmi um þá metnaðarfullu uppbyggingu sem Hornfirðingar hafa staðið fyrir í tengslum við Vatnajökul og við erum hvergi nærri hætt á þeirri vegferð. Það er þá líka von okkar að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðar komi til með að styðja við bakið á okkur í þeirri viðleitni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.11.2006 | 14:04
Félagslíf ungmenna á Hornafirði
Í 44. tölublaði Eystrahorns birtist góð grein eftir þrjá drengi frá Hornafirði sem hafa áhyggjur af stöðu félagslífs á svæðinu fyrir ungmenni sem hafa lokið grunnskólagöngu. Á morgun birtist í Eystrahorni svargrein sem ég og Guðrún Ingimundardóttir, félagi minn í bæjarstjórn sömdum í ljósi umræðunnar.
Hún er svona:
Öflugt félagslíf ungmenna samfélaginu mikilvægt
Í 44. tbl. Eystrahorns frá 2. nóvember er ágæt grein eftir þá Sindra Snæ Þorsteinsson, Hrafn Eiríkssson og Hauk Halldórsson. Þeir stunda nám við Framhaldsskóla Austur - Skaftafellssýslu. Það er alltaf sérstakt ánægjuefni þegar ungt fólk lætur sig málefni sveitarfélagsins okkar varða eins og þeir félagar gera í grein sinni. Þeir eru líka að tala um málefni sem kemur okkur öllum við.
Í greininni er farið yfir ýmislegt í félagslífi unglinga hér í sveitarfélaginu eins og t.d. Lanið sem þeir félagar stunda af miklum vígamóð. Þeir félagar benda á það sem þeim þykir að betur megi fara í málefnum ungmenna á aldrinum 16 20 ára. Undir það skal tekið að félgagslif ungmenna á þeim aldri gæti auðvitað verið fjölbreyttara en það er í dag í okkar ágæta sveitarfélagi.
Unga fólkið hafi áhrif
Það er sannarlega rétt hjá Sindra, Hauki og Hrafni að stjórnmálamenn tala oft um það að mikilvægt sé fyrir bæjarfélagið að halda krökkunum hér á staðnum eftir að grunnskóla lýkur. Gott og öflugt félagslíf er ein af mikilvægustu forsendum þess að unga fólkið sjái ástæðu til þess að vera hér áfram eftir að grunnskóla lýkur. Til þess að unnt sé að byggja upp öflugra félagslíf í sveitarfélaginu fyrir ungmenni á aldrinum 16 20 ára er mikilvægt að allir þeir aðilar sem hafa með félagsmál og félagslíf ungmenna að gera setjist niður og ræði saman. Þá er mikilvægt að unga fólkið taki virkan þátt í þeirri umræðu þannig að þeirra sjónarmið séu höfð til hliðsjónar. Það er lykilatriði svo vel megi til takast að ungmennin sjálf séu gerendur í þessu ferli vegna þess að þau vita hvað þarf helst að bæta og hafa oft á tíðum hugmyndir sem aðrir koma ekki auga á.
Það er ekki rétt að við sem stjórnum í sveitarfélaginu segjum ykkur hvernig félagslífið á Hornafirði eigi að vera. Þið verðið að segja okkur til í þeim efnum og grein ykkar félaganna í Eystrahorni er mjög gott innlegg í þá umræðu. Orð eru til alls fyrst.
Umræðan komin af stað
Stjórnmálafólkið í sveitarfélaginu situr þó ekki auðum höndum þessa dagana heldur er verið að ræða þessi mál af mikilli alvöru. Á fundi Félagsmálaráðs 14. nóvember var þessi málaflokkur tekinn til umræðu. Félagsmálaráð bendir á nokkrar leiðir sem það telur að geti verið til bóta fyrir félagslíf ungmenna í sveitarfélaginu. Einnig er vert að benda á að Æskulýðs og tómstundaráð mun á næsta fundi taka þessi málefni til sérstakrar umfjöllunar. Það er því ljóst að grein ykkar félaga hefur svo sannarlega hreyft við okkur sem stýrum bæjarfélaginu í dag og við lýsum yfir fullum vilja til samstarfs við ykkur um að efla og bæta félagslíf ungmenna í sveitarfélaginu þannig að allir njóti góðs af.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Guðrún Ingimundardóttir
Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.11.2006 | 15:30
Til prufu
Ég hef ákveðið að prófa að blogga. Svo virðist að maður sé ekki maður með mönnum nú til dags nema vera með bloggsíðu.
Það er kannski svolítið öfugsnúið að ég skuli vera að byrja að blogga núna í ljósi þess að prófkjör sem ég tók þátt í er nýlokið. Ég hefði sennilega átt að gera þetta fyrir prófkjör. En því verður ekki breytt úr þessu. Þannig að það er ágætt að eiga þess síðu fyrir næstu atrennu ef til hennar kemur.
Þetta er líka ágæt leið til þess að halda einhvers konar dagbók og halda því sem maður birtir á prenti til haga.
Bloggar | Breytt 19.11.2006 kl. 10:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006