12.10.2010 | 14:42
Mikið að gera hjá bæjarstjórn
Á bæjarstjórnarfundi í gær upplýstu fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar að óvenju mikið væri að gera hjá kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins þessi dægrin. Ég get ekki sagt að það hafi komið mér á óvart. Hins vegar var nýstárlegt að annir væru notuð sem rök gegn því að setja mál, sem allir virtust efnislega sammála um á fundinum, í farveg.
Ég hef núna setið í bæjarstjórn Hornafjarðar í tæp fimm ár. Allan þann tíma hafa kjörnir fulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins verið störfum hlaðnir og af þeim sökum - miðað við röksemdafærslu gærdagsins - hef ég miklar áhyggjur af því hvenær hægt verður að fara í þessa vinnu.
Upplýst var um annir og tímaskort bæjarfulltrúa og starfsmanna í umræðum um tillögu sem bæjarfulltrúar minnihlutans lögðu fram þess efnis að fela að skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd að hefja strax vinnu við endurskoðun á rekstrarumhverfi leikskólanna á Hornafirði. Í tillögunni er kveðið á um að sérstaklega skuli kannaðir kostir þess að sameina rekstur leikskólanna undir einni yfirstjórn, þ.e. að sameina þá með svipuðum hætti og gert var með grunnskólana á síðasta kjörtímabili.
Í verkefnalista meirihluta bæjarstjórnar er kveðið á um að farið skuli í slíka vinnu á kjörtímabilinu. Þess vegna vekur það nokkra furðu að hann skuli ekki vera tilbúinn að hefja ferlið eins fljótt og auðið er svo hægt verði að hefja skólastarf næsta haust í samræmi við niðurstöður vinnunnar. Ekki er gott að bíða með áform eins og þessi - sérstaklega þegar þau liggja í loftinu og eru óumflýjanleg - vegna þeirrar óvissu sem það skapar fyrir stjórnendur, starfsfólk, nemendur og forráðamenn þeirra.
Rétt er að geta þess að í tillögunni var gert ráð fyrir því að skóla-, íþrótta- og tómstundanefnd myndi skila niðurstöðum sínum til bæjarstjórnar í mars á næsta ári. Fresturinn er því nokkuð rúmur. Og því hlýtur maður að spyrja sig hversu langan tíma meirihluti bæjarstjórnar ætlar sér í verkefnið - nokkur ár?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2010 | 08:55
Skólamál - fyrirspurn á bæjarstjórnarfundi
Í kosningabaráttu síðustu sveitarstjórnarkosninga var töluvert rætt um stöðu og skipulag skólamála á Hornafirði. Með skólamálum er hér átt við starf og starfsemi bæði í leik - og grunnskóla. Grunnskólar sveitarfélagsins - að undanskildum skólanum í Hofgarði í Öræfum - voru sameinaðir undir eina yfirstjórn og starfsstöðvum hans fækkað um eina. Hins vegar eru reknir tveir heildstæðir og aðskildir leikskólar í sveitarfélaginu í kjölfar ákvörðunar sem tekin var af bæjarstjórn undir lok þarsíðasta kjörtímabils, þ.e. 2002 - 2006.
Staða grunnskólans var mikið rædd út frá þeim skipulagsbreytingum sem gerðar voru á honum á sl. kjörtímabili. Almennt má segja að þær breytingar hafi heppnast vel, verið til framfara fyrir grunnskólann og að almenn sátt ríki um skipulagsbreytingarnar. Unnið var að breytingunum í nánu samstarfi við hagsmunaaðila; foreldra, stjórnendur, starfsmenn og nemendur.
Um leikskólann var umræðan hins vegar á þeim nótum um hvort komið væri að þeim tímapunkti að farið yrði í endurskoðun á þeirri stefnu sem tekin var fyrir rúmum fjórum árum á skipulagi leikskólamála. Margir töldu það nauðsynlegt, bæði vegna þess að ekki var einhugur í bæjarstjórn um ákvörðunina á sínum tíma og vegna þess hvernig var að henni staðið (ákvörðun tekin á síðast fundi fráfarandi bæjarstjórnar að afloknum kosningum), að gera sem fyrst úttekt á því hvernig til hefur tekist með það skipulag sem lagt var upp með og hvort að þau markmið, sem meirihlutinn að baki ákvörðuninni vildi ná fram, hafi gengið eftir.
Í samræmi við þessar umræður, bókun skóla -, íþrótta - og tómstundarnefndar um málið á 1. fundi nefndarinnar og áherslu okkar í Samfylkingunní um endurskoðun á skipulagi leikskólamála í kosningabaráttunni mun ég leggja fram eftirfarandi fyrirspurn á bæjarstjórnarfundi næsta fimmtudag:
Í verkefnalista þeim sem lagður var fram á 1. fundi skóla -, íþrótta og tómstundanefndar þann 23. júní sl. kemur m.a. fram:
Í leikskólamálum verður farið í vinnu í samráði við starfsfólk og foreldra að greina rekstrarumhverfi skólanna, viðhorf foreldra og starfsfólks til skipulagsins og ákvarðanir teknar á grundvelli þeirrar skoðunar.
Liggur fyrir ákvörðun hjá meirihluta bæjarstjórnar um hvenær farið verður af stað með þessa vinnu í leikskólamálum, sem talað er um í fundargerð skólanefndar, hvernig að henni verður staðið og hvenær niðurstöður hennar eigi að liggja fyrir svo hægt verði að taka taka þær ákvarðanir sem skólanefnd telur nauðsynlegar?
Í ljósi þeirrar vinnu sem framundan er hjá bæjarstjórn í þessum málaflokki leggur undirritaður því fram eftirfarandi fyrirspurnir um starfsemi um leik og grunnskóla í sveitarfélaginu?
Hve margir nemendur hefja nám í 1. bekk Grunnskóla Hornafjarðar í haust og í hve mörgum bekkjardeildum?
Hve margir þeirra nemenda, sem nú hefja grunnskólagöngu sína í Grunnskóla Hornafjarðar, voru á leikskóla og hve margir voru utan leikskóla á síðasta skólaári?
Hvernig skiptust þeir nemendur, sem voru á leikskóla á síðasta skólaári og eru að hefja grunnskólagöngu á þessu skólaári, á milli þeirra tveggja leikskóla sem starfræktir eru í sveitarfélaginu?
Hver er heildarfjöldi leikskólanemenda í sveitarfélaginu í upphafi skólaársins 2010 - 2011?
Hversu margir nemendur eru á hvorum leikskóla og hvernig er aldursdreifingu á þeim háttað, þ.e. hver er fjöldi nemenda í hverjum árgangi á hvorum leikskóla?
Hversu margir nýir nemendur voru teknir inn í leikskólana fyrir þetta skólaár og hvernig skiptast þeir á milli leikskólanna?
Hver hefur þróunin í nemendafjölda verið sl. tíu ár á grunn og leikskólastigi í sveitarfélaginu?
Hver hefur þróunin í fjölda starfsmanna við þessar sömu stofnanir verið á sl. tíu árum?
Hefur stjórnunarstöðum, innan grunnskólans annars vegar og leikskólanna hins vegar, fjölgað eða fækkað á áðurnefndu tíu ára tímabili?
Liggja fyrir spár um nemendafjölda grunn og leikskólanemenda á Hornfirði til næstu ára?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2010 | 12:17
Á Snæfellsnesi
Það kom manni óneitanlega á óvart að Jón Bjarnason, Sjávarútvegs - og landbúnaðarráðherra, skyldi ekki hafa séð sér fært að mæta á ríkisstjórnarfund í gær. Það kom sérstaklega á óvart vegna þess að í gær var haft eftir honum á forsíðu Morgunblaðsins að aðlögunarferli að ESB væri í raun hafið en ekki sé lengur um að ræða viðræðuferli við ESB eins og áður var talið - og hann vilji þess vegna að ferlið verði stöðvað. Þessa afstöðu byggir hann á minnisblaði ráðuneytisstjóra Sjávarútvegs - og landbúnaðarráðuneytisns um stöðuna í aðildrarviðræðunum.
Af þessum sökum hefði maður búist við því að ráðherrann myndi mæta galvaskur á fund ríkisstjórnar sinnar og greina frá uppgötvunum sínum og leggja það til að ríkisstjórnin myndi hafa forgöngu um það að umsóknin að ESB yrði dregin til baka. En þá bregður svo við að ráðherrann er upptekinn við brýnni mál vestur á Snæfellsnesi. Nú vil ég alls ekki gera lítið úr erindum hans fyrir vestan og víst er að það er bæði gaman og fallegt á Snæfellsnesi en maður hefði einhvern veginn haldið - í ljósi uppgötvana ráðherrans - að hann myndi mæta á ríkisstjórnarfund og greina samráðherrum sínum frá hinni nýju stöðu sem upp er komin í umsóknarferlinu og sínum sjónarmiðum varðandi framhaldið.
Þannig hefði líka mátt koma í veg fyrir þennan bjarnfreðska misskilning sem virðist tröllríða húsum í Sjávarútvegs - og landbúnaðarráðuneytinu.
24.8.2010 | 12:22
Kostnaður og styrkir
Á fundi bæjarráðs í sumar lagði ég fram tillögu þess efnis að framboðin í sveitarstjórnarkosningunum sl. vor gerðu grein fyrir kostnaði sínum og styrkjum til framboðsins í vegna kosninganna. Tillagan var lögð fram m.a. vegna þess að stjórnmálasamtök starfa á grundvelli laga um fjármál þeirra, framboðin eru studd af bæjarsjóði enda er kveðið á um það í sömu lögum og til þess að tryggja að þessar upplýsingar liggi fyrir og séu öllum kunnar. Það styrkir kjörna fulltrúa í störfum sínum fyrir sveitarfélagið - að ekki þurfi að efast um grundvöll ákvarðana þeirra á vettvangi bæjarstjórnar.
Bæjarráð samþykkti tillöguna samhljóða og í umræðum um málið á bæjarstjórnarfundi fyrir skemmstu kom eingöngu fram stuðningur við það í umræðunni þó einstaka bæjarfulltrúar hafi viðrað áhyggjur sínar af því að of mikið gagnsæi í þessum málum gæti torveldað fjármögnun minni framboða. Einnig komu fram spurningar um að bæjarráð væri farið að seilast heldur langt í upplýsingaöflun af þessu tagi - núverandi lög um fjármál stjórnmálaflokka ættu að duga.
Tvö þeirra fjögurra framboða sem tóku þátt í síðustu sveitarstjórnarkosningum hafa nú gert grein fyrir sínum málum; Samfylking og Framsóknarflokkur.
Hér er hægt að kynna sér tilkynningu Samfylkingarinnar og uppgjör hér.
23.8.2010 | 11:56
Stór verkefni framundan hjá bæjarstjórn
Af umræðum síðasta bæjarstjórnarfundar, sem haldinn var 12. ágúst sl., að dæma er ljóst að mörg stór og mikilvæg mál þarfnast umræðu og úrlausnar bæjarstjórnar þetta haust. Ekki ber að skilja þetta þannig að næsti vetur verði sveitarfélaginu eitthvað sérstaklega erfiður. Ekkert gefur sérstakt tilefni til að ætla það en nokkrum atriðum verður bæjarstjórn að gefa sérstakan gaum.
Þar ber fyrst að nefna vinnuna við fjárlög ríkisins fyrir næsta ár. Enn og aftur bíður Alþingis að vinna hið óvinsæla verk - að leita leiða til að skera niður í rekstri ríkisins. Í þeirri vinnu Alþingis er gríðarlega mikilvægt að tekið verði tillit til sjónarmiða um að verja þurfi opinbera þjónustu og störf á landsbyggðinni. Taka verður tillit til þess ef þjónustan er ekki lengur staðar í sveitarfélaginu þá verði íbúarnir að ferðast um langan veg til þess að nýta sér hana - og sitja því ekki við sama borð og aðrir landsmenn. Þessi sjónarmið verða áfram að liggja til grundvallar við fjárlagagerðina.
Annað atriði, sem mikilvægt er að bæjarstjórn fylgist vel með og komi sjónarmiðum sínum á framfæri, er vinna við breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Samgöngu - og sveitarstjórnarráðherra ákvað, eftir að starfshópur á hans vegum skilaði tillögum um breytingar á regluverki sjóðsins í sumar, að skipa vinnuhóp til þess að undirbúa þá tillögu starfshópsins sem lengst gengur í breytingum á sjóðnum. Þar er gert ráð fyrir því að útgjaldaþörf sveitarfélaga til lögbundinna og eðlilegra verkefni verði metin og í framhaldinu muni jöfnunarsjóðurinn einungis jafna með tilliti til útgjalda sveitarfélaganna til þessara fyrirfram ákveðnu og skilgreindu verkefna.
Í þessum efnum er mikilvægt að svipuð sjónarmið og ég nefndi hér áðan varðandi fjárlagagerðina um mismunandi stöðu sveitarfélaga og aðstöðu íbúa þeirra til þess að sækja sér þjónustu, komi strax fram. Oft er um að ræða þjónustu og verkfefni sem flestum þykir sjálfsögð en í sumum sveitarfélögum er ekki raunhæft að aðrir en sveitarfélagið standi að þeim. Það er hins vegar ekki víst að sömu lögmál gildi um hvaða verkefni eðlilegt sé að sveitarfélög komi að eftir því hvar við erum stödd á landinu. Það er t.d. ekki víst að nákvæmlega sömu lögmál gildi um rekstur sveitarfélaga á borð við Hornafjörð og svo sveitarfélög á Stór - Reykjavíkursvæðinu - svo einfalt dæmi sé tekið.
27.7.2010 | 00:58
Í upphafi skyldi endinn skoða
Kastljós fjölmiðlanna beinist þessa dagana fyrst og fremst að kaupum Magma Energy á HS Orku - eða öllu heldur að síðbúnu upphlaupi innan ríkisstjórnarflokkanna vegna málsins. Nokkrir þingmenn annars stjórnarflokksins hóta nánast stjórnarstlitum verði ekki farið að ítrustu kröfum þeirra, þ.e. að ríkið rifti kaupsamningi Magma á HS Orku. Erfitt er að verða við þeirri kröfu enda er ríkið ekki aðili að samningnum en sjálfsagt er að skoða málið frá öllum hliðum.
Grundvöllur þeirrar riftunar er sá að brotin hafi verið lög um erlenda fjárfestingu þegar Magma Energy stofnaði eignarhaldsfélag - skúffufyrirtæki - í Svíþjóð til þess að geta fjárfest í HS Orku. Sjálfsagt er að kanna það til hlítar hvort lög hafi verið brotin en þar til búið er að fá úr því skorið með fullnægjandi hætti færi betur á því að spara stóru orðin.
Tilurð hins sænskættaða skúffufyrirtækis má rekja til laga um erlenda fjárfestingu. Þar er kveðið á um að einkaaðilum frá Íslandi og öðrum EES ríkjum sé heimilt að fjárfesta í raforkuframleiðslufyrirtækjum á Íslandi. Fyrirtækjum frá Búlgaríu, Póllandi, Danmörku, Bretlandi og Rúmeníu - bara svona til að nefna nokkur ríki sem eru aðilar að EES - er því frjálst að fjárfesta í HS Orku.
Einkaeign eða opinbert eignarhald
Hvort einkaaðilinn sem eignast HS Orku er kanadískur, sænskur eða íslenskur getur því varla skipt höfuðmáli við afgreiðslu þessa máls enda liggur fyrir að aðrir en Íslendingar geta eignast HS Orku skv. gildandi löggjöf. Þetta vita þeir sem krefjast þess að ríkisstjórnin rifti samningnum enda er þeim alveg sama hvers lenskir eigendurnir eru. Pólitísk markmið þeirra snúast um að öll raforkuframleiðsla sé í höndum hins opinbera. Það er gott og gilt sjónarmið en hæpið er að breið pólitísk samstaða geti skapast um þá framtíðarsýn.
Grundvallaratriðið sem flestir eru sammála um - fyrir utan nokkra sértrúarmenn á hinum væng stjórnmálanna - er að tryggja opinbert eignarhald á náttúrauðlindunum sjálfum og ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks lögfesti árið 2008 ákvæði þess efnis að ríki og sveitarfélögum er óheimilt að selja orkuauðlindir sínar til einkaaðila. Þá var einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja hins vegar hafið. Upphafleg einkavæðing Hitaveitu Suðurnesja fól ekki bara í sér nýtingarrétt þáverandi eigenda - m.a. Geysis Green Energy, sem var í eigu FL Group - heldur líka eignarrétt. Staðan í dag er hins vegar sú að HS Orka hefur einungis nýtingarrétt á orkuauðlindinni en auðlindin sjálf er í eigu Reykjanesbæjar.
Stytting nýtingarréttarins og forkaupsréttur ríkisins
Kaup Magma á HS Orku eru sannarlega ekki yfir gagnrýni hafin. Full ástæða er til endurskoða lengd nýtingarréttarins og framlengingarákvæði samningsins. Nýtingarréttur til svo langs tíma er mjög umdeilanlegur. Ríkisstjórnin á líka að leita allra leiða til að tryggja forkaupsrétt ríkisins á fyrirtækinu. Einnig verður að tryggja eigendum auðlindarinnar eðlilegan arð af nýtingu þeirra. Það á að sjálfsögðu að gilda um nýtingu allra náttúruauðlinda landsmanna.
Einnig er sjálfsagt og eðlilegt að rannsakað verði hvort eðlilega hafi verið staðið að einkavæðingu Hitaveitunnar á sínum tíma og brýnt er að lög um erlenda fjárfestingu verði endurskoðuð til að koma í veg fyrir svona klúður í framtíðinni.
Allt AGS að kenna?
Umræðan um kaupin hefur hins vegar verið á mjög lágu plani síðustu daga. Allt er gert til þess að gera samninginn eins tortryggilegan og hægt er og tilgangurinn helgar algjörlega meðalið í þeim efnum.
Á frumlegum fyrirlestri sem haldinn var fyrir skemmstu aðstandendur töluðu reyndar um blaðamannafund var gerð tilraun til að tengja söluna á HS Orku við Ice Save málið. Það er vinsæl aðferð í dag og algjörlega gulltryggt að hún virkar þegar málefnaleg rök skortir að tengja mál við uppgjör Ice Save skuldarinnar. Það ýtir undir allt í senn; tortryggni, grunsemdir, hræðslu og reiði.
Þessa eiginleika þjóðarsálarinnar er auðvelt að virkja um þessar mundir og ekkert beittara vopn er tiltækt í þeim efnum en Ice Save. Formanni Framsóknarflokksins tókst þó að toppa bullið á vinsældaveiðum sínum með þvi að tengja kaupin við samstarf stjórnvalda við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Að tengja AGS við umdeil mál er, auk tengingarinnar við Ice Save, skotheld leið til þess að tryggja að örugglega sjáist ekki til botns í gruggugu vatninu. Núverandi stjórnarliðar geta svo velt vöngum yfir því hvort vöflur væru á formanni Framsóknarflokksins við að styðja samninginn um kaupin væri hann í aðstöðu til að leiða málið til lykta.
Velferðarkerfið - brýnasta verkefnið
Þessu máli verður að lenda sem allra fyrst í ríkisstjórninni. Það er alltof mikið í húfi til þess að fórna ríkisstjórnarsamstarfinu út af Magma. Búið er að takast á við margvíslegar afleiðingar efnahagshrunsins en mörg verkefni bíða enn úrlausnar. Í mínum huga er grundvallaratriðið ennþá að félagshyggju - og jafnaðarstjórn sé við völd til að takast á við þau vandamál sem við er að etja í kjölfar efnahagshruns frjálshyggjunnar.
Kjósendur voru sammála félagshyggjuöflunum um að niðurbrot á velferðarkerfinu þýddi niðurbrot á samfélaginu. Af þessum ástæðum er núverandi ríkisstjórn við völd - kjósendur treystu félagshyggju - og jafnaðarflokkunum til að standa vörð um velferðarkerfið á tímum gríðarlegra þrenginga. Hrunflokkunum er ekki treystandi til þess og því var þeim hafnað. Það hefur ekki breyst.
Þetta skyldi allt félagshyggju - og jafnaðarfólk hugleiða vandlega áður en afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar vegna mála sem ríkisstjórnin hefur litla eða takmarkaða stjórn á.
Niðurstaða raunsæs jafnaðarmanns
Lágmörkum hugsanlegan skaða af kaupum Magma Energy á HS Orku með því að stytta nýtingarrétt fyrirtækisins á orkuauðlindinni, tryggjum forkaupsrétt ríkisins, hefjum rannsókn á einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja og endurskoðum lög um erlenda fjárfestingu.
Snúum okkur síðan að öðrum brýnum málum eins og því að verja velferðarsamfélagið í áframhaldandi niðurskurði á fjárlögum, stjórnlagaþingi, lýðræðislegri afgreiðslu þjóðarinnar á aðildarsamningi við ESB, raunverulegri þjóðareign á öllum náttúruauðlindum og fleiri grundvallarmálum sem sameina allt jafnaðarfólk.
Í framtíðinni verður þessi ríkisstjórn ekki dæmd út frá lyktum þessa máls heldur út frá því hvort henni tókst á erfiðum og viðsjárverðum tímum að reisa við efnahag þjóðarinnar, verja velferðina og búa almenningi skilyrði til þess að komast standandi út úr kreppunni. Ef þessi verkefni mistakast er hætt við að dómur sögunnar vegna Magma verði hjómið eitt í samanburði við þann dóm sem vinstri flokkarnir fá fyrir það að klúðra sögulegu tækifæri sínu til þess að endureisa samfélagið á traustum grunni hugsjóna jafnaðarmanna.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2010 | 12:12
Framboðin upplýsi um kostnað og styrki
Á síðasta bæjarráðsfundi lagði ég fram tillögu þess efnis að framboðin í sveitarstjórnarkosningum sl. vor upplýstu um kostnað og styrki vegna kosninganna. Vísaði ég m.a. til þess að birting upplýsinga um kostnað og styrki framboðanna vegna kosninganna væri eðlilegur liður í því að auka gagnsæi og efla lýðræðið í sveitarfélaginu. Upplýsingagjöf sem þessi auðveldar líka kjörnum fulltrúum ákvarðanatöku í bæjarstjórn þar sem þessar upplýsingar liggja fyrir frá upphafi og enginn ætti því að þurfa að velkjast í vafa um hvort ákvarðanir kjörinna fulltrúa snúist um nokkuð annað en almannahag.
Kjósendur eiga eðlilega heimtingu á því að vita hvað framboðin eyddu miklum fjármunum - og hvernig - í sinni kosningabaráttu sem og hverjir studdu framboðin - hafi framboðin notið stuðnings frá utanaðakomandi aðilum á annað borð. Framlög sveitarfélagsins til framboðanna á síðasta kjörtímabili á grundvelli laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og upplýsingaskyldu þeirra ýta enn frekar undir þá kröfu að framboðin upplýsi um fjármál sín.
Tillagan var samþykkt samhljóða í bæjarráði og því ber að fagna. Það undirstrikar vilja kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn Hornafjarðar til þess að gagnsæi og opin og lýðræðisleg vinnubrögð verði grundvöllur starfa þeirra í umboði kjósenda. Traust er lykilatriði í stjórnmálum og í raun grundvöllur þess að lýðræðið virki yfir höfuð. Upplýsingagjöf í þessum anda til almennings frá stjórnmálasamtökum, sem starfa innan bæjarstjórnar, eru mikilvægur liður í því að viðhalda og efla traust fólks til þeirra.
Á þessum sama fundi lagði ég fram fyrirspurn í þremur liðum fyrir bæjarstjóra um nýtt fasteignamat í sveitarfélaginu. Fyrirspurninni var lögð fram til þess að fá fram upplýsingar um hvaða þýðingu hækkun á fasteignamati í sveitarfélaginu hefði fyrir tekjugrunn sveitarsjóðs og hvort hækkun tekna sveitarfélagsins vegna fasteignaskatts hefði áhrif á framlög jöfnunarsjóðs. Á grundvelli þessara upplýsinga væri síðan hægt að meta hvort tilefni væri til að lækka álagningu fasteignaskatts - enda verið í umræðunni að sveitarfélögin, þar sem fasteignamatið lækkar, muni hækka álagningu fasteignaskatts til að mæta tekjumissinum. Hægt er að lesa svör bæjarstjóra við fyrirspurninni hér.
8.7.2010 | 12:27
Fjármál framboðanna
Mikil umræða hefur farið fram um fjármál stjórnmálaflokkanna undanfarin ár. Efnahagshrunið varð síður en svo til þess að róa þá umræðu. Töldu margir að hrunið hefði leitt í ljós hverra erinda stjórnmálamennirnir í landinu gengju. Eitt er víst að á góðærisárunum fyrir hrun þá hækkuðu styrkir fyrirtækja og einstaklinga til flokkanna og stjórnmálamanna í réttu hlutfalli við flottræfisháttinn sem viðgekkst í samfélaginu.
Skemmst er að minnast risastyrkja Landsbankans og FL group til Sjálfstæðisflokksins á síðustum dögum ársins 2006. Uppljóstrun þeirra styrkja leiddi til þess að Sjálfstæðisflokkurinn ákvað að endurgreiða þá - vaxtalaust. Það sem gerði þessa tilteknu styrki sérstaklega ámælisverða - fyrir utan hversu háir þeir voru - var að þeir voru reiddir af hendi nokkrum dögum eftir að lög um fjármál stjórnmálaflokka voru samþyktk á Alþingi en nokkrum dögum áður en lögin áttu að taka gildi.
Tilgangur laganna sem hér um ræðir var einmitt að draga úr hættunni á hagsmunaárekstrum á milli atvinnu - og viðskiptalífs og stjórnmálanna og að tryggja gagnsæi í fjármálum stjórnmálamanna og flokka. Markmiðin voru þau að auka traust og tiltrú almennings á starfsemi stjórnmálasamtaka og að efla lýðræði í landinu. Skiptar skoðanir eru uppi um það hvort markmið laganna hafi náð fram að ganga.
Í II. kafla laganna er fjallað um framlög ríkis og sveitarfélaga til stjórnmálastarfsemi. Þar kemur fram að sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa er skylt að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í bæjarstjórn eða hafa hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum kosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Þau framboð, sem nú eiga fulltrúa í bæjarstjórn Hornafjarðar starfa því - og störfuðu á sl. kjörtímabili - að stórum hluta fyrir fé úr sameiginlegum sjóðum bæjarbúa - eins og væntanlega framboð í öðrum sambærilegum sveitarfélögum, sé farið að lögum.
Kjósendur á Hornafirði eiga því heimtingu á því - eins og aðrir landsmenn - að fjármál þeirra framboða sem starfa í þeirra umboði séu uppi á borðum og öllum kunn. Upplýsingar frá framboðunum um kostnað og styrki vegna sveitarstjórnakosninga sl. vor eru því nauðsynlegar til þess að tryggja gagnsæi í störfum sveitarstjórnar og lýðræðisleg vinnubrögð. Birting slíkra upplýsinga getur líka eytt tortryggni í garð framboðanna - sé hún til staðar á annað borð.
Af þessum ástæðum mun ég á næsta fundi bæjarráðs leggja fram eftirfarandi tillögu:
Bæjarráð beinir þeim tilmælum til þeirra flokka, sem buðu fram til bæjarstjórnar í Sveitarfélaginu Hornafirði sl. vor, að þeir leggi fram upplýsingar um heildarkostnað og styrki (t.d. bein fjárframlög einstaklinga og lögaðila, afslættir af leigu kosningamiðstöðva, aðrir afslættir og annað sem talist getur styrkur) vegna framboða sinna.
Ég á ekki von á öðru en tillagan muni hljóta hljómgrunn í bæjarráði.26.6.2010 | 00:11
Regluverk jöfnunarsjóðs endurskoðað
Starfshópur samgöngu - og sveitarstjórnarráðherra, sem ætlað var að endurskoða laga - og reglugerðarákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, birti skýrslu sína í dag. Flosi Eiríksson, formaður starfshópsins og Kristján L. Möller, samgöngu - og sveitarstjórnarráðherra kynntu helstu niðurstöður og tillögur starfshópsins á blaðamannafundi í dag.
Tillögurnar fela í sér töluverðar breytingar á regluverki sjóðsins. En í grófum dráttum má segja að þær felist í því að jöfnunarframlag sjóðsins til sveitarfélaga verði miðað við útgjaldaþörf sveitarfélaganna en svokallað tekjujöfnunarframlag verði lagt niður. Til þess að meta útgjaldaþörf sveitarfélaganna verði þróaðar leiðir til þess að meta útgjaldaþörf sveitarfélaga til lögbundinna og venjubundinna verkefna á vegum sveitarfélaganna. Markmiðið með þessari breytingu er auðvitað að tryggja að peningarnir skili sér þangað sem þeirra er þörf, þ.e. til þeirra sveitarfélaga sem eru að veita íbúum sínum nauðsynlega og eðlilega þjónustu.
Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru ein af meginstoðum skatttekna Sveitarfélagsins Hornafjarðar og eru framlög úr sjóðnum yfir 25% af skatttekjum sveitarfélagsins. Full þörf er því á að bæjarfulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins fari vel yfir þessar tillögur og kynni þær sér ítarlega. Málið verður væntanlega kynnt á næsta bæjarráðsfundi.
Hægt er að kynna sér helstu niðurstöður og skýrslu starfshópsins hér.
22.6.2010 | 11:10
Fyrsta mál - samþykkt
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gær tillögu mína um undirbúning endurskoðunar aðalskipulags sveitarfélagsins. Hún felur í sér að umhverfis - og skipulagsnefnd er falið að móta tillögur fyrir bæjarstjórn um með hvaða hætti verður staðið að endurskoðun aðalskipulags á þessu kjörtímabili.
Á síðasta kjörtímabili vann starfshópur, sem bæjarstjórn skipaði, að endurskoðuninni. Ljóst var af þeirri vinnu að endurskoðun er orðin tímabær. Vinna starfshópsins á síðasta kjörtímabili ætti að geta nýst við endurskoðunina á þessu kjörtímabili.
Hér er um stórt, flókið og tímafrekt verkefni að ræða. Af þeim sökum taldi ég mikilvægt að undirbúningur þess hæfist sem fyrst og þess vegna var tillagan lögð fram á fundi bæjarráðs í gær.
Lögð var áhersla á að tillögur umhverfis - og skipulagsnefndar til bæjarstjórnar, sem eiga liggja fyrir á fundi bæjarstjórnar í október, segðu til um það með hvaða hætti samráði við almenning verður háttað og hvort grundvöllur sé fyrir því að halda sérstakt íbúaþing vegna endurskoðunarinnar.
Tillagan sem lögð var fram og samþykkt í gær er eftirfarandi:
Endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins
Tillaga áheyrnarfulltrúa Samfylkingarinnar
Bæjarráð samþykkir að vísa afrakstri vinnu starfhóps um endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins, sem bæjarstjórn skipaði á síðasta kjörtímabili, til umfjöllunar í umhverfis og skipulagsnefnd. Bæjarráð felur umhverfis og skipulagsnefnd að fara yfir fyrirliggjandi gögn um endurskoðun aðalskipulags og móta tillögur fyrir bæjarstjórn með hvaða hætti unnið verður að endurskoðun aðalskipulags á þessu kjörtímabili. Bæjarráð leggur áherslu á að tillögur umhverfis og skipulagsnefndar feli í sér víðtækt samráð við almenning og kannað verði hvort grundvöllur sé til að halda sérstakt íbúaþing í tengslum við endurskoðun aðalskipulags. Tillögur umhverfis og skipulagsnefndar skulu liggja fyrir á fundi bæjarstjórnar í október 2010.
Það er mjög ánægjulegt að þetta viðamikla og mikilvæga mál sé komið á undirbúningsstig strax vegna þess að ein meginástæða þess að ekki tókst að ljúka því á síðasta kjörtímabili var að vinnan fór einfaldlega of seint af stað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006