Leita í fréttum mbl.is

Áherslur á kjörtímabilinu

Frá því ég tók sæti í bæjarstjórn Hornafjarðar fyrir fjórum árum hefur mér fundist megineinkenni bæjarstjórnar Hornafjarðar vera góð samstaða um stóru málin. Einnig hefur mér fundist góð samvinna á milli allra framboða í bæjarstjórn sérstaklega þegur kemur að því að leysa úr stóru málunum sem koma inn á borð bæjarstjórnar.

Í grófum dráttum hefur mér fundist bæði meiri - og minnihluti í bæjarstjórn Hornafjarðar ástunda vinnubrögð sem mjög er kallað eftir á Íslandi nú um stundir. Þetta verða vonandi áfram megineikennin á bæjarstjórninni á nýhöfnu kjörtímabili - þótt hið pólitíska landslag hafi töluvert breyst.

Á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar lagði ég fram stutta bókun um áherslur Samfylkingarinnar í bæjarstjórn á kjörtímabilinu. Bókunin var lögð fram í ljósi þess að Samfylkingin starfar nú í minnihluta eftir að hafa starfað með Framsóknarflokknum í meirihluta á síðasta kjörtímabili, sem nú er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Ég læt bókunina fylgja hér með:

Samfylkingin hefur nú sitt annað kjörtímabil í bæjarstjórn Hornafjarðar. Eftir að hafa starfað í meirihluta á síðasta kjörtímabili urðu niðurstöður kosninganna þær að Samfylkingin starfar minnihluta á nýhöfnu kjörtímabili.

Nýkjörin bæjarstjórn tekur við góðu búi. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk og rekstur sveitarfélagsins er traustur. Þessa stöðu verður að verja með öllum tiltækum ráðum og það krefst samstillts átaks bæjarstjórnar vegna erfiðra efnahagsaðstæðna á Íslandi.

Harkalegur niðurskurður ríkisútgjalda er hafinn og mun vera viðvarandi á fjárlögum næstu ára. Bæjarstjórn Hornafjarðar verður að berjast fyrir því að niðurskurður stjórnvalda fækki ekki opinberum störfum í sveitarfélaginu. Í atvinnumálum almennt verður sveitarfélagið að leita leiða til þess að koma í veg fyrir einsleitni í atvinnulífinu.

Á kjörtímabilinu mun Samfylkingin leggja áherslu á að bæjarstjórn forgangsraði í þágu velferðarþjónustunnar í sveitarfélaginu. Á tímum minnkandi tekna er forgangsatriði að velferðin verði varin, þar sem þarfir fjölskyldunnar eru í fyrirrúmi.

Samfylkingin mun nú sem fyrr leggja öllum góðum málum lið í bæjarstjórn en mun jafnframt veita nýjum meirihluta Framsóknarflokksins kröftugt aðhald í öðrum málum. Það er von Samfylkingarinnar að samstarf nýkjörinnar bæjarstjórnar verði farsælt og að málefnaleg umræða verði áfram megineinkenni bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar og að því mun Samfylkingin vinna.

Einnig gerðu bæjarfulltrúar D - lista Sjálfstæðisflokksins og S - lista Samfylkingarinnar grein fyrir samkomulagi á milli framboðanna um skiptingu fulltrúa minnihlutans í nefndum sveitarfélagsins. Hægt er kynna sér nánar nefndaskipan sveitarfélagsins hér.


Ný bæjarstjórn tekur við

Í gær var fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar Hornafjarðar. Allmargar breytingar urðu á skipan bæjarstjórnar í síðustu kosningum. Framsóknarflokkurinn vann hreinan meirihluta og við í Samfylkingunni töpuðum einum bæjarfulltrúa. Hlutskipti Samfylkingarinnar á nýhöfnu kjörtímabili er því að starfa í minnihluta.

Á dagskrá bæjarstjórnar í gær var m.a. að ráða bæjarstjóra fyrir sveitarfélagið til næstu fjögurra ára. Tillaga meirihluta Framsóknarmanna var að Hjalti Þór Vignisson yrði ráðinn bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar til næstu fjögurra ára. Af því tilefni lagði ég fram eftirfarandi bókun þar sem ég gerði grein fyrir atkvæði mínu vegnar raðningar bæjarstjóra:

Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar harmar þá ákvörðun Framsóknarflokksins að gera ópólitískan bæjarstjóra sveitarfélagsins, Hjalta Þór Vignisson, að sérstöku kosningamáli á kostnað málefna í aðdraganda sveitarstjórnakosninga 29. maí sl. Sú ákvörðun hefur án efa átt stóran þátt í sigri flokksins í kosningunum og stuðlað að hreinum meirihluta hans í bæjarstjórn. Framsóknarflokkurinn er því í lykilaðstöðu til að efna það kosningaloforð sitt að atkvæði greitt Framsóknarflokknum tryggði Hjalta Þór Vignisson áfram sem bæjarstjóra. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar telur rétt að veita Framsóknarflokknum svigrúm til þess efna þetta kosningaloforð.

Af þessum sökum situr bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hjá við atkvæðagreiðslu um ráðningu bæjarstjóra.  


Íslensk stjórnsýsla endurskipulögð

Endurreisn íslensks efnahags og samfélags felur í sér algjöra uppstokkun á stjórnsýslunni. Hún reyndist vanbúin til að takast á við þau stórkostlegu vandamál sem nýfrjálshyggjan skóp fyrir samfélagið. Engu er líkara en að yfirgripsmikil vanþekking hafi stýrt för við uppbyggingu stjórnsýslunnar á síðasta áratug. Þjóðfélagið sýpur nú seyðið af vanmáttugri stjórnsýslu frjálshyggjunnar og því er nú verið að endurskipuleggja íslenskt stjórnkerfi og stjórnsýslu frá grunni.

Sveitarfélögin ekki undanskilin

Skipan sveitarstjórnarmála er ekki undanskilin í endurskipulagningu stjórnsýslunnar. Samgöngu - og sveitarstjórnarráðuneytið hefur skipað fjögurra manna nefnd til að ræða og meta sameiningarkosti í hverjum landshluta. Þegar nefndin hefur lokið tillögugerð sinni verða tillögurnar lagðar fyrir landsþing eða aukalandsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga. Mun ráðherra í framhaldi af því leggja fyrir Alþingi áætlun um sameiningar fram til ársins 2014.

Samgöngu - og sveitastjórnarráðherra hefur látið hafa eftir sér að sveitarfélögin gætu orðið sautján talsins. Í dag eru þau tæplega áttatíu. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem jafnframt er bæjarstjóri á Ísafirði, hefur nefnt að þau gætu orðið sjö. Ef af þessu verður, er ljóst að verið er að leggja grunn að gjörbreyttu umhverfi íslenskra sveitarfélaga - þó ekki verði farið eftir ýtrustu tillögum

Staða Hornafjarðar

Kjörnir fulltrúar verða að vera meðvitaðir um að þessi vinna er í fullum gangi. Ný bæjarstjórn verður að móta sér skýra sýn um stöðu Sveitarfélagsins Hornafjarðar áður en fulltrúar hennar mæta til næsta landsþings Sambands sveitarfélaga sem væntanlega verður haldið næsta haust. Þetta eru stóru línurnar í sveitarstjórnarpólitík næstu ára.

Að tryggja og efla þjónustustigið í sveitarfélaginu verður að vera leiðarljós bæjarfulltrúa í þessari umræðu - að sveitarfélagið hafi burði til að sjá íbúunum fyrir þeirri þjónustu sem þeir eiga heimtingu á. Þetta er meginmarkmiðið. Spurningin sem bæjarstjórn verður að svara er því þessi; verður Sveitarfélagið Hornafjörður betur í stakk búið til að sinna sínum íbúum sem hluti af stærri heild eða með óbreyttu fyrirkomulagi, þ.e. án frekari sameininga?

Skýr sýn Samfylkingarinnar

Samfylkingin hefur markað sér skýra sýn í þessum málum fyrir komandi kjörtímabil. Við teljum frekari sameiningu við önnur sveitarfélög ekki tímabæra enda hafi ekki verið bent á neina augljósa kosti í þeim efnum. Við leggjum hins vegar áherslu á áframhaldandi gott samstarf við önnur svæði og sveitarfélög sem grundvallast á sameiginlegum hagsmunum.  

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Bæjarfulltrúi og skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar


Bera sveitarfélög ábyrgð í atvinnumálum?

Öll byggð ból byggja tilveru sína á því að íbúarnir hafi atvinnu. Atvinnutækifæri eru forsenda byggðar. Fjölbreytni í atvinnulífinu hlýtur því að treysta búsetu á einstökum svæðum betur en einsleitni.

Bera sveitarfélög einhverja ábyrgð í þessum málaflokki eða eiga þau að eftirláta hinum frjálsa markaði þróun og eflingu atvinnulífsins? Þeirri spurningu hefur í raun verið svarað. Eftir að atvinnuleysi jókst í kjölfar hrunsins er hrópað á opinbera aðila - ríki og sveitarfélög - að grípa til aðgerða. Sveitarfélög eru einnig hluti af vinnumarkaðnum bæði í gegnum innkaup á vörum og þjónustu og sem atvinnurekandi. Ótvírætt er því að sveitarfélög bera mikla ábyrgð í atvinnumálum.

Hvert er hlutverk sveitarfélaganna?

Hlutverk og ábyrgð sveitarfélagsins felst fyrst og fremst í því að skapa aðstæður og forsendur fyrir öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi, sem býður fólki uppá spennandi atvinnutækifæri. Liður í að skapa aðstæður fyrir þróun og eflingu atvinnulífs - og þar með fjölbreyttum atvinnutækifærum - er að sveitarfélagið komi að uppbyggingu stuðningsnets fyrir atvinnulífið. Gott dæmi um þetta er uppbygging Nýheima, starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar , starf Háskólaseturs og aðrar stofnanir sem með beinum eða óbeinum hætti styðja við atvinnulífið. Áframhaldandi velvilji og stuðningur sveitarfélagsins við þetta starf er því mjög mikilvægur.

Aðkoma sveitarfélagsins að einstökum verkefnum er hins vegar ekki einföld. Taka verður tillit til jafnræðis - og samkeppnissjónarmiða og passa verður að með stuðningi við einn sé ekki verið að brjóta á öðrum. Hér er því um jafnvægislist að ræða. Því verður hins vegar ekki á móti mælt að fólk lítur til sveitarfélagsins sem mikilvægs aflvaka í atvinnumálum.

Mörg járn í eldinum

Á yfirstandandi kjörtímabili hefur sveitarfélagið unnið að eflingu atvinnulífsins með ýmsum hætti. Á grundvelli könnunar sem sveitarfélagið lét vinna um fýsileika vatnsútflutnings af svæðinu var undirritað samkomulag við Rolf Johansen og Co. um uppbyggingu átöppunarverksmiðju fyrir vatn. Í samræmi við samkomulagið er nú unnið að rannsóknum og undirbúningi verkefnisins. Fyrstu niðurstöður gefa tilefni til bjartsýni. Verksmiðjan mun, ef af verður, skapa 5 - 10 heilsársstörf þegar afkastagetan hefur náð hámarki.

Átta kaupleiguíbúðir voru seldar til einkaaðila, sem nú nýtast í þágu ferðaþjónustunnar og sömu sögu má segja um eignir sveitarfélagsins í Nesjaskóla. Sveitarfélagið kom að stofnun ferðaþjónustu-, menningar - og matvælaklasa í ríki Vatnajökuls og leggur klasanum til 3 milljónir króna á ári. Atvinnu - og rannsóknarsjóður var settur á laggirnar í byrjun árs 2009 með 20 milljóna króna framlagi, sem varð til við sölu fasteigna sveitarfélagsins í Nesjaskóla. Fjölmörg atvinnuskapandi verkefni hafa hlotið styrki úr sjóðnum.  Verkefnin, sem hér hafa verið nefnd, eru bara brot af þeim verkefnum sem sveitarfélagið hefur átt aðkoma að á kjörtímabilinu. Upptalningin sýnir hins vegar að sveitarfélagið er mjög virkt í viðleitni sinni við að hlúa að atvinnulífi svæðisins - í samræmi við hlutverk sitt.  


Árni Rúnar Þorvaldsson

Bæjarfulltrúi og skipar 1. sæti á lista Samfylkingarinnar

Stephen Róbert Johnson

Varabæjarfulltrúi og skipar 4. sæti á lista Samfylkingarinnar


Sterk staða Hornafjarðar í efnahagslegum ólgusjó

Segja má að hugmyndir og kenningar þekktra hagfræðinga um hlutverk ríkisvaldsins í efnahagsstjórnun hafi gengið í endurnýjun lífdaga á Íslandi eftir banka - og gjaldeyrishrunið árið 2008. Margir þeirra, sem á uppgangstímum töldu að ríkisvaldið ætti sem minnst að skipta sér af atvinnu - og fjármálalífinu, linna nú ekki látum vegna aðgerðarleysis ríkisvaldsins í atvinnumálum. Margt er eflaust réttmætt í þeirri gagnrýni þótt það komi stundum á óvart hvaðan gagnrýnin kemur. Sveitarfélögin í landinu hafa líka mikilvægu hlutverki að gegna í efnahagsstjórnun þjóðfélagsins enda standa þau undir stórum hluta opinbers rekstrar og framkvæmda.

Olíu hellt á góðærisbálið

Það er rétt sem gagnrýnendur benda á, að hjól atvinnulífsins stöðvuðust við banka - og gjaldeyrishrunið á hausdögum 2008. Því er mjög eftir því kallað að hið opinbera ráðist í stórtækar og mannaflsfrekar framkvæmdir til þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað. Vandinn er bara sá að ríkið er ekki í aðstöðu til þess að rækja hlutverk sitt - sem nú virðist orðið óumdeilt - á krepputímum, þar sem kenningarnar um hlutverk hins opinbera í efnahagsstjórnun voru ekki jafn mikið í umræðunni þegar betur áraði. Hin hliðin á efnahagspeningnum er nefnilega sú að á uppgangstímum er það hlutverk ríkisvaldsins að draga saman seglin. Það var ekki gert. Þvert á mótin helltu stjórnvöld olíu á góðærisbálið með sársaukafullum afleiðingum fyrir þjóðfélagið. Fjölbreytt hagstjórnarmistök fortíðarinnar eru því ástæða þess að vélaraflið - fjárhagsleg geta - er ekki til staðar hjá ríkisvaldinu til þess að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað - ríkiskassinn er tómur.  

Sveitarfélög kyntu undir - en ekki öll

Mörg sveitarfélög í landinu eru í sömu sporum og ríkisvaldið. Þau fóru út af sporinu í góðærinu, stóðu í samkeppni um lóðaframboð, offjárfestu og hugðu ekki nógu vel að rekstrinum. Bjargráð þessara sveitarfélaga í atvinnumálum eru því sama marki brenndar og bjargráð ríkisstjórnarinnar - fátækleg.  

            Sveitarfélagið Hornafjörður var eitt þeirra svæða sem ekki naut uppgangsins á góðæristímabilinu nema að takmörkuðu leyti. Af þeim sökum m.a. finnum við ekki með jafn áþreifanlegum hætti fyrir hinni kröppu niðursveiflu í atvinnulífinu sem þjóðfélagið gengur nú í gegnum. Fallið er ekki jafn hátt og hjá þeim sem fóru með himinskautum í góðærinu.

Hátt framkvæmdastig - traust fjármálastjórn

Góðærisins gætti vissulega á Hornafiðri í einhverjum mæli, t.d. í verulega auknum tekjum sveitarfélagsins í gegnum jöfnunarsjóð enda eru þær beintengdar við veltu ríkissjóðs. Þær tekjur hafa svo snarlækkað aftur í kjölfar hrunsins. Bæjarfulltrúum hefði verið í lófa lagið að eyða þeirri tekjuaukningu með stæl á skömmum tíma. En það var ekki gert. Tímabundinn aukning tekna úr jöfnunarsjóði er ekki nægjanlega sterkur grunnur til að byggja á - ekki síst þegar hún er tilkomin vegna lánadrifinnar þenslu. Við fórum frekar þá leið að halda að okkur höndum, koma í veg fyrir að rekstur blési út og leggja til hliðar fyrir mögru árin.

Framkvæmdir á undanförnum árum hafa verið miklar en samt er staða sveitarsjóðs mjög traust ólíkt mörgum. Þess vegna sjáum við okkur fært að framkvæma fyrir 200 milljónir á ári í þriggja ára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, sem samþykkt var í bæjarstjórn fyrir skemmstu. Okkar mat er að sú upphæð geti stuðlað að því að halda uppi atvinnustigi í sveitarfélaginu á næstu árum. En það skiptir gríðarlegu máli hvernig farið er með þessa fjármuni og leita verður allra leiða til þess að tryggja að þeir skapi eins mörg störf og mögulegt er.

Á næsta kjörtímabili verður bæjarstjórn Hornafjarðar því í aðstöðu til þess að starfa í samræmi við kenningar hagfræðinga um hlutverk opinberra aðila í atvinnulífinu á krepputímum, ólíkt ríkinu og mörgum öðrum sveitarfélögum. Ástæða þess er fyrst og fremst styrk og skynsöm fjármálastjórn á góðæristímabili.


Öflugur framboðslisti

 

Samfylkingin á Hornafirði samþykkti einróma á félagsfundi sínum fimmtudaginn 25. mars tillögu uppstillingarnefndar að framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar í vor. Á fundinum kom fram mikil ánægja með framboðslistann og störf uppstillingarnefndar.

Fyrstu tvö sætin skipa bæjarfulltrúarnir Árni Rúnar Þorvaldsson og Guðrún Ingimundardóttir. Þriðja sætið, sem jafnframt er baráttusæti Samfylkingarinnar í kosningunum, skipar Matthildur Ásmundardóttir, varabæjarfulltrúi. Þau hafa öll starfað af miklum krafti í þágu sveitarfélagsins á kjörtímabilinu fyrir hönd Samfylkingarinnar. Árni er formaður bæjarráðs, Guðrún er formaður menningar - og tómstundarnefndar og varaformaður heilbrigðis - og öldrunarráðs og Matthildur hefur stýrt vinnu við gerð fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið svo fátt eitt sé nefnt.

Á því kjörtímabili sem nú er að renna sitt skeið á enda hefur Samfylkingin haft tvo fulltrúa í bæjarstjórn og verið í meirihlutasamstarfi með Framsóknarflokknum. Staða sveitarfélagsins er sterk um þessar mundir og sveitarfélagið er vel í stakk búið til þess að takast á við verkefni framtíðarinnar en það er ekki einkennandi ástand almennt fyrir sveitarfélögin í landinu. Samfylkingin er stolt af verkum sínum í bæjarstjórn á þessu kjörtímabili og með öflugum framboðslista og skýrri stefnu telur Samfylkingarfólk allar forsendur fyrir því að Samfylkingin styrki stöðu sína í bæjarstjórn Hornafjarðar á næsta kjörtímabili. Af þeim sökum hefur Samfylkingin tekið stefnuna á að bæta við sig manni í bæjarstjórn og skipar Matthildur Ásmundardóttir það sæti. Á fundinum kom einnig fram ánægja með samstarfið í meirihlutanum kjörtímabilinu sem og samstarfið við bæjarstjórann, Hjalta Þór Vignisson.

En listinn er annars þannig skipaður:

1. Árni Rúnar Þorvaldsson

2. Guðrún Ingimundardóttir

3. Matthildur Ásmundardóttir

4. Stephen Róbert Johnson

5. Anna María Ríkharðsdóttir

6. Katarzyna Irena Thomas

7. Torfi Friðfinnsson

8. Ragnheiður Sigjónsdóttir

9. Lars Jóhann Andrésson

10. Berglind Steinþórsdóttir

11. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir

12. Kristín Gísladóttir

13. Erna Gísladóttir

14. Ragnar Arason


Myndir af gömlum kommum - heimsviðburður?

Ritstjóri Morgunblaðsins hlýtur að vera þakklátur fyrir hvert það tilefni eða ástæðu, sem pólitískir andstæðingar hans veita honum, til þess að stinga niður penna. Við ráðningu hans var enda skýrt tekið fram að hann væri fyrst og fremst fenginn til þess að koma skoðunum eigenda blaðsins á framfæri en hann ætti ekki að fjalla um eða taka afstöðu til frétta sem fjölluðu um Hrunið.

Ástæðan fyrir því var fjölþætt aðkoma ritstjórans að hruni íslensks efnahagslífs. Hann er fyrrverandi forsætisráðherra, utanríkisráðherra og  fyrrverandi formaður stjórnmálaflokks, sem með stefnu sinni lagði grunninn að hruninu. Hann var forsætisráðherra þegar viðskiptabankarnir voru seldir til þeirra manna sem tókst að kafsigla þá á örfáum árum og tóku þjóðarskútuna með sér í fallinu. Síðar kallaði ritstjórinn þessa sömu menn, sem hann einu sinni lagði sig fram um að eignuðust banakana, óreiðumenn. Flestum þykir eflaust nóg um þessa upptalningu en afrekaskráin er lengri eins og allir vita.

Ritstjórinn er líka fyrrverandi Seðlabankastjóri en sem slíkur var það hans hlutverk að verja fjármálastöðugleikann en á hans vakt fauk sá stöðugleiki út um gluggann og hefur varla spurst til hans síðan. Á þessari sömu vakt varð Seðlabanki Íslands líka tæknilega gjaldþrota - en það er einsdæmi. Í ljósi þess að ritstjórinn er vanhæfur til þess að fjalla um stærsta fréttamál samtímans þá var eðlilega spurt; hvað á maðurinn eiginlega að gera?

Ritstjóranum hefur þó stundum tekist að finna sér ný og frumleg umfjöllunarefni - svona þegar hann hefur þurft að hvíla sig á að verja einkahagsmuni yfirboðara sinna, sem eru m.a. óbreytt fiskveiðistjórnunarkerfi (áfram gjafakvóti án breytinga) og andstaðan við ESB umsókn. Og hann er hugmyndaríkur.

Litlar myndir af syngjandi ráðherrum geta verið uppspretta innblásinna og djúphugsaðra Staksteina enda telur ritstjórinn um heimssögulegan viðburð að ræða. Í víðsýnum hugarheimi ritstjórans getur það hvegi gerst nema í Norður - Kóreu og á Kúbu að vinstri sinnaðir ráðherrar taki undir af krafti þegar Nallinn - baráttasöngur verkalýðsins - er sunginn á samkomu á vegum verkalýðshreyfingarinnar. Gömlu kommarnir virðast þannig hafa bjargað deginum fyrir ritstjórann.

Í ljósi þess hve svigrúm ritstjórans til þess að fjalla um helstu álitamál samfélagsins er takmarkað, vegna margháttaðrar aðkomu hans að hruni íslensks efnahagslífs, þá er rétt að fagna viðleitni gömlu kommanna til að sjá hinum nýja og óreynda ritstjóra fyrir verkefnum.


Sérhagsmunagæslan samræmir leiftursókn gegn félagsmálaráðherra

Sjálfur hef ég hvorki lesið né heyrt ræða Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra, á ársfundi ASÍ fyrir skemmstu og er því varla dómbær á innihald hennar. Þó hef ég heyrt og lesið glefsur úr henni, sem ég kunni ágætlega að meta. En af samhæfðum viðbrögðum forkólfa álrisanna, LÍÚ, samtak atvinnulífsins og talsmanna þeirra á þingi, sjálfstæðis -og framsóknarþingmanna, má leiða líkum að því að þetta hafi verið býsna góð og innihaldsrík ræða hjá félagsmálaráðherra.

Hræðslan við að nú sé kominn ráðherra sem tekur almannahag fram yfir sérhagsmuni leynir sér ekki. Leiftursókn afla í þágu sérhagmuna í samvinnu við framlengingu þessara sömu sérhagsmunahópa á þingi er hafin gegn félagsmálaráðherra. Með samstilltu og einbeittu átaki hefur öllum þessum aðilum tekist að samræma málflutning sinn með aðdáunarverðum hætti.

Miðað við þau viðbrögð sem ræða félagsmálaráðherra framkallar hjá varðhundum sérhagsmunanna í íslensku samfélagi þá tel ég hann vel til þess að fallinn að vera framsætinu í endurreisnarstarfinu. Sú endurreisn á leiða til þeirrar grundvallarbreytingar á íslensku samfélagi að markaðurinn verði þjónn samfélagsins alls - og þess krafist að hann aðlagi sig að þörfum samfélagsins en ekki öfugt.

Á ríkisstjórnarárum Sjálfstæðis - og Framsóknarflokks var þessum hlutverkum snúið við þannig að forkólfum atvinnulífsins og markaðarins tókst að gera samfélagið og stofnanir þess - Alþingi, ríkisstjórn og stjórnkerfi - að dyggum þjónum sínum. Við urðum ginningarfífl blindrar og takmarkalausrar ofsatrúar á markaðinn og lausnir hans. Við megum ekki láta það henda okkur aftur.

En það er einmitt það sem þeir vilja, sem hæst láta núna í gagnrýni sinni á félagsmálaráðherra. Sérhagsmunahóparninr vilja halda áfram að ráða en óttast að félagsmálaráðherra muni láta illa að stjórn.  

Viðbót:

Núna er ég búinn að lesa ræðuna og hún er eins og ég bjóst við, býsna góð og innihaldsrík - og ekki nema von að einhverjir ókyrrist.

Ræðuna má nálgast hér: http://www.herdubreid.is/?p=1055#more-1055


Áhrif kreppunnar á opinbera þjónustu á landsbyggðinni

Í þeirri niðurskurðarhrinu, sem bíður stjórnvalda í kjölfar hins ársgamla efnahagshruns, á það að vera eitt af leiðarljósum stjórnvalda að tryggja aðgang landsmanna að opinberri þjónustu óháð búsetu. Mikill uggur er í mörgum á landsbyggðinni - og þá ekki síst sveitarstjórnarmönnum - að höggvið verði of nærri grunngerðinni í samfélaginu í niðurskurðinum. Finnst mörgum það ósanngjarnt þar sem mörg svæði á landsbyggðinni tóku lítinn sem engan þátt í hinu bólukennda hagkerfi sem síðan keyrði efnahagslífið okkar í þrot. Hjá okkur er því lítið til að klípa af enda hafði lítil fita safnast á landsbyggðarkroppinn í góðærinu.

Hins vegar getur mikill niðurskurður á þjónustu á viðkvæmum svæðum haft alvarlegar afleiðingar fyrir samfélög, sem alltaf eru í baráttu fyrir tilverurétti sínum. Þetta er eitthvað sem ríkisstjórn, fjárlaganefnd og Alþingi ættu að hafa í huga áður en gengið verður endanlega frá fjárlögum næsta árs.

Á sama tíma gera allir sér grein fyrir því að tekjugrundvöllur ríkissjóðs hefur stórskaðast og það mun taka einhvern tíma til þess að ná jafnvægi í tekjum og gjöldum ríkissjóðs. Til þess að það geti gerst á sem skemmstum tíma er mikilvægt að ríkisstjórnin og löggjafinn haldi vel áætlun stjórnvalda og AGS um aðlögun í ríkisrekstri.

Allir skilja því að ekki er mikið svigrúm til að hefja mörg ný verkefni á vegum hins opinbera - bæði hvað varðar rekstur og framkvæmdir - eins og árar hjá okkur núna. Af þeim sökum er enn mikilvægara en ella að standa vörð um þá opinberu þjónustu sem nú þegar er til staðar á landsbyggðinni.


Hugarórar um leyniskjöl

Fyrir réttu ári síðan vaknaði fyrrverandi formaður bankastjórnar Seðlabanka Íslands snemma morguns með fullvissu fyrir því að Rússar hefðu ákveðið að veita Íslendingum 4 milljarða Evra lán. Engu var líkara en formanninn hefði dreymt þessa himnasendingu frá Rússum nóttina áður. Síðar sama dag kom í ljós að formaðurinn hafði misskilið sendirherra Rússa. Lánið frá Rússum er enn ókomið.

Nú ber svo við að sami einstaklingur er nú sestur í stól ritstjóra Morgunblaðsins - og fer mikinn um ýmis leyniskjöl og leyndarhyggju ríkisstjórnarinnar. Þetta er sami maður og taldi eðlilegt að lýsa yfir stuðningi við ólögmætt árásarstríð án þess að láta sér einu sinni detta í hug að bera stuðningsyfirlýsinguna undir þingið. Upphrópanir fullar vandlætingar um skort á opinni og lýðræðislegri umræðu frá manni með slíka pólitíska fortíð geta varla talist innistæðumiklar- og eru í raun frekar hlægilegar.

Trúin á tilurð leyniskjals úr fórum norska fjármálaráðuneytisins, þar sem fram kemur að ein af forsendum fjárhagslegrar aðkomu Noregs að endurreisn Íslands sé að Icesave verði að klárast, virðist eingöngu vera til í hugarórum ritstjórans. Þessi staðreynd hefur lengi legið fyrir og var m.a. undistrikuð í sumar þegar ríkisstjórnin lagði sig alla fram um að gera öll þau skjöl sem tengjast Icesave aðgengileg fyrir almenning.

Fyrir áhugasama þá er skjalið hér: http://www.island.is/media/frettir/55.pdf

Annað hvort er hér um byrjendamistök að ræða hjá ritstjóranum eða vísbendingu um að hann muni leita allra leiða til þess að rugla og afvegaleiða umræðuna um þau mál sem honum finnast óþægileg - og til þess séu öll meðul leyfileg.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband