Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008
29.2.2008 | 23:39
Svör fjármálaráðherra
Í pistli fyrir stuttu gerði ég að umtalsefni bið sveitarfélagsins eftir svörum frá fjármálaráðherra varðandi túlkun á samningi eða samkomulagi á milli sveitarfélagsins annars vegar og heilbrgðisráðuneytisins hins vegar. Túlkunin snerist um það hvort fjármálaráðneytið liti svo á að greiða ætti Heilbrigðisstofnun Suðausturlands samkvæmt munnlegu samkomulagi sem við töldum að hefði verið í gildi á gildistíma síðasta þjónustusamnings. Um 30 milljónir er að ræða í greiðslum til stofnunarinnar.
Eftir nokkra yfirferð fjármálaráðherra frá því í nóvember þá hefur ráðherra komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé hægt að líta svo á að munnlegt samkomulag hafi verið í gildi. Heldur hafi verið um að ræða hefð sem skapast hefði á undanförnum árum og hlutirnir hafi einfaldlega verið framkvæmdir með þessum hætti. Nú er gott að niðurstaða er komin í þetta tiltekna mál og ekki er ástæða til þess að velta sér meira upp úr því hvernig þessi staða er tilkomin. Svör fjármálaráðherra voru skýr hvað þetta varðaði, ekkert munnlegt samkomulag var fyrir hendi. Ekki er því hægt að byggja lausn vandans fyrir síðasta ár á því - enda giska erfitt að byggja lausn á einhverju sem ekki er til. En það kom líka skýrt fram að þrátt fyrir þessa niðurstöðu ráðherrans þá hefði framkvæmd síðasta samnings verið með þessum hætti og því ekki óeðlilegt að við hefðum væntingar til þess að svo yrði áfram meðan ekki hefði verið skrifað undir nýjan samning.
Á fundinum með ráðherra voru ræddar ýmsar leiðir til þess að vinna sig út úr vandanum og var það ánægjulegt. Ég hef fulla trú á því að okkur takist að ljúka málinu farsællega. Nú er mikilvægt fyrir alla að draga lærdóm af þeim mistökum sem bæði hafa átt sér stað þegar skrifað var undir síðasta þjónustusamning sem og þau mistök sem kunna að hafa orðið í þeim samningaviðræðum sem nú hafa átt sér stað.
En stóri lærdómurinn af þessu öllu saman hlýtur að vera sá að þjónustusamningar eru ekki besti kosturinn í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Best væri ef ríkisstjórnin og sveitarfélögin einhentu sér í þá vinnu að undirbúa flutning þessara verkefna frá ríki til sveitarfélaga sem allra fyrst. Reynslan frá Hornafirði sýnir svo ekki verður um villst að samrekstur heilsugæslunnar og öldrunarþjónustunnar hefur ótvíræða kosti í för með sér.
Að því leyti var síðasti samningur góður, þ.e. að hann gerði mönnum kleift að stuðla samrekstri ýmiss konar velferðarþjónustu. T.a.m. hefur samningurinn sannarlega orðið til þess að heimahjúkrunin og heimilisþjónustan eru rekin undir hatti heilsugæslunnar. Þetta hefur auðvitað orðið til þess að styrkja þessa þjónustu mjög og hefur leitt til þess að tekist hefur að fækka svo um munar einstaklingum í langlegu.
Samningurinn var hins vegar lélegur að því leyti að ekki var skýrt greint frá fjármögnun þessara verkefna. Hann stendur ekki nógu styrkum fótum, sbr. ákvörðun Tryggingastofnunar frá því í sumar að hætta að greiða okkur m.v. fulla nýtingu hjúkrunarrýma. Þess samkomulags eða hefðar var hvergi getið, hvorki í samningnum, viðauka við hann né hafði það varðveist í munnlegri geymd innan stjórnarráðsins. Að þessu leyti var síðasti þjónustusamningur slæmur. Hann stóðst ekki prófið þegar á reyndi.
Ég efast ekki um að aðstæður sveitarstjórnarmanna og embættismanna til samningsgerðar á þeim tíma hafa verið erfiðar líkt og við höfum upplifað í gerð nýs samnings. En það breytir því ekki að þetta er sá raunveruleiki sem við erum að glíma við í dag og ég tel það brýnt að fólk sé upplýst um hann. Harðar umærður hafa skapast um málið og málsmeðferðina í bæjarstjórn og þung orð hafa fallið í umræðunni.
T.a.m. hefur verið gefið í skyn að mennn ætli sér, með einu pennastriki að eyðileggja allt það góða starf sem unnið hefur verið á stofnuninni undanfarin ár. Einnig hefur því verið haldð að fólki að við ætluðum okkar að leggja af fæðingar á Hornafirði og talað hefur verið um misvitra bæjarfulltrúa í þessum efnum á bæjarstjórnarfundum. Í ljósi þessarar miklu og oft á tíðum hörðu umæðum, sem ég kveinka mér ekki undan, taldi ég mikilvægt að allir væru vel upplýstir um öll meginatriði málsins til þess að allrar sanngirni væri gætt.
28.2.2008 | 19:59
Fundir í Reykjavík
Bæjarráð hefur gert víðreist um Reykjvavík síðustu tvo daga. Hefur bæjarráð m.a. fundað með fjármálaráðherra, samgönguráðherra og iðnaðarráherra. Við höfum einnig fundað með Vegamálastjóra, þingmönnum Suðurkjördæmis og fjölda annarra. Auk þess hefur bæjarráð skoðað nokkur knattspyrnuhús í ferðinni en það er liður í undirbúningi okkar að byggingu knattspyrnuhúss. Þetta var gagnlegar heimsóknir.
Á fundinum með fjármálaráðherra var sérstök áhersla lögð á heilbrigðis - og öldrunarmálin. Eftir fundinn þá er maður bjarsýnni en áður á að ásættanleg lausn náist í þeim málum fljótlega. Á öllum fundum hefur auðvitað farið fram heilmikil umræða um nýtt vegstæði yfir Hornafjörð. Sérstaklega var þingmönnum kjördæmisins gerð grein fyrir skoðunum bæjarstjórnar á því máli. Það mál ræddum við líka við samgönguráðherra og fjármálaráðherra og auðvitað Vegamálastjóra.
Annað sem hefur auðvitað líka verið mikið rætt í ferðinni eru atvinnumálin. Í öllum okkar heimsóknum þar sem þau hefur borið á góma höfum við rætt um fjölgun starfa á svæðinu. Það er mjög mikilvægt að fjölga og styrkja atvinnuundirstöður svæðisins. Í þeim efnum styrkir hvert starf sem kemur inn á svæðið samfélagið og styrkir grunnstoðirnar. Ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar í þessu sambandi, t.a.m. kom fram hugmynd um svokallaðð netþjónabú á fundi okkar með Össuri Skarphéðinssyni. Slík stöð yrði þó alltaf háð getunni til að flytja rafmagn. En sannarlega er hér um hugmynd að ræða sem vert er að skoða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 29.2.2008 kl. 21:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.2.2008 | 23:58
Góð mæting á fund með Vegagerðinni
Mjög góð mæting var á fundinn með Vegagerðinni í Nýheimum í kvöld. Þar var rætt um umhverfismat Vegagerðarinnar á nýjum vegi um Hornafjörð. Þessi góða mæting á fundinn undirstrikar hversu stórt og mikilvægt málið er sveitarfélaginu og íbúum þess.
Ekki var síst rætt um þá ákvörðun Vegagerðarinnar leggja til að farin verði svokölluð leið 1. Því verður ekki neitað að allur þunginn í umræðum á fundinum var á þá leið að fara beri leið 3. Sú leið styttir vegalengdir innan sveitarfélagsins mest. Algjör einhugur er í bæjarstjórn um að fara eigi þá leið.
Nú þurfum við að bíða eftir því að heyra niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Athugasemdafrestur rennur út 7. mars. Reynir Arnarson, formaður bæjarráðs, notaði tækifærið á fundinum áðan til þess að hvetja alla þá sem hefðu athugasemdir við skýrlsu Vegagerðarinnar að senda þær inn til Skipulagsstofnunar. Þar fá þær efnislega meðferð og Vegagerðinni ber að svara þeim með rökstuddum hætti.
Fram kom á fundinum að þingmenn Suðurkjördæmis hafa fengið sömu kynningu á framkvæmdinni og sýnd var í Nýheimum í kvöld. Þannig að þeir eru vel upplýstir um stöðu málsins og ættu því að geta lagt málinu lið.
25.2.2008 | 14:04
Beðið eftir fjármálaráðherra
Eftirfarandi grein eftir mig birtist á vefmiðlum sveitarfélagsins í dag:
Beðið eftir fjármálaráðherra
Undanfarin ár hefur verið í gildi þjónustusamningur um rekstur heilsugæslu og öldrunarþjónustu á milli sveitarfélagsins og Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytisins, eða heilbrigðisráðuneytisins eftir breytingar innan stjórnarráðsins. Þjónustusamningurinn rann út 31. desember 2006. Sveitarfélagið hefur því verið að reka heilbrigðisstofnunina án samnings í rúmt ár. Óvissan sem þessi staða hefur skapað hefur óneitanlega tafið alla þróun og stefnumótun í starfi stofnunarinnar. Einnig hvílir ákveðin stjórnsýsluleg óvissa yfir henni. Mikilvægt er því að niðurstaða náist í málum stofnunarinnar eins fljótt og auðið er.
Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarnar vikur, mánuði og jafnvel ár um heilbrigðis - og öldrunarmál á Hornafirði, sérstaklega hafa málin verið ítarlega rædd á bæjarstjórnarfundum. Þar hafa þau einatt verið rædd á þann hátt af bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins að meirihlutinn sé með allt niðrum sig í samningaviðræðunum við ríkisstjórnina. Oddvita Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn hefur blöskrað hvernig núverandi meirihluti hefur haldið á málum og hvernig hann hefur farið með þetta óskabarn oddvitans sem þjónustusamningurinn er. Hefur oddvitinn m.a. annars sagt að eftir framgöngu meirihlutans treysti hún ekki lengur misvitrum bæjarfulltrúum fyrir þessum málaflokkum. Í sjálfu sér get ég tekið undir þetta sjónarmið Halldóru Bergljótar Jónsdóttur í ljósi þess hvernig haldið var utan um þennan málaflokk þegar síðasti samningur var undirritaður þegar hún var formaður heilbrigðis - og öldrunarráðs Hornafjarðar.
Lélegur samningur og munnlegt samkomulag
Það sem núverandi meirihluti hefur allan tímann þurft að glíma við er að þjónustusamningurinn sem undirritaður var árið 2002 er langt frá því að vera nógu góður. Í raun var hann svo slæmur að gera þurfti sérstakt munnlegt samkomulag um greiðslur óháðar nýtingu á hjúkrunarrýmum frá Tryggingastofnun Ríkisins til HSSA. Þetta þýðir að grundvöllur síðasta þjónustusamnings byggðist á munnlegu samkomulagi sem fól í sér að HSSA fékk alltaf greitt fyrir fulla nýtingu hjúkrunarrýma óháð því hver raunnýtingin var.
Síðastliðið sumar ákvað Tryggingastofnun svo einhliða að skerða þessar greiðslur, þ.e. að byrja að greiða HSSA skv. nýtingu hjúkrunarrýma. Þessi skerðing þýðir einfaldlega að rekstrarhalli HSSA árið 2007 verður rúmar 30 milljónir. Munnlega samkomulagið, sem komið var á laggirnar á samningstíma síðasta þjónustusamnings, hljóðaði s.s. upp á litlar 30 milljónir fyrir síðasta ár hefði samkomulagið haldið. Það er því við ramman reip að draga í rekstri stofnunarinnar um þessar mundir. Ljóst er að bæjarsjóður mun ekki taka þennan rekstrarhalla á sig.
Meirihluti bæjarstjórnar hefur tekið þá ábyrgu afstöðu að halda ekki áfram samningaviðræðum við heilbrigðisráðuneytið fyrr en viðunandi niðurstaða fæst hjá fjármálaráðuneytinu varðandi uppgjör fyrir síðasta ár. Meirihlutinn er ekki tilbúinn að skrifa undir nýjan samning með 30 milljónir á bakinu ef svo mætti að orði komast.
1. þingmaður Suðurkjördæmis veiti skýr svör
Um leið og ljóst var að ekki væri hægt að klára nýjan samning í heilbrigðisráðuneytinu með viðunandi hætti var fjármálaráðherra gert ljóst hver staðan væri. Honum var gerð grein fyrir hinu munnlega samkomulagi sem í gildi var á milli þáverandi fjármálaráðherra og þáverandi bæjarstjórnar. Á fundi í ráðuneytinu í nóvember kom fram að vinna yrði sett í gang til þess að kanna möguleikann á því að gera upp við stofnunina fyrir síðasta ár á grundvelli hins munnlega samkomulags.
Í þessari viku mun bæjarráð Hornafjarðar fara í fundaherferð til Reykjavíkur. Fyrsti fundur bæjarráðs verður einmitt með fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen 1. þingmanni Suðurkjördæmis og það er einlæg von mín að bæjarráð fái skýr svör frá honum á fundinum. Ég tel það reyndar orðið löngu tímabært.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar
Oddviti Samfylkingarinnar í bæjarstjórn
24.2.2008 | 15:00
Villi ákveður að dingla áfram
Hún er makalaus ákvörðunin hans Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar sem kynnt var í dag. Borgarstjórnarflokkur íhaldsins lýsti yfir óskoruðum stuðningi við þessa ekki ákvörðun oddvita þeirra. Eftir stendur að stærsti og valdamesti flokkurinn í borgarstjórn Reykjvavíkur virðist ekki geta komið sér saman um það hver er þeirra borgarstjóraefni. Þau hafa nú 12 mánuði til þess að koma sér saman um það. Á meðan ætla þau að styðja við oddvitann sinn, gamla góða Villa til þess að halda áfram sem þeirra oddviti. Þetta eru þau tilbúin að gera þrátt fyrir það að Hanna Birna og Gísli Marteinn séu nýbúin að skrifa undir það í Rei - skýrslunni að Vilhjálmur hafi gerst sekur um slík embættisafglöp að annað eins þekkist varla.
Ekki er von á góðu fyrir Reykvíkinga þegar stærsti flokkur borgarinnar og sá valdamesti í dag getur ekki með nokkrum hætti komist að niðurstöðu í jafn einföldu máli og þessu.
Er það furða að einhverjir ónefndir bloggarar hafa talað um sjálfseyðingu í þessu sambandi. Nú er kannski komið tilefnið, sem Sigurður Kári taldi að hefði að vantað í umræddri bloggfærslu, í Kastljósinu í vikunni?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.2.2008 | 22:14
Fundaherferð bæjarráðs
Í næstu viku hefur bæjarráð Hornafjarðar, ásamt bæjarstjóra, ákveðið að ráðast í útrás. Ferðinni er heitið til höfuðborgarinnar. Meiningin er vera þar í þrjá daga og funda með ráðherrum, þingmönnum og stofnunum sem við eigum erindi við.
Ýmislegt verður eflaust rætt í ferðinni en vafalaust verður þungamiðjan í fundaherferðinni alvarlegt ástand í atvinnumálum í kjölfar niðurskurða aflaheimilda í þorski og nú síðast eftir að sjávarútvegsráðherra ákvað að stöðva loðnuveiðar. Það var gríðarlegt áfall fyrir samfélagið þó maður voni að sjálfsögðu að loðnan komi til með að finnast.
Auðvitað kallar ákvörðun sjávarútvegsráðherra á endurskoðun mótvægisaðgerða ríkisstjórnarinnar sem ákveðnar voru í sumar. Þar er ástæða til spýta frekar í lófana en hitt.
Einnig munum við leggja mikla áherslu á það við ráðherra og þingmenn Suðurkjördæmis að slást í lið með okkur í því að hnekkja tillögum Vegagerðarinnar að fara svokallaða leið 1 um Hornafjörð. Við munum greina þeim frá mikilvægi þess að stytta vegalengdir innan sveitarfélagsins sem mest og þess vegna m.a. sé bæjarstjórn ósammála Vegagerðinni og leggur mikla áherslu á að leið 3 verði farin. Í samgöngumálum verður líka minnst á mikilvægi þess að hraða rannsóknum og undirbúningsvinnu á göngum undir Lónsheiði. Hvalnes - og Þvottárskriður eru án efa einn versti og hættulegasti hluti þjóðvegar 1.
Beðið eftir fjármálaráðherra
Eitt er það mál sem hefur verið mikið til umræðu á yfirstandandi kjörtímabili, sem við munum ræða sérstaklega við fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen, en það eru heilbrigðis - og öldrunarmál. Í sumar ákvað Tryggingastofnun Ríkisins að skerða greiðslur til Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands sem byggðar voru á munnlegu samkomulagi Geirs H. Haarde, núverandi forsætisráðherra og fyrrverandi fjármálaráðherra og bæjarstjórnar á síðasta kjörtímabili. Ástæða munnlega samkomulagsins var sú að þjónustusamningur sá er heilbrigðis -og tryggingamálaráðuneytið og Sveitarfélagið Hornafjörður skrifuðu undir á sínum tíma reyndist ekki nógu traustur.
Ákvörðun Tryggingastofnunar veldur því að heilbrigðisstofnunin var rekin með rúmlega 30 milljón króna halla á síðasta ári. Meirihlutinn í bæjarstjórn hefur sagt að ekki komi til greina að semja um nýjan þjónustusamning fyrr en síðasta ár hefur verið gert upp við okkur á grunni hins munnlega samkomulags. Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra og 1. þingmaður Suðurkjördæmis hefur verið að vinna í þessu máli síðan á haustmánuðum. Það er mín einlæga von að hann verði með skýr svör fyrir okkur fundi okkar með honum á miðvikudaginn. Ég tel það orðið tímabært.
23.2.2008 | 21:37
Vandræðagangurinn endalausi
Vandræðagangur íhaldsins ætlar engan endi að taka í borginni. Þær eru misvísandi fréttirnar sem berast núna af fyrirætlan Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Fréttir herma að hann ætli að halda áfram sem oddviti flokksins og taka við sem borgarstjóri eftir eitt ár. Aðrar fréttir herma að þetta liggi ekki endanlega fyrir. Enn aðrar fréttir segja að formaður og varaformaður flokksins muni ekki styðja Vilhjállm til þess að halda áfram sem oddviti og þau vilji að Hanna Birna taki við.
Það hlýtur að vera erfið tilhugsun fyrir Vilhjálm að ætla að sitja áfram í oddvitasætinu án þess að hafa til þess stuðning Geirs og Þorgerðar.
Verst er til þess að vita að þessi flokkur framdi valdarán í Reykjavík í byrjun árs og eftirlétu borgarstjórastólinn til eins manns flokks sem nýtur minni stuðnings í borginni en Villi sjálfur til þess að vera borgarstjóri og er þá mkið sagt. Enda lét Vilhjálmur sjálfur þau hörðu orð falla um Ólaf að Ólafur væri jafn tilbúinn og hann hefði verið eftir kosningarnar 2006 til þess að taka við borgarstjóraembættinu. Það þótti mér harður dómur.
Já, það er óhætt að segja að höfuðborgin okkar sé í traustum og öruggum höndum þeirra Ólafs F. og Villa Þ.
21.2.2008 | 23:40
Fórnarlambshefð Íhaldsins
Ég hef áður rætt það að mér finnst Íhaldið hafa gert það að listgrein að vera í fórnarlambssætinu í íslenskri stjórnmálaumræðu. Nú finnst mér það hafa náð nýjum hæðum þegar Sigurður Kári Kristjánsson hefur tekið að sér að vera fórnarlambið fyrir Gísla Martein Baldursson vegna skrifa Össurar Skarphéðinssonar. Það var athyglisvert að hlusta á Sigurð Kára og Lúðvík Bergvinsson í Kastljósinu í kvöld.
Sigurður Kári taldi að skrifin væru algerlega tilefnislaus. Hefur alþingismaðurinn ekki fylgst með umræðum og viðburðum síðustu mánaða í borgarstjórn? Tók þingmaðurinn ekki eftir könnun Capacent þar sem fram kom að Gísli Martein nýtur ákaflega lítils stuðnings meðal borgarbúa til þess að verða borgarstjóri? Ef það er ekki tilefni til þess að ræða málið þá veit ég ekki hvað tilefni er. En ég get tekið undir það með Lúðvíki að ýmislegt í orðfæri Össurar var óviðeigandi. Hins vegar finnst mér Sigurður Kári Kristjánssonar full viðkvæmur gagnvart myndmáli og hann virðist ekki skilja eðli myndmálsins og tilganginn með hressilegu stílfæri Össurar Skarphéðinssonar.
Sigurður Kára finnst hér um rætin skrif að ræða hjá Össuri. Ég get ekki tekið undir það. Össur er einfaldlega að lýsa afleiðingum atburðarásar í borgarstjórnar eins og hann sér þær. Þegar Sigurður Kári fór að kalla þessi skrif Össurar rætin þá fannst mér það gott hjá Lúðvíki að nefna Staksteina Morgunblaðsins sem dæmi um rætin pólitísk skrif. Þá var staðan þægileg hjá þingmanni Íhaldsins, því hann getur jú ekki svarað fyrir skrfi málgagnsins. En hann mætti kannski fordæma þau með sama hætti og hann fordæmir skrif Össurar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.2.2008 | 19:51
Endurþjóðnýting
Í dag lærði ég nýtt orð. Mér finnst alltaf svolítið skemmtilegt þegar það gerist. Orðið lærði ég þegar ég las skemmtilega grein eftir Þorvald Gylfason sem m.a. fjallaði um íslensku bankana. Orðið var endurþjóðnýting. Þar kemur fram, sem auðvitað er sjálfsagður sannleikur, að bankarnir afsöluðu sér ríkisábyrgð um leið og þeir voru einkavæddir á útsöluprís eins og Ríkisendurskoðun vitnaði til um. Þó er rétt í ljósi aðstæðna hjá bönkunum nú um stundir að minna á þetta.
Útlitið á fjármálamarkaði er ekkert sérstaklega gott. Ef marka má fréttir þá virðist staða íslensku bankanna ekki upp á marga fiska. Niðursveiflan á undradrengjunum, sem lofsamaðir voru um allar grundir fyrir að kunna betur en allir aðrir að búa til pening úr pening, er hafin að því er virðist.
Ég er sammála Þorvaldi Gylfasyni varðandi það að bankarnir geta ekki verið þekktir fyrir það, eftir þá óheftu frjálshyggju sem menn þar innanborðs hafa boðað, að hlaupa undir pilsfald ríkisvaldsins. Að hans mati er eina mögulega útrétta hjálparhöndin frá hendi ríkisins tímabundin endurþjóðnýting.
Hitt atriðið sem Þorvaldur ræddi í grein sinni var hin undarlega umræða um ESB - og Evrumál í landinu. Sú umræða virðist af einhverjum orsökum alltaf vera föst í einhverjum bullhjólförum og almenningi er aldrei gefið tækifæri á að kynna sér málin á hófstilltan og skynsaman hátt. Um leið og einhver leyfir sér að nefna ESB aðild þá eru einhverjir snillingar tilbúnir hrópa, fullveldisafsal eða eitthvað þaðan af verra.
20.2.2008 | 23:31
Loðnuleysi og niðurskurður aflaheimilda
Þær voru ekki góðar fréttirnar í dag um ákvörðun sjávarútvegsráðherra varðandi stöðvun á loðnuveiðum á hádegi á morgun. Þetta er auðvitað reiðarslag fyrir samfélag eins og Hornafjörð sem byggir afkomu sína á stórum hluta á sjávarútvegi. Í ljósi þess að niðurskurður aflaheimilda á þorski var ákveðinn á síðastliðið sumar þá eru þessar fréttir enn alvarlegri. Ljóst er að útgerðarfyrirtækin munu verða af gríðarlegum tekjum sem og starfsmenn þeirra.
Þessi ákvörðun staðfestir enn frekar nauðsyn þess að í sveitarfélagi eins og okkar er mikilvægt að styrkja grunnstoðirnar, fjölga atvinnutækifærum og að auka lífsgæði. Við verðum að leitast við að gera samfélögin öflugri svo þau verði betur í stakk búin til þess að takast á við áföll af þessum toga.
Auðvitað vonar maður að sú ákvörðun sem ríkisstjórnin tók í sumar, þ.e. að fara að tillögum Hafrannsóknarstofnunar og skera niður þorskkvótann, sé tímabundin. Vonandi verður þetta til þess að hægt verður að byggja upp stofnana þannig að hægt verði að auka við kvótann eins fljótt og hægt er. Tilgangurinn með því að fara að tillögum Hafró var sá að láta á það reyna hvort að ráðgjöfin myndi skila þeim árangri að stofnarnir myndu stækka og eflast og það vonar maður svo sannarlega að verði raunin.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Af mbl.is
Erlent
- ESB bannar notkun á BPA í umbúðum um matvæli
- Níu handteknir vegna brunans á skíðahótelinu
- Trump myndi hugnast kaup Musks á TikTok
- Hafa til klukkan 17 til að senda starfsmenn í leyfi
- Heita því að tryggja þjóðaröryggi sitt
- Sakar biskupinn um viðurstyggilegan tón
- Fjórir særðir eftir stunguárás í Tel Aviv
- Náðun stuðningsmanna Trumps vekur ólík viðbrögð
- Skotinn til bana við skyldustörf
- Sársauki okkar er nístandi