26.9.2008 | 10:57
Evrópuvaktin
Nú þegar okkur berast fréttir af fundum Evrópuvaktarinnar með ráðamönnum í Brussel kemur það alltaf betur í ljós að eina greiðfæra leiðin að upptöku Evrunnar liggur í gegnum aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Upptaka Evru, byggð á EES samningnum, virðist í besta falli vera nokkuð illfær. Það er sú leið sem Björn Bjarnason hefur lagt til að verði skoðuð frekar.
Miðað við þau viðbrögð sem berast okkur frá ráðamönnum í Brussel þá virðast þeir telja að upptaka Evru á þessum forsendum sé a.m.k. illmöguleg. Út frá pólitísku sjónarmiði sé hún mjög erfið þó sumir telji að engum hafi tekist að benda á að tæknilega sé ekkert sem komi í veg fyrir þess leið.
Viðbrögð þeirra, sem áhuga hafa á þessari leið og eru andsnúnir aðildarumsókn að Evrópusambandinu, hafa verið á þá leið að ekki sé nóg að spyrja embættismenn hjá Evrópusambandinu þessara spurninga. Til þess að fá úr þessu skorið sé nauðsynlegt að bera spurninguna upp við æðstu stjórnmálaleiðtoga aðildarríkjanna. Að þeirra mati duga ekki orð ráðamanna í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Það þarf s.s. að spyrja fleiri hvort það sé ekki einhver minnsti möguleiki á því að þetta sé gerlegt. Þannig mun mönnum takast að halda lífi í þessrari umræðu.
Engu er líkara en einhverjir telji hag sínum best borgið með því að tefja þetta mál eins mikið og mögulegt er í staðinn fyrir að horfast í augu við þá kosti sem við vitum fyrir víst að standa okkur til boða á þessari stundu. Annar kosturinn er auðvitað að sækja um aðild, hefja aðildarviðræður og taka upp Evru í framhaldi af því ef þjóðin ákveður á annað borð að ganga í Evrópusambandið. Hinn kosturinn er að halda áfram með krónuna og efla þá til muna það kerfi og þá peningamálstefnu til þess að okkur sé sú leið fær. Ég held að það verði alltaf erfiðara og erfiðara að verja það að halda áfram með seinni kostinn. Fjórtan prósenta fall íslensku krónunnar í september er örugglega ekki verið til þess fallið að auka mönnum trú á því hægt sé að byggja á núverandi stefnu í peningamálum þjóðarinnar til framtíðar.
Í pallborðsumræðum á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sl. laugardag, sem Ingibjörg Sólrún, Jónas Haralz, Vilhjálmur Egilsson og Gylfi Arnbjörnsson tóku þátt í, kom fram mikill samhljómur um það að núverandi peningamálastefna væri tilraun sem hefði mistekist. Því væri mikilvægt að feta sig frá þeirri stefnu og það skipti máli að gera það eins hratt og mögulegt væri. Óhætt er að taka undir þetta. Einnig var algjör samhljómur um það Evran væri sá gjaldmiðill sem við ættum að halla okkur að til framtíðar þó uppi hafi verið mismunandi áherslur á því hvernig bæri að stefna að því.
25.9.2008 | 16:04
Samstarf sveitarfélaga
Á morgun hefst aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Það verður síðasti aðalfundur sambandsins sem sveitarfélagið Hornafjörður mun taka þátt. Eins og kunnugt er tók bæjarstjórn Hornafjarðar þá ákvörðun á fundi sínum í júní að segja sig úr sambandinu og óska eftir inngöngu í Samtök sunnlenskra sveitarfélaga.
Sveitarfélagið hefur átt gott samstarf við sveitarfélög á Austurlandi í rúm 40 ár og afrakstur þessa góða samstarfs er að finna í mörgum verkefnum sem unnin eru þvert á landshlutann. Nægir þar að nefna samning um menningarmál sem Menningarráð Austurlands heldur utan um. Einnig hefur góð samstaða einkennt samstarfið um flest mál frá að ég kom að því fyrst fyrir tveimur árum.
Ekki verður hins vegar horft framhjá því að ákveðin vatnaskil urðu á samstarfinu þegar ákvörðun um að Sveitarfélagið Hornafjörður skyldi tilheyra Suðurkjördæmi en ekki Norðausturkjördæmi þegar síðasta kjördæmabreyting átti sér stað fyrir kosningar 2003. Með þeirri ákvörðun var klippt á tengslin við gamla Austurlandskjördæmið sem Hornafjörður hafði tilheyrt fram að kosningum 2003. Þannig að ákvörðun um að skipta um samstarfsvettvang á sveitarstjórnarstiginu er eðlilegt framhald af kjördæmabreytingunni.
Þessi ákvörðun bæjarstjórnar var því ekki tekin vegna þess að samstarfið við Austfirðinga hafi verið svo slæmt heldur vegna þess að það var okkar mat að hagsmunum sveitarfélagsins yrði best borgið í samtökum sem starfa innan okkar kjördæmis. Það mat byggjum við á því að á vettvangi samtaka sveitarfélaga er farið yfir helstu hagsmunamál sveitarfélaga, s.s. í samgöngu-, atvinnu-, menningar- og menntamálum. Með aðild að samtökum sem starfa innan kjördæmis og eru í góðum tengslum við þingmenn er enn betur tryggt að rödd samfélagsins heyrist.
Við kveðjum því samstarf sveitarfélaga á Austurlandi með ákveðnum söknuði en horfum þó bjartsýn fram á veginn í nýju samstarfi með sveitarfélögum á Suðurlandi.
Þess má geta að þrátt fyrir úrsögn okkar úr SSA hefur sveitarfélagið tryggt áframhaldandi aðkomu sína að Þekkingarneti Austurlands og við erum aðilar að samningi um menningarmál á Austurlandi til ársins 2010.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 26.9.2008 kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2008 | 11:50
Öld bláa gullsins
Á fundi bæjarráðs síðastliðinn mánudag var kynnt skýrsla Nýsköpunarmiðstöðvar um möguleika á vatnsútflutningi úr Ríki Vatnajökuls. Skýrsluhöfundur, Bjarni Ólafur Stefánsson, mætti á fundinn og greindi frá helstu niðurstöðum sínum. Góðar umræður sköpuðust um skýrsluna og málið almennt.
Við lestur skýrslunnar kemur margt forvitnilegt í ljós. Einn milljarður manna býr t.a.m. við lítið eða mjög lélegt aðgengi að góðu vatni. Það sýnir okkur betur en margt annað að gæðum heimsins er mjög misskipt. Íslendingar, 300.000 manna þjóð, hefur allt að því takmarkalausan aðgang fersku og heilnæmu vatni á meðan stór hluti heimsins býr við mjög lélegt aðgengi að vatni. Þetta er auðvitað alþjóðlegt vandamál. Það er því ekki ofsögum sagt að öld blá gullsins - eins og Mogginn kallaði vatnið sl. vor - sé runninn upp.
En meginniðurstaða skýrslunnar er sú að það geti verið hagkvæmt að flytja vatn úr sveitarfélaginu og styrkir svæðisins m.a. í tengslum við markaðssetningu séu nokkrir. Þar vegur þungt nálægðin við Vatnajökul og stærsta þjóðgarð Evrópu. Á þeim grunni er hægt að vinna í sambandi við ímynd vatnsins og markaðssetningu á því.
Enda sjáum við að flestir þeir, sem eru að hefja útflutning á vatni, telja sig hafa hag af því að tengja það við jökla af einhverjum ástæðum. Ekki er samt alltaf gott að átta sig á því hvaða jökla er verið að vísa til í því samhengi.
Í kjölfar umræðna um skýrsluna fól bæjarráð bæjarstjóra að halda vinnu við málið áfram. Vonir okkar standa til þess að afrakstur þeirrar vinnu verði sá að á næstu vikum eða mánuðum geti bæjarráð fundað með áhugasömum fjárfestum vegna málsins.
24.9.2008 | 00:02
Þegar öll von virtist úti
hjá Davíð Oddssyni, formanni Seðlabankastjórnar, eftir ósvífnar árásir frá ótrúlegasta fólki, sem hoppað hefur upp á Evruvagninn og gerst fjandmenn krónunnar þá birtist bjargvættur úr heldur óvæntri átt.
Bjargvætturinn reyndist vera þingmaður Vinstri Grænna úr Norðvestur kjördæmi, nefnilega Jón Bjarnason. Mikið hlýtur það að hafa verið hughreystandi fyrir Davíð og veitir honum eflaust kærkominn innblástur til þess að halda áfram herferð sinni sem Seðlabanakastjóri gegn öllum þeim sem dirfast að tala krónuna niður á þessum erfiðu tímum.
Það er hægt að taka manninn úr pólitíkinni en ekki pólitíkina úr manninum.
18.9.2008 | 10:20
Stóru málin
Eitt af stóru málunum sem bæjarfulltrúar ræða í bæjarstjórn í sveitarfélagi eins og Hornafirði eru atvinnumálin í víðu samhengi. Menn eru alltaf að leita leiða til þess að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu og treysta stoðir þess. Einsleitt atvinnulíf er þröskuldur í þróun og viðgangi byggðarlaga.
Á yfirstandandi kjörtímabili höfum við sett mörg verkefni í gang sem miða að því að efla atvinnulífið á staðnum. Það má segja að vinna bæjarstjórnar felist fyrst og fremst í því að reyna að greina þau tækifæri sem eru til staðar á svæðinu til atvinnuuppbyggingar. Markmiðið er ekki að sveitarfélagið sjálft ætli út í stórfelldan atvinnurekstur en við viljum leggja okkar að mörkum til þess að greiða fyrir nauðsynlegri uppbyggingu.
Gagnaver og vatnsútflutningur
Á þessu kjörtímabili höfum við t.d. farið fram á það við Nýsköpunarmiðstöð að hún vinni faglega úttekt á því hverjir möguleikarnir á svæðinu eru til vatnsútflutnings. Skýrlsa byggð á þeirri vinnu verður opinber á næstu dögum. Skýrslan verður tekin til umfjöllunar í bæjarráði innan skamms og helstu niðurstöður hennar kynntar í framhaldi af því.
Við höfum einnig leitað eftir samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð til þess að vinna sambærilega úttekt á möguleikum okkar til þess að hér verði starfsemi á borð við gagnaver. Bæjarstjóri hefur einnig hitt fulltrúa á vegum Fjárfestingarstofu til þess að fara yfir þessi mál með þeim. Á þeim fundi kom fram að fulltrúar Fjárfestingarstofunnar fögnuðu úttekt bæjarfélagsins og bent á að margvísleg tækifæri ættu eftir að skapast í þessum geira í framtíðinni og því væri mikilvægt fyrir okkur að vera búin að vinna okkar grunnvinnu.
Í vinnu, sem nú er að hefjast á endurskoðun aðalskipulags, er mikilvægt að gert verði ráð fyrir hugsanlegri uppbyggingu í tengslum við vatnsútflutning og gagnaver. Huga þarf vel að staðsetningu slíkrar starfsemi í samfélaginu.
Mótvægisaðgerðir
Þegar ríkisstjórnin fór af stað með mótvægisaðgerðir sínar vegna niðurskurðar á þorskkvóta hafði það ótvíræð áhrif að sveitarfélagið hafði unnið sína heimavinnu og kom fram með mótaðar og mjög metnaðarfullar tillögur. Af þeim sökum var Háskólasetrið stóreflt og Nýsköpunarmiðstöð er nú með útibú í Nýheimum. Þessar stofnanir styrkja mjög vel við atvinnulífið á staðnum. Háskólasetrið vinnur mikið að málefnum tengdum ferðaþjónustu og uppbyggingu þjóðgarða og Nýsköpunarmiðstöð styður við atvinnulífið í ýmsu tilliti, m.a. með því að vinna að úttektum fyrir sveitarfélagið um hugsanlega atvinnuuppbyggingu.
Ferðaþjónustan
Einn helsti vaxtabroddurinn í atvinnulífinu hér er í ferðaþjónustunni. Sífellt fleiri eru farnir að stunda þennan atvinnurekstur á heilsárs grunni og fleiri fjölskyldur byggja orðið afkomu sína að stórum hluta á ferðaþjónustunni. Helsti þröskuldurinn í ferðaþjónustunni og það sem helst stendur vexti hennar fyrir þrifum er að hún er í raun ekki orðin heils árs atvinnugrein. Megnið af tekjunum myndast á þremur mánuðum yfir sumartímann. Brýnasta verkefnið í ferðaþjónustunni til lengri tíma hlýtur að vera að lengja ferðamannatímann. Markaðasátak iðnaðarráðuneytisins í samstarfi við aðila innan ferðaþjónustunnar undir forystu Ferðamálastofu er jákvætt skref í þá átt að efla ferðamannaiðnaðinn. Ætlunin er að verja 100 milljónum króna til þess að kynna Ísland sem áhugaverðan áfangastað að hausti og vetri. Iðnaðarráðherra og Ferðamálastofa virðast átta sig á mikilvægi þess að lengja ferðamannatímann og teygja hann lengra fram á veturinn.
Ekki má heldur gleyma hinum svokölluðu skapandi atvinnugreinum. En í því sambandi hefur bæjarstjórn fundið fyrir miklum áhuga hjá ýmsum á uppbyggingu í tengslum við verkefnið Hafnarvík-Heppa. Þar er hugmyndin að byggja upp gömlu bæjarmyndina á Höfn við höfnina. Um er að ræða stórt og spennandi verkefni. Í mínum huga er ekki nokkur vafi á því þessi uppbygging myndi styðja mjög vel við bakið á ferðaþjónustunni í sveitarfélaginu. Mjög fjölmennur fundur var haldinn um þessar hugmyndir í pakkhúsinu 29. apríl síðastliðinn.
Ég sagði á síðasta bæjarstjórnarfundi, þar sem ágæt umræða skapaðist um þennan málaflokk, að mikilvægt væri að bæjarfulltrúar gleymdu sér ekki amstri hversdagsins - eins og stjórnunarþætti leik - og grunnskóla - og væru vakandi í stóru málunum, þ.e. hvernig við getum eflt sveitarfélagið til framtíðar. Það er auðvelt að gleyma sér í pólitískum sandkassaleik þannig að stóru málin, sem okkur ber skylda til að huga að, gleymist. Það er okkar að passa að slíkt gerist ekki.
16.9.2008 | 22:49
Króna eða Evra
Gjaldmiðilsnefnd Framsóknarflokksins hefur komist að þeirri skynsamlegu afstöðu að valið í gjaldmiðilsmálum standi á milli íslensku krónunnar og Evru. Ef menn komast að því að halda eigi í krónuna þá verði stórefla hana sem gjaldmiðil m.a. að með því að auka verulega við gjaldeyrisvaraforðann.
Sífellt eru fleiri að hoppa á þennan vagn Samfylkingarinnar í gjaldmiðilsmálunum, þ.e. að eina raunverulega valið í gjaldmiðilsmálunum sé á milli Evru og Krónu. Það skýrir auðvitað betur kostina sem við stöndum frammi fyrir nú um þessar mundir.
Ef eitthvað er að marka fréttaflutning síðustu vikna þá er ljóst að þolinmæði aðila vinnumarkaðarins gagnvart krónunni er brostin. Málflutningur þeirra er svo kröftugur að forsætisráðherra taldi rétt að koma því á framfæri að í þessari umræðu væru ASÍ og SA komin út fyrir verksvið sitt. Það held ég að sé misskilningur. Vegna þess að ASÍ sér að fall krónunnar hefur haft í för með sér gríðarlega kjaraskerðingu fyrir umbjóðendur sína og Samtök atvinnulífsins sjá að krónan er orðinn þröskuldur í öllum viðskiptum umbjóðenda þeirra. Þannig að það er eðlilegt að þessir aðilar hafi sterkar skoðanir á þessum málum og leggi fram tillögur um leiðir til úrbóta.
Endurskoðun peningamálastefnunnar hlýtur að vera mikilvægasta langtímaverkefnið sem stjórnvöld standa frammi fyrir. Þrýstingurinn á að sú endurskoðun hefjist á bara eftir halda áfram að aukast.
8.9.2008 | 23:23
Skólamálin
Oft er það þannig að hlutirnir eru fljótir að breytast í bæjarmálunum. Skammt er nú liðið síðan við samþykktum nýja skólastefnu fyrir sveitarfélagið þar sem ákveðið var að sameina Nesja, - Hafnar - og Heppuskóla undir einn hatt. Skömmu síðar var samþykkt í bæjarráði að selja til einkaaðila skólahúsnæði grunnskólans sem staðsett er í Nesjum.
Með sölunni var bæjarráð sammála um að búið væri að marka þá stefnu að skólahald Grunnskóla Hornafjarðar í Nesjum myndi leggjast af innan ákveðins tíma. Þegar þessi niðurstaða bæjarráðs liggur fyrir vaknar sú spurning, hvort skynsamlegt sé að bíða lengi eftir að ákvörðunin verði að veruleika. Fyrir liggur að nemendum grunnskólans hefur fækkað um rúmlega hundrað frá árinu 1999 og akstur nemenda úr þéttbýli í dreifbýli lýtur öðrum lögmálum en akstur nemenda úr dreifbýli í þéttbýli þar sem sá akstur er ekki niðurgreiddur af jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Ein meginröksemdin fyrir því að stíga ekki þetta skref til fulls hefur m.a. verið sú að nýta húsnæði sveitarfélagsins sem best og að hingað til hafi ekki værið að koma öllum nemendum Grunnskóla Hornafjarðar fyrir í skólahúsnæðinu á Höfn.
Frá því ég ræddi fyrst um þann möguleika að flýta flutningi skólahalds úr Nesjum út á Höfn í ljósi þess að búið væri að sameina alla skólana undir einn hatt og selja húsnæði Nesjaskóla hefur komist töluverður skriður á umræðuna. Málið hefur fengið töluverða umfjöllun og skólastjórn Grunnskólans hefur sýnt fram á að miðað við húsnæðisþörf skólans geta þessir flutningar farið fram næsta haust. Málið fékk einnig töluverða umræðu í bæjarstjórn og ég gat ekki betur heyrt en að bæjarfulltrúar væru mér sammála í þessu máli.
Ákveðið hefur verið, í samræmi við tillögu skólanefndar, að stofna starshóp til þess að fara betur yfir málið og koma með tillögur um næstu skref. Í honum eiga sæti einn fulltrúi frá hverju framboðí í skólanefnd auk fulltrúa starfsmanna, foreldra og skólastjórnarinnar. Í raun má því segja að ákvörðun um flutningana liggi fyrir nú þegar, en eftir eigi að taka ákvörðun um hvenær flutningarnir fari fram.
Ég hef lýst þeirri skoðun minni, bæði hér á þessum vettvangi og í ræðustól bæjarstjórnar, að skynsamlegast sé að hraða flutningunum eins og kostur er, úr því að búið er móta stefnuna til framtíðar. Ekki sé skynsamlegt að reka lengi skólaeiningu sem allir eru meðvitaðir um að á að loka innan tíðar. Ef starfshópurinn verður mér sammála í þessu mikilvæga máli þá verður það verkefni hans að halda utan um þessar breytingar á skólamálum sveitarfélagsins í góðri samvinnu við skóla - og foreldrasamfélagið.
Þegar upp verður staðið eftir þetta kjörtímabil, hvernig sem þessi mál öll fara, þá er ljóst að töluvert umrót og breytingar hafa átt sér stað í skólamálum í sveitarfélaginu.
Annar málaflokkur sem hefur gengið í gegnum töluverðar breytingar það sem af er kjörtímabilinu eru málefni æskulýðs - og tómstundamála. Þar vísa ég ekki síst í skipulagsbreytingar varðandi félagsmiðstöðina Þrykkjuna. Þær breytngar voru samþykktar á grundvelli tillagna stýrihóps um félagslíf grunnskólanema á Hornafirði. Breytingar voru gerðar á nefndakerfi sveitarfélagsins þegar æskulýðs - og tómstundaráð annars vegar og menningarmálanefnd hins vegar voru sameinaðar í menningar - og tómstundarnefnd. Auk þess var samþykkt að auglýsa eftir sérstökum tómstundafulltrúa með aðsetur í félagsmiðstöðinni, sem er breyting frá fyrri skipan mála. Eitt af því sem stýrihópurinn lagði til í sinni skýrslu var að taka húsnæði félagsmiðstöðvarinnar til endurskoðunar þótt núverandi húsnæði hefði þjónað tilgangi sínum ágætlega í gegnum árin þá væri ljóst að það væri líka að einhverju leyti hamlandi fyrir starfsemina.
Það er verðugt en að sama skapi alls ekki einfalt verkefni fyrir sveitarfélagið að kanna hvort hægt sé að bæta húsakost félagsmiðstöðvarinnar með skynsamlegum hætti þannig að hægt sé að efla tómstundastarf barna og unglinga enn frekar í sveitarfélaginu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.8.2008 | 21:17
Verðbólga í hæstu hæðum
Það er ljóst að líflegur og um margt erfiður pólitískur vetur er framundan fyrir ríkisstjórnina. Flestir ef ekki allir geta verið sammála um að brýnasta verkefni hennar á komandi vetri verður að koma böndum á verðbólguna og tryggja atvinnustigið í landinu. Þetta hljóta að verða forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar á næstum vikum og mánuðum.
Verðbólgan mælist nú tæp 15% sem er hæsta verðbólga sem mælst hefur í tæpa tvo áratugi. Kaupmáttur launa hefur dregist hratt saman og ASÍ og fleiri aðilar hefur bent á að atvinnuleysi komi til með að aukast með haustinu. Við sjáum vísbendingar um það nú þegar, ef horft er til þeirra gjaldþrota og fjöldauppsagna, sem við höfum orðið vitni að á síðustu vikum, sérstaklega í byggingariðnaðinum.
Það er auðvitað ekki hlaupið að því fyrir stjórnvöld að leysa þessi stóru vandamál sem blasa við okkur í efnahagaslífinu nú um stundir. Að ná niður verðbólgunni á sama tíma og reynt er að bregðast við lækkandi atvinnustigi er ekki einfalt verkefni. Reynslan hefur sýnt að samvinna og samráð allra aðila eru bestu verkfærin sem hægt er að nota þegar kemur að þeirri baráttu að halda aftur af verðbólgunni. Þess vegna er brýnt að allir aðilar vinnumarkaðarins og ríksstjórnin hafi með sér samvinnu um það hvernig unnt sé að vinda ofan af þessari þróun sem allra fyrst. Það er fyrsta skrefið í því að ná tökum á þessum vanda. Vonandi munu þessir aðilar setjast sem fyrst niður og koma sér saman um leiðir og aðferðir til þess að ná tökum efnahagsmálunum. Almenningur getur ekki búið við að það að horfa upp á enn frekari kaupmáttarrýrnun.
Í þessu árferði ættu allir að geta sameinast um það markmið að Ísland uppfylli skilyrðin fyrir inngöngu í myntbandalag Evrópusambandsins hvað svo sem þeim kann að finnast um ESB og Evruna. Hér er einfaldlega um skynsamleg markmið að ræða, t.a.m. lágt vaxtastig, lág verðbólga og stöðugleiki, sem allir ættu að geta fallist á að séu skynsamleg í öllu tilliti. Ég held að það sé rétt, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra segir í Viðskiptablaðinu í dag, um að Evrópusambandsaðild verður stóra kosningamálið í næstu kosningum. Ástæðan er sú að kjósendur munu ætlast til þess að þá hafi flokkarnir skýra stefnu í Evrópumálunum minnugir umræðunnar á yfirstandandi kjörtímabili. Það gæti reynst einhverjum flokkum erfitt.
27.8.2008 | 16:59
Atvinnumál
Á síðasta fundi bæjarráðs var fjallað atvinnumál í sveitarfélaginu. Töluverð umræða hefur verið undanfarið um svokölluð gagnaver sem hugsanlegum kosti í atvinnuuppbyggingu víðs vegar um landið. Við ræddum t.a.m. þessi mál á fundi okkar með Össuri Skarphéðinssyni á fundi okkar með honum síðastliðið vor.
Bæjarráðsmenn voru sammála um að aðstæður hér væru á margan hátt ákjósanlegar fyrir slíka starfsemi. Nægilegt landrými er fyrir hendi auk þess sem svæðið sé utan jarðaskjálftasvæða á landinu. Við töldum því allt kalla á það að þessi mál yrðu skoðuð ofan í kjölinn til þess að hægt sé að ganga úr skugga um það hvort hér sé um raunhæfan möguleika að ræða. Þess vegna samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra að óska eftir því við starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar á Höfn að hún ynni fyrir okkur skýrslu um kosti þess að koma upp slíkri starfsemi í sveitarfélaginu. Það er mikilvægt fyrir okkur að greina möguleikana í slíku verkefni sem og hagkvæmni þess.
Hvað sem öðru líður þá er mikilvægt fyrir okkur að vera vakandi fyrir öllum mögulegum atvinnufærum og þessi vinna er liður í því.
Einnig kom fram á fundinum að skýrsla Nýskpöpunarmiðstöðvar um mögulegan vatnsútflutning úr sveitarfélaginu er væntanleg á næstu vikum. Það verður spennandi sjá hvaða möguleika Nýsköpunarmiðstöð sér fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð í tengslum við vatnsútflutning. Það er því kjörið að fá Nýsköpunarmiðstöð til þess að vinna athugun á gagnaverum þegar hún hefur lokið vinnu sinni vegna vatnsútflutningsins.
20.8.2008 | 00:22
Kæra dagbók
Fjórðu meirihlutaskiptin í borginni hafa auðvitað verið fyrirferðarmest í fréttum undanfarna daga. Mikið er fólk orðið leitt á þessum eilífu uppákomum í borgarstjórn og því stefnuleysi sem þar ríkir nú um stundir. Þessar farsakenndu uppákomur, sem algjörlega eru á ábyrgð borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, hafa nú tekið á sig enn ótrúlegri mynd. Borgarfulltrúar Íhaldsins hafa nú ákveðið að slíta meirihlutasamstarfi sem þeir lögðu mikið á sig til að koma á koppinn. Settu m.a. borgarstjórastólinn á uppboð til þess að sprengja samstarf Tjarnarkvartettsins. Þetta voru borgarfulltrúarnir tilbúnir að gera í janúar en núna 6 mánuðum síðar hafa þeir komist að því að þetta samstarf, sem þeir stofnuðu til með svo ærnum tilkostnaði, hafi verið komið á endastöð.
Það var rétt mat hjá Degi B. Eggertssyni og Svandísi Svavarsdóttur að stofna ekki til meirihlutasamstarfs með Sjálfstæðismönnum enda hefur borgarstjórnarflokkur þeirra - sérstaklega vegna innbyrðis deilna, sem komu upp á yfirborðið í Rei málinu - sýnt fram á það að hann er ekki stjórntækur. Það væri því ábyrgðarhlutur að stofna til meirihlutasamstarfs með slíkum flokki. Framsókn reyndist nógu örvæntingarfull, vegna nálægðar við núllpunktinn í skoðanakönnunum í Reykjavík, til þess að taka tilboði Íhaldsins. Það voru vonbrigði en kannski að einhverju leyti skiljanlegt í ljósi stöðunnar hjá flokknum í borginni.
Síðustu daga hefur einnig töluvert verið rætt um dagbækur fyrrum Moggaritstjórans, Matthíasar Johannessen. Þar opinberar hann trúnaðarsamtöl sín við ýmsa þekkta einstaklinga. Þessar uppljóstranir ritstjórans fyrrverandi hljóta að verða til þess að menn hugsa sig tvisvar um áður en þeir spjalla við einhvern af ritstjórn Morgunblaðsins þó það sé gert í trúnaði ef vera skyldi að sá héldi dagbók. Ég vona að Styrmir hafi ekki haldið dagbók og ef svo er að þá þyki honum vænna um almenning en svo að hann fari að deila henni með okkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006