Leita í fréttum mbl.is

Lækkun gjalda

Á síðasta fundi bæjarstjórnar á fimmtudaginn samþykkti bæjarstjórn umfangsmiklar tillögur um lækkun gjalda í sveitarfélaginu sem ætlað er lækka útgjöld fjölskyldna. Tillögurnar gera ráð fyrir að leikskólagjöld og gjöld fyrir lengda viðveru lækki um 10%. Þær felast einnig í því að systkinaafsláttur fyrir annað barn verður 50% og 100% afsláttur fyrir þriðja barn.  Þá verður systkinaafsláttur tengdur á milli skólastiga þannig að foreldrar sem eiga börn í leikskóla fá aukinn afslátt fyrir barn sitt í lengdri viðveru.

Í þessari umræðu er rétt að benda á að leikskólagjöld hafa ekki hækkað að krónutölu síðan 1. janúar 2006. Ef gjöldin hefðu fylgt vísitölu myndi gjald fyrir átta tíma hafa hækkað um 4.310 krónur eða úr 19.329 krónum í 23.639 krónur.  Þegar þessi staðreynd er höfð til hliðsjónar ásamt hinum nýsamþykku tillögum bæjarstjórnar má segja að raunlækkun leikskólagjalda hafi á þessu tímabili verið rúm 20%. Óhætt er að segja að þessar breytingar eigi eftir að koma sér vel fyrir fjölskyldufólk en sem dæmi má nefna að fjölskylda með eitt barn í leikskóla í átta tíma og í lengdri viðveru í 41-50 klst. á mánuði kemur til með að lækka útgjöld um 71.992 krónur á ári.

Tillögurnar gera einnig ráð fyrir sveitarfélagið taki upp svokallað tómstundakort fyrir börn 6 - 18 ára. Með tómstundakortunum er ætlunin sú að styrkja hvert barn á aldrinum 6 - 18 ára í sinni tómstundaiðkun. Rétt er að fram komi að ekki er bara verið að vísa í íþróttastarf í sveitarfélaginu heldur eiga kortin að virka á mjög breiðum grunni. Mín skoðun er sú að fyrst og fremst eigi að líta á kortin sem styrk til þeirra barna og unglinga sem hafa mikinn áhuga á hvers kyns tómstundum og kortin eiga að auðvelda þeim þátttökuna í þeim.

Þessar tillögur eru afrakstur af starfi stýrihóps sem bæjarstjórn skipaði síðasliðinn til vetur til þess að móta fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið. Endalegum tillögum á hópurinn að skila af sér í desember. Í stýrhópnum sitja; Matthildur Ásmundardóttir, formaður fyrir Samfylkinguna, Elín Magnúsdóttir fyrir Framsókn og Gauti Árnason fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Samstarfið í stýrihópnum hefur verið gott.

Enda voru tillögurnar samþykktar með 6 atkvæðum í bæjarstjórn en Halldóra Bergljót Jónsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins sat hjá við afgreiðsluna af þeim sökum að hún hafði ekki haft tíma til þess að kynna sér tillögurnar. Tilboð kom frá meirihlutanum um að fresta afgreiðslunni fram að næsta fundi bæjarstjórnar og þannig gæti hún kynnt sér tillögurnar efnislega. Um þrjár vikur eru í næsta bæjarstjórnarfund og hefði sá tími átt að duga svo hún gæti myndað sér skoðun á málinu. En hún kaus að hafna því tilboði og það vakti athygli mína.

Fjölskyldumálin eru málefni sem Samfylkingin lagði ríka áherslu á í sinni kosningabaráttu og þess vegna er það okkur mikið ánægjuefni að sjá þessar tillögur verða að veruleika í bæjarstjórn.


Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga

Það er orðinn árviss viðburður í ágúst að umræða um hlutdeild sveitarfélaganna fjármagnstekjuskattinum svokallaða fari af stað. Ástæðan er eflaust sú að þegar álagningarskrár skattsins eru birtar kemur í ljós að fjármagntekjuskatturinn stækkar með hverju árinu og ríkiskassinn bólgnar út. Á sama tíma kemur þá líka í ljós að þeim er ávallt að fjölga sem eingöngu greiða sinn skerf til samneyslunnar í gegnum fjármangstekjuskattinn. Þeir einstaklingar leggja því ekkert til þeirra sveitarfélaga sem þeir búa í. Þetta er auðvitað óviðunandi og gengur ekki lengdar að sístækkandi hópur greði ekkert í þá samneyslu sem er á hendi sveitarfélaganna. Þessir einstaklingar verða, eins og aðrir, að nýta sér lögbundna þjónustu sveitarfélaganna. Það er einfaldlega sanngirnis - og réttlætismál að þeir sem eiga það mikla peninga að þeir geta lifað af því að sýsla með þá greiði með sama hætti til nærsamfélagsins og aðrir.

Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar og bæjarstjórnarmaður í Hafnarfirði og Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri hafa báðir sagt að eðlilegt sé að sveitarfélögin fái hlutdeild í þessum skatttekjum. Ýmsir aðrir hafa talað á þessum nótum. Þar sem bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa talað með svo skýrum hætti um þessi mál hefði verið hægt að álykta sem svo að ákveðinn þrýstingur myndist hjá ríkisstjórninni um að hefja a.m.k. skoðun á þessu réttlætismáli.

Hins vegar hefur Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra ákveðið að gera þetta að sínu hugsjónamáli í pólitík, þ.e. að sveitarfélögin hafi ekkert með það að gera að fá hlutdeild í þessum skatttekjum. Hann telur að sveitarfélögin stríði við útgjaldavanda og hafi ekkert við fjármagnstekjuskattinn að gera. Þau þurfi að taka til í sínum rekstri. Mér þykir ekki rétt að setja öll sveitarfélög undir þann hatt að þau eigi við útgjaldavanda að stríða. Auðvitað eru þau til sem e.t.v. hafa farið of glannalega en það á alls ekki við um öll sveitarfélög. Öll sveitarfélög vilja hafa reksturinn í góðu jafnvægi en þau vilja jafnframt veita góða þjónustu vegna þess að þau vilja búa íbúum sínum sem best skilyrði. Þess vegna finnst mér þetta ekki tæk rök hjá fjármálaráðherra.

En í mínum huga snýst þessi krafa sveitarfélaganna ekki eingöngu um auknar tekjur sveitarfélaganna - sem vissulega skipta miklu máli - heldur er um að ræða réttlætismál. Það að búa við fjárhagslega gæfu og velgengni á ekki að þýða að maður hætti að greiða eðlilegan skatt til sveitarfélagsins síns þar sem maður heldur áfram að þiggja þá þjónustu sem í boði er. Í þessari umræðu er mikilvægt að það komi fram að enginn er að tala um það að þessi skattstofn verði hækkaður heldur er eingöngu verið að fara fram á það að sveitarfélögin fái eðlilega hlutdeild í honum. Eftir því sem þeim einstaklingum fjölgar, sem eingöngu greiða fjármagntekjuskatt og greiða því ekkert útsvar til sveitarfélaganna, þeim mun þyngri hlýtur umræðan að verða í þá veru að komið verði til móts við vilja sveitarfélaganna.


Verkefnin framundan

Nú þegar Verslunarmannahelginni er lokið fer lífið hægt og sígandi að komast í fastar skorður á nýjan leik. Við blasir annasamur en spennandi vetur. Verkefnin verða ærin á vettvangi bæjarstjórnar í vetur líkt og undanfarin ár.

Framkvæmdir

Bæjarfélagið stendur í miklum framkvæmdum um þessar mundir. Unnið er af fullum krafti að byggingu glæsilegrar sundlaugar og hefur verkið gengið vel undanfarna mánuði. Við stefnum að því að bjóða út byggingu knattspyrnuhússins í haust en að mörgu er að hyggja í þeim málum og mikilvægt að vanda vel allra verka. Þegar litið er til þeirra framkvæmda á íþróttasvæðinu sem nú þegar hafa átt sér stað, þ.e. tilkoma frábærrar frjálsíþróttaaðstöðu og nýs knattspyrnuvallar, er ekki  hægt að tala um annað en byltingu í aðstöðu íþróttafólks í sveitarfélaginu þegar sundlaugin og knattspyrnuhúsið hafa litið dagsins ljós. Ekki er ég heldur í vafa um að sundlaugin mun verða mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem eiga leið um svæðið enda verður öll aðstaða eins og best verður á kosið. Leiktæki fyrir yngsta sundfólkið og rennibrautir munu síðan auka gleði þessa hóps við opnun laugarinnar.

Endurskoðun aðalskipulags og Hafnarvík Heppa

Bæjarstjórn vinnur nú að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Það er viðamikið verkefni sem er þannig vaxið að eftir því sem fleiri koma að því þeim mun betri verður afraksturinn. Stefnt er að því að stofna stýrihóp með fulltrúum allra framboða sem fær það verkefni að halda utan þessa viðamiklu og mikilvægu vinnu í samstarfi við ráðgjafana hjá Glámu Kím.

Annað verkefni sem ég vonast til að komist á einhvern rekspöl næsta vetur er verkefni sem nefnist Hafnarvík Heppa. Það miðar að því að byggja upp gömlu bæjarmyndina við höfnina. Hér er um að ræða stórt og kostnaðarsamt verkefni sem m.a. felur í sér að gera upp Pakkhússið og færslu Gömlubúðar á sinn upphaflega stað við höfnina. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem kemur til með að hafa mjög jákvæð áhrif á bæjarmyndina. Ekki má heldur gleyma því að Hafnarvík Heppa er í raun einnig  byggða - og atvinnuverkefni vegna þess að menn sjá fyrir sér töluverða starfsemi í þeim húsum verða gerð upp. Mikilvægt er að huga vel að fjármögnun þessa verkefnis enda mjög kostnaðarsamt eins og áður hefur verið nefnt. Hugsanlegt er að ríkisvaldið og einkaaðilar, sem sjá hag sinn í þessari uppbyggingu, komi að fjármögnun verkefnisins að einhverju leyti. 

Húsnæðisnefnd og Grunnskóli Hornafjarðar

Nú er einnig að störfum nefnd hjá Sveitarfélaginu sem hefur það verk með höndum að kanna húsnæðisþörf sveitarfélagins til framtíðar. Nefndinni er ætlað að móta framtíðarstefnu sveitarfélagsins í húsnæðismálum. Hluti af verkefni nefndarinnar er að meta húsnæðisþörf grunnskólans. Rétt er að benda á að búið er að selja heimavistarhluta Nesjaskóla sem og sjálft skólahúsnæðið í Nesjum. Þegar það lá fyrir að skólahúsnæðið færi með í kaupunum kom ég þeirri skoðun minni á framfæri að þar með væri verið að stíga ákveðið skref í þá átt að allt skólahald Grunnskóla Hornafjarðar færðist út á Höfn.

Í þessu ljósi tel ég það mikilvægt að við skoðum það í alvöru hvernig hægt er að flýta þessu ferli eins og kostur er ef samstaða er um þessi sjónarmið. Það er ekki gott að reka skóla lengi í húsnæði sem liggur fyrir að eigi að loka innan tíðar.  Það er að mínu mati ekki grundvöllur fyrir metnaðarfullt starf. Ég legg hins vegar ríka áherslu á gott samstarf við starfsfólk, foreldra og nemendur til þess að truflunin, sem óneitanlega mun verða á starfi grunnskólans við þessar breytingar, verði sem minnst.  

Fjölskyldustefnan

Eitt stærsta verkefni bæjarstjórnar á næsta vetri verður þó án efa að fullmóta fjölskyldustefnu sveitarfélagisins. Um nokkurt skeið hefur verið starfandi nefnd á vegum sveitarfélagsins sem hefur unnið að mótun fjölskyldustefnunnar. Nefndin á að skila af sér tillögum til bæjarstjórnar í desmember. Þetta er málaflokkur sem Samfylkingin lagði mikla áherslu á í sinni kosningabaráttu og það er mikilvægt að þessum málaflokki sé gert hátt undir höfði og sé ávallt til skoðunar. Þess vegna verður spennandi að sjá endanlegar tillögur sem koma frá nefndinni og ég er viss um að þær verða til þess fallnar að bæta hag fjölskyldna í sveitarfélaginu.

Þessi upptalning er að sjálfsögðu hvergi nærri tæmandi fyrir þau verkefni sem framundan eru á vettvangi sveitarstjórnarmálanna en þau ættu að gefa nokkuð gott yfirlit yfir þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru.


Þingmannaheimsóknir

Á morgun, þriðjudaginn 1. júlí ætla þingmenn Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra og Lúðvík Bergvinsson, formaður þingflokks Samfylkingarinnar að heimsækja Hornafjörð.

Haldinn verður súpufundur í hádeginu í Pakkhúsinu þar sem allir eru velkomnir. Yfirskrift fundarins er byggða - og efnahagsmál. Þeir munu líka nota tímann til þess að heimsækja fyrirtæki og stofnanir í sveitarfélaginu og hitta fólk.

Eins og staðan er í efnahagsmálum þjóðarinnar um þessar mundir þá er líklegt að fólk vilji ræða við við þingmennina um þá stöðu. Raddir innan samtaka atvinnulífsins verða sífellt háværari um að stjórnvöld eigi að gefa út yfirlýsingu um að Ísland stefni að inngöngu í Evrópusambandið og ætli í kjölfarið á því að taka upp Evru. Þetta eru auðvitað mál sem vert er að ræða um þessar mundir.

Það kæmi mér heldur ekki á óvart að fólk myndi vilja ræða málefni Vatnajökulsþjóðgarðs í tengslum við umræður um byggðamál. Þar hafa síðustu atburðir verið með þeim hætti að nauðsynlegt er að ræða þau mál hispurslaust.


Nýting eða náttúruvernd

Nú þegar allir heilögustu predikarar Vinstri Grænna hrópa á torgum að Samfylkingin hafi svikið kosningaloforð sín í náttúruverndarmálum er vert að minnast ummæla Steingríms J. Sigfússonar að loknum síðustu kosningum. Þá sagði hann að ef staða mála í Helguvík og Bakka væri með þeim hætti að ekki væri aftur snúið þá ætti það ekki vera frágangssök ef Sjálfstæðisflokkurinn vildi mynda stjórn með VG. Þar með lagði hann öll spilin upp í hendurnar á Sjálfstæðisflokknum. Þetta sagði hann m.a. annars í hádegisviðalinu á Stöð 2 16. maí, fjórum dögum eftir kosningar.

Vinstri Grænir létu alltaf í veðri vaka að Framsóknarflokkurinn væri aðalgerandinn í hinni svokölluðu stóriðjustefnu. Á þeim var helst að skilja að Sjálfstæðismenn væru bara saklausir áhorfendur í þeim málaflokki og létu bara tilleiðast vegna vilja Framsóknar. Auðvitað átti það ekki við nein rök að styðjast en það hentaði bara hagsmunum Vinstri Grænna betur að haga málflutningi sínum þannig.

Sama er upp á teningnum núna. Nú hentar það Vinstri Grænum að snúa einhverju, sem þeir vilja kalla stóriðjustefnu, upp á Samfylkinguna. Þess vegna er vert að minnast á ríkisstjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks en þar segir:

  • Stefnt verður að því að ljúka vinnu við rammaáætlun fyrir lok árs 2009 og leggja niðurstöðuna fyrir Alþingi til formlegrar afgreiðslu.
  • Þar til sú niðurstaða er fengin verði ekki farið inn á óröskuð svæði án samþykkis Alþingis, nema rannsóknar- eða nýtingarleyfi liggi fyrir.
  •  

    Þarna er nauðsynlegt að benda sérstaklega á setninguna þar sem getið er um óröskuð svæði. En áframhaldandi rannsóknir á þeim svæðum, sem tengjast hugsanlegri uppbyggingu á álveri á Bakka við Húsavík, fela ekki í sér að farið sé inn á óröskuð svæði. Það er grundvallaratriði í þessari umræðu.

    Vinna við rammáætlun um verndun og nýtingu er í fullum gangi í iðnaðarráðuneytinu og það er sú vinna sem hlýtur að skipta öllu máli ef einhvern tíma á að nást sæmileg sátt í náttúruverndarmálum hjá þjóðinni.


Þjóðgarðs - og heilbrigðisblús

Ýmislegt bar á góma á fundi bæjarráðs í dag. Hæst báru þó umræður um Vatnajökulsþjóðgarð og heilbrigðis - og öldrunarmál. Mikil samstaða var í umfjöllun bæjarráðs í umræðum um Vatnajökulsþjóðgarð. Samþykkt var bókun þar sem mótmælt er harðlega þeirri ákvörðun yfirstjórnar þjóðgarðsins að skrifstofustarf, sem auglýst var laust hjá þjóðgarðinum fyrir skemmstu, skyldi vera staðsett í miðborg Reykjvavíkur. Sú ákvörðun og auglýsingin koma auðvitað í kjölfarið á því að ákveðið var að framkvæmdastjóri þjóðgarðsins yrði staðsettur í Reykjavík. Auglýsing skrifstofustarfsins sýnir í hnotskurn hversu slæmt það var að ákveða ekki að framkvæmdastjórinn og þar með höfuðstöðvar þjóðgarðsins yrðu á áhrifasvæði þjóðgarðsins. Bæjarstjórn Hornafjarðar hefur lengi talað fyrir því að höfuðstöðvar Vatnajökulsþjóðgarðs ættu heima í sveitarfélaginu. Þær myndu falla vel að starfsemi í sveitarfélaginu og auka fjölbreytnina í atvinnulífinu. Mikilvægt er að nú einhendi yfirstjórn þjóðgarðsins sér í það verkefni að endurskoða fyrri ákvörðun sína um staðsetningu framkvæmdastjóra. Hægt er að lesa bókun bæjarráðs í heild sinni hér.  

Erfitt er að henda reiður á gagnrýni minnihlutans þegar kemur að heilbrigðis - og öldrunarmálum. Lítið er um efnislegar athugasemdir og menn í grunninn sammála um það að halda áfram með þjónustusamninginn. Einu athugasemdirnar, sem fram koma, eru byggðar á huglægu mati um að ekkert hafi verið gert af hálfu sveitarfélagsins til þess að tryggja nýjan samning. Það er beinlínis skondið í ljósi þess að fá mál hafa fengið ítarlegri og betri umfjöllun í bæjarstjórn. Einnig er mér til efs að fleiri fundir, fleiri skeyti, fleiri tölvupóstar eða fleiri símtöl hafi átt sér stað út af nokkru öðru máli á borði bæjarstjórnar. Flöskuhálsinn í þessu máli er ekki hjá bæjarstjórn Hornafjarðar. Hann hefur orðið til annars staðar, nánar tiltekið í stjórnarráðinu. Við höfum, allt frá því að samningaviðræður hófust, aðallega átt í viðræðum við heilbrigðisráðuneytið og fjármálaráðuneytið. Á síðustu vikum hefur síðan félagsmálaráðuneytið bæst við listann í kjölfar breytinga á verkaskiptingu innan stjórnarráðsins.

Ég hef sagt, bæði í gamni og alvöru, að áður en samningar náist verðum við búin að ræða við stjórnarráðið eins og það leggur sig. En þetta er ekkert gamanmál og úr þessum hnút í stjórnarráðinu verður að leysa sem allra fyrst.


Sjávarútvegur, atvinnumál og ESB

Ég flutti hátíðarræðu á 17. júni. Í henni fjallaði ég sérstkalega um stöðu sjávarútvegsmála, breytingar á atvinnuháttum landsmanna og um hugsanlega inngöngu okkar í Evrópusambandið og upptöku Evru í kjölfarið. Læt ræðuna fylgja hér með:

Góðir gestir - gleðilegan þjóðhátíðardag!

Á þessum degi tíðkast það gjarnan að líta um öxl. Líta yfir farinn veg og vega og meta það sem á daga okkar hefur drifið frá því að lýðveldið var stofnað á Þingvöllum 17. júní 1944 þegar Sveinn Björnsson var kjörinn fyrsti forseti Íslands. Íslenska lýðveldið er ungt að árum og hefur varla slitið barnsskónum ennþá. Samt sem áður hafa Íslendingar upplifað meiri þjóðfélagsbreytingar á þessum rúmu 60 árum en sögur fara af. Ef við skoðum svo líka tímann frá því Íslendingar fengu fullveldið viðurkennt árið 1918 þá eru breytingarnar slíkar að byltingu mætti kalla. Á þeim tíma hefur Ísland breyst úr því að vera eitt fátækasta ríki veraldar í eitt þeirra ríkustu.

Í gegnum þrotlausa vinnu eldri kynslóða hefur okkur tekist að að skapa það velsældarsamfélag sem við búum við í dag og fyrir vikið tekist að ávinna okkur virðingu annarra þjóða. 

Algjörar grundvallarbreytingar á atvinnuháttum þjóðarinnar hafa orðið á þessu tímabili. Þegar fullveldið náðist 1918 var landbúnaður stærsti atvinnuvegurinn en það breyttist með ógnarhraða. Undirstöðuatvinnuvegirnir færðust að sjávarsíðunni og þá auðlegð og velsæld sem við lifum við í dag má að mestu rekja til sjávarútvegs og fiskvinnslu sem hafa fram til þessa verið undirstöðuatvinnugrein þéttbýliskjarnanna á landsbyggðinni. Sjávarútvegurinn og fiskvinnslan og þær gjalderistekjur sem þar hafa skapast hafa verið undirstaðan fyrir það velferðarsamfélag sem við búum við í dag.

En í dag eru enn á ný eru að verða breytingar í atvinnuháttum landans.

Við getum tekið sem dæmi að árið 1989 lagði Hafrannsóknarstofnun til að þorskvótinn yrði 300.000 tonn. Fyrir næsta fiskveiðiár leggur Hafrannsóknarstofnun til að þorskvótinn verði minnkaður um 6.000 tonn og verði 124.000 tonn. Sjávarútvegsráðherra hefur áður sagt að þorkskvóti næsta fiskveiðiárs fari ekki niður fyrir 130.000 tonn - en það er sá kvóti sem ákveðinn var fyrir yfirstandandi fiskveiðiár - og þá var farið eftir tillögum Hafrannsóknarstofnunar. Sú niðurstaða varð mörgum gríðalegt áfall enda um gríðarlegan aflaniðurskurð að ræða með tilheyrandi tekjumissi útgerða, sjómanna, fiskvinnslufólks og samfélaganna vítt og breitt um landið sem byggja afkomu sína á stórum hluta á sjávarútvegi.

Til þess að setja þessa hluti í samhengi er rétt að geta þess að ef farið yrði að tillögum Hafrannsóknarstofnunar fyrir næsta fiskveiðiðár myndi það þýða 15 milljarða króna lækkun í útflutningsverðmætum. Við núverandi efnahagsástand yrði slík ákvörðun enn til að auka á þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Í ljósi þeirrar stöðu sem íslenskur sjávarútvegur stendur frammi fyrir og þeirra markmiða sem lagt var upp með í aflamarkskerfinu, sem sett var á laggirnar á 9. áratug síðustu aldar, er mikilvægt að við spyrjum spurninga sem lúta að því hvort þessi markmið um verndun og vöxt nytjastofnanna hafi náðst. Þess vegna get ég tekið heils hugar undir með sjávarútvegsráðherra þegar hann - í svari sínu til mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna - boðar heildarendurskoðun á fiskveðistjórnunarkerfinu.

Samfara slíkri endurskoðun er einnig mikilvægt að endurskoðun á aðferðafræði Hafrannsóknarstofnunarinnar fari fram. Tillögur stofnunarinnar eru nefnilega því marki brenndar að þær rannsóknaraðferðir sem þær byggja á eru mjög umdeildar. Margir skipstjórnarmenn og aðrir sjómenn eru í grundvallaratriðum ósammála aðferðafræði Hafró og það er auðvitað alvarlegt mál sem nauðsynlegt er að bregaðst við.

En eins og ég gat um áðan þá eru í dag að aftur að verða grundvallarbreytingar á atvinnuháttum landsins. Fram kemur í spá fjármálaráðuneytisins að fyrir árið 2008 er í fyrsta sinn gert ráð fyrir því að fiskur verði ekki í fyrsta sæti sem hlutfall af vöruútflutningi landsmanna. Skv. spá fjármálaráðuneytisins mun útflutningur áls taka fyrsta sætið af fiskinum á þessu ári. Áætlað er að tekjurnar af útflutningi áls verði 165 milljarðar en tekjur vegna sjávarútvegsins verði 130 milljarðar. Hér er því um grundvallarbreytingu að ræða og ljóst er að útflutningur áls og tekjur sem af honum skapast vega upp á móti þeirri rýrnun útflutningsverðmæta sem kvótaskerðing undanfarinna ára hefur haft í för með sér.

Ekki er heldur hægt að líta fram hjá því að eftir því sem hagræðing innan sjávarútvegsins og fiskvinnslunnar eykst og kvótinn flyst á sífellt færri hendur þeim mun erfiðara er að sjá fyrir sér - til framtíðar litið - mikla fjölgun starfa innan greinarinnar. Af þessum sökum hefur sennilega sjaldan verið mikilvægara en akkúrat núna að huga að áframhaldandi atvinnuuppbyggingu í landinu.

Viljum við halda áfram að auka hlutdeild álframleiðslunnnar eða viljum fara aðrar leiðir? Er skynsamlegt að halda áfram uppbyggingu álverksmiðja vítt og breitt um landið? Eru það störf sem börnin okkar koma til með að sækja í eða koma þau til með að leita í eitthvað annað? Eða er kannski ekki skynsamlegt að nálgast málið með þeim hætti að uppbygging einnar atvinnugreinar þurfi alltaf að vera á kostnað annarra.

Það er líka ljóst að þegar við upplifum efnahagserfiðleika eins og þá sem farið hafa um heimsbyggðina undanfarna mánuði þá breytist verðmætamat fólks hratt og það sem einu sinni leit út fyrir að vera mjög slæm hugmynd er ekki svo slæm í dag.

En efnahagserfiðleikarnir hafa líka leitt hugann að öðru og það er staða Íslands í samfélagi þjóðanna og ekki síst að stöðu íslensku krónunnar í ólgusjó alþjóðlegs fjármálaumhverfis. Hér er auðvitað fyrst og fremst verið að vísa í umræðuna um samninginn um evrópska efnahagssvæðið og hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Margir halda því fram að ekki eigi að ræða hugsanlega aðild út frá tímabundnum erfiðleikum í efnahagsmálunum á meðan aðrir segja það nauðsynlegt vegna þess að þeir erfiðleikar - sem nú ganga yfir - koma sérstaklega illa við okkur vegna stöðu okkar sem flestir rekja til smæðar gjaldmiðilsins. Af þeim sökum sé óhjákvæmilegt að ræða inngöngu í Evrópusambandið og upptöku Evru í tengslum við þessa tímabundnu erfiðleika.

Um þessi mál eru eins og gefur að skilja mjög skiptar skoðanir. Einhverjir eru alfarið á móti því að rætt sé við Evrópusambandið um aðild Íslands á meðan aðrir eru harðir talsmenn þess að Ísland gangi í Evrópusambandið hvað sem það kostar. Flestir hygg ég þó að séu þar einhvers staðar mitt á milli - efasemdarfólk - þá meina bæði fólk sem hefur efasemdir um að núverandi ástand geti gengið til lengdar og líka fólk sem hefur efasemdir um að innganga í Evrópusambandið og upptaka Evru leysi öll okkar mál. Þetta sama fólk er þó tilbúið að skoða allar leiðir til þess að bæta ástandið.

Margir hörðustu andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu halda því gjarnan á lofti að um fullveldisafsal væri að ræða ef Ísland gengi inn í Evrópusambandið. Það ber auðvitað að skoða en í slíkum vangaveltum er grundvallatriðið alltaf það hvort fullveldi okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins og þá með íslensku krónuna sem okkar gjaldmiðil eða sem frjáls þjóð í samstarfi þjóða sem við eigum margt sameiginlegt með. Í umræðunni um fullveldisafsal er þetta grundvallaratriðið sem þarfnast frekari umræðu og skoðunar.

Þó held ég að ljóst sé að þessi ákvörðun muni á endanum snúast blákalt hagsmunamat - krónur og aura. Matið mun á endanum snúast um það hvort efnahagslegur ávinningur verður af því fyrir Ísland að ganga inn í Evrópusambandið - á þeim grunni verður þessi ákvörðun tekin eins og svo margar aðrar.

En í allri þeirri orrahríð sem framundan er um þessi mál er vert að minnast þess að við erum frjáls og fullvalda þjóð sem hefur leyfi til þess að takast á um grundvallarsjónarmið og að á endanum er það okkar að taka ákvarðanir um hluti sem varða framtíð okkar. Það getum við gert vegna þeirra baráttu sem háð var fyrir sjálfstæði landsins og þeirri staðreynd fögnum við á 17. júní ár hvert.

Góðir þjóðhátíðagestir!

Ég óska öllum Hornfirðingum gleðilegs þjóðhátíðardags.


Vatnajökulsþjóðgarður stofnaður

Þann 7. júní síðastliðinn var ég viðstaddur ánægjulega samkomu í Skaftafelli í tilefni af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar var Þórunn Sveinbjarnardóttir, umhverfisráðherra stödd ásamt aðstoðarmanni sínum, Önnu Kristínu Ólafsdóttur, sem jafnframt er formaður yfirstjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs. Umhverisráðherra var þarna mættur til þess að undirrita - við hátíðlega athöfn - reglugerð fyrir þjóðgarðinn og þar með að stofna hann formlega. Margt var um manninn enda um stóran og ánægjulegan áfanga að ræða.

Vatnajökulsþjóðgarður er stærsti þjóðgarður Evrópu og hann er stórvirki á svið náttúruverndar. Langt er um liðið síðan fyrst var farið að ræða um Vatnajökulþjóðgarð og mikil vinna hefur farið í að koma honum á laggirnar. Þannig að hér er um gríðarstóran áfanga að ræða. Þó liggur það fyrir að heilmikil vinna er framundan hjá stjórn garðsins í uppbyggingu hans. Eftir er að útfæra það hvernig menn ætla að markaðssetja þjóðgarðinn og hvernig þeir, sem stunda ferðaþjónustu og matvælavinnslu á áhrifasvæðum garðsins, geta nýtt sér tilurð garðsins sér til framdráttar. Enginn vafi er á því í mínum huga að miklir möguleikar eru fyrir hendi fyrir þá aðila sem stunda atvinnurekstur innan þessari greina til þess að bæta samkeppnisstöðu sína með tilkomu stærsta þjóðgarðs Evrópu. Í því liggja mikil tækifæri sem við verðum að nýta okkur.

Hins vegar olli það mér og fleirum töluverðum vonbrigðum þegar yfirstjórn þjóðgarðsins tók ákvörðun um að starf framkvæmdastjóra yfirstjórnarinnar yrði staðsett í Reykjvavík. Vonir Hornfirðinga stóðu til þess að höfuðstöðvarnar yrðu hérá Hornafirði í Ríki Vatnajökuls. Enda hafa sveitarstjórnarmenn og fleiri lengi talað fyrir því að það gæti orðið að veruleika.

Það hefur verið boðað af mörgum að náttúruvernd og atvinnuuppbygging séu ekki andstæðir pólar, að náttúruvernd geti í raun falið í sér atvinnuuppbyggingu og því trúðum við og gerum raunar enn. Þess vegna olli það verulegum vonbrigðum að stjórn þjóðgarðsins skyldi ákveða að fara þessa leið. Sú leið er ekki verið til þess fallin að gera náttúruverndina að trúverðugum kosti, í augum landsbyggðarfólks, þegar kemur að atvinnuuppbyggingu. Það er auðvitað alvarlegt mál ef ráðamönnum er alvara með því að gera náttúruvernd að raunhæfum kosti í atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni.


Guð minn almáttugur ...

eru orð helgarinnar. Þau átti Egill Helgason þegar hann gat ekki orða bundist yfir vitleysunni í Magnúsi Þór Hafsteinssyni í Silfrinu í gær. Ég get tekið heils hugar undir upphrópun Egils.

Orðin lét Egill falla þegar Magnús tjáði honum að hafin væri undirskriftarsöfnun gegn því að 30 einstæðar mæður frá Palestínu, sem eru flóttamenn, fái að koma til Íslands og setjast að á Akranesi. Viðbrögð mín við þessum upplýsingum Magnúsar voru nákvæmlega þau sömu og Egils.

Það er lágkúrulegt af Magnúsi að nýta sér eymd þessara kvenna og barna þeirra, sem hægt er að bjóða upp á betra líf á Íslandi, í pólitískum hráskinnaleik.  Svona mál eiga menn ekki að nýta sér til þess að slá pólitískar keilur.

Það er okkar skylda sem íbúar í velmegandi landi að taka við flóttamönnum sem búa ekki við sömu gæfu og lífsskílyrði og við. Við erum ein ríkasta þjóð í heimi og höfum það gott í öllum meginatriðum. Við getum ekki leyft okkur að hundsa umheiminn og loka augunum fyrir þeirri eymd og fátækt sem viðgengst í heiminum. Það er skylda okkar að leggja okkar að mörkum og það gerum við með því að taka á móti þessum einstæðu mæðrum og börnum þeirra og gefa þeim tækifæri til þess að lifa betra lífi á Íslandi.


Ungmennaþing

Í dag hélt Ungmennaráð Hornafjarðar ungmennaþing í Nýeimum. Þingið hélt ungmennráðið í samstarfi við Æskuýðs - og tómstundaráð Hornafjarðar. Þingið var mjög vel heppnað og ég hef þá skoðun að þing eins og þetta eigi helst að verða fastur liður í framtíðinni. Þannig myndi vægi þess aukast. Það er því óhætt að fagna frumkvæði ungmennaráðsins í þessu máli.

Mjög góð erindi voru flutt og að loknum erindum fóru fram mjög málefnalegar umræður. Helst var rætt um svokallað ungmennahús. Rætt var um þörfina á slíku húsi og hvar slík hús hafa verið tekin í notktun og hvernig það hefði gengið á þeim stöðum þar sem ungmennahúsin hafa verið starfrækt. Að mínu mati er mjög mikilvægt að undirbúa verkefni eins og þetta eins vel og kostur er. Það kom fram í máli mjög margra að e.t.v. væri skynsamlegra að byrja smátt í þessum efnum og reyna svo að byggja ofan á það. Það kom líka mjög skýrt fram í máli unga fólksins að mikilvægt er að huga að tómstundum fyrir það yfir sumartímann.

Þingið sýndi fram á það að þau eru gagnleg og sú skoðun, að gera eigi ungmennaþingið að föstum samstarfs - og samráðsvettvangi, kom mjög skýrt fram í umræðunum. Þinginu kemur til með að vaxa fiskur um hrygg ef það verður gert að föstum viðburði á viðburðadagatali sveitarfélagsins.

Í lokin kom svo fram að það verður verkefni ungmennaráðs að vinna úr þeim upplýsingum og áherslum sem fram komu á þinginu á næstu vikum og mánuðum. Það er verðugt verkefni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband