Leita í fréttum mbl.is

Efnahagshorfur vænkast

Ljóst er að Evrusamningar Seðlabankans við norrænu seðlabankana hafa haft jákvæð áhrif á þróun efnahagsmálannna í dag. Krónan styrktist og bensínið lækkaði. Davíð var svo ánægður með atburði dagsins að hann dreif sig í viðtal á Stöð Tvö í dag og mun það hafa komið mörgum í opna skjöldu ef marka má fréttaflutninginn á Eyjunni í dag.

Það var orðið löngu tímabært að fá jákvæðar fréttir úr heimi efnahagsmálanna. Staðan þar hefur verið mjög viðkvæm og erfið síðustu vikur og mánuði. Þannig að það var alveg komin tími á það fá jákvæðar fréttir af þessum vígstöðvum enda fólk almennt orðið uggandi um hag sinn sem eðlilegt er.

Atburðir dagsins í dag eru jákvæðir út frá stöðu peninga - og efnahagsmála eins og hún blasir við í dag. Hinu megum við þó ekki gleyma að alþjóðlega lánsfjárkreppan, sem er undirrót þeirra efnahagsþrenginga, sem við nú göngum í gegnum, hafði miklu meiri áhrif hér á landi en annars staðar vegna peningamálakerfisins sem við búum við. Krónan hríðféll, verðbólgan fór af stað og þetta hafði gríðarleg áhrif á allan hag almennings. Af þessum sökum er mikilvægt að við gleymum ekki því verkefni okkar að horfa til framtíðar í þessum málum. Við verðum að skoða hvernig koma megi í veg fyrir það í framtíðinni að svona öfgafullar sveiflur eigi sér stað í efnahagslífinu. Við verðum að finna leiðir til þess að auka stöðugleikann.

Í þeim efnum er nærtækast að við förum að skoða kosti og galla Evrópusambandsaðildar og upptöku Evru í framhaldi af því af fullri alvöru.


Menntamálaráðherra og ESB

Að einhverju leyti má segja að tekist hafi að snúa Íhaldinu til ESB ef marka má þau skynsamlegu orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins þess efnis að hún teldi að hefja ætti umræður um Evrópusambandsaðild af fullum krafti. Þannig væri að hægt að leggja aðildina í dóm kjósenda á næsta kjörtímabili. Hún er þar með að segja að við ætlum að hefja undirbúning að aðildarviðræðunum, fara yfir kosti og galla á aðild að Evrópusambandinu og leggja málið síðan í dóm almennings í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þetta eru sannarlega orð í tíma töluð innan úr innsta valdakjarna Sjálfstæðisflokksins. Þorgerður Katrín er að reyna að vekja menn þar innanborðs til vitundar um að flokkurinn geti ekki forðast þessa umræðu öllu lengur þó skiptar skoðanir kunni að vera um ESB innan Sjálfstæðisflokksins. Eftir að búið er að fara í gegnum upplýsta og málefnalega umræðu um kosti og galla aðildarinnar þá treystir hún þjóðinni til þess að taka endanlega ákvörðun um aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu. Undir þessi sjónarmið er óhætt að taka.

En Samfylkingin hefur auðvitað talað fyrir þessari leið í fjölda ára þannig að hér er ekki um nein sérstök tímamót að ræða í íslenskri pólitík. Hins vegar er það ánægjuefni að varaformaður Íhaldsins hefur tekið það upp á sína arma að reyna að leiða flokkinn sinn út úr ógöngum hans í Evrópumálunum.

Það er hins vegar full seint í rassinn gripið að segja að Sjálfstæðisflokkurinn eigi að taka forystu í umræðum um ESB. Íhaldið hefur of lengi forðast þessa umræðu til þess að unnt sé að taka þessi orð mjög hátíðlega.  Engu að síður er hægt að gleðjast yfir þeirri afstöðubreytingu sem virðist vera að eiga sér stað innan Sjálfstæðisflokksins hvað varðar aðildarviðræðurnar sjálfar og það eru akveðin tímamót.


Eftirlaunaósóminn

Það er dásamlegt að fylgjast með tilburðum andstæðinga Samfylkingarinnar reyna að gera hana að blóraböggli vegna eftirlaunaósómans sem samþykktur var í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins og Framóknarflokksins.

Þingflokkur Samfylkingarinnar, með einni undantekningu, samþykkti ekki þennan ósóma þar sem æðstu ráðamönnum þjóðarinnar voru skammtaðar ríflegar lífeyrisgreiðslur. Þarna var um að ræða sérhagsmunagæsla af verstu gerð. Sérstaklega eru tilburðir Framsóknarmanna til þess að gera hlut Samfylkingarinnar í þessu máli ótrúverðugan hjákátlegir þar sem þeir eru ásamt Sjálfstæðismönnum stærstu syndaselirnir í þessu máli öllu.

Það er verkefni Samfylkingarinnar að vinda ofan af þessari vitleysi fyrri ríkisstjórnar en til þess að það geti gengið eftir þurfa fleiri að koma að því máli. Í ríkisstjórnarsáttmálanum er skýrt kveðið á um það þetta baráttumál Samfylkingarinnar verði tekið til endurskoðunar og lífeyrisréttindi ráðamanna þjóðarinnar verði færð nær kjörum almennings.

Síðast þegar ég vissi þá er kjörtímabilið fjögur ár og mér er það til efs að nokkurn tíma hafi menn verið farnir að tala um svikin loforð nokkurs stjórnmálaflokks jafn snemma á kjörtímabili og núna er gert. Herferð Stöðvar Tvö gegn Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur á síðustu vikum er með hreinum ólíkindum og langt síðan maður hefur orðið vitni að öðru eins. Hægt væri að skilja þessa umfjöllun stöðvarinnar ef eitt ár væri til kosninga en ekki núna þegar ekki er liðið eitt ár af yfirstandandi kjörtímabili.

Miðað við áhuga fréttastofunnar á málinu ætti hún að hefja rannsókn á því hvernig þessi ákvörðun var tilkomin, hverjir stóðu að henni og hverji voru á móti henni. Það væri upplýsandi upprifjun fyrir almenning á þessum tímapunkti. Heimatök fréttastjórans á fréttastofu Stöðvar Tvö til þess að fara vel ofan í saumana á þessu máli ættu að vera tiltölulega hæg.

 


Velferð fyrir alla

Á laugardaginn fór ég á góðan og tímabæran fund Samfylkingarinar um heilbrigðismál. Fundurinn bar yfirskriftina velferð fyrir alla.

Skemmst er frá því að segja að fundurinn var í alla staði mjög vel heppnaður og skilaboð fundarins voru skýr. Engin einkavæðing á heilbrigðiskerfinu stendur fyrir dyrum eins og stjórnarandstaðan hefur verið að gefa í skyn. Slíkt mun aldrei eiga sér stað á meðan Samfylkingin stendur vaktina í ríkisstjórn. Skýrt var kveðið á um það að við erum ekki að fara út í neinar grundvallarbreytingar á heilbrigðiskerfinu. Ekki verður hægt að kaupa sig fram aðra í röð fyrir þjónustu innan heilbrigðisgeirans. Á meðan Samfylkingin situr í ríkissjtórn ætla menn að verja þá grunnhugsun jafnaðarstefnunnar, þ.e. sama þjónusta fyrir alla óháð efnahag.

Hins vegar voru allir sammála um það að ef þessar forsendur sem nefndar eru hér að ofan eru tryggðar þá séu menn tilbúnir að skoða þau rekstrarform sem eiga að veita heilbrigðisþjónustuna. Ef einkarekstur á við á sumum sviðum þá eru menn tilbúnir að skoða það ef þjónustan verður fyrir alla óháð efnahag.

Þetta snýst einfaldlega um að veita sem besta þjónustu fyrir alla landsmenn á sem hagkvæmastan hátt.


Farsinn í Reykjavík

Farsinn í Reykjavík hefur leitt til þess að ég er farinn að hugleiða hvort ekki sé nauðsynlegt að löggjafinn fari að kanna kosti þess að breyta lögum um kosningar til sveitarstjórna þannig að hægt sé að láta fara fram aukakosningar. Frammistaða Ólafs F. Magnússonar, borgarstjóra síðastliðna daga hefur orðið þess valdandi að ég hef verið mjög hugsi yfir stöðunni. Borgin er í raun stjórnlaus. Það þyrfti kannski bráðabirgðalög til þess að heimila kosningar borginni nú þegar.

Það versta í þessu öllu er það að eftir tæpt ár hættir Ólafur og við vitum ekki enn hver tekur við af honum þá. Kannsi verður það gamli góði Villi sem endurheimtir hásæti sitt. En það er átakanlegt til þess að vita að Sjálfstæðismenn, sem eiga að heita kjölfestan í þessu meirihlutasamstarfi, eru svo plagaðir af innanflokksátökum að þeir geta ekki komið sér saman um hver eigi að taka við þegar Ólafur hættir.

Þessum borgarsirkus verður að linna. Það er ömurlegt að horfa upp á borgina í þessari sjálfheldu og niðurlæging hennar er algjör. Sirkus er finn í hófi og það má skemmta sér yfir honum stöku sinnum en ef menn gera sirkusinn að venju eða reglu í sínum störfum þá endar það með því að almenningur fær nóg af slíkri skemmtan, eins og annarri að lokum. Þetta er hætt að vera fyndið.


Samráðsfundur með 60+

Rétt í þessu var ég að koma af samráðsfundi Heilbrigðis - og öldrunarráðs með Hornfirðingum 60+ í Ekrunni. Skemmst er frá því að segja að fundurinn var einkar ánægjulegur og gagnlegur. Fram kom á fundinum að fólk er í öllum meginatriðum mjög ánægt með þá þjónustu sem veitt er af okkar góða starfsfólki á Heilbrigðisstofnun Suðausturlands. Fólk var mjög ánægt með heimilishjálpina og heimhjúkrunina sem veitt er af starfsmönnum stofnunarinnar.

Þær ábendingar, sem fram komu um það sem betur mætti fara, lutu fyrst og fremst að því að nauðsynlegt væri að auka og efla upplýsingaflæði frá Heilbrigðis - og öldrunarráði og bæjarfélaginu um þá þjónustu sem er í boði fyrir eldri borgara. Einnig kom fram að mikilvægt væri að bæta samráð og samstarf á milli eldri borgara og Heilbrigðis - og öldrunarráðs. Mikilvægt er að koma þeim málum í fastari og betri farveg. Þetta er eitthvað sem Heilbrigðis - og öldrunarráð mun skoða á næstu dögum og vikum í samráði við Félag eldri Hornfirðinga.

En fundurinn var sérstaklega ánægjulegur og það var sérstkaklega gaman að sjá hversu vel var mætt. Fundurinn færði mér sönnur á hversu mikilvægt er að fara reglulega út fyrir innsta hring stjórnmálanna til þess að fá beint í æð flottar hugmyndir sem geta orðið til þess að bæta sveitarfélagið og þjónustu þess.


Gott innlegg í umræðuna um ESB

Ég held að flestir geti tekið undir það að leiðari Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í dag sé gagnlegt innlegg í umræðuna um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Þar segir m.a.

Tímabundinn vandi efnahagslífsins snýst um alþjóðlega lánakreppu. Langtíma vandinn í þjóðarbúskapunum felst hins vegar í því að íslenska krónan er ekki samkeppnishæf. Þetta eru aðskilin viðfangsefni.

En tímabundni vandinn má ekki verða til þess að slegið verði á frest að leggja línur um það hvernig langtíma úrlausnarefninu verður mætt.

Ég held að þarna hafi ritstjóranum tekist að ná utan um ákveðinn kjarna í málinu. Vandi efnahagslífsins í dag er tímabundinn og hann er m.a. tilkominn vegna alþjóðlegrar lánakreppu. En það sem er séríslenskt í þessu aðstæðum og greinir okkar vanda frá þeim þjóðum, sem við viljum bera okkur saman við, er sú staðreynd að við búum við gjaldmiðil sem ekki er samkeppnishæfur.

Það þýðir ekki að fresta þeirri umræðu. Áður en efnahagslægðin skall yfir okkur þá töldum menn litla ástæðu til þess að ræða þessi mál vegna þess að staðan var svo góð og góðærið svo mikið. Nú þegar tímabundnir efnahagserfiðleikar ganga yfir segja sömu úrtöluraddirnar að ekki megi tala um Evruna í ljósi þessara efnahagserfiðleika, ekki gangi að ræða málin á þeim forsendum.

En hvenær ætla menn þá að taka þessa umræðu fyrir alvöru? Hvenær er rétti tíminn?


Lýst er eftir frjálshyggjunni

Ég held að það sé orðið tímabært að lýsa eftir þeim frjálshyggju - og einkavæðingarpostulum sem hæst hafa látið á undanförnum árum. Mér finnst full ástæða til þess að kalla þessa aðila fram á sjónarsviðið vegna þess að ef frjálshyggjuna hefur einhvern tímann vantað öfluga talsmenn þá er það núna. En þegar það gerist, er eins talsmennirnir hafi horfið.

Ekki bólar mikið á umræðum um hina dauðu hönd ríksvaldsins og hina ósýnilegu hönd markaðarins sem öllu átti að bjarga. Það er kannski, eins og einhver sagði, ástæða fyrir því að höndin er ósýnileg og hún er sú að hún er ekki til.

Það er fyrir löngu ljóst að markaðurinn ræður ekki við sig sjálfur. Það verður að setja honum skýrar leikreglur og e.t.v. má segja að það sé nauðsynlegt að búa til regluverk í kringum hann til þess að vernda almenning fyrir hinni ósýnilegu hönd.

Þetta er grundvallarsjónarmið í málflutningi jafnaðarmanna um allan heim. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, bendir réttilega á þessa staðreynd í grein sinni í Fréttablaðinu 1. maí síðastliðinn. Við eigum nefnilega ekki að búa til þjóðfélag sem þjónar markaðnum og markaðsöflunum heldur að búa til markað sem þjónar þjóðfélaginu. Markaðurinn og peningahyggjan eru þarfur þjónn en vondur herra.


Samstarf á kjördæmisvísu

Á bæjarstjórnarfundi í dag flutti ég eftirfarandi langhund um samstarf sveitarfélaga:

Um nokkurt skeið verið umræða um það innan bæjarstjórnar hvort hagsmunum sveitarfélagsins sé betur borgið innan sambands sveitarfélaga á Suðurlandi en í Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi. Ég hef lýst minni skoðun á því héðan úr þessum ræðustóli. Þá sagði ég að það væri enginn vafi á því í mínum huga að til framtíðar litið þá væri pólitískum hagsmunum sveitarfélagsins betur borgið í landshlutasamtökum sveitarfélaga sem starfa á vettvangi þess kjördæmis sem við erum hluti af.

Eins og staðan er í dag þá erum við hluti af Suðurkjördæmi, sem var ákveðið með hliðsjón af því, að afgerandi meirihluti íbúa sveitarfélagsins taldi hag þess betur borgið í Suðurkjördæmi en í Norðausturkjördæmi. Ég tel einfaldlega að nú sé komið að þeim tímapunkti að sveitarstjórn fylgi íbúunum og stígi skrefið yfir í Suðurkjördæmi.

Til lengri tíma litið held ég að það gangi ekki upp fyrir okkur að vera tvískipt eins og við erum í dag. Þ.e. að vinna á kjördæmavísu innan suðurkjördæmis en á vettvangi sveitarstjórnarmálanna þá vinnum við með Austurlandi sem er að öllu leyti hluti af Norðausturkjördæmi. Nú vil ég ekki fyrir nokkurn mun gera lítið úr Sambandi Sveitarfélaga á Austurlandi sem við höfum átt mjög gott samstarf við undanfarin ár og áratugi. Samstarfið hefur verið gott og Hornfirðingar hafa verið frumkvöðlar innan SSA og nægir þar að nefna menningarmálin.

Og ég vil heldur ekki gera lítið úr áhyggjum manna sem hafa átt gott samstarf austur í hinum ýmsu verkefnum á öðrum sviðum. Við eigum þó alltaf eftir að tilheyra Austurlandi að hluta. En við eigum líka alltaf eftir að tilheyra Suðurlandi að hluta. Enda tölum við gjarnan um Suðausturland. Nægir þar að nefna Heilbrigðisstofnun Suðausturlands.

Að við tilheyrum áfram Austurlandi kemur ekki til með að breytast. Fyrir því eru landfræðilegar ástæður. Og þó sveitarfélagið telji það þjóna hagsmunum þess betur að starfa innan kjördæmisins, þá á það að mínu mati ekki að hafa áhrif á annað starf sem Hornfirðingar eru hluti af á jafningjagrunni á Austurlandi. Það eru þá verkefni sem sveitarfélagið sem slíkt á enga sérstaka aðkomu að. Ég sé ekki að þessi ákvörðun eigi að hafa áhrif á slík verkefni. T.d. held ég að Starfsgreinafélagið Afl, það öfluga verkalýðsfélag, sem starfar á Austurlandi komi til með að leggja upp laupana eða að Hornfirðingar hætti afskiptum af því. Ég sé það ekki fyrir mér.

Hér er fyrst og fremst verið að ræða um hinn pólitíska veruleika eins og hann blasir við okkur í dag. Og hann er sá að Sveitarfélagið Hornafjörður tilheyrir ekki lengur Austurlandskjördæmi í pólitísku tilliti heldur Suðurkjördæmi og það er okkar verkefni að leysa úr því.

Þegar ég leit yfir skipulag þessara mála á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga þá fæ ég ekki betur séð en að Sveitarfélagið Hornafjörður sé eina sveitarfélagið á landinu sem ekki starfar í landshlutasamtökum sveitarfélaga innan síns kjördæmis. Þetta getur að mínu mati ekki gengið til lengdar. Kjördæmaskipanin er komin til að vera og ég hef ekki heyrt neinn tala fyrir því að við ættum að skilja við Suðurkjördæmi og ganga inn í Norðausturkjördæmi. Þess vegna er þetta raunveruleiki sem við eigum að horfast í augu við og stíga skrefið til fulls og gera okkur meira gildandi innan okkar kjördæmis. Ef við höldum áfram á þessari braut þá hræðist ég að við verðum á endanum hornreka á báðum stöðum, þ.e. á Austurlandi þar sem við störfum ekki með þeim innan kjördæmisins og á Suðurlandi þar sem við störfum ekki með þeim á vettvangi sveitarstjórnarmálanna.

Það er okkur nauðsynlegt að tengjast sveitarstjórnum í kjördæminu og það er okkur ekki síður mikilvægt að tengjast okkar ágætu þingmönnum í Suðurkjördæmi sterkari böndum. Kjördæmin stækkuðu mjög mikið með síðustu kjördæmabreytingu og menn hafa því alls ekki jafn góð tækifæri til þess að koma sínum málum á framfæri eins og var fyrir kjördæmabreytinguna. Af þeim sökum þurfum við að nýta hvert tækifæri til þess að gera rödd okkar gildandi innan kjördæmisins og í mínum huga liggur það beint við að það getum við gert með því að hefja samstarf við sveitarfélög á Suðurlandi sem deila nú með okkur kjördæmi.

Það má heldur ekki gleyma því að landshlutasamtök sveitarfélaga eins og þau eru í dag voru í öllum meginatriðum miðuð við gömlu kjördæmaskipanina. Af einhverjum ástæðum ákváðu sveitarstjórnarmenn þess tíma að skipa málum með þeim hætti. Austurland var eitt kjördæmi og sveitarfélögin þar höfðu með sér samstarf. E.t.v. má hugsa sér að í framtíðinni komum við til með að feta okkur inn á þessar brautir aftur, þ.e. að landshlutasamtökin nái yfir hvert kjördæmi. Þá yrði til samband sveitarfélaga í Suðurkjördæmi. Nú má vel vera að þetta sé ekki gerlegt eða fýsilegt en ég held að eftir því sem sveitarfélögunum fækkar og þau styrkjast þá sé þetta eitthvað sem ætti að a.m.k. að taka til alvarlegrar skoðunar.

En mín sýn í þessum málum er skýr. Ég tel að pólitískum hagsmunum okkar til lengri tíma litið í samstarfi sveitarfélaga sé best borgið innan þess kjördæmis sem við erum hluti af í dag. Ég held að það geti ekki verið okkur til framdráttar að vera eina sveitarfélagið í Íslandi sem skipar málum með þeim hætti sem við gerum í dag. Það er komið að þeim tímapunkti að við stígum það skref sem íbúarnir tóku fyrir átta árum þegar þeir kváðu upp úr með það að hag okkar væri betur borgið innan Suðurkjördæmis en Norðausturkjördæmis með afgerandi hætti.  


Guðni gægist til Evrópu

Hann var merkilegur miðstjórnafundurinn hjá Framsóknarflokknum um helgina. Þar opnaði formaðurinn, Guðni Ágústsson svo sannarlega Evrópudyrnar hjá flokknum upp á gátt. Hann vill að þjóðin kjósi um það hvort aðildarviðræður eigi að hefjast. Þetta er ekki óskynsamleg nálgun og gæti verið leið til sátta.

En það er greinilegt að Guðni hefur ekki verið búinn að átta sig á kraftinum í Evrópuumræðunni innan sinna eigin raða. Varaformaðurinn, Valgerður Sverrisdóttir, hefur hingað til talað með allt öðrum hætti um Evrópusambandið en Guðni en hún telur að aðildarviðræður eigi að hefjast sem allra fyrst. Þar hefur hún gengið í takt við Jón Sigurðsson, fyrrverandi formann Framsóknarflokksins.

Ég fylgdist líka vel með umræðum Jóns Baldvins og Ragnars Arnalds í Silfrinu í gær. Mér fannst á Ragnari að það borgaði sig ekki að hefja aðildaviðræður vegna þess að við fengjum hvort eð er ekkert út úr viðræðunum. Hann hengdi sig líka á sjávarútvegsmálin. Ég tel að hann geri það til þess skapa óróa og ótta á meðal almennings í garð Evrópusambandsins. Það kæmi mér ekki á óvart að einhverjir hafi einmitt notað þessi rök til þess að berjast gegn EES samningnum á sínum tíma. En úr þessu fáum við aldrei skorið nema að leggja út í viðræðurnar. Þeir sem fylgja Heimssýnarmönnum að málum eins og Ragnar Arnalds virðast ekki hafa kjark eða kraft til þess að leggja út í slíkar viðræður. Þeir gefa sér fyrirfram að ESB sé vont fyrirbæri og vilji ekki semja um nokkurn skapaðan hlut við Íslendinga.

Hvað fullveldisrökin varðar þá fannst mér Jón Baldvin skjóta þau rök Ragnars á kaf með því að vísa til hinna nýfrjálsu Eystrasaltsþjóða. Þær vilja einmitt komast í ESB til þess að tryggja sitt sjálfstæði og fullveldi í bandalagi með öðrum þjóðum. Við göngum til viðræðna og göngum í ESB sem frjáls og fullvalda þjóð. Í Alþingiskosningum getur kjósendur alltaf kosið til valda flokka, sem vilja segja sig úr ESB, ef hann telur hag okkar betur borgið utan sambandsins. Ákvæði um úrsögn úr Evrópusambandinu tryggir að þetta sé mögulegt. Þannig að rökin um afsal fullveldisins halda engu vatni.

Þá eru ónefnd gjaldmiðilsmálin og peningamálastefnan sem komin að fótum fram. Sú staða nú er uppi og hefur verið fyrirsjáanleg um nokkurn tíma kallar einfaldlega á það að við skoðum þessi mál. Ég hef verið sammála því sem margir hafa haldið fram t.a.m. forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar að valið í þessum málum standi á milli þess að halda í krónuna eða taka upp Evru. En flestir hafa líka verið þeirrar skoðunar að upptaka Evrunnar verður ekki framkvæmd nema með inngöngu í ESB. Í mínum huga er ekki nokkur spurning að hagsmunum Íslands til framtíðar sé betur borgið með seinni kostinum.

En mikilvægast á þessum tímapunkti er að pólitísk samstaða myndist um að hefja aðildaviðræður og sjá hvert þær leiða okkur. Nýjasta útspil Guðna á flokksstjórnarfundinum sýnir okkur að slíkt er mögulegt. Þegar niðurstöður þeirra viðræðna liggja fyrir geta menn síðan haft á því allar skoðanir hvort við eigum samleið með ESB eða ekki og auðvitað verður inngangan í Evrópusambandið alltaf lögð fyrir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband