Leita í fréttum mbl.is

Glæsilegt prófkjör Samfylkingarinnar

Sendi eftirfarandi pistil til vefmiðla í kjördæminu í kjölfar prófkjörs:

Nú er prófkjörsslagnum hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi lokið. Baráttan var einkar skemmtileg og drengileg. Það er líka frábært að fá tækifæri til þess að kynnast svo mörgum stórskemmtilegum einstaklingum, bæði í hópi frambjóðenda og kjósenda. Ferðirnar um kjördæmið, þar sem frambjóðendur hittu og ræddu við kjósendur - bæði á vinnustöðum og á förnum vegi - voru sérstaklega ánægjulegar enda fengu frambjóðendur þá að heyra hvaða mál það eru sem helst brenna á fólki. Framboðsfundirnir í Eyjum, Hornafirði, Árborg og Reykjanesbæ voru líka gagnlegir og málefnalegir.

Niðurstaða prófkjörsins er skýr, þótt þátttakan - rúmlega 2300 manns - hefði mátt vera betri. Kannski er áhuginn á stjórnmálum og stjórnmálamönnum ekki meiri eftir þau efnahagslegu áföll, sem dunið hafa á þjóðinni. Flokksstarf gamla fjórflokksins nýtur ekki mikilla vinsælda í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar. Upplifun mín af stjórnmálaástandinu í landinu - á ferðum mínum um kjördæmið - var sú að trúnaðarbrestur væri á milli almennings og stjórnmálamanna.  Traust almennings í garð stjórnmálamanna er í algjöru lágmarki og krafan um breytingar og breytta stjórnarhætti var mjög skýr og hávær hvert sem farið var. Eitt stærsta verkefni verðandi þingmanna - þessa kjördæmis sem annarra - verður að endurreisa traust og trúverðugleika Alþingis.

Þakkir fyrir stuðninginn

Þrátt fyrir hafa ekki náð þeim árangri, sem að var stefnt í prófkjörinu, er ég ákaflega ánægður og þakklátur fyrir þann breiða stuðning sem ég fékk. Þeim frambjóðendum sem náðu bindandi kosningu óska ég innilega til hamingju með árangurinn - svo og öllum frambjóðendum fyrir skemmtilega og heiðarlega baráttu. Einnig vil ég þakka þeim fjölda einstaklinga, sem störfuðu að framkvæmd prófkjörsins - kjörstjórn og umboðsmönnum út um allt kjördæmið á vegum flokkfélaganna. Án þeirra hefði þetta aldrei gengið svo vel sem raun bar vitni - og afraksturinn af vinnu þeirra og frambjóðenda er öflugur og sigurstranglegur framboðslisti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

En síðast en ekki síst er ég þakklátur þeim einstaklingum, sem lögðu lykkju á leið sína til þess að styðja við bakið á mér í prófkjörinu og treystu mér þannig til góðra verka. Slíkur stuðningur er ómetanlegur. Kærar þakkir!

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Jafnaðarmaður og formaður bæjarráðs Hornafjarðar

 


Bæjarstjórn og heilbrigðisráðherra

Gera þurfti klukkutímahlé á bæjarstjórnarfundi í gær vegna heimsóknar Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra og starfsfólks ráðuneytisins. Bæjarstjórn, starfsmenn sveitarfélagsins og hjúkrunarforstjórar HSSA funduðu með ráðherra og starfsfólki ráðuneytisins. Fundurinn var ánægjulegur og ráðherra sýndi aðstæðum okkar hér á Hornafirði mikinn skilning og áhuga.

Aðalskilaboð bæjarstjórnar til ráðherra voru þau að lítið svigrúm er til niðurskurðar á Heilbrigðisstofnun Suðaustuarlands vegna þess að stofnunin sinnir fyrst og fremst grunnþjónunstu og að bæjarstjórn vill tryggja áframhaldandi forræði sveitarfélagsins á þessum málaflokki í gegnum þjónustusamning. Stungið var upp á því að skrifa undir nýjan samning 16. apríl nk. í ráðuneytinu.

Ekki var hægt að skilja fundinn öðruvísi en að þessi skilaboð okkar hefðu komist til skila og að næstu skref yrðu stigin í samræmi við það. Það er von okkar og ósk að skrifað verði undir nýjan samning þann 16. apríl nk. í samræmi við tillögu bæjarstjóra á fundinum í gær.  


Brotthvarf Ingibjargar

Viðburðaríkri helgi er lokið. Prófkjöri Samfylkingarfólks í Suðurkjördæmi lauk á laugardaginn. Í hvíldinni á sunnudaginn helltust yfir mann fréttir um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði ákveðið að draga sig hlé frá pólitíkinni af heilsufarsástæðum. Þessi ávkörðun Ingibjargar kom mörgum á óvart en ég held að hún hafi tekið hárrétta ákvörðun. Í svona veikindum á fólk að setja heilsuna og fjölskylduna í fyrsta sæti. Eflaust hefur hún líkað skynjað kallið um endurnýjun, bæði í þingmannahópnum og í forystusveitinni.

Um leið og ég þakka Ingibjörgu hennar forystu og leiðsögn á síðustu árum þá óska ég henni velfarnaðar og góðs bata.

Það er mín einlæga von að Jóhanna Sigurðardóttir taki að sér leiðtogahlutverkið í Samfylkingunni á landsfundinum í lok mars. Ég held að hún sé rétta manneskjan til þess. Hún nýtur trausts langt út fyrir raðir Samfylkingarinnar - og það með réttu. Hún er líka sá einstaklingur sem allt Samfylkingarfólk geti fylkt sér að baki á þessum erfiðu tímum þegar okkar bíður hreinsunarstarf eftir 18 ára valdasetu Íhaldsins og hruns frjálshyggjunnar. Engum er betur treystandi til þess að leiða það starf en Jóhönnu Sigurðardóttur.

Enn og aftur er óvissan það eina sem hægt að ganga að sem vísu í íslenskri pólitík.

En ég veit líka að jafnaðarmenn munu standa undir nafni á landsfundinum í lok mars - þétta raðirnar og halda áfram að eflast. Ábyrgð okkar er mikil vegna þess að jafnaðarstefnan - og öflugur flokkur sem framfylgir henni - er eina leiðin út úr þeim ógöngum, sem frjálshyggjan - leið Sjálfstæðisflokksins - hefur leitt okkur í. Þess vegna ríður á að við sameinumst að baki þeim einstaklingum sem valdir verða til forystu á landsfundinum og sækjum fram til sigurs í alþingiskosningunum 25. apríl.


Þakkir fyrir stuðninginn

Nú er prófkjörsslagnum hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi lokið. Ég náði ekki þeim árangri sem ég ætlaði mér en er samt ánægður með þann stuðning sem ég fékk í prófkjörinu. Baráttan hefur verið einkar skemmtileg og drengileg og maður hefur kynnst ótrúlega mörgu stórskemmtilegu fólki, bæði í frambjóðendahópnum og kjósendum.

Niðurstaðan er nokkuð skýr þótt þátttakan- rúmlega 2300 manns -  hefði alveg mátt vera betri, sérstaklega í ljósi þess að prófkjörið var öllum opið. Kannski er áhuginn á stjórnmálum og stjórnmálamönnum ekki meiri en þessi eftir þann efnahagslega býsnavetur sem Íslendingar hafa gengið í gegnum. Flokksstarf gamla fjórflokksins nýtur ekki mikilla vinsælda í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar. Hvert sem farið var upplifði maður mikinn skort á traust í garð í stjórnvalda og stjórnmálamanna yfirleitt. Krafan um breytingar og breytta stjórnarhætti var mjög skýr og hávær hvert sem farið var.

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra og alþingismaður sigraði og vermir 1. sætið á framboðslistanum. Oddný G. Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði náði góðri kosningu í 2. sætið og Róbert Marshall hlaut mjög mikinn stuðning og náði 3. sætinu.

Mesta athygli vekur örugglega glæsilegur árangur Önnu Margrétar Guðjónsdóttur, starfsmanns Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel en hún náði 4. sætinu. Hún hefur greinilega náð að stimpla sig vel inn hjá kjósendum á þessum stutta tíma og þeir kunnað að meta skýran málflutning hennar. Guðrún Erlingsdóttir frá Vestamannaeyjum fékk síðan mikinn stuðning sem fleytti henni í 5. sætið. Úrslit prófkjörsins eru bindandi fyrir fyrstu fimm sætin. Þóra Þórarinsdóttir frá Selfossi náði svo 6. sætinu sem er mjög góður árangur - svona í fyrstu tilraun.

Þessu einstaklingum óska ég innilega til hamingju með árangurinn - svo og öllum frambjóðendum fyrir skemmtilega baráttu. Einnig vil ég þakka þeim fjölda einstaklinga, sem störfuðu við framkvæmd prófkjörsins - kjörstjórn og umboðsmönnum. Án þeirra hefði þetta aldrei gengið svo vel sem raun bar vitni.

En fyrst og fremst er ég þakklátur þeim einstaklingum, sem lögðu lykkju á leið sína til þess að styðja við bakið á mér í prófkjörinu og treystu mér til góðra verka. Slíkur stuðningur er ómetanlegur.

Kærar þakkir!!


Lokaspretturinn hafinn

Þá er lokaspretturinn að komast á fullt skrið. Netkosningunni hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi lýkur kl. 18:00 í dag. Hægt er að kjósa í gegnum netið með því að fara inn á heimasíðu Samfylkingarinnar, samfylking.is, slá inn kennitölu og þá færðu aðgangskóða sendan í heimabankann undir rafræn skjöl. Því næst ferðu inn á prófkjörssíðuna á samfylking.is, slær inn kóðann og kýst.

Einnig geta kjósendur farið á opna kjörstaði víðsvegar um kjördæmið þar sem hægt er kjósa hjá umboðsmönnum, þ.e. þeir sem ekki eru nettengdir eða hafa ekki aðgang að heimabanka.

Prófkjörið er öllum opið - allir geta tekið þátt og haft áhrif.

Ég hvet alla til að taka þátt, nýta sinn lýðræðislega rétt og hafa áhrif.

Prófkjörsbaráttan hefur verið mjög skemmtileg og það er alveg sama hvernig úrslitin verða, þá verður listinn mjög öflugur enda mannvalið mjög gott. Ferðirnar og fundirnir með frambjóðendum í Eyjum, Höfn, Árborg og Reykjanesbæ hafa mjög skemmtilegir.


Traustið endurheimt

Sendi þennan pistil á miðla í dag:

Öllum ætti að vera ljóst að rof hefur orðið á milli stjórnvalda og almennings. Stjórnvöld njóta ekki trausts almennings. Það efnahagslega óveður, sem yfir okkur hefur gengið, hefur að stórum hluta skapað þetta traustsrof. Fólk vantreystir því sem stjórnvöld halda fram enda töluðu þau um að kerfið væri öruggt allt fram á síðasta dag. Upplifun okkar er því sú að okkur hafi ekki verið sagt rétt og satt frá - að við höfum verið blekkt. Til þess að geta endurreist íslenskt efnahagslíf verða stjórnvöld og stofnanir þeirra að endurheimta traust almennings. Það ferli er nú hafið með endurskipulagninu á yfirstjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Einnig hefur verið boðað til kosninga þar sem stjórnmálamenn leita eftir endurnýjuðu eða nýju umboði frá kjósendum. Kosningarnar eru mikilvægar í því ferli að endurheimta traust kjósenda á stjórnvöldum.

            Hvar sem ég hitti fólk á ferðum mínum um kjördæmið upplifi ég vantraust þess á stjórnvöldum. Fólk vill sjá breytingar. Það vill gegnsæ og heiðarleg vinnubrögð. Að skapa stjórnvöldum - og að endurheimta virðingu Alþingis - verður höfuðverkefni stjórnmálamanna á næsta kjörtímabili. Það verður aðeins gert með breyttum áherslum og nýjum vinnubrögðum. Fyrir því vil ég berjast.

Hæfasta fólkið

Ný og breytt vinnubrögð eiga að tryggja það að við ráðum alltaf hæfasta fólkið til starfa í mikilvæg störf á vegum ríkisins. Við verðum að láta af þeim ósið að eftirláta flokksgæðingum stöður, þar sem augljóst er að aðrar forsendur - en pólitískar - verða að vera til staðar, til þess að vel takist til. Augljóst dæmi um þetta er staða formanns bankastjórnar Seðlabankans. Vinnubrögð, þar sem faglegar kröfur eru látnar víkja á kostnað pólitískra vinargreiða, eru ein af ástæðum þess að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar er eins og raun ber vitni. Við höfum ekki gert nógu miklar faglegar kröfur til manna, sem ætlað er að vinna mikilvæg störf í þágu almennings. Kjósendur eiga heimtingu á því að alltaf sé valið hæfasta fólkið.

            Pólitísk spilling í embættisveitingum er hluti af stjórnmálum gærdagsins - pólitík Sjálfstæðisflokksins - og þeim þarf að henda út úr íslenskum stjórnmálum hið snarasta. Fyrir því vil ég berjast og býð þess vegna fram krafta mína í 2. - 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Formaður bæjarráðs Hornafjarðar


Kosningaskrifstofa opnuð

Eyddi kvöldinu í að standsetja kosningaskrifstofu í Miðbæ á Höfn með dyggri aðstoð góðra félaga og stuðningsmanna. Við ætlum að hafa hana opna á fimmtudag, föstudag og laugardag eftir að kosning hefst í netprófkjörinu á fimmtudaginn.

Þar verður heitt á könnunni og fólk getur leitað sér upplýsinga um framkvæmd prófkjörsins. Fyrir svo utan það hitta skemmtilegt fólk og eiga gott spjall.

Legg svo í hann snemma í fyrramálið. Ferðinni er heitið á Suðurlandið og á Reykjanesið. Næsti opinberi framboðsfundurinn verður haldinn í Hvíta Húsinu á Selfossi á miðvikudaginn kl. 20:00. Síðasti formlegi fundurinn veðrur svo haldinn í Ránni í Reykjanesbæ á fimmtudaginn kl. 20:00.

Einnig er stefnan sett á tvo óformlega framboðsfundi í Sandgerði og Grindavík.

Það er s.s. nóg að gerast.


Góðir framboðsfundir

Það var ánægjulegt að skreppa til Eyja á föstudaginn og hitta fólk þar. Framboðsfundur var síðan haldinn í Alþýðuhúsinu í gær. Þar kynntu frambjóðendur sig og sín stefnumál og svöruðu spurningum fundargesta. Góð mæting var á fundinn og fínar umræður sköpuðust.

Frambjóðendur héldu síðan til Hornafjarðar þar sem haldinn var annar framboðsfundur í dag. Mjög góð mæting var á fundinn og góð umræða var um ýmis mál.

Það er vonandi að kjósendur í kjördæminu nýti sér þetta tækifæri til þess að hafa áhrif á gang stjórnmálanna. Prófkjörið er opið og fer fram á netinu.

Tveir fundir eru eftir. Sá fyrri haldinn í Árborg á miðvikudaginn og sá síðari í Reykjanesbæ á fimmtudagskvöldið. Það er vonandi að fólk fjölmenni á þá fundi til þess að kynna sér þá kosti sem í boði eru.


Þrettán öflugir frambjóðendur

Það er öflugur hópur frambjóðenda sem gefur kost á sér í opnu netprófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi. Hópurinn býr fjölbreyttri reynslu og endurspeglar kjördæmið nokkuð vel. Þrettán einstaklingar gefa kost á sér, fjórar konur og níu karlar. Það er auðvitað umhugsunarefni að ekki skuli fleiri konur sjá sér fært að taka þátt í þessari lýðræðislegu aðferð við niðurröðun á framboðslista og það er eitthvað sem verður að taka á.

Annar sitjandi þingmanna sækist eftir endurkjöri, Björgvin G. Sigurðsson en Lúðvík Bergvinsson, þingflokksformaður hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. En það er auðvitað sérstakt ánægjuefni að svo margir öflugir einstaklingar vilji hafa áhrif á mótun nýs samfélags undir merkjum jafnaðarstefnunnar - ekki síst í því ljósi að krafan um endurnýjun er hávær í dag.

Nú fer baráttan að komast á fullt. Fyrsti framboðsfundurinn verður í Vestmannaeyjum á laugardaginn og svo á Höfn á sunnudaginn.

Eftirtaldir einstaklingar hafa gefið kost á sér:

Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður, Selfossi – 1. sæti
Skúli Thoroddsen framkvæmdastjóri, Reykjanesbæ – 1. sæti
Guðrún Erlingsdóttir sérfræðingur í kjaramálum, Vestmannaeyjum – 1.-2. sæti
Anna Margrét Guðjónsdóttir forstöðumaður, Brussel – 1.-3. sæti
Andrés Sigurvinsson verkefnisstjóri, Selfossi – 1.-4. sæti
Oddný Guðbjörg Harðardóttir bæjarstjóri, Garði – 2. sæti
Róbert Marshall aðstoðarmaður samgönguráðherra, Reykjavík – í 2.-3. sæti
Þóra Þórarinsdóttir fyrrum ritstjóri, Selfossi – 2.-3. sæti
Árni Rúnar Þorvaldsson formaður bæjarráðs, Hornafirði – 2.-4. sæti
Páll Valur Björnsson nemi, Grindavík – 3.-4. sæti
Hilmar Kristinsson formaður Uglu - UJ á Suðurnesjum, Reykjanesbæ – 4. sæti
Lúðvík Júlíusson sjómaður, Sandgerði – 4. sæti
Hjörtur Magnús Guðbjartsson framkvæmdastjóri og nemi, Reykjanesbæ – 5. sæti.

Ég er þess fullviss að út úr þessum kraftmikla hópi munu kjósendur búa til öflugan og glæsilegan framboðslista hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi.


Allir brugðust nema ég ....

sagði Davíð í Kastljósinu í kvöld.

Kastljósviðtalið við Davíð Oddsson, stjórnmálamann og formann bankastjórnar Seðlabankans var enn ein sönnun þess að það verður að ljúka þessu máli með yfirstjórn Seðlabankans eins fljótt og auðið er. Taugaveiklun eins Framsóknarmanns, Höskuldar Þórhallssonar, má ekki verða til þess að tefja þetta framfaramál lengur.

Menn verða að skilja að málefni Seðlabankans - og ekki síst ákvörðunarfælni Íhaldsins varðandi hann - voru ein helsta ástæðan fyrir því að upp úr ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks slitnaði. Trúverðugleika Seðlabankans er grundvöllurinn fyrir því að hægt verði að hefja markvissa endurreisn.

Það verður einfaldlega að klára þetta mál eins fljótt og auðið er því það hvílir á þjóðinni, sem vill fyrst og fremst hefja uppbyggingarstarfið en ekki fylgjast með gömlum pólitíkusi ólmast um og reyna að bjarga sínu eigin skinni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband