9.4.2009 | 00:46
Fjölmenni við opnun kosningaskrifstofu
Margt var um manninn við opnun kosningaskrifstofu Samfylkingarinnar í Miðbæ á Höfn í dag. Björgvin G. Sigurðsson, Oddný G. Harðardóttir og Róbert Marshall mættu á opnunina en þau skipa fyrstu þrjú sætin á lista flokksins í Suðurkjördæmi.
Þau fluttu stuttar ræður þar sem þau fóru yfir verkefni jafnaðarmanna í þeirri endurreisn sem nú er unnið að og þau ræddu einnig þá kosningabaráttu sem nú stendur yfir. Greinilegt er að það er mikill baráttuhugur í fólki og það skynjar hversu mikilvægt það er að jafnaðarstefnan verði leiðarljós okkar við endurreisn íslensks fjármála - og efnahagskerfis.
Að loknum ræðum frambjóðenda gafst gestum og gangandi tækifæri til þess að spjalla við frambjóðendur um stefnumálin og baráttumálin í þessari kosningabaráttu. Fólk nýtti þetta tækifæri svo sannarlega vel. Það var mjög ánægjulegt.
Kosningaskrifstofan verður opin fram yfir kosningar og verður opnunartími nánar auglýstur síðar.
Myndir frá opnuninni er hægt að nálgast hér.
8.4.2009 | 01:07
Kosningaskrifstofa opnuð
Kosningaskrifstofa Samfylkingarinnar á Hornafirði verður opnuð á morgun, miðvikudag 8. apríl kl. 17:30 í Miðbæ á Höfn.
Gestir opnunarinnar verða þrír efstu menn á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi; Björgvin G. Sigurðsson, Oddný G. Harðardóttir og Róbert Marshall. Húsið verður opnað kl. 17:30 eins og áður segir og verður opið til kl. 19:00.
Heitt verður á könnunni og allir eru velkomnir til þess að ræða við frambjóðendur og kynna sér stefnumálin.
Skrifstofan verður svo opin fram að kosningum og verða opnunartímar skrifstofunnar nánar auglýstir síðar. Ef ykkur vantar einhverjar upplýsingar þá er símanúmerið á skrifstofunni 618-8396.
8.4.2009 | 00:58
Verkið hafið undir forystu Jóhönnu
Það er sannarlega verk að vinna fyrir ríkisstjórn Samfylkingar og VG, þ.e. að taka til eftir átján ára valdasetu Íhaldsins. Það er ekki létt verk fyrir ríkisstjórnina að endurreisa velferðarkerfið að norrænni fyrirmynd eftir stanslausan átroðning Sjálfstæðismanna gegn því á valdatíma sínum. Velferðarbrúin verður ekki byggð á einni nótt enda horfir þjóðin fram á einhverjar mestu efnahagsþrengingar sem hún hefur gengið í gegnum - sem er önnur afleiðing af átján ára valdasetu Íhaldsins.
Þegar litið verður til baka og verk þessarar ríkisstjórnar dæmd, með hliðsjón af þeim ótrúlegu þrengingum sem þjóðin er núna að ganga í gegnum í boði Sjálfstæðisflokksins, þá mun koma í ljós að um mjög starfsama stjórn er að ræða. Það mun koma í ljós að þetta er ríksstjórn, sem setur hag heimila og atvinnulífs í fyrsta sæti. En fólk verður hins vegar að gera sér grein fyrir því að erfiðleikarnir sem að okkur steðja eru miklir og ekki einfalt að mál að sigla þessu laskaða fleyi heilu og höldnu til hafnar.
Það er því hjákátlegt - ef ekki sorglegt - að fylgjast með aumkunarverðu málþófi Íhaldsins á Alþingi þessa dagana. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins finna sér ekkert betra að gera að en að koma í veg fyrir að vilji meirihluta Alþingis nái fram að ganga og trufla ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, sem er í óða önn að þrífa upp skítinn eftir þá.
Byggja þarf velferðarbrú | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.4.2009 | 20:59
Anna Margrét Guðjónsdóttir í heimsókn
Anna Margrét Guðjónsdóttir, sem skipar 4. sætið á lista Samfylkingairnnar - baráttusætið - í Suðurkjördæmi var í heimsókn á Hornafirði í síðustu viku. Hún mætti m.a. annars á mjög góðan og fjölmennan bæjarmálafund hjá Samfylkingunni á Hornafirði. Miklar umræður sköpuðust á þeim fundi um hugsanlega aðild Íslands að Evrópusambandinu. Greina mátti á fólki að það vildi fá tækifæri til þess að kveða upp sinn dóm í þessu máli í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu án grundvelli góðra og hlutlægra upplýsinga. Allir voru sammála um að það myndi aldrei gerast nema sótt yrði um aðild að ESB og samningur borinn undir þjóðina í kjölfarið.
Einnig fórum við í fjölmargar vinnustaðaheimsóknir á ferð hennar um svæðið. Við heimsóttum m.a. Nýheima, Heilbrigðisstofnun Suðausturlands, Ísnet og marga fleiri staði. Að sjálfsögðu hefðum við getað skoðað og heimsótt marga aðra vinnustaði en því miður vannst ekki tími til þess. Á hverjum stað sem við heimsóttum fundum við að það er mikill hugur í fólki og það ætlar ekki að láta tímabundna erfiðleika í þjóðfélaginu trufla sig of mikið. Bjartsýni fólks á framtíð staðarins er greinilega mikil og fólk sér ýmis sóknarfæri allt í kringum sig. Það var ánægjulegt að finna fyrir þessum straumum.
Á leið okkar suður á opnun kosningamiðstöðvar í Reykjanesbæ, stoppuðum við m.a. í gestastofunni í Skaftafelli og spjölluðum við Regínu Hreinsdóttur, þjóðgarðsvörð og ræddum við hana um uppbygginguna í Skaftafelli og framtíð þjóðgarðsins - þess stærsta í Evrópu. Við stoppuðum líka hjá Bjarna Daníelssyni, sveitarstjóra í Skaftárhreppi og fengum að kynnast því hvaða mál brenna helst á fólki í Skaftárhreppi. Að lokum kíktum við í heimsókn til Þóris í Víkurprjóni. Hann kynnti m.a. fyrir okkur hugmyndir manna um vegagerð í Vík, þ.e. breytingar á vegstæði þjóðarvegar 1 - sem nú liggur í gegnum þorpið og upp Víkurskarð. Það var mjög athyglisvert að fræðast um þær hugmyndir hjá honum. Fleiri myndir úr heimsókninni er hægt að skoða hér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.3.2009 | 14:10
Dagur B. Eggertsson í heimsókn
Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og frambjóðandi til varaformanns í Samfylkingunni kom í heimsókn til Hornafjarðar í gær. Hann hefur verið á yfirreið um landið vegna framboðs hans til varaformanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins um helgina. Hann kom hingað eftir ferðalag um norður - og austurland, sem byrjaði á Akureyri og endaði á Hornafirði. Ánægjulegt er að frambjóðandi til varaformanns flokksins skuli leggja á sig ferðalög til þess að kynna sér starf flokksmanna um allt land.
Án efa verður baráttan milli Dags og Árna Páls Árnasonar snörp á landsfundinum og vafalaust verður spennan mikil. Báðir þessi frambjóðendur eru vel til þess fallnir að gegna varaformennsku í Samfylkingunni og óháð því hvor þeirra fer með sigur af hólmi þá er ljóst að Samfylkingin hefur eignast öflugan varaformann að loknum landsfundi.
Sigurvegarans bíður svo krefjandi og risavaxið verkefni - að leiða stærsta stjórnmálaflokk landsins á tímum einhverra mestu efnahagsþrenginga sem Íslendingar hafa séð um langan tíma.
24.3.2009 | 17:09
Núll prósent líkur
Ég rakst áðan á þennan snilldargóða pistil Herðubreiðar um margfrægt minnisblað Davíðs Oddssonar. Það er mjög erfitt að átta sig á málflutningi bankastjórnarinnar á þessum tímapunkti því allar opinberar aðgerðir hans ganga í berhögg við þessa frægu skýrslu formanns bankastjórnarinnar - undarlegt ósamræmi í orðum og gerðum.
Birting þessa ágæta skjals er bara enn ein sönnun þess að skipulagsbreytingar á stjórn Seðlabanka Íslands voru nauðsynleg forsenda efnahagslegrar endurreisnar á Íslandi. Trúverðugleiki bankans var hreinlega í húfi.
Eflaust eigum von á fleiri slíkum skýrslum og minnisblöðum úr fórum bankastjórans fyrrverandi, t.d. var hann aldrei búinn að upplýsa þjóðina um vitneskju sína varðandi beitingu Breta á hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi.
Væri hægt að fá upplýsingar um það mál næst, takk?
24.3.2009 | 16:46
Lýðræðið fótum troðið?
Mikil lýðræðisvakning er í landinu öllu um þessar mundir og mikil umræða hefur skapast um lýðræðisumbætur. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG hefur boðað umtalsverðar umbætur í þesum málum, t.a.m. eru uppi hugmyndir um persónukjör við alþingiskosningar og að þjóðaratkvæðagreiðslum verði gert hærra undir höfði með ákvæði í stjórnarskrá.
Töluverð umræða hefur skapast um það hvort að boðun kosninga með skömmum fyrirvara - 25. apríl nk. - sé andstæð lýðræðinu. Þá fái ný og minni framboð ekki tíma til að skipuleggja sig og kynna. Margir hafa gengið svo langt að segja að slík tilhögun sé runnin undan rifjum fjórflokksisn gamla sem vill treysta sitt valdakerfi - að hann hafi myndað bandalag um að halda öðrum framboðum frá kjötkötlunum.
Hvað sem öllu líður þá er ljóst að búsáhaldabyltingin í janúar á Austurvelli hefur haft mjög mikil áhrif á alla umræðu um lýðræði og lýðræðisþróun í landinu. Myndur ríkisstjórnar Samfylkingar og VG - og málefnasamningur þeirra - gerir m.a. ráð fyrir mjög miklum lýðræðisumbótum sem áður voru nefndar.
Ein af kröfum búsáhaldabyltingarinnar var að gengið yrði til kosninga og þar varð byltingarsinnum að ósk sinni. En spurningin er hvort að tíminn frá því að boðað var til kosninga og til kosninga hafi verið of skammur og þannig unnið gegn nýjum framboðum. Það mun framtíðin leiða í ljós.
En lýðræðisvakningin er hafin - fólk virðist hafa uppgötvað á nýjan leik að Alþingi sækir umboð sitt beint til fólksins - og þar ber því að vanda til verka. Þessi vakning á sér stað um allt land.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.3.2009 | 15:42
Framboðslisti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi
Framboðslisti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi var samþykktur á fjölmennu kjördæmisþingi á Selfossi í gær. Þingið var einkar vel heppnað og mikil og góð stemning var á fundinum. Greinilegt er að verk ríkisstjórnarinnar undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og framboð hennar til formennsku í flokknum hafa verulega kveikt upp í baráttuandanum í Samfylkingarfólki.
Nú er bara að spýta í lófana, bretta upp ermar og tryggja flokknum góða kosningu í Suðurkjördæmi.
Sterkur framboðslisti í kjördæminu á eftir að auðvelda okkur það verk:
1. Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður, Selfossi
2. Oddný Guðbjörg Harðardóttir bæjarstjóri, Garði
3. Róbert Marshall aðstoðarmaður ráðherra, Reykjavík
4. Anna Margrét Guðjónsdóttir forstöðumaður, Brussel
5. Guðrún Erlingsdóttir sérfræðingur í kjaramálum, Vestmannaeyjum
6. Þóra Þórarinsdóttir f.v. ritstjóri, Selfossi
7. Árni Rúnar Þorvaldsson formaður bæjarráðs, Höfn
8. Hjörtur Magnús Guðbjartsson framkvæmdastjóri og nemi, Reykjanesbæ
9. Borghildur Kristinsdóttir bóndi, Skarði, Landsveit
10. Andrés Sigurvinsson verkefnisstjóri, Selfossi
11. Sigþrúður Harðardóttir grunnskólakennari, Þorlákshöfn
12. Páll Valur Björnsson verkamaður og nemi, Grindavík
13. Greta Guðnadóttir fiðluleikari, Hveragerði
14. Lúðvík Júlíusson sjómaður, Sandgerði
15. Kristín Ósk Ómarsdóttir fósturforeldri, Sjónarhóli, Ásahreppi
16. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLS Starfsgreinasambands, Höfn
17. Önundur Björnsson sóknarprestur, Breiðabólsstað
18. Eyjólfur Eysteinsson fyrrverandi útsölustjóri, Reykjanesbæ
19. Elín Björg Jónsdóttir formaður FOSS og varaformaður BSRB, Þorlákshöfn
20. Lúðvík Bergvinsson alþingismaður, Reykjavík
19.3.2009 | 13:03
Kjördæmisþing, aðalfundur og landsfundur
Það er mikið um að vera í pólitíkinni þessa dagana. Á morgun er stefnan sett á kjördæmisþing Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem haldið verður á Selfossi. Aðalfundur félagsins Hornafirði verður haldinn næsta þriðjudag og svo er stefnan sett á landsfund í lok næstu viku - alltaf gaman að fara á landsfund. Þar myndast alltaf mikil og góð stemning og menn sameinast um grundvallarmarkmiðin og þétta raðirnar fyrir komandi átök í apríl.
Á kjördæmisþinginu á morgun verður tillaga stjórnar kjördæmisráðs um framboðslista lögð fram til samþykktar. Þeir einstaklingar sem náðu kosningu í fyrstu fimm sætin hafa allir gefið til kynna að þeir ætli að halda þeim og þess vegna er ljóst hverjir skipa fyrstu fimm sætin - úrslit prófkjörsins standa. Það var síðan verkefni kjördæmisráðs að raða á listann að öðru leyti og verður sú tillaga kynnt á kjördæmisþinginu á morgun. Ég er ekki í nokkrum vafa um að listinn verður öflugur og sigurstranglegur - ef mið er tekið af frambjóðendahópnum í prófkjörinu.
Á þinginu fer líka fram málefnavinna fyrir kosningabaráttuna sem framundan er og það er mikilvægt að sem flestir komi að þeirri vinnu. En nú verða men að láta hendur standa fram úr ermum því það er stutt í kosningar og við stefnum að glæsilegri kosningu Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi - sem og um allt land auðvitað.
17.3.2009 | 13:42
Klassísk jafnaðarstefna - grundvöllur endurreisnar
Endanleg sönnun á skipbroti frjálshyggjunnar birtist mér þegar ég las brot úr drögum skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins, þar sem því er haldið fram að fólkið - einstaklingarnir - hafi brugðist en ekki stefnan. Ástæðan fyrir því að það sannar fyrir mér að stefnan hafi beðið skipbrot er sú að þetta er sama vörn og margir, sem trúðu á gerska ævintýrið, héldu á lofti á sínum tíma - og sumir gera kannski enn.
Frjálshyggjan - óheftur kapítalismi - sem á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna og margir frjálshyggjupostular á Íslandi hafa litið mjög til - t.a.m. Hannes Hólmsteinn einn hugmyndafræðinga Sjálfstæðisflokksins o.fl. - hefur hlotið sömu örlög og kommúnisminn í austurvegi. Örlögin eru þau að það var mannskapurinn - liðið sem starfaði á forsendum hins óhefta markaðsbúskapar - sem klikkaði en ekki kerfið sjálft.
Það voru s.s. kapitalistarnir sjálfir sem komu óorði á kapitalismann. Líkindi með falli kommúnismans eru ótrúleg vegna þess að þar fólst vörnin oft á tíðum í því að það voru foringjarnir - leiðtogarnir í ráðstjórnarríkjunum - sem misstu sjónar á markmiðunum og komu óorði á góða og fallega stefnu.
Þetta þykir mér vera heldur ódýr lausn, að nokkrir einstaklingar beri ábyrgð á öllum þeim efnahagslegu áföllum sem við höfum orðið fyrir á síðustu mánuðum. Að mínu mati er það augljóst að sá flokkur sem hér hefur stýrt málum samfleytt í rúm 18 ár hefur brugðist - og sú stefna sem flokkurinn hefur fylgt á þessu valdatímabili sínu. Ekki gengur að skella skuldinni eingöngu á einstaklinga þó þeir beri auðvitað einhverja ábyrgð líka.
Ein stjórnmálastefna hefur lifað af öfgar 20. aldarinnar og staðið af sér það efnahagslega fárviðri, sem nú gengur yfir heimsbyggðina, en það er jafnaðarstefnan. Jafnaðarstefnan hefur sömu stöðu í stjórnmálunum og Rolling Stones hafa í tónlistarheiminum - hún er klassísk. Hugmyndir og lausnir jafnaðarstefnunnar eiga jafn mikið erindi við okkur nú og kreppunni miklu 1930. Þær standast algjörlega tímans tönn og þær eru okkur nauðsynlegt vegarnesti í þeim gríðarstóru og flóknu verkefnum, sem við stöndum frammi fyrir í kjölfarið á hruni frjálshyggjunnar.
Endurreisn fjármálakerfis, atvinnulífs og mótun nýrrar peningamálastefnu - og í reynd mótun nýs samfélags - bíður okkar en mikilvægast er að sú endurreisn eigi sér stað á forsendum jafnaðarstefnunnar. Það er búið að prófa frjálshyggjuleiðina - leið Íhaldsins - og árangurinn liggur fyrir.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006