Leita í fréttum mbl.is

Þakkir fyrir stuðninginn

Nú er prófkjörsslagnum hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi lokið. Ég náði ekki þeim árangri sem ég ætlaði mér en er samt ánægður með þann stuðning sem ég fékk í prófkjörinu. Baráttan hefur verið einkar skemmtileg og drengileg og maður hefur kynnst ótrúlega mörgu stórskemmtilegu fólki, bæði í frambjóðendahópnum og kjósendum.

Niðurstaðan er nokkuð skýr þótt þátttakan- rúmlega 2300 manns -  hefði alveg mátt vera betri, sérstaklega í ljósi þess að prófkjörið var öllum opið. Kannski er áhuginn á stjórnmálum og stjórnmálamönnum ekki meiri en þessi eftir þann efnahagslega býsnavetur sem Íslendingar hafa gengið í gegnum. Flokksstarf gamla fjórflokksins nýtur ekki mikilla vinsælda í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar. Hvert sem farið var upplifði maður mikinn skort á traust í garð í stjórnvalda og stjórnmálamanna yfirleitt. Krafan um breytingar og breytta stjórnarhætti var mjög skýr og hávær hvert sem farið var.

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra og alþingismaður sigraði og vermir 1. sætið á framboðslistanum. Oddný G. Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði náði góðri kosningu í 2. sætið og Róbert Marshall hlaut mjög mikinn stuðning og náði 3. sætinu.

Mesta athygli vekur örugglega glæsilegur árangur Önnu Margrétar Guðjónsdóttur, starfsmanns Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel en hún náði 4. sætinu. Hún hefur greinilega náð að stimpla sig vel inn hjá kjósendum á þessum stutta tíma og þeir kunnað að meta skýran málflutning hennar. Guðrún Erlingsdóttir frá Vestamannaeyjum fékk síðan mikinn stuðning sem fleytti henni í 5. sætið. Úrslit prófkjörsins eru bindandi fyrir fyrstu fimm sætin. Þóra Þórarinsdóttir frá Selfossi náði svo 6. sætinu sem er mjög góður árangur - svona í fyrstu tilraun.

Þessu einstaklingum óska ég innilega til hamingju með árangurinn - svo og öllum frambjóðendum fyrir skemmtilega baráttu. Einnig vil ég þakka þeim fjölda einstaklinga, sem störfuðu við framkvæmd prófkjörsins - kjörstjórn og umboðsmönnum. Án þeirra hefði þetta aldrei gengið svo vel sem raun bar vitni.

En fyrst og fremst er ég þakklátur þeim einstaklingum, sem lögðu lykkju á leið sína til þess að styðja við bakið á mér í prófkjörinu og treystu mér til góðra verka. Slíkur stuðningur er ómetanlegur.

Kærar þakkir!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband