24.2.2009 | 19:24
Traustið endurunnið - forsenda endurreisnar
Í kjölfar hruns íslenska fjármálakerfisins er íslenska þjóðarsálin er löskuð. Atvinnuleysi blasir við fjölda manns, fjöldi fyrirtækja er orðinn gjaldþrota - og enn fleiri stefna þá leið - og afkomu heimilanna er stefnt í hættu.
Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir, sem áttu að gæta hagsmuna almennings og sjá til þess að svona færi ekki, brugðust á vaktinni. Af því leiðir að traust almennings á stjórnvöldum og lykilstofnunum er í algjöru lágmarki. Endurheimta verður traust almennings á stjórnvöldum og eftirlitsstofnunum samfélagsins svo það endurreisnarstarf, sem stjórnvöld verða að vinna á næstum mánuðum og árum, nái tilætluðum árangri.
Það ferli er þegar hafið með endurskipulagningu Fjármálaeftirlitsins og frumvarpi ríkisstjórnarinnar um breytingar á stjórnfyrirkomulagi Seðlabankans. Trúverðugleiki þessara stofnana hvarf í einu vetfangi þegar íslenskt fjármálakerfi - á þeirra vakt - hrundi í fangið á stjórnvöldum.
En ábyrgðin stöðvast ekki þar - enda störfuðu þessar stofnanir skv. lögum frá Alþingi og undir verkstjórn ríkisstjórnarinnar. Stór hluti af ferlinu við að endurheimta traust almennings á stjórnvöldum er fólginn í endurskipulagningu þessara stofnana - en það dugir ekki eitt og sér.
Innleiða verður ný vinnbrögð á vettvangi Alþingis og ríkisstjórnar. Þau verða að byggja á gegnsæjum, sanngjörnum og réttlátum leikreglum þar sem allir fá jöfn tækifæri. Með nýjum vinnubrögðum verðum við innleiða þá reglu að við ráðum alltaf hæfasta fólkið til starfa í mikilvæg störf á vegum ríkisins. Við verðum að láta af þeim ósið að eftirláta flokksgæðingum stöður þar sem augljóst er að aðrar forsendur - en pólitískar - verða að vera til staðar til þess að vel takist til. Agljóst dæmi um þetta, sem er mjög í umræðunni nú um stundir, er staða formanns bankastjórnar Seðlabankans. Einnig er að ljóst að ef traust almennings á Alþingi á að vaxa á ný, þá þarf ákveðin endurnýjun að fara fram innan þeirrar stofnunar í næstu kosningum.
Þessu berjast jafnaðarmenn fyrir og ég hef hug á því að vera virkur þátttakandi í því ferli og þess vegna býð ég fram krafta mína í 2. - 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi í komandi alþingiskosningum.
23.2.2009 | 17:49
Yfirlýsing um framboð
Ég hef sent frá mér eftirfarandi yfirlýsingu:
Prófkjör Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi
Stefni á 2. - 4. sæti
Íslenskt samfélag stendur á tímamótum í kjölfar þess að fjármálakerfið og gjaldmiðillinn okkar hrundu á síðasta ári. Eftirlitsaðilar, sem áttu að gæta almannahagsmuna, brugðust og íslenska ríkið þurfti að leita skjóls hjá Alþjóðagjaldeyrisstjóðnum, aðrir möguleikar voru einfaldlega ekki fyrir hendi. Okkar bíður endurreisn á íslensku fjármála - og efnahagskerfi.
Tekjusamdráttur og aukin greiðsubyrði lána hafa sett heimilin, grundvöll hverrar fjölskyldu, í hættu. Fyrirtækin í landinu eru að sligast undan hæstu vöxtum, sem þekkjast í hinum vestræna heimi og aðgengi þeirra að lausafé er mjög takmarkað. Atvinnuleysi vex með degi hverjum. Forsenda þess, að endurreisnarstarfið gangi eftir, er að staðinn verði vörður um heimilin og fyrirtækin í landinu eftir mætti.
Hávær krafa er í samfélaginu um endurnýjun á Alþingi og sú skoðun er ríkjandi, að hún sé ein af forsendum endurreisnarinnar. Í því uppbyggingarstarfi, sem framundan er, skiptir mestu að hugmyndir jafnaðarmanna um jöfnuð, réttlæti og jafnrétti verði leiðarljós okkar. Ég hef mikinn hug á því að leggja mitt af mörkum í þessum mikilvægu verkefnum. Af þeim sökum hef ég ákveðið að taka þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem fram fer 7. mars nk. og bjóða mig fram í 2. - 4. sætið á framboðslistanum í alþingiskosningum 25. apríl nk.
Undanfarin ár hef ég starfað sem grunnskólakennari við Grunnskóla Hornafjarðar og síðastliðið ár hef ég starfað sem aðstoðarmaður Lúðvíks Bergvinssonar, formanns þingflokks Samfylkingarinnar. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum skipaði ég fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar á Hornafirði, sem vann góðan sigur í kosningunum og er nú formaður bæjarráðs.
Árni Rúnar Þorvaldsson
Formaður bæjarráðs Hornafjarðar
17.2.2009 | 23:32
Mikilvægari en trúverðugleiki Seðlabankans?
Það er hreint ömurlegt að þurfa að horfa upp á það, sem bankastjórn Seðlabankans býður þjóðinni upp á þessa dagana. Í umsögn bankastjórnarinnar um frumvarp ríkisstjórnarinnar um breytingar á lögum um Seðlabankann leggja bankastjórarnir lykkju á leið sína til þess að fara í lögfræðilegar leikfimiæfingar um það hvort það sé í rauninni verið að leggja niður núverandi starf Davíðs Oddssonar - eins og það skipti máli.
E.t.v. hefur það farið framhjá bankastjórninni að sá fjármálastöðugleiki, sem bankinn átti að varðveita, er horfinn. Hann fauk út um gluggann á þeirra vakt. Í staðinn fyrir að gera það sem rétt er - að sjá sóma sinn í stíga úr sætum sínum og fara - bjóða þeir okkur upp á orðhengilshátt um hluti sem engu skipta.
Þetta er það valdakerfi sem Sjálfstæðisflokkurinn vill verja með kjafti og klóm enda eru þingmenn þeirra blóðugir upp að öxlum við að berjast gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Leikritið sem þeir hafa sett á svið er sorglegt og náði hámarki þegar Geir H. Haarde vændi Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra um að fara með rangt mál varðandi umsagnir AGS um frumvarpið. Orð og athafnir þingmanna Sjálfstæðisflokksins í þessu máli eru með þeim hætti að maður gæti stundum freistast til þess að halda að þeir teldu fyrrverandi formann sinn mikilvægari en trúverðugleika Seðlabankans.
Málefni Seðlabankans eru brýn og það er algjörlega nauðsynlegt að endurheimta traust og trúverðugleika bankans innanlands og utan. Það verður ekki gert nema með því að tryggja bankanum nýja yfirstjórn. Þetta er eitt þeirra mála sem verður að útkljá sem allra fyrst svo við getum hent því aftur fyrir okkur og farið að huga að framtíðinni.
Davíð Oddsson er ekki mikilvægari en trúverðugleiki Seðlabankans.
17.2.2009 | 01:55
Netprófkjör og jafnræði kynjanna
Á aukakjördæmisþingi Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem haldið var á Hótel Örk á sunnudaginn, var samþykkt að viðhafa netprófkjör um fyrstu fimm sætin á framboðslista Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum. Einnig var samþykkt að jöfn kynjahlutföll verði á fyrstu tveimur sætum listans og að jafnréttisregla Samfylkingarinnar um 40%/60% skiptingu verði viðhöfð um 3. - 5. sæti.
Þetta er auðvitað mjög stór ákvörðun þar sem kjördæmisráðið var með þessu að ákveða fléttulista á fyrstu tvö sætin í kjördæminu. Ákvörðunin hefur það líka í för með sér að fyrirfram er ljóst að annar þingmanna Samfylkingarinnar í Suðurkjördæminu fellur úr sínu sæti.
Ein af ástæðunum fyrir því að kjördæmisráðið kaus að fara þessa leið, að mínu mati, var sú að í síðustu kosningum skipuðu karlar þrjú efstu sætin á framboðslistanum. Fólk vildi núna leita allra leiða til þess að leiðrétta þá slagsíðu. Nú hefur það verið gert með afgerandi hætti.
Einnig held ég að það hafi verið ofarlega í hugum margra fulltrúa á kjördæmisþinginu að enginn þingmanna Samfylkingarinnar úr landsbyggðarkjördæmunum þremur er kona. Það er líka slagsíða sem ber að leiðrétta.
Umræðurnar á þinginu voru mjög góðar og niðurstaðan var að mínu mati í samræmi við þær - góð. Með þessari leið erum við að leggja grunninn að því að endurheimta a.m.k. annan af þeim þingmönnum sem við töpuðum í síðustu kosningum.
Prófkjörið verður haldið 7. mars og rétt til þátttöku hafa allir félagar í Samfylkingunni í Suðurkjördæmi en þeim verður sendur aðgangslykill þannig að þeir geti tekið þátt. Einnig geta þeir kjósendur, sem sækja um aðgangslykil að prófkjörinu, tekið þátt. Á kjördæmisþinginu var líka ákveðið að frambjóðendum væri óheimilt að auglýsa í ljósvaka -, prent - og netmiðlum.
21.1.2009 | 13:40
Réttmæt krafa um kosningar
Krafa mótmælenda við Alþingishúsið í gær um kosningar er hvorki ósanngjörn né óréttmæt. Krafan er studd sterkum rökum. Kollsteypa hefur orðið í efnahagsmálum þjóðarinnar og landið er sérstakt rannsóknarefni fyrir félagsvísindamenn þar sem Ísland er fyrsta nútímavædda hagkerfi heimsins, sem allt í einu er án virks bankakerfis.
Þetta gerðist á vakt núverandi stjórnvalda og stofnana þeirra. Enn sem komið er hefur ríkisstjórnin ekki svarað kalli fólks um breytingar á lykilstofnunum - Seðlabanka og Fjármálaeftirliti. Auk þess situr ríkisstjórnin óbreytt en sterkar raddir hafa verið uppi um að þar hafi þurft að gera breytingar í kjölfar bankahrunsins. Ekkert af þessu hefur hins vegar gerst og þess vegna magnast reiðin meðal landsmanna og vantraustið í þeirra garð er orðið algjört.
Tilveruréttur ríkisstjórnarinnar er nú mjög dreginn í efa. Enda tók hún til valda árið 2007 við allt aðrar aðstæður en nú eru uppi. Efnahagshrun var ekki hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Það er í raun ofureðlilegt að almenningur skuli ekki treysta þeim, sem sátu við stjórnvölinn þegar hrunið átti sér stað, til áframahaldandi verka.
Alþingi sækir umboð sitt beint til fólksins og ríkisstjórnin sækir umboð sitt til Alþingis. Það er því hlutverk Alþingis að veita kjósendum tækifæri til lýðræðislegrar þátttöku. Þannig yrði líka komið til móts við þá miklu ólgu sem er í samfélaginu.
Það er verkefni stjórnvalda - ríkisstjórnar og Alþingis - endurreisa traust og trúverðugleika stjórnvalda. Á þessari stundu er erfitt að sjá aðra leið til þess en að boða til kosninga.
16.1.2009 | 15:33
Sókn í atvinnumálum
Líflegar umræður sköpuðust á borgarafundi, sem haldinn var í gærkvöldi í fyrirlestrarsal Nýheima. Þar var farið yfir fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2009. Allar lykiltölur í áætluninni bera það með sér að reksturinn og staða sveitarfélagsins er sterk. Helsta markmið okkar á þessu ári - í ljósi mikillar óvissu í efnarhagsmálum þjóðarinnar - verður að verja stöðu heimila og fyrirtækja eftir mætti. Töluverðar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í tengslum við flutning alls skólahalds Grunnskóla Hornafjarðar til Hafnar næsta haust.
Rætt var um viðhald á fasteignum sveitarfélagsins í dreifbýli. Í tengslum við sölu sveitarfélagsins á Nesjaskóla var ákveðið að hluti af söluandvirðinu yrði nýtt til viðhalds á fasteignum sveitarfélagsins í dreifbýlinu. Var þá helst litið til félagsheimilanna en viðhaldi þeirra hefur verið ábótavant undanfarin ár. í kjölfarið á því er mikilvægt að fram fari umræða um framtíðarnýtingu þessari fasteigna þannig að þær nýtist sem mest sínu nærsamfélagi.
Atvinnumál voru líka til umræðu á fundinum. Fram kom ánægja með þær aðgerðir sem gripið hefur verið til á þeim vettvangi. Var þá helst litið nýundirritaðs samnings við Rolf Johansen og Co um vatnsátöppunarverksmiðju á Höfn, sem og samkomulags sveitarfélagsins við aðila sem hafa áform um að reisa gagnaver í sveitarfélaginu.
Sveitarstjórn leggur áherslu á aðgerðir til þess að auka fjölbreytnina í atvinnulífinu. Næstu skref í þeim málum verða þau að leggja fjármuni í jarðefna -, líftækni - og orkurannsóknir, sem geta nýst til áframhaldandi atvinnuuppbyggingar í samfélaginu. Mikilvægt er að vera vakandi yfir öllum þeim tækifærum sem skapast.
Umræður um fjarskiptamál í dreifbýli komu líka til umræðu - enda um mjög mikilvægt hagsmunamál að ræða fyrir sveitirnar. Ég kom þeirri skoðun minni á framfæri að það hlyti að verða eitt grundvallarmarkmiða stjórnvalda - hver sem þau kunna að verða í framtíðinna - að allir landsmenn sitji við sama borð á því sviði. Góð nettenging er forsenda þess að hægt að sé að byggja upp framsækna atvinnstarfsemi til sveita - hún er ekki fyrir hendi í dag.
Það var mjög góð tilbreyting frá þjóðmálaumræðunni í dag að mæta á fund þar sem almenn bjartsýni sveif yfir vötnum. Mér fannst fólk vera bjartsýnt fyrir hönd byggðalagsins þrátt fyrir aðsteðjandi vandamál í fjármála - og efnahagskerfi þjóðarinnar. Það var ánægjulegt.
4.1.2009 | 13:01
Erfitt en viðburðaríkt ár
Viðburðaríku ári er lokið - sem betur fer segja margir. Íslenska banka - og fjármálakerfið hrundi eins og spilaborg á haustmánuðum vegna hinnar alþjóðlegu fjármálakrísu. Bakland þeirra í stjórnvöldum og seðlabanka reyndist haldlítið þegar á hólminn var komið. Þó var ljóst og löngu vitað að vöxtur viðskiptabankanna var svo mikill að það var sérstaklega nauðsynlegt að þeir ættu öflugan bakhjarl. Svo reyndist ekki vera og m.a. þess vegna fór sem fór. Trúverðuleiki þeirra var enginn þegar í ljós kom að stærð þeirra var a.m.k. tíföld landsframleiðsla og bakland þeirra engan veginn í stakk búið til þess að koma þeim til hjálpar á erfiðum tímum.
Íslenska krónan söng sitt síðasta á árinu - útförin er reyndar orðin frekar langdregin - með tilheyrandi búsifjum fyrir fyrirtæki og almenning. Raddir um upptöku Evru gerðust háværari og þar með komst umræðan um aðild landsins að Evrópusambandinu loksins almennilega á dagskrá. Nú er svo komið að allir stjórnmálaflokkar - nema Frjálslyndir - eru að reyna að finna leiðir til þessu að koma þessu mikilvægasta máli dagsins í dag í farveg. Allir eru sammála um það að þjóðin á að hafa síðasta orðið, þ.e. að samningur verði borinn undir þjóðaratkvæði.
Enginn þarf heldur að velkjast í vafa um það að okkar bíður erfitt en viðburðaríkt ár. Við horfum upp á hærri atvinnuleysistölur en við höfum áður þekkt, meiri samdrátt og niðurskurð en við höfum lengi tekist á við.
Á stjórnmálasviðinu er viðbúið að mikil átök verði. Þau munu hverfast um Evrópusambandsaðild að mestu leyti. Fljótlega mun koma í ljós hvort átök um ESB verða til þess að stjórnmálamenn sæki endurnýjað umboð til þjóðarinnar. En mér segist svo hugur um að við munum kjósa um eitthvað á þessu ári, annað hvort um aðildarsamning eða til Alþingis, nema um hvoru tveggja verði að ræða.
12.12.2008 | 10:00
Við hvað eru menn hræddir?
Það vekur alltaf furðu mína að menn skuli ekki vera tilbúnir að láta lýðræðið hafa sinn gang þegar kemur að ESB aðild. Við hvað eru menn hræddir? Eru menn kannski hræddir um að þjóðin komist að vitlausri niðurstöðu?
Í miðjum björgunarleiðangrinum - m.a. með fyrirgreiðslunni frá IMF - er slæmt að ekki skuli liggja fyrir hvert lokamarkið er, þ.e. hvort við ætlum að halda í krónuna eða að stefna að ESB aðild og upptöku Evru í kjölfarið. Þetta hefði þurft að liggja fyrir áður en lagt var af stað í björgunarleiðangurinn - hefði aukið trúverðugleika leiðangursins.
Uppgjör í Evrópumálum er óumflýjanlegt. Kjósendur verða að fá að skera úr um það hvert skal stefna. Ákvörðun um að hefja þá vinnu getur ekki beðið lengur.
Í máli fyrrverandi fjármála - og forsætisráðherra Sviþjóðar - fjármálaráðherra á þeim tíma sem landið vann úr sinni fjármálakreppu - kom fram að mikilvægur liður í endurreisn sænska fjármálakerfisins hafi verið aðildin að ESB. Þessu er ekki hægt að horfa framhjá. Yfirlýsing um aðildarviðræður - og þar með undirbúningur þeirra - myndi þess vegna hafa jákvæð áhrif.
Af þessum sökum finnst mér athyglisvert að menn séu ekki tilbúnir að hefja aðildarviðræður, sjá hvað kemur út úr þeim og leggja svo samninginn í dóm kjósenda. Eru menn hræddir um að samningurinn verði það góður fyrir þjóðina að hann verði samþykktur? Ef samningurinn er óaðgengilegur þá verður hann einfaldlega felldur - treysti menn kjósendum hlýtur það að segja sig sjálft.
Engu er líkara en að ESB andúðartrúboðið treysti ekki kjósendum til að taka rétta ákvörðun - bara vitlausa. Erfitt er að komast að annarri niðurstöðu þegar málflutningur andúðartrúboðsins er skoðaður - að þjóðinni sé ekki treyst til þess að taka ákvörðun í þessu veigamikla máli.
8.12.2008 | 00:53
Bæjarstjórn og borgarafundur
Á bæjarstjórnarfundi síðastliðinn fimmtudag samþykkti bæjarstjórn reglur um úthlutun tómstundastyrkja til allra barna í sveitarfélaginu á aldrinum 6 - 18 ára. Upphæðin á styrknum verður 10.000 kr. - fyrir hvert barn. Reglurnar byggja á samþykkt bæjarstjórnar frá því ágúst þar sem ákveðið var að taka upp svokölluð tómstundakort fyrir börn á aldrinum 6 - 18 ára. Það var byggt á tillögum nefndar um mótun fjöskyldustefnu fyrir sveitarfélagið. Reglurnar og tómstundastyrkurinn taka gildi nú um áramótin.
Þetta er mál sem Samfylkingin lagði mikla áherslu á í sinni kosningabaráttu og því er það sérstakt ánægjuefni að sjá þetta verða að veruleika núna. Ég er sannfærður um að þetta á eftir að koma sér mjög vel fyrir börn og unglinga sem hafa áhuga hvers kyns tómstundum - sem og fjölskyldum þeirra.
Einnig var samþykkt ný og metnaðarfull starfsmannastefna fyrir sveitarfélagið en í henni er líka að finna jafnréttisáætlun sveitarfélagsins.
Eftir bæjarstjórnarfundinn var haldinn borgarafundur um aðalskipulagsbreytingu sem fyrirhuguð er í tengslum við nýtt vegstæði yfir Hornafjarðarfljót. Fundurinn var haldinn í samvinnu við Vegagerðina. Mætingin á fundinn var nokkuð góð og ágætar umræður sköpuðust á um málið. Að mörgu að hyggja í flóknu ferli eins og þessu.
Aðalskipulagsbreytingin felur í sér að ný leið yfir Hornafjörð verður sett inn á aðalskipulag í samræmi við niðurstöður Vegagerðarinnar og vilja bæjarstjórnar. Meiri samhljómur er nú með bæjarstjórn og Vegagerðinni um það hvaða leið beri að fara og þess vegna teljum við rétt að hefja skipulagsferlið núna.
Á laugardag var síðan haldinn vinnufundur í bæjarstjórn þar sem unnið var að gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Hún verður síðan lögð fyrir formlegan fund bæjarstjórnar til fyrri umræðu 18. des. nk. Sú vinna er auðvitað í meiri óvissu en oft áður vegna efnahagsástandsins en meginniðurstaða er hins vegar sú að staða sveitarfélagsins er nokkuð sterk en það verður að halda skynsamlega á spilunum til þess að hægt verði að sigla fleyinu í gegnum þetta efnahagsóveður sem yfir okkur gengur.
3.12.2008 | 12:20
Lykilorrustur
Það er athyglisvert að lesa það hvernig fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsisn túlkar það hvar slagurinn um ESB vinnist. Lykilorrustan muni fara fram á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í janúar - ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Það kemur á óvart að menn skuli telja að ákvörðun um aðild að ESB verði tekin á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þeir sem tala þannnig virðist greinilega telja að landsfundur Sjálfstæðismanna sé æðsta stjórnvaldsstofnun í landinu. En það er kannski ekkert skrýtið að ritstjórinn fyrrverandi skuli trúa þessu þar sem flokkurinn hefur haldið um stjórnartaumana samfleytt í 17 ár.
En allt er í heiminum hverfult - hver hefði t.d. trúað því fyrir nokkrum árum að Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, myndi ramba á barmi gjaldþrots. Þetta fyrirtæki - nær væri að segja stofnun - berst nú fyrir lífi sínu.
Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, hefur nú viðrað þann möguleika að koma ESB umræðunni í þann farveg að þjóðin fái að kjósa um aðild, þó hann sé sjálfur á móti aðildinni. Þetta viðhorf ber að virða. Mér heyrðist formaður VG heldur reyna að draga í land þessi ummæli Ögmundar í viðtali fljótlega efitir að Ögmundur talaði um málið. Vissulega telur formaðurinn að þjóðin eigi að eiga síðasta orðið en hann telur umræðuna á villigötum og ótímabæra. Þar held ég að hann sé ekki samstíga meirihluta þjóðarinnar.
En dropinn holar steininn í þessum efnum og á endanum munu jafnvel hörðustu andstæðingar ESB aðildar - eins og tvíeykið Styrmir og Steingrímur - átta sig á því að ekki er hægt að meina þjóðinni að taka sjálf þessa ákvörðun. Íslendingar verða nú að endurmeta stöðu sína í samfélagi þjóðanna og "sjálfstæðu" peningamálastefnuna, sem tekin var upp árið 2001 um fljótandi krónu með verðbólgumarkmiðum Seðlabankans.
Í því endurmati er brýnt að við lærum af mistökum fortíðar, læsum okkur ekki inni og ölum ekki á óttanum við útlönd.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006