Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2009

Lausn í sjónmáli?

Það er vonandi að fréttir kvöldsins um lausn Icesave málsins í fjárlaganefnd séu á rökum reistar. En reynslan hefur hins vegar sýnt að það getur verið varasamt að fagna of snemma - svikabrigslin hafa oft verið fljót að skjóta upp kollinum.

Það er orðið löngu tímabært að Alþingi afgreiði málið. Mér er það til efs að nokkurt mál í seinni tíð hafi hlotið jafn mikla umfjöllun á vettvangi Alþingis og þetta mál. Töfin er orðin of mikil og það hefur stöðvað endurreisnarstarfið en það er ánægjulegt að það sé að myndast breið pólitísk samstaða á þingi um mikilvægi þess að leiða þetta mál til lykta með því að staðfesta ríkisábyrgðina - þannig að samningarnir haldi.

Fórnarkostnaður af undirskrift samninganna og staðfestingu ríkisábyrgðarinnar er vissulega mikill en við verðum líka að vega og meta afleiðingarnar af aðgerðarleysi og ákvarðanafælni. Þar held ég að atvinnulífið sé undir og síðasti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans sýndi svo ekki verður um villst mikilvægi þess að ljúka málinu sem allra fyrst.

Farsæl lausn þessa ömurlega máls er -hvort sem okkur líkar betur eða verr - grundvallarforsenda fyrir áframhaldandi endurreisnarstarfi. Tafir á því munu einungis halda áfram að valda atvinnulífinu og heimilunum í landinu skaða.


Sárt að vera flokkaður með Talibönum

Þau eru misstór skýlin sem menn þurfa að leita sér skjóls í vegna misgjörða sinna og vondrar samvisku. Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og varaformaður stjórnar Landsbankans, þar sem hann gegndi fyrst og fremst því hlutverki að tryggja gott talsamband á milli banka og flokks, verður að leita sér skjóls í hryðjuverkalögum Bretlands. Það er stórt skýli enda staða hans og samviska afar vond vegna þeirrar stöðu sem þjóðin er í vegna Icesave skuldbindinganna.  

Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag kemur í ljós að Kjartani sárnar greinilega að bankinn - og þar með stjórn hans - skuli vera flokkaður með með Al Kaída og Talibönum á hryðjuverkalista Breta. Það er skiljanlegt en Ísland lenti um tíma einnig á listanum.

En fyrrum varaformaður bankastjórnarinnar fellur í þá gryfju að kenna öllum öðrum um stöðu og fall bankans. Allt er þetta Bretunum að kenna og látið er að því liggja að beitingu hryðjuverkalaganna - jafn ógeðfelld og sú aðgerð var - hafi eingöngu verið ætlað að knésetja bankana og Íslendinga. En bresk stjórnvöld töldu sig vera að vernda hagsmuni breskra innistæðueigenda, sem margir hverjir höfðu látið blekkjast af fagurgala Kjartans og félaga - Landsbankamönnum - og lagt peninga sína inn á reikninga hjá honum.

Aðstoð fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og varaformanns stjórnar Landsbankans við að ná Íslandi út úr þeim hremmingum, sem hann og hans nánasta pólitíska klíka ber mesta ábyrgð á að koma okkur í, er hér með afþökkuð - kurteislega.


Ákvarðanafælni hjálpar okkur ekki

Eftir að hafa horft á Kastljósþátt kvöldsins sannfærðist ég um að þráhyggja einstakra stjórnarliða um að ná þverpólitískri lausn í Icesave málinu er í raun örvæntingarfull tilraun til þess að losna undan þeirri ábyrgð að ljúka þessu ömurlega máli.

Þverpólitísk lausn eða sátt er eitthvað sem hljómar mjög vel og allir geta fellt sig við - alveg eins hugmyndin um þjóðstjórn - en er í raunveruleikanum ófær leið. Auk þess er það skylda ríkisstjórnarflokkanna - ef þeir vilja láta taka sig alvarlega - að leiða þetta mál til lykta.

Ekki þýðir að varpa ábyrgðinni yfir á stjórnarandstöðuna í óvinsælum málum. Ef ríkisstjórnarflokkarnir, sem hafa drjúgan meirihluta á þingi, geta ekki lokið þessu máli þá veikir það stöðu ríkisstjórnarinnar þannig að erfitt verður fyrir hana að starfa áfram.

Valið er í raun einfalt; annað hvort samþykkir Alþingi ríkisábyrgð vegna þessara skuldbindinga eða ekki. Þverpólitísk lausn, sem hvorkir samþykkir eða hafnar ríkisábyrgðinni, er ekki valkostur fyrir hrædda þingmenn - því miður. Ákvörðun óskast en ekki ákvarðanafælni.


Pólitískar áherslur ollu hruninu

Það er alveg sama með hvaða gleraugum ég les grein Evu Joly; ég fæ ekki séð að þar sé nein sérstök ádeila á núverandi ríkisstjórn vegna Icesave - málsins svokallaða eða ákall um að hafna þeim samningi sem núna liggur á borðinu. Margir vilja líta svo á að greinin sýni fyrst og fremst fram á linkind stjórnvalda í garð "kvalara" okkar - Breta, Hollendinga, ESB og AGS  - en það fæ ég alls ekki séð.

Reyndar finnst mér hún aðallega færa rök fyrir því að þær pólitísku áherslur, sem hafa mótað okkar samfélag og hinna ríkjanna og stofnanir þeirra á síðustu árum og áratugum, hafi stuðlað að alþjóðlegu fjármálakreppunni og haft mest um afdrif Íslands að segja.

Stjórnmálaöflin, sem höfðu þessar pólitísku áherslur að leiðarljósi, lögðu grunninn að hinum frjálsa, óhefta og eftirlitslausa markaðsbúskap sem skapaði hinar erfiðu og fordæmislausu aðstæður í íslensku efnahagslífi svo vitnað sé í þekkt orð. Það voru s.s. rangar pólitískar áherslur - hægri sinnaðar - sem komu Íslandi á vonarvöl, að mati Joly. Enda var Ísland holdgervingur samfélags óhefts markaðsfrelsis, svo vitnað sé beint í greinina.

Rétt er að taka undir þau sjónarmið að óheft markaðsfrelsi, gallað regluverk ESB og annarra, ofsatrúin á markaðaslausnir og græðgisvæðing hafi átt stóran þátt í að koma alþjóðlegum fjármálamörkuðum í mikinn vanda. Sömu undirliggjandi ástæður eru fyrir hruninu á Íslandi. En ekki má heldur gleyma stórkostlegum afglöpum þáverandi stjórnvalda við einkavæðingu ríkisbankanna á sínum tíma og e.t.v. mun það mál koma inn á borð sérstaks saksóknara - ef ekki þá a.m.k. inn á borð rannsóknarnefndar Alþingis.

Nokkur orð um Icesave og sátt við almenning

Enginn vill borga Icesave reikningana enda erfitt að skilja það að almenningur eigi að bera ábyrgð á gölluðu regluverki um fjármálastarfsemi og glæfraspili nokkurra útrásarvíkinga, sem fengu banka úthlutað frá stjórnvöldum til þess að leika sér með - oftast í eigin þágu. En skuldirnar lenda síðan á skattgreiðendum. Engin sanngirni er í þessu og um það eru allir sammála.

En lausn þessarar ömurlegu deilu er - hvort sem okkur líkar betur eða verr - forsenda sáttar við alþjóðasamfélagið og í samstarfi við alþjóðasamfélagið náum við fyrr tökum á efnahagsvandanum en ella. Þess vegna er brýnt að Alþingi ljúki sem fyrst umfjöllun sinni um Icesave samningana svo við getum sem fyrst fengið fjármagn inn í landið og komið hjólunum undir atvinnulífið á nýjan leik.

En af því að tapið af bankahruninu lendir á almenningi - skattgreiðendum - þá er eðlilegt að mikillar reiði gæti í samfélaginu. Stjórnvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að leita sátta við almenning - vegna þess að við öxlum byrðarnar. Sú sátt felst m.a. í umfangsmikilli, öflugri og óháðri rannsókn á öllum þáttum hrunsins, þar sem hverjum steini er velt við. Þar leikur umræddur greinarhöfundur stórt hlutverk sem ráðgjafi sérstaks saksóknara. Ef einhverjir af aðalleikendunum á hinu stóra fjármálasviði hafa gerst brotlegir við lög er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld leiti allra leiða svo réttlætið nái fram að ganga. Að öðrum kosti verður ekki sátt í samfélaginu. 

Eftirleikur hinnar alþjóðlegu fjármálakrísu og íslenska bankahrunsins hefur sannað að það er almenningur sem ber hina endanlegu ábyrgð á fjármálakerfinu. Það eru veigamestu rökin fyrir nauðsynlegri og tímabærri endurskoðun og endurmótun laga - og regluverks fyrir fjármálstarfsemina. Þetta finnst mér vera aðalaboðskapurinn í grein Joly en mér finnst margir, sem hafa verið viljugir að túlka greinina, - einkum út frá Icesave málin - hafa svolítið horft framhjá þessum meginboðskap greinarinnar í örvæntingarfullri leit sinni að rökum gegn Icesave samningunum.  

Nú verður að sníða fjármálakerfinu þannig stakk að einstakir fjármálaspekúlantar - útrásarvíkingar - geti ekki leikið sér á markaðnum með óábyrgum hætti en almenningur sé síðan látinn sitja uppi með tapið. Það verður að búa til regluverk sem verndar almannahag en ekki sérhagsmuni fjárglæframannanna. Vonandi tekst Joly að afla skoðunum sínum fylgis á Evrópuþinginu sem og á þjóðþingum aðildarþjóðanna.  

Ef eitthvert ákalla er í greininni - eða brýning - þá felst það í kröfunni um breyttar pólitískar áherslur - vinstri sinnaðar áherslur.


Holdgervingur samfélags óhefts markaðsfrelsis

Á meðan landsmenn skemmta sér á útihátíðum og á ferðalögum um landið þvert og endilangt er um fátt meira rætt þessa Verslunarmannahelgi en glærusýningar úr Kaupþingi og grein Evu Joly um þá lærdóma sem draga má af efnahagshruninu og þá einkum í tengslum við stöðu Íslands.

Í greininni er gengið út frá því að Ísland hafi verið holdgervingur samfélags óhefts markaðsfrelsis, samfélag sem nú sé að hruni komið. Nú er út af fyrir sig engin ástæða til þess að rengja þessa staðhæfingu sérstaklega enda hefur undanfarin ár ríkt hér á landi andrúmsloft andvaraleysis og meðvirkni gagnvart markaðnum - talið var að hin ósýnilega hönd myndi lagfæra það sem miður færi. Glærusýningarnar úr lánabók Kaupþings - hitt stóra málið þessa Verslunarmannahelgi - renna óneitanlega stoðum undir kenningarnar um samfélag óhefts markaðsfrelsis.

En það sem mér finnst athyglisvert við greinina er sú skoðun að þessu samfélagi hafi einhvern veginn verið þröngvað upp á okkur af alþjóðasamfélaginu. Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru nefnd til sögunnar í þessu sambandi. Þetta er skýring sem svokallaðir sjálfstæðissinnar í Evrópumálum eiga væntanlega erfitt með að samþykkja, enda eru þeir í óðaönn að telja okkur hinum trú um að standa utan ESB til að vernda sjálfstæði þjóðarinnar. Af þeim sökum geta þeir varla skrifað upp á þá söguskýringu að Evrópusambandið beri ábyrgð á efnahagshruninu. Því er ég sammála.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom heldur ekki til sögunnar fyrr en eftir að bankarnir og gjaldmiðillinn hrundu í október, þannig að hann er afleiðing en ekki orsök hrunsins. Þess vegna er erfitt að kenna honum um þá stöðu sem við erum í núna.

Hvað Icesave varðar finnst mér fátt nýtt koma fram. Endurtekin er sama tuggan um að þjóðin muni ekki standa undir skuldbindingunum - án þess að færð séu fyrir því nein sérstök rök. Látið er í veðri vaka eins og Icesave skuldirnar séu einu skuldir ríkissjóðs - að án þeirra væri staðan bara býsna góð. En svo er auðvitað alls ekki. Ríkissjóður þurfti t.d. að taka á sig gríðarlegt tap Seðlabankans vegna ónýtra veðlána til bankanna skömmu fyrir hrun.

Skuldirnar vegna Icesave eru bara hluti af heildarvandanum. Þótt þetta mál hefði aldrei litið dagsins ljós væri vandi okkar ærinn. En margir finna skjól málinu vegna þess að það er þægilegt að geta kennt öðrum um vandann - og þá spillir ekki fyrir ef það eru útlendingar. Á meðan hægt er kenna Bretum og Hollendingum um stöðuna, sem ég efast ekki um að hafi verið óbilgjarnir í samningaviðræðum og beiting hryðjuverkalaganna bresku var sérstaklega ógeðfelld aðgerð, þá komast menn hjá því að ræða heildarmyndina og hinar raunverulegu orsakir hrunsins. Ákveðin öfl hafa náð miklum árangri í að ala óttanum við útlönd og hafa magnað upp einhvern misskilinn þjóðernisrembing í tengslum við þetta leiðinlega mál.

Það sem stendur upp úr í greininni er umræðan um nauðsyn þess að aðþjóðasamfélagið taki á þeim vanda og þeirri spillingu, sem því miður hafa leikið fjármálakerfi heimsins svo grátt á síðustu mánuðum. Vandinn er alþjóðlegur og því verður að taka á honum með samvinnu á milli ríkja og þar - eins og greinarhöfundur, sem jafnframt er þingmaður á Evrópuþinginu, bendir á - mun ESB og stofnanir þess, t.a.m. Evrópuþingið, leika stórt hlutverk.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband