Leita í fréttum mbl.is

Ákvarðanafælni hjálpar okkur ekki

Eftir að hafa horft á Kastljósþátt kvöldsins sannfærðist ég um að þráhyggja einstakra stjórnarliða um að ná þverpólitískri lausn í Icesave málinu er í raun örvæntingarfull tilraun til þess að losna undan þeirri ábyrgð að ljúka þessu ömurlega máli.

Þverpólitísk lausn eða sátt er eitthvað sem hljómar mjög vel og allir geta fellt sig við - alveg eins hugmyndin um þjóðstjórn - en er í raunveruleikanum ófær leið. Auk þess er það skylda ríkisstjórnarflokkanna - ef þeir vilja láta taka sig alvarlega - að leiða þetta mál til lykta.

Ekki þýðir að varpa ábyrgðinni yfir á stjórnarandstöðuna í óvinsælum málum. Ef ríkisstjórnarflokkarnir, sem hafa drjúgan meirihluta á þingi, geta ekki lokið þessu máli þá veikir það stöðu ríkisstjórnarinnar þannig að erfitt verður fyrir hana að starfa áfram.

Valið er í raun einfalt; annað hvort samþykkir Alþingi ríkisábyrgð vegna þessara skuldbindinga eða ekki. Þverpólitísk lausn, sem hvorkir samþykkir eða hafnar ríkisábyrgðinni, er ekki valkostur fyrir hrædda þingmenn - því miður. Ákvörðun óskast en ekki ákvarðanafælni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Héðinn Björnsson

OK, þá verður ákvörðunin höfnun á ríkisábyrgð á innistæðutryggingarsjóð.

Héðinn Björnsson, 11.8.2009 kl. 10:41

2 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

það virðist vera um ákvörðunarfælni sé að ræða hjá þingmönnum sem kemur fram í því að tefja icesavemálið eins lengi og þeir geta ,menn verða að vera menn til þess að taka ákvörðun þó hún reynist vera óvinsæl en þar eigi að ráða bæði samviska og þjóðarhagur ,hef bent á það í bloggi mínu .

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 11.8.2009 kl. 12:00

3 Smámynd: Oddur Ólafsson

Ögmundur virðist því miður haldinn mikilli ákvarðanafælni, getur velt málum endalaust fram og til baka.

Ekki merki sterks leiðtoga.

Oddur Ólafsson, 11.8.2009 kl. 17:39

4 Smámynd: Magnús Þór Jónsson

Algerlega sammála Árni.

Ákvarðanafælni Ögmundar í málinu er svakaleg, en ætti kannski ekki að koma á óvart.  Hann hefur verið haldinn henni lengi, alltaf til í að gagnrýna ákvarðanir þeirra sem þær þora að taka.

Man eftir að hafa heyrt í vor að Heilbrigðisráðherra þyrfti að skera niður um um 5 milljarða á þessu ári, en mér skilst að enn sé verið að skoða "forgangsröð".  5 milljarðar á 4 og hálfum mánuði verður högg.

Svona menn eiga ekki að stjórna neinu, hvað þá landi!

Magnús Þór Jónsson, 11.8.2009 kl. 23:15

5 Smámynd: Ingimundur Bergmann

Laukrétt hjá þér Árni. Það var í sannleika sagt dapurlegt að hlusta á Ögmund í Kastljósþættinum, það skein í gegn um flest sem hann sagði að hann hefur ekki burði til að takast á við málið og þar að auki fór hann ekki alls kostar rétt með er hann ræddi um stöðuna á Icesave reikningunum, en hugsanlega hefur þar verið um að ræða mismæli.

Þverpólitísk lausn er vitanlega ekki í myndinni, þó ekki nema vegna þess að bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkarnir eru vart starfhæfir sem stjórnmálaflokkar og hafa raunar, svo lengi sem elstu menn muna, ekki verið neitt annað en samtök um hagsmunagæslu ákveðinna afla.

Hugmyndir um þjóðstjórn eru alls ekki raunhæfar og eru ekkert annað en tilraun til að slá ryki í augu fólks, en vitanlega þyrstir þau í að komast að þó ekki væri nema til að komast í aðstöðu til að hylja slóð sína í stjórnkerfinu.

Ríkisstjórnin verður að treysta á sjálfa sig og láta sem vind um eyru þjóta allar hugmyndir um þverpólitískar lausnir, svo ekki sé nú minnst á þjóðstjórnar-blaður.

Ingimundur Bergmann, 12.8.2009 kl. 20:49

6 Smámynd: Árni Rúnar Þorvaldsson

Þetta er allt saman satt og rétt hjá þér, Ingimundur. Þessi færsla var hins vegar skrifuð eftir frammistöðu annars þingmanns VG í Kastljósinu kvöldið áður en hefði allt eins getað átt við um frammistöðu heilbrigðisráðherra.

En við skulum vona að fréttir kvöldsins eigi við einhver rök að styðjast, þ.e. að málið þokist áfram og að það sjái fyrir endann á því. Ég held að allt sem þurfi að koma fram í umræðunni sé komið fram og nú sé tími ákvarðana runnin upp.

Árni Rúnar Þorvaldsson , 12.8.2009 kl. 23:08

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Eftir að hafa horft á fréttir og lesið netmiðla í kvöld, er ég bjartsýnni á að fjárlaganefnd sé að komast að sameiginlegri niðurstöðu. Vona eindregið að sú tilfinning sé rétt og málið verði ekki dregið enn frekar á langinn. Mér finnst Guðbjartur Hannesson hafa sýnt það að hann er mikill leiðtogi og hefur líka til að bera ákveðna samningatækni, sem ekki er öllum gefin. Árni Þór Sigurðsson hefur líka að mínu áliti, vaxið  í þessu máli.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 12.8.2009 kl. 23:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband