Leita í fréttum mbl.is

Holdgervingur samfélags óhefts markaðsfrelsis

Á meðan landsmenn skemmta sér á útihátíðum og á ferðalögum um landið þvert og endilangt er um fátt meira rætt þessa Verslunarmannahelgi en glærusýningar úr Kaupþingi og grein Evu Joly um þá lærdóma sem draga má af efnahagshruninu og þá einkum í tengslum við stöðu Íslands.

Í greininni er gengið út frá því að Ísland hafi verið holdgervingur samfélags óhefts markaðsfrelsis, samfélag sem nú sé að hruni komið. Nú er út af fyrir sig engin ástæða til þess að rengja þessa staðhæfingu sérstaklega enda hefur undanfarin ár ríkt hér á landi andrúmsloft andvaraleysis og meðvirkni gagnvart markaðnum - talið var að hin ósýnilega hönd myndi lagfæra það sem miður færi. Glærusýningarnar úr lánabók Kaupþings - hitt stóra málið þessa Verslunarmannahelgi - renna óneitanlega stoðum undir kenningarnar um samfélag óhefts markaðsfrelsis.

En það sem mér finnst athyglisvert við greinina er sú skoðun að þessu samfélagi hafi einhvern veginn verið þröngvað upp á okkur af alþjóðasamfélaginu. Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru nefnd til sögunnar í þessu sambandi. Þetta er skýring sem svokallaðir sjálfstæðissinnar í Evrópumálum eiga væntanlega erfitt með að samþykkja, enda eru þeir í óðaönn að telja okkur hinum trú um að standa utan ESB til að vernda sjálfstæði þjóðarinnar. Af þeim sökum geta þeir varla skrifað upp á þá söguskýringu að Evrópusambandið beri ábyrgð á efnahagshruninu. Því er ég sammála.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom heldur ekki til sögunnar fyrr en eftir að bankarnir og gjaldmiðillinn hrundu í október, þannig að hann er afleiðing en ekki orsök hrunsins. Þess vegna er erfitt að kenna honum um þá stöðu sem við erum í núna.

Hvað Icesave varðar finnst mér fátt nýtt koma fram. Endurtekin er sama tuggan um að þjóðin muni ekki standa undir skuldbindingunum - án þess að færð séu fyrir því nein sérstök rök. Látið er í veðri vaka eins og Icesave skuldirnar séu einu skuldir ríkissjóðs - að án þeirra væri staðan bara býsna góð. En svo er auðvitað alls ekki. Ríkissjóður þurfti t.d. að taka á sig gríðarlegt tap Seðlabankans vegna ónýtra veðlána til bankanna skömmu fyrir hrun.

Skuldirnar vegna Icesave eru bara hluti af heildarvandanum. Þótt þetta mál hefði aldrei litið dagsins ljós væri vandi okkar ærinn. En margir finna skjól málinu vegna þess að það er þægilegt að geta kennt öðrum um vandann - og þá spillir ekki fyrir ef það eru útlendingar. Á meðan hægt er kenna Bretum og Hollendingum um stöðuna, sem ég efast ekki um að hafi verið óbilgjarnir í samningaviðræðum og beiting hryðjuverkalaganna bresku var sérstaklega ógeðfelld aðgerð, þá komast menn hjá því að ræða heildarmyndina og hinar raunverulegu orsakir hrunsins. Ákveðin öfl hafa náð miklum árangri í að ala óttanum við útlönd og hafa magnað upp einhvern misskilinn þjóðernisrembing í tengslum við þetta leiðinlega mál.

Það sem stendur upp úr í greininni er umræðan um nauðsyn þess að aðþjóðasamfélagið taki á þeim vanda og þeirri spillingu, sem því miður hafa leikið fjármálakerfi heimsins svo grátt á síðustu mánuðum. Vandinn er alþjóðlegur og því verður að taka á honum með samvinnu á milli ríkja og þar - eins og greinarhöfundur, sem jafnframt er þingmaður á Evrópuþinginu, bendir á - mun ESB og stofnanir þess, t.a.m. Evrópuþingið, leika stórt hlutverk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

aðalatriðið er náttúrulega að við séum ekki að flýja inn í ESB vegna þess að við séum svo hrædd við okkur sjálf.....

Ómar Bjarki Smárason, 2.8.2009 kl. 01:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband