Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Dagur B. Eggertsson í heimsókn

Dagur B. Eggertsson, borgarfulltrúi og frambjóðandi til varaformanns í Samfylkingunni kom í heimsókn til Hornafjarðar í gær. Hann hefur verið á yfirreið um landið vegna framboðs hans til varaformanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins um helgina. Hann kom hingað eftir ferðalag um norður - og austurland, sem byrjaði á Akureyri og endaði á Hornafirði. Ánægjulegt er að frambjóðandi til varaformanns flokksins skuli leggja á sig ferðalög til þess að kynna sér starf flokksmanna um allt land.

Án efa verður baráttan milli Dags og Árna Páls Árnasonar snörp á landsfundinum og vafalaust verður spennan mikil. Báðir þessi frambjóðendur eru vel til þess fallnir að gegna varaformennsku í Samfylkingunni og óháð því hvor þeirra fer með sigur af hólmi þá er ljóst að Samfylkingin hefur eignast öflugan varaformann að loknum landsfundi.

Sigurvegarans bíður svo krefjandi og risavaxið verkefni - að leiða stærsta stjórnmálaflokk landsins á tímum einhverra mestu efnahagsþrenginga sem Íslendingar hafa séð um langan tíma.


Núll prósent líkur

Ég rakst áðan á þennan snilldargóða pistil Herðubreiðar um margfrægt minnisblað Davíðs Oddssonar. Það er mjög erfitt að átta sig á málflutningi bankastjórnarinnar á þessum tímapunkti því allar opinberar aðgerðir hans ganga í berhögg við þessa frægu skýrslu formanns bankastjórnarinnar - undarlegt ósamræmi í orðum og gerðum.

Birting þessa ágæta skjals er bara enn ein sönnun þess að skipulagsbreytingar á stjórn Seðlabanka Íslands voru nauðsynleg forsenda efnahagslegrar endurreisnar á Íslandi. Trúverðugleiki bankans var hreinlega í húfi.

Eflaust eigum von á fleiri slíkum skýrslum og minnisblöðum úr fórum bankastjórans fyrrverandi, t.d. var hann aldrei búinn að upplýsa þjóðina um vitneskju sína varðandi beitingu Breta á hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi.

Væri hægt að fá upplýsingar um það mál næst, takk?


Lýðræðið fótum troðið?

Mikil lýðræðisvakning er í landinu öllu um þessar mundir og mikil umræða hefur skapast um lýðræðisumbætur. Ríkisstjórn Samfylkingar og VG hefur boðað umtalsverðar umbætur í þesum málum, t.a.m. eru uppi hugmyndir um persónukjör við alþingiskosningar og að þjóðaratkvæðagreiðslum verði gert hærra undir höfði með ákvæði í stjórnarskrá.

Töluverð umræða hefur skapast um það hvort að boðun kosninga með skömmum fyrirvara - 25. apríl nk. - sé andstæð lýðræðinu. Þá fái ný og minni framboð ekki tíma til að skipuleggja sig og kynna. Margir hafa gengið svo langt að segja að slík tilhögun sé runnin undan rifjum fjórflokksisn gamla sem vill treysta sitt valdakerfi - að hann hafi myndað bandalag um að halda öðrum framboðum frá kjötkötlunum.

Hvað sem öllu líður þá er ljóst að búsáhaldabyltingin í janúar á Austurvelli hefur haft mjög mikil áhrif á alla umræðu um lýðræði og lýðræðisþróun í landinu. Myndur ríkisstjórnar Samfylkingar og VG - og málefnasamningur þeirra - gerir m.a. ráð fyrir mjög miklum lýðræðisumbótum sem áður voru nefndar.

Ein af kröfum búsáhaldabyltingarinnar var að gengið yrði til kosninga og þar varð byltingarsinnum að ósk sinni. En spurningin er hvort að tíminn frá því að boðað var til kosninga og til kosninga hafi verið of skammur og þannig unnið gegn nýjum framboðum. Það mun framtíðin leiða í ljós.

En lýðræðisvakningin er hafin - fólk virðist hafa uppgötvað á nýjan leik að Alþingi sækir umboð sitt beint til fólksins - og þar ber því að vanda til verka. Þessi vakning á sér stað um allt land.


Framboðslisti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Framboðslisti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi var samþykktur á fjölmennu kjördæmisþingi á Selfossi í gær. Þingið var einkar vel heppnað og mikil og góð stemning var á fundinum. Greinilegt er að verk ríkisstjórnarinnar undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur og framboð hennar til formennsku í flokknum hafa verulega kveikt upp í baráttuandanum í Samfylkingarfólki.

Nú er bara að spýta í lófana, bretta upp ermar og tryggja flokknum góða kosningu í Suðurkjördæmi.

Sterkur framboðslisti í kjördæminu á eftir að auðvelda okkur það verk:

1. Björgvin G. Sigurðsson alþingismaður, Selfossi
2. Oddný Guðbjörg Harðardóttir bæjarstjóri, Garði
3. Róbert Marshall aðstoðarmaður ráðherra, Reykjavík
4. Anna Margrét Guðjónsdóttir forstöðumaður, Brussel
5. Guðrún Erlingsdóttir sérfræðingur í kjaramálum, Vestmannaeyjum
6. Þóra Þórarinsdóttir f.v. ritstjóri, Selfossi
7. Árni Rúnar Þorvaldsson formaður bæjarráðs, Höfn
8. Hjörtur Magnús Guðbjartsson framkvæmdastjóri og nemi, Reykjanesbæ
9. Borghildur Kristinsdóttir bóndi, Skarði, Landsveit
10. Andrés Sigurvinsson verkefnisstjóri, Selfossi
11. Sigþrúður Harðardóttir grunnskólakennari, Þorlákshöfn
12. Páll Valur Björnsson verkamaður og nemi, Grindavík
13. Greta Guðnadóttir fiðluleikari, Hveragerði
14. Lúðvík Júlíusson sjómaður, Sandgerði
15. Kristín Ósk Ómarsdóttir fósturforeldri, Sjónarhóli, Ásahreppi
16. Hjördís Þóra Sigurþórsdóttir formaður AFLS Starfsgreinasambands, Höfn
17. Önundur Björnsson sóknarprestur, Breiðabólsstað
18. Eyjólfur Eysteinsson fyrrverandi útsölustjóri, Reykjanesbæ
19. Elín Björg Jónsdóttir formaður FOSS og varaformaður BSRB, Þorlákshöfn
20. Lúðvík Bergvinsson alþingismaður, Reykjavík


Kjördæmisþing, aðalfundur og landsfundur

Það er mikið um að vera í pólitíkinni þessa dagana. Á morgun er stefnan sett á kjördæmisþing Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi, sem haldið verður á Selfossi. Aðalfundur félagsins Hornafirði verður haldinn næsta þriðjudag og svo er stefnan sett á landsfund í lok næstu viku - alltaf gaman að fara á landsfund. Þar myndast alltaf mikil og góð stemning og menn sameinast um grundvallarmarkmiðin og þétta raðirnar fyrir komandi átök í apríl.

Á kjördæmisþinginu á morgun verður tillaga stjórnar kjördæmisráðs um framboðslista lögð fram til samþykktar. Þeir einstaklingar sem náðu kosningu í fyrstu fimm sætin hafa allir gefið til kynna að þeir ætli að halda þeim og þess vegna er ljóst hverjir skipa fyrstu fimm sætin - úrslit prófkjörsins standa. Það var síðan verkefni kjördæmisráðs að raða á listann að öðru leyti og verður sú tillaga kynnt á kjördæmisþinginu á morgun. Ég er ekki í nokkrum vafa um að listinn verður öflugur og sigurstranglegur - ef mið er tekið af frambjóðendahópnum í prófkjörinu.

Á þinginu fer líka fram málefnavinna fyrir kosningabaráttuna sem framundan er og það er mikilvægt að sem flestir komi að þeirri vinnu. En nú verða men að láta hendur standa fram úr ermum því það er stutt í kosningar og við stefnum að glæsilegri kosningu Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi - sem og um allt land auðvitað.


Klassísk jafnaðarstefna - grundvöllur endurreisnar

Endanleg sönnun á skipbroti frjálshyggjunnar birtist mér þegar ég las brot úr drögum skýrslu endurreisnarnefndar Sjálfstæðisflokksins, þar sem því er haldið fram að fólkið - einstaklingarnir - hafi brugðist en ekki stefnan. Ástæðan fyrir því að það sannar fyrir mér að stefnan hafi beðið skipbrot er sú að þetta er sama vörn og margir, sem trúðu á gerska ævintýrið, héldu á lofti á sínum tíma - og sumir gera kannski enn.

Frjálshyggjan - óheftur kapítalismi - sem á rætur sínar að rekja til Bandaríkjanna og margir frjálshyggjupostular á Íslandi hafa litið mjög til - t.a.m. Hannes Hólmsteinn einn hugmyndafræðinga Sjálfstæðisflokksins o.fl. - hefur hlotið sömu örlög og kommúnisminn í austurvegi. Örlögin eru þau að það var mannskapurinn - liðið sem starfaði á forsendum hins óhefta markaðsbúskapar - sem klikkaði en ekki kerfið sjálft.

Það voru s.s. kapitalistarnir sjálfir sem komu óorði á kapitalismann. Líkindi með falli kommúnismans eru ótrúleg vegna þess að þar fólst vörnin oft á tíðum í því að það voru foringjarnir - leiðtogarnir í ráðstjórnarríkjunum - sem misstu sjónar á markmiðunum og komu óorði á góða og fallega stefnu.

Þetta þykir mér vera heldur ódýr lausn, að nokkrir einstaklingar beri ábyrgð á öllum þeim efnahagslegu áföllum sem við höfum orðið fyrir á síðustu mánuðum. Að mínu mati er það augljóst að sá flokkur sem hér hefur stýrt málum samfleytt í rúm 18 ár hefur brugðist  - og sú stefna sem flokkurinn hefur fylgt á þessu valdatímabili sínu. Ekki gengur að skella skuldinni eingöngu á einstaklinga þó þeir beri auðvitað einhverja ábyrgð líka.  

Ein stjórnmálastefna hefur lifað af öfgar 20. aldarinnar og staðið af sér það efnahagslega fárviðri, sem nú gengur yfir heimsbyggðina, en það er jafnaðarstefnan. Jafnaðarstefnan hefur sömu stöðu í stjórnmálunum og Rolling Stones hafa í tónlistarheiminum - hún er klassísk. Hugmyndir og lausnir jafnaðarstefnunnar eiga jafn mikið erindi við okkur nú og kreppunni miklu 1930. Þær standast algjörlega tímans tönn og þær eru okkur nauðsynlegt vegarnesti í þeim gríðarstóru og flóknu verkefnum, sem við stöndum frammi fyrir í kjölfarið á hruni frjálshyggjunnar.

Endurreisn fjármálakerfis, atvinnulífs og mótun nýrrar peningamálastefnu - og í reynd mótun nýs samfélags - bíður okkar en mikilvægast er að sú endurreisn eigi sér stað á forsendum jafnaðarstefnunnar. Það er búið að prófa frjálshyggjuleiðina - leið Íhaldsins - og árangurinn liggur fyrir.


Glæsilegt prófkjör Samfylkingarinnar

Sendi eftirfarandi pistil til vefmiðla í kjördæminu í kjölfar prófkjörs:

Nú er prófkjörsslagnum hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi lokið. Baráttan var einkar skemmtileg og drengileg. Það er líka frábært að fá tækifæri til þess að kynnast svo mörgum stórskemmtilegum einstaklingum, bæði í hópi frambjóðenda og kjósenda. Ferðirnar um kjördæmið, þar sem frambjóðendur hittu og ræddu við kjósendur - bæði á vinnustöðum og á förnum vegi - voru sérstaklega ánægjulegar enda fengu frambjóðendur þá að heyra hvaða mál það eru sem helst brenna á fólki. Framboðsfundirnir í Eyjum, Hornafirði, Árborg og Reykjanesbæ voru líka gagnlegir og málefnalegir.

Niðurstaða prófkjörsins er skýr, þótt þátttakan - rúmlega 2300 manns - hefði mátt vera betri. Kannski er áhuginn á stjórnmálum og stjórnmálamönnum ekki meiri eftir þau efnahagslegu áföll, sem dunið hafa á þjóðinni. Flokksstarf gamla fjórflokksins nýtur ekki mikilla vinsælda í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar. Upplifun mín af stjórnmálaástandinu í landinu - á ferðum mínum um kjördæmið - var sú að trúnaðarbrestur væri á milli almennings og stjórnmálamanna.  Traust almennings í garð stjórnmálamanna er í algjöru lágmarki og krafan um breytingar og breytta stjórnarhætti var mjög skýr og hávær hvert sem farið var. Eitt stærsta verkefni verðandi þingmanna - þessa kjördæmis sem annarra - verður að endurreisa traust og trúverðugleika Alþingis.

Þakkir fyrir stuðninginn

Þrátt fyrir hafa ekki náð þeim árangri, sem að var stefnt í prófkjörinu, er ég ákaflega ánægður og þakklátur fyrir þann breiða stuðning sem ég fékk. Þeim frambjóðendum sem náðu bindandi kosningu óska ég innilega til hamingju með árangurinn - svo og öllum frambjóðendum fyrir skemmtilega og heiðarlega baráttu. Einnig vil ég þakka þeim fjölda einstaklinga, sem störfuðu að framkvæmd prófkjörsins - kjörstjórn og umboðsmönnum út um allt kjördæmið á vegum flokkfélaganna. Án þeirra hefði þetta aldrei gengið svo vel sem raun bar vitni - og afraksturinn af vinnu þeirra og frambjóðenda er öflugur og sigurstranglegur framboðslisti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

En síðast en ekki síst er ég þakklátur þeim einstaklingum, sem lögðu lykkju á leið sína til þess að styðja við bakið á mér í prófkjörinu og treystu mér þannig til góðra verka. Slíkur stuðningur er ómetanlegur. Kærar þakkir!

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Jafnaðarmaður og formaður bæjarráðs Hornafjarðar

 


Bæjarstjórn og heilbrigðisráðherra

Gera þurfti klukkutímahlé á bæjarstjórnarfundi í gær vegna heimsóknar Ögmundar Jónassonar, heilbrigðisráðherra og starfsfólks ráðuneytisins. Bæjarstjórn, starfsmenn sveitarfélagsins og hjúkrunarforstjórar HSSA funduðu með ráðherra og starfsfólki ráðuneytisins. Fundurinn var ánægjulegur og ráðherra sýndi aðstæðum okkar hér á Hornafirði mikinn skilning og áhuga.

Aðalskilaboð bæjarstjórnar til ráðherra voru þau að lítið svigrúm er til niðurskurðar á Heilbrigðisstofnun Suðaustuarlands vegna þess að stofnunin sinnir fyrst og fremst grunnþjónunstu og að bæjarstjórn vill tryggja áframhaldandi forræði sveitarfélagsins á þessum málaflokki í gegnum þjónustusamning. Stungið var upp á því að skrifa undir nýjan samning 16. apríl nk. í ráðuneytinu.

Ekki var hægt að skilja fundinn öðruvísi en að þessi skilaboð okkar hefðu komist til skila og að næstu skref yrðu stigin í samræmi við það. Það er von okkar og ósk að skrifað verði undir nýjan samning þann 16. apríl nk. í samræmi við tillögu bæjarstjóra á fundinum í gær.  


Brotthvarf Ingibjargar

Viðburðaríkri helgi er lokið. Prófkjöri Samfylkingarfólks í Suðurkjördæmi lauk á laugardaginn. Í hvíldinni á sunnudaginn helltust yfir mann fréttir um að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefði ákveðið að draga sig hlé frá pólitíkinni af heilsufarsástæðum. Þessi ávkörðun Ingibjargar kom mörgum á óvart en ég held að hún hafi tekið hárrétta ákvörðun. Í svona veikindum á fólk að setja heilsuna og fjölskylduna í fyrsta sæti. Eflaust hefur hún líkað skynjað kallið um endurnýjun, bæði í þingmannahópnum og í forystusveitinni.

Um leið og ég þakka Ingibjörgu hennar forystu og leiðsögn á síðustu árum þá óska ég henni velfarnaðar og góðs bata.

Það er mín einlæga von að Jóhanna Sigurðardóttir taki að sér leiðtogahlutverkið í Samfylkingunni á landsfundinum í lok mars. Ég held að hún sé rétta manneskjan til þess. Hún nýtur trausts langt út fyrir raðir Samfylkingarinnar - og það með réttu. Hún er líka sá einstaklingur sem allt Samfylkingarfólk geti fylkt sér að baki á þessum erfiðu tímum þegar okkar bíður hreinsunarstarf eftir 18 ára valdasetu Íhaldsins og hruns frjálshyggjunnar. Engum er betur treystandi til þess að leiða það starf en Jóhönnu Sigurðardóttur.

Enn og aftur er óvissan það eina sem hægt að ganga að sem vísu í íslenskri pólitík.

En ég veit líka að jafnaðarmenn munu standa undir nafni á landsfundinum í lok mars - þétta raðirnar og halda áfram að eflast. Ábyrgð okkar er mikil vegna þess að jafnaðarstefnan - og öflugur flokkur sem framfylgir henni - er eina leiðin út úr þeim ógöngum, sem frjálshyggjan - leið Sjálfstæðisflokksins - hefur leitt okkur í. Þess vegna ríður á að við sameinumst að baki þeim einstaklingum sem valdir verða til forystu á landsfundinum og sækjum fram til sigurs í alþingiskosningunum 25. apríl.


Þakkir fyrir stuðninginn

Nú er prófkjörsslagnum hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi lokið. Ég náði ekki þeim árangri sem ég ætlaði mér en er samt ánægður með þann stuðning sem ég fékk í prófkjörinu. Baráttan hefur verið einkar skemmtileg og drengileg og maður hefur kynnst ótrúlega mörgu stórskemmtilegu fólki, bæði í frambjóðendahópnum og kjósendum.

Niðurstaðan er nokkuð skýr þótt þátttakan- rúmlega 2300 manns -  hefði alveg mátt vera betri, sérstaklega í ljósi þess að prófkjörið var öllum opið. Kannski er áhuginn á stjórnmálum og stjórnmálamönnum ekki meiri en þessi eftir þann efnahagslega býsnavetur sem Íslendingar hafa gengið í gegnum. Flokksstarf gamla fjórflokksins nýtur ekki mikilla vinsælda í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar. Hvert sem farið var upplifði maður mikinn skort á traust í garð í stjórnvalda og stjórnmálamanna yfirleitt. Krafan um breytingar og breytta stjórnarhætti var mjög skýr og hávær hvert sem farið var.

Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra og alþingismaður sigraði og vermir 1. sætið á framboðslistanum. Oddný G. Harðardóttir, bæjarstjóri í Garði náði góðri kosningu í 2. sætið og Róbert Marshall hlaut mjög mikinn stuðning og náði 3. sætinu.

Mesta athygli vekur örugglega glæsilegur árangur Önnu Margrétar Guðjónsdóttur, starfsmanns Sambands íslenskra sveitarfélaga í Brussel en hún náði 4. sætinu. Hún hefur greinilega náð að stimpla sig vel inn hjá kjósendum á þessum stutta tíma og þeir kunnað að meta skýran málflutning hennar. Guðrún Erlingsdóttir frá Vestamannaeyjum fékk síðan mikinn stuðning sem fleytti henni í 5. sætið. Úrslit prófkjörsins eru bindandi fyrir fyrstu fimm sætin. Þóra Þórarinsdóttir frá Selfossi náði svo 6. sætinu sem er mjög góður árangur - svona í fyrstu tilraun.

Þessu einstaklingum óska ég innilega til hamingju með árangurinn - svo og öllum frambjóðendum fyrir skemmtilega baráttu. Einnig vil ég þakka þeim fjölda einstaklinga, sem störfuðu við framkvæmd prófkjörsins - kjörstjórn og umboðsmönnum. Án þeirra hefði þetta aldrei gengið svo vel sem raun bar vitni.

En fyrst og fremst er ég þakklátur þeim einstaklingum, sem lögðu lykkju á leið sína til þess að styðja við bakið á mér í prófkjörinu og treystu mér til góðra verka. Slíkur stuðningur er ómetanlegur.

Kærar þakkir!!


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband