Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Lokaspretturinn hafinn

Þá er lokaspretturinn að komast á fullt skrið. Netkosningunni hjá Samfylkingunni í Suðurkjördæmi lýkur kl. 18:00 í dag. Hægt er að kjósa í gegnum netið með því að fara inn á heimasíðu Samfylkingarinnar, samfylking.is, slá inn kennitölu og þá færðu aðgangskóða sendan í heimabankann undir rafræn skjöl. Því næst ferðu inn á prófkjörssíðuna á samfylking.is, slær inn kóðann og kýst.

Einnig geta kjósendur farið á opna kjörstaði víðsvegar um kjördæmið þar sem hægt er kjósa hjá umboðsmönnum, þ.e. þeir sem ekki eru nettengdir eða hafa ekki aðgang að heimabanka.

Prófkjörið er öllum opið - allir geta tekið þátt og haft áhrif.

Ég hvet alla til að taka þátt, nýta sinn lýðræðislega rétt og hafa áhrif.

Prófkjörsbaráttan hefur verið mjög skemmtileg og það er alveg sama hvernig úrslitin verða, þá verður listinn mjög öflugur enda mannvalið mjög gott. Ferðirnar og fundirnir með frambjóðendum í Eyjum, Höfn, Árborg og Reykjanesbæ hafa mjög skemmtilegir.


Traustið endurheimt

Sendi þennan pistil á miðla í dag:

Öllum ætti að vera ljóst að rof hefur orðið á milli stjórnvalda og almennings. Stjórnvöld njóta ekki trausts almennings. Það efnahagslega óveður, sem yfir okkur hefur gengið, hefur að stórum hluta skapað þetta traustsrof. Fólk vantreystir því sem stjórnvöld halda fram enda töluðu þau um að kerfið væri öruggt allt fram á síðasta dag. Upplifun okkar er því sú að okkur hafi ekki verið sagt rétt og satt frá - að við höfum verið blekkt. Til þess að geta endurreist íslenskt efnahagslíf verða stjórnvöld og stofnanir þeirra að endurheimta traust almennings. Það ferli er nú hafið með endurskipulagninu á yfirstjórn Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Einnig hefur verið boðað til kosninga þar sem stjórnmálamenn leita eftir endurnýjuðu eða nýju umboði frá kjósendum. Kosningarnar eru mikilvægar í því ferli að endurheimta traust kjósenda á stjórnvöldum.

            Hvar sem ég hitti fólk á ferðum mínum um kjördæmið upplifi ég vantraust þess á stjórnvöldum. Fólk vill sjá breytingar. Það vill gegnsæ og heiðarleg vinnubrögð. Að skapa stjórnvöldum - og að endurheimta virðingu Alþingis - verður höfuðverkefni stjórnmálamanna á næsta kjörtímabili. Það verður aðeins gert með breyttum áherslum og nýjum vinnubrögðum. Fyrir því vil ég berjast.

Hæfasta fólkið

Ný og breytt vinnubrögð eiga að tryggja það að við ráðum alltaf hæfasta fólkið til starfa í mikilvæg störf á vegum ríkisins. Við verðum að láta af þeim ósið að eftirláta flokksgæðingum stöður, þar sem augljóst er að aðrar forsendur - en pólitískar - verða að vera til staðar, til þess að vel takist til. Augljóst dæmi um þetta er staða formanns bankastjórnar Seðlabankans. Vinnubrögð, þar sem faglegar kröfur eru látnar víkja á kostnað pólitískra vinargreiða, eru ein af ástæðum þess að staðan í efnahagsmálum þjóðarinnar er eins og raun ber vitni. Við höfum ekki gert nógu miklar faglegar kröfur til manna, sem ætlað er að vinna mikilvæg störf í þágu almennings. Kjósendur eiga heimtingu á því að alltaf sé valið hæfasta fólkið.

            Pólitísk spilling í embættisveitingum er hluti af stjórnmálum gærdagsins - pólitík Sjálfstæðisflokksins - og þeim þarf að henda út úr íslenskum stjórnmálum hið snarasta. Fyrir því vil ég berjast og býð þess vegna fram krafta mína í 2. - 4. sæti á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Formaður bæjarráðs Hornafjarðar


Kosningaskrifstofa opnuð

Eyddi kvöldinu í að standsetja kosningaskrifstofu í Miðbæ á Höfn með dyggri aðstoð góðra félaga og stuðningsmanna. Við ætlum að hafa hana opna á fimmtudag, föstudag og laugardag eftir að kosning hefst í netprófkjörinu á fimmtudaginn.

Þar verður heitt á könnunni og fólk getur leitað sér upplýsinga um framkvæmd prófkjörsins. Fyrir svo utan það hitta skemmtilegt fólk og eiga gott spjall.

Legg svo í hann snemma í fyrramálið. Ferðinni er heitið á Suðurlandið og á Reykjanesið. Næsti opinberi framboðsfundurinn verður haldinn í Hvíta Húsinu á Selfossi á miðvikudaginn kl. 20:00. Síðasti formlegi fundurinn veðrur svo haldinn í Ránni í Reykjanesbæ á fimmtudaginn kl. 20:00.

Einnig er stefnan sett á tvo óformlega framboðsfundi í Sandgerði og Grindavík.

Það er s.s. nóg að gerast.


Góðir framboðsfundir

Það var ánægjulegt að skreppa til Eyja á föstudaginn og hitta fólk þar. Framboðsfundur var síðan haldinn í Alþýðuhúsinu í gær. Þar kynntu frambjóðendur sig og sín stefnumál og svöruðu spurningum fundargesta. Góð mæting var á fundinn og fínar umræður sköpuðust.

Frambjóðendur héldu síðan til Hornafjarðar þar sem haldinn var annar framboðsfundur í dag. Mjög góð mæting var á fundinn og góð umræða var um ýmis mál.

Það er vonandi að kjósendur í kjördæminu nýti sér þetta tækifæri til þess að hafa áhrif á gang stjórnmálanna. Prófkjörið er opið og fer fram á netinu.

Tveir fundir eru eftir. Sá fyrri haldinn í Árborg á miðvikudaginn og sá síðari í Reykjanesbæ á fimmtudagskvöldið. Það er vonandi að fólk fjölmenni á þá fundi til þess að kynna sér þá kosti sem í boði eru.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband