Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2008
29.8.2008 | 21:17
Verðbólga í hæstu hæðum
Það er ljóst að líflegur og um margt erfiður pólitískur vetur er framundan fyrir ríkisstjórnina. Flestir ef ekki allir geta verið sammála um að brýnasta verkefni hennar á komandi vetri verður að koma böndum á verðbólguna og tryggja atvinnustigið í landinu. Þetta hljóta að verða forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar á næstum vikum og mánuðum.
Verðbólgan mælist nú tæp 15% sem er hæsta verðbólga sem mælst hefur í tæpa tvo áratugi. Kaupmáttur launa hefur dregist hratt saman og ASÍ og fleiri aðilar hefur bent á að atvinnuleysi komi til með að aukast með haustinu. Við sjáum vísbendingar um það nú þegar, ef horft er til þeirra gjaldþrota og fjöldauppsagna, sem við höfum orðið vitni að á síðustu vikum, sérstaklega í byggingariðnaðinum.
Það er auðvitað ekki hlaupið að því fyrir stjórnvöld að leysa þessi stóru vandamál sem blasa við okkur í efnahagaslífinu nú um stundir. Að ná niður verðbólgunni á sama tíma og reynt er að bregðast við lækkandi atvinnustigi er ekki einfalt verkefni. Reynslan hefur sýnt að samvinna og samráð allra aðila eru bestu verkfærin sem hægt er að nota þegar kemur að þeirri baráttu að halda aftur af verðbólgunni. Þess vegna er brýnt að allir aðilar vinnumarkaðarins og ríksstjórnin hafi með sér samvinnu um það hvernig unnt sé að vinda ofan af þessari þróun sem allra fyrst. Það er fyrsta skrefið í því að ná tökum á þessum vanda. Vonandi munu þessir aðilar setjast sem fyrst niður og koma sér saman um leiðir og aðferðir til þess að ná tökum efnahagsmálunum. Almenningur getur ekki búið við að það að horfa upp á enn frekari kaupmáttarrýrnun.
Í þessu árferði ættu allir að geta sameinast um það markmið að Ísland uppfylli skilyrðin fyrir inngöngu í myntbandalag Evrópusambandsins hvað svo sem þeim kann að finnast um ESB og Evruna. Hér er einfaldlega um skynsamleg markmið að ræða, t.a.m. lágt vaxtastig, lág verðbólga og stöðugleiki, sem allir ættu að geta fallist á að séu skynsamleg í öllu tilliti. Ég held að það sé rétt, sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra segir í Viðskiptablaðinu í dag, um að Evrópusambandsaðild verður stóra kosningamálið í næstu kosningum. Ástæðan er sú að kjósendur munu ætlast til þess að þá hafi flokkarnir skýra stefnu í Evrópumálunum minnugir umræðunnar á yfirstandandi kjörtímabili. Það gæti reynst einhverjum flokkum erfitt.
27.8.2008 | 16:59
Atvinnumál
Á síðasta fundi bæjarráðs var fjallað atvinnumál í sveitarfélaginu. Töluverð umræða hefur verið undanfarið um svokölluð gagnaver sem hugsanlegum kosti í atvinnuuppbyggingu víðs vegar um landið. Við ræddum t.a.m. þessi mál á fundi okkar með Össuri Skarphéðinssyni á fundi okkar með honum síðastliðið vor.
Bæjarráðsmenn voru sammála um að aðstæður hér væru á margan hátt ákjósanlegar fyrir slíka starfsemi. Nægilegt landrými er fyrir hendi auk þess sem svæðið sé utan jarðaskjálftasvæða á landinu. Við töldum því allt kalla á það að þessi mál yrðu skoðuð ofan í kjölinn til þess að hægt sé að ganga úr skugga um það hvort hér sé um raunhæfan möguleika að ræða. Þess vegna samþykkti bæjarráð að fela bæjarstjóra að óska eftir því við starfsstöð Nýsköpunarmiðstöðvar á Höfn að hún ynni fyrir okkur skýrslu um kosti þess að koma upp slíkri starfsemi í sveitarfélaginu. Það er mikilvægt fyrir okkur að greina möguleikana í slíku verkefni sem og hagkvæmni þess.
Hvað sem öðru líður þá er mikilvægt fyrir okkur að vera vakandi fyrir öllum mögulegum atvinnufærum og þessi vinna er liður í því.
Einnig kom fram á fundinum að skýrsla Nýskpöpunarmiðstöðvar um mögulegan vatnsútflutning úr sveitarfélaginu er væntanleg á næstu vikum. Það verður spennandi sjá hvaða möguleika Nýsköpunarmiðstöð sér fyrir Sveitarfélagið Hornafjörð í tengslum við vatnsútflutning. Það er því kjörið að fá Nýsköpunarmiðstöð til þess að vinna athugun á gagnaverum þegar hún hefur lokið vinnu sinni vegna vatnsútflutningsins.
20.8.2008 | 00:22
Kæra dagbók
Fjórðu meirihlutaskiptin í borginni hafa auðvitað verið fyrirferðarmest í fréttum undanfarna daga. Mikið er fólk orðið leitt á þessum eilífu uppákomum í borgarstjórn og því stefnuleysi sem þar ríkir nú um stundir. Þessar farsakenndu uppákomur, sem algjörlega eru á ábyrgð borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins, hafa nú tekið á sig enn ótrúlegri mynd. Borgarfulltrúar Íhaldsins hafa nú ákveðið að slíta meirihlutasamstarfi sem þeir lögðu mikið á sig til að koma á koppinn. Settu m.a. borgarstjórastólinn á uppboð til þess að sprengja samstarf Tjarnarkvartettsins. Þetta voru borgarfulltrúarnir tilbúnir að gera í janúar en núna 6 mánuðum síðar hafa þeir komist að því að þetta samstarf, sem þeir stofnuðu til með svo ærnum tilkostnaði, hafi verið komið á endastöð.
Það var rétt mat hjá Degi B. Eggertssyni og Svandísi Svavarsdóttur að stofna ekki til meirihlutasamstarfs með Sjálfstæðismönnum enda hefur borgarstjórnarflokkur þeirra - sérstaklega vegna innbyrðis deilna, sem komu upp á yfirborðið í Rei málinu - sýnt fram á það að hann er ekki stjórntækur. Það væri því ábyrgðarhlutur að stofna til meirihlutasamstarfs með slíkum flokki. Framsókn reyndist nógu örvæntingarfull, vegna nálægðar við núllpunktinn í skoðanakönnunum í Reykjavík, til þess að taka tilboði Íhaldsins. Það voru vonbrigði en kannski að einhverju leyti skiljanlegt í ljósi stöðunnar hjá flokknum í borginni.
Síðustu daga hefur einnig töluvert verið rætt um dagbækur fyrrum Moggaritstjórans, Matthíasar Johannessen. Þar opinberar hann trúnaðarsamtöl sín við ýmsa þekkta einstaklinga. Þessar uppljóstranir ritstjórans fyrrverandi hljóta að verða til þess að menn hugsa sig tvisvar um áður en þeir spjalla við einhvern af ritstjórn Morgunblaðsins þó það sé gert í trúnaði ef vera skyldi að sá héldi dagbók. Ég vona að Styrmir hafi ekki haldið dagbók og ef svo er að þá þyki honum vænna um almenning en svo að hann fari að deila henni með okkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2008 | 21:44
Lækkun gjalda
Á síðasta fundi bæjarstjórnar á fimmtudaginn samþykkti bæjarstjórn umfangsmiklar tillögur um lækkun gjalda í sveitarfélaginu sem ætlað er lækka útgjöld fjölskyldna. Tillögurnar gera ráð fyrir að leikskólagjöld og gjöld fyrir lengda viðveru lækki um 10%. Þær felast einnig í því að systkinaafsláttur fyrir annað barn verður 50% og 100% afsláttur fyrir þriðja barn. Þá verður systkinaafsláttur tengdur á milli skólastiga þannig að foreldrar sem eiga börn í leikskóla fá aukinn afslátt fyrir barn sitt í lengdri viðveru.
Í þessari umræðu er rétt að benda á að leikskólagjöld hafa ekki hækkað að krónutölu síðan 1. janúar 2006. Ef gjöldin hefðu fylgt vísitölu myndi gjald fyrir átta tíma hafa hækkað um 4.310 krónur eða úr 19.329 krónum í 23.639 krónur. Þegar þessi staðreynd er höfð til hliðsjónar ásamt hinum nýsamþykku tillögum bæjarstjórnar má segja að raunlækkun leikskólagjalda hafi á þessu tímabili verið rúm 20%. Óhætt er að segja að þessar breytingar eigi eftir að koma sér vel fyrir fjölskyldufólk en sem dæmi má nefna að fjölskylda með eitt barn í leikskóla í átta tíma og í lengdri viðveru í 41-50 klst. á mánuði kemur til með að lækka útgjöld um 71.992 krónur á ári.
Tillögurnar gera einnig ráð fyrir sveitarfélagið taki upp svokallað tómstundakort fyrir börn 6 - 18 ára. Með tómstundakortunum er ætlunin sú að styrkja hvert barn á aldrinum 6 - 18 ára í sinni tómstundaiðkun. Rétt er að fram komi að ekki er bara verið að vísa í íþróttastarf í sveitarfélaginu heldur eiga kortin að virka á mjög breiðum grunni. Mín skoðun er sú að fyrst og fremst eigi að líta á kortin sem styrk til þeirra barna og unglinga sem hafa mikinn áhuga á hvers kyns tómstundum og kortin eiga að auðvelda þeim þátttökuna í þeim.
Þessar tillögur eru afrakstur af starfi stýrihóps sem bæjarstjórn skipaði síðasliðinn til vetur til þess að móta fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið. Endalegum tillögum á hópurinn að skila af sér í desember. Í stýrhópnum sitja; Matthildur Ásmundardóttir, formaður fyrir Samfylkinguna, Elín Magnúsdóttir fyrir Framsókn og Gauti Árnason fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Samstarfið í stýrihópnum hefur verið gott.
Enda voru tillögurnar samþykktar með 6 atkvæðum í bæjarstjórn en Halldóra Bergljót Jónsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins sat hjá við afgreiðsluna af þeim sökum að hún hafði ekki haft tíma til þess að kynna sér tillögurnar. Tilboð kom frá meirihlutanum um að fresta afgreiðslunni fram að næsta fundi bæjarstjórnar og þannig gæti hún kynnt sér tillögurnar efnislega. Um þrjár vikur eru í næsta bæjarstjórnarfund og hefði sá tími átt að duga svo hún gæti myndað sér skoðun á málinu. En hún kaus að hafna því tilboði og það vakti athygli mína.
Fjölskyldumálin eru málefni sem Samfylkingin lagði ríka áherslu á í sinni kosningabaráttu og þess vegna er það okkur mikið ánægjuefni að sjá þessar tillögur verða að veruleika í bæjarstjórn.
7.8.2008 | 00:12
Tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga
Það er orðinn árviss viðburður í ágúst að umræða um hlutdeild sveitarfélaganna fjármagnstekjuskattinum svokallaða fari af stað. Ástæðan er eflaust sú að þegar álagningarskrár skattsins eru birtar kemur í ljós að fjármagntekjuskatturinn stækkar með hverju árinu og ríkiskassinn bólgnar út. Á sama tíma kemur þá líka í ljós að þeim er ávallt að fjölga sem eingöngu greiða sinn skerf til samneyslunnar í gegnum fjármangstekjuskattinn. Þeir einstaklingar leggja því ekkert til þeirra sveitarfélaga sem þeir búa í. Þetta er auðvitað óviðunandi og gengur ekki lengdar að sístækkandi hópur greði ekkert í þá samneyslu sem er á hendi sveitarfélaganna. Þessir einstaklingar verða, eins og aðrir, að nýta sér lögbundna þjónustu sveitarfélaganna. Það er einfaldlega sanngirnis - og réttlætismál að þeir sem eiga það mikla peninga að þeir geta lifað af því að sýsla með þá greiði með sama hætti til nærsamfélagsins og aðrir.
Gunnar Svavarsson, formaður fjárlaganefndar og bæjarstjórnarmaður í Hafnarfirði og Kristján Þór Júlíusson, varaformaður fjárlaganefndar og fyrrverandi bæjarstjóri á Akureyri hafa báðir sagt að eðlilegt sé að sveitarfélögin fái hlutdeild í þessum skatttekjum. Ýmsir aðrir hafa talað á þessum nótum. Þar sem bæði formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafa talað með svo skýrum hætti um þessi mál hefði verið hægt að álykta sem svo að ákveðinn þrýstingur myndist hjá ríkisstjórninni um að hefja a.m.k. skoðun á þessu réttlætismáli.
Hins vegar hefur Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra ákveðið að gera þetta að sínu hugsjónamáli í pólitík, þ.e. að sveitarfélögin hafi ekkert með það að gera að fá hlutdeild í þessum skatttekjum. Hann telur að sveitarfélögin stríði við útgjaldavanda og hafi ekkert við fjármagnstekjuskattinn að gera. Þau þurfi að taka til í sínum rekstri. Mér þykir ekki rétt að setja öll sveitarfélög undir þann hatt að þau eigi við útgjaldavanda að stríða. Auðvitað eru þau til sem e.t.v. hafa farið of glannalega en það á alls ekki við um öll sveitarfélög. Öll sveitarfélög vilja hafa reksturinn í góðu jafnvægi en þau vilja jafnframt veita góða þjónustu vegna þess að þau vilja búa íbúum sínum sem best skilyrði. Þess vegna finnst mér þetta ekki tæk rök hjá fjármálaráðherra.
En í mínum huga snýst þessi krafa sveitarfélaganna ekki eingöngu um auknar tekjur sveitarfélaganna - sem vissulega skipta miklu máli - heldur er um að ræða réttlætismál. Það að búa við fjárhagslega gæfu og velgengni á ekki að þýða að maður hætti að greiða eðlilegan skatt til sveitarfélagsins síns þar sem maður heldur áfram að þiggja þá þjónustu sem í boði er. Í þessari umræðu er mikilvægt að það komi fram að enginn er að tala um það að þessi skattstofn verði hækkaður heldur er eingöngu verið að fara fram á það að sveitarfélögin fái eðlilega hlutdeild í honum. Eftir því sem þeim einstaklingum fjölgar, sem eingöngu greiða fjármagntekjuskatt og greiða því ekkert útsvar til sveitarfélaganna, þeim mun þyngri hlýtur umræðan að verða í þá veru að komið verði til móts við vilja sveitarfélaganna.
5.8.2008 | 23:12
Verkefnin framundan
Nú þegar Verslunarmannahelginni er lokið fer lífið hægt og sígandi að komast í fastar skorður á nýjan leik. Við blasir annasamur en spennandi vetur. Verkefnin verða ærin á vettvangi bæjarstjórnar í vetur líkt og undanfarin ár.
Framkvæmdir
Bæjarfélagið stendur í miklum framkvæmdum um þessar mundir. Unnið er af fullum krafti að byggingu glæsilegrar sundlaugar og hefur verkið gengið vel undanfarna mánuði. Við stefnum að því að bjóða út byggingu knattspyrnuhússins í haust en að mörgu er að hyggja í þeim málum og mikilvægt að vanda vel allra verka. Þegar litið er til þeirra framkvæmda á íþróttasvæðinu sem nú þegar hafa átt sér stað, þ.e. tilkoma frábærrar frjálsíþróttaaðstöðu og nýs knattspyrnuvallar, er ekki hægt að tala um annað en byltingu í aðstöðu íþróttafólks í sveitarfélaginu þegar sundlaugin og knattspyrnuhúsið hafa litið dagsins ljós. Ekki er ég heldur í vafa um að sundlaugin mun verða mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn sem eiga leið um svæðið enda verður öll aðstaða eins og best verður á kosið. Leiktæki fyrir yngsta sundfólkið og rennibrautir munu síðan auka gleði þessa hóps við opnun laugarinnar.
Endurskoðun aðalskipulags og Hafnarvík Heppa
Bæjarstjórn vinnur nú að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Það er viðamikið verkefni sem er þannig vaxið að eftir því sem fleiri koma að því þeim mun betri verður afraksturinn. Stefnt er að því að stofna stýrihóp með fulltrúum allra framboða sem fær það verkefni að halda utan þessa viðamiklu og mikilvægu vinnu í samstarfi við ráðgjafana hjá Glámu Kím.
Annað verkefni sem ég vonast til að komist á einhvern rekspöl næsta vetur er verkefni sem nefnist Hafnarvík Heppa. Það miðar að því að byggja upp gömlu bæjarmyndina við höfnina. Hér er um að ræða stórt og kostnaðarsamt verkefni sem m.a. felur í sér að gera upp Pakkhússið og færslu Gömlubúðar á sinn upphaflega stað við höfnina. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem kemur til með að hafa mjög jákvæð áhrif á bæjarmyndina. Ekki má heldur gleyma því að Hafnarvík Heppa er í raun einnig byggða - og atvinnuverkefni vegna þess að menn sjá fyrir sér töluverða starfsemi í þeim húsum verða gerð upp. Mikilvægt er að huga vel að fjármögnun þessa verkefnis enda mjög kostnaðarsamt eins og áður hefur verið nefnt. Hugsanlegt er að ríkisvaldið og einkaaðilar, sem sjá hag sinn í þessari uppbyggingu, komi að fjármögnun verkefnisins að einhverju leyti.
Húsnæðisnefnd og Grunnskóli Hornafjarðar
Nú er einnig að störfum nefnd hjá Sveitarfélaginu sem hefur það verk með höndum að kanna húsnæðisþörf sveitarfélagins til framtíðar. Nefndinni er ætlað að móta framtíðarstefnu sveitarfélagsins í húsnæðismálum. Hluti af verkefni nefndarinnar er að meta húsnæðisþörf grunnskólans. Rétt er að benda á að búið er að selja heimavistarhluta Nesjaskóla sem og sjálft skólahúsnæðið í Nesjum. Þegar það lá fyrir að skólahúsnæðið færi með í kaupunum kom ég þeirri skoðun minni á framfæri að þar með væri verið að stíga ákveðið skref í þá átt að allt skólahald Grunnskóla Hornafjarðar færðist út á Höfn.
Í þessu ljósi tel ég það mikilvægt að við skoðum það í alvöru hvernig hægt er að flýta þessu ferli eins og kostur er ef samstaða er um þessi sjónarmið. Það er ekki gott að reka skóla lengi í húsnæði sem liggur fyrir að eigi að loka innan tíðar. Það er að mínu mati ekki grundvöllur fyrir metnaðarfullt starf. Ég legg hins vegar ríka áherslu á gott samstarf við starfsfólk, foreldra og nemendur til þess að truflunin, sem óneitanlega mun verða á starfi grunnskólans við þessar breytingar, verði sem minnst.
Fjölskyldustefnan
Eitt stærsta verkefni bæjarstjórnar á næsta vetri verður þó án efa að fullmóta fjölskyldustefnu sveitarfélagisins. Um nokkurt skeið hefur verið starfandi nefnd á vegum sveitarfélagsins sem hefur unnið að mótun fjölskyldustefnunnar. Nefndin á að skila af sér tillögum til bæjarstjórnar í desmember. Þetta er málaflokkur sem Samfylkingin lagði mikla áherslu á í sinni kosningabaráttu og það er mikilvægt að þessum málaflokki sé gert hátt undir höfði og sé ávallt til skoðunar. Þess vegna verður spennandi að sjá endanlegar tillögur sem koma frá nefndinni og ég er viss um að þær verða til þess fallnar að bæta hag fjölskyldna í sveitarfélaginu.
Þessi upptalning er að sjálfsögðu hvergi nærri tæmandi fyrir þau verkefni sem framundan eru á vettvangi sveitarstjórnarmálanna en þau ættu að gefa nokkuð gott yfirlit yfir þau fjölbreyttu verkefni sem framundan eru.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006