Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007
19.12.2007 | 16:38
Það er spurning hvort það myndist stemning
Mér fannst svolítið hjákátlegt að hlusta á Geir H. Haarde og Gísla Martein kallast á í fréttatímum í þessari viku. Geir segir ekki sé stemning fyrir því í þjóðfélaginu í dag að einkavæða Landsvirkjun en Gísli Marteinn svarar á móti að það sé vel mögulegt að með umræðunni þá komi sú stemning til með að myndast.
Það sem forsætisráðherrann var örugglega að meina var að í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi er alls enginn pólitískur vilji fyrir því að einkavæða Landsvirkjun og því tómt mál að tala um. Þvert á móti er unnið að því hörðum höndum í iðnaðarráðuneytinu þessa dagana að sníða löggjöfina um orkuauðlindirnar að almannahagsmunum. Þannig að það verði tryggt að auðlindirnar sjálfar verði alltaf í almannaeigu. Þetta hlýtur að verða eitt af forgangsverkefnum jafnaðarmanna í ríkisstjórn að þessar stórkostlegu auðlindir verði um ókomna tíð í almannaeigu. Það yrði stórkostlegt áfall fyrir okkur jafnaðarmenn ef ekki tækist að hrinda þessum áformum í framkvæmd á kjörtímabilinu. Miðað við köll Gísla Marteins að forsætisráðherranum er ljóst að Samfylkingin verður að standa almannavaktina í stjórnarráðinu eins og venjulega þar sem einkavæðing Landsvirkjunar á sér greinilega mikinn hljómgrunn innan Sjálfstæðisflokksins.
Þannig að það er vonandi að stemningsleysið verði áfram allsráðandi í Valhöll í þessum málum.
18.12.2007 | 00:29
Fjölskyldustefna sveitarfélagsins
Á næsta ári fyrirhugar bæjarstjórn Hornafjarðar að hrinda af stað metnaðarfullri vinnu við gerð fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið. Að mínu mati er það sannarlega orðið tímabært verkefni fyrir okkur sem störfum á vettvangi sveitarstjórnarmála að skoða málefni fjölskyldunnar hér í okkar samfélagi og taka á þeim með heildstæðum hætti. Auðvitað eru málefni tengd fjölskyldunni ávallt inni á borði okkar sveitarstjórnarmanna og flest þau mál sem rata til okkar tengjast með einum eða öðrum hætti fjölskyldunum. Um það eru bæjarfulltrúar meðvitaðir og þess vegna hefur bæjarstjórn lagt á það áherslu að vinnu við gerð fjölskyldustefnu fyrir sveitarfélagið verði hrundið af stað.
Að mínu mati er hér um að ræða eitt stærsta og mikilvægasta verkefnið sem núverandi bæjarstjórn kemur til með að vinna að á kjörtímabilinu. Verkefnið nær yfir mjög vítt svið og kemur inn á marga þætti sem snerta okkar daglega líf. Eitt stærsta verkefnið í þessari stefnumótunarvinnu verður að greina kostnað fjölskyldna í sveitarfélaginu vegna leikskólagöngu, tónlistarnáms, lengdrar viðveru og iðkendagjalda í æskulýðs - og íþróttastarfi. Sérstök áhersla verður lögð á það að skoða þann systkinaafslátt sem er í boði hjá sveitarfélaginu og hvort hægt sé að útvíkka hann með einhverjum hætti, t.d. hvort mögulegt er að láta hann gilda á milli skólastiga. Einnig er lögð áhersla á að kanna kosti þess að taka upp svokölluð frístundakort í tengslum við æskulýðs - og íþróttastarf í sveitarfélaginu.
En fjölskyldustefna getur ekki bara tekið mið af þörfum yngstu kynslóðarinnar. Í fjölskyldustefnunni er mikilvægt að staða aldraðra í sveitarfélaginu verði tekin til sérstakrar skoðunar þannig að hægt verði að greina og meta þörfina á úrbótum í húsnæðismálum, félagslífi og stoðþjónustu fyrir aldraða. Góðar aðstæður fyrir aldraða í sveitarfélaginu skipta ekki síður miklu máli fyrir þær fjölskyldur sem hér búa.
Öll sveitarfélög landsins velta mjög fyrir sér málefnum fjölskyldunnar um þessar mundir. Forsvarsmenn sveitarfélaganna hafa gert sér grein fyrir því að samkeppnishæfni sveitarfélaganna felst ekki síst í því að geta boðið fjölskyldunum upp á sem best lífsskilyrði. Opinber þjónusta á vegum sveitarfélagsins er stór þáttur í lífi fjölskyldnanna. Þess vegna er það mikilvægt að hún sé skoðuð sérstaklega þannig að íbúarnir fái notið metnaðarfullrar þjónustu á vegum sveitarfélagsins. Markmiðið með mótun fjölskyldustefnunnar verður því alltaf að vera bætt þjónusta og þar með aukin ánægja íbúanna.
17.12.2007 | 23:38
Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni
Eftirfarandi grein eftir mig birtist í Morgunblaðinu í dag:
Frá árinu 2003 hefur verið í gildi þjónustusamningur á milli Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytisins og Sveitarfélagsins Hornafjarðar um rekstur heilbrigðis - og öldrunarþjónustu í sveitarfélaginu. Þjónustusamningurinn frá 2003 á rætur sínar að rekja í reynslusveitarfélagsverkefnið um heilbrigðis - og öldrunarmál frá árinu 1996. Bæði Sveitarfélagið Hornafjörður og Akureyrarbær voru þátttakendur í því verkefni. Verkefninu var ætlað að skera úr um það hvort sveitarfélögin í landinu væru í stakk búin til þess að taka við þessum verkefnum af ríkinu. Að reynslusveitarfélagsverkefninu loknu var tekin ákvörðun um að halda samstarfinu áfram í gegnum þjónustusamninga.
Það er enginn vafi á því í mínum huga eftir reynslu mína í tengslum við þjónustusamninginn að öldrunarþjónustan á heima hjá sveitarfélögunum. Þar er um að ræða nærþjónustu sem sveitarfélögin geta vel leyst af hendi. Ef sveitarfélögin á landsvísu eiga að taka við þessari þjónustu þá geri ég mér grein fyrir því að það verður aldrei gert í gegnum þjónustusamninga. Slík tilfærsla verkefna mun aldrei eiga sér stað nema sveitarfélögin taki við verkefninu af hendi ríkisins og tekjustofnarnir fylgi með.
Auðvitað er um að ræða gríðarstórt verkefni og úrlausnarefnin eru brýn. Það er hins vegar mín skoðun að reynslan á Akureyri og Hornafirði sýni að þetta er svo sannarlega gerlegt. Þessi sveitarfélög eru a.m.k. ekki á þeim buxunum að eftirláta ríkinu verkefnið á nýjan leik. Sú afstaða sýnir betur en margt annað hvar sveitarstjórnarmenn, á þessum stöðum, telja að vista eigi öldrunar - og heilbrigðismálin til framtíðar.
Bætt öldrunarþjónusta
Það er engum blöðum um það að fletta að samningurinn hefur skilað Hornfirðingum bættri öldrunarþjónustu. Í þjónustukönnun, sem Capacent framkvæmdi fyrir sveitarfélagið fyrr á þessu ári kom fram mikil ánægja með öldrunarþjónustuna. Samningurinn hefur gert okkur kleift að þróa samrekstur ýmissar þjónustu sem sveitarfélagið veitir. Nægir þar að nefna heimahjúkrun og félagslega heimilisþjónustu. Af þessu hefur hlotist töluvert hagræði.
Á samningstímanum og á grundvelli samningsins hefur tekist að stórefla heimahjúkrun í sveitarfélaginu en á móti hefur þeim einstaklingum sem eru í langlegurýmum fækkað umtalsvert. Það má því til sanns vegar færa að stjórnendur hafi náð góðum árangri í öldrunarþjónustunni og hafi tekist að framfylgja stefnu stjórnvalda, þ.e. að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í heimahúsum. Heimahjúkrun er hins vegar ekki ókeypis og mikilvægt að gert sé ráð fyrir áframhaldandi öflugri heimahjúkrun í nýjum samningi til þess að hægt verði að halda áfram á sömu braut.
Skýrlsa Ríkisendurskoðunar og erfið staða í læknamálum
Í janúar síðastliðnum óskuðu forsvarsmenn Sveitarfélagsins Hornafjarðar eftir því við Ríkisendurskoðun að stofnunin framkvæmdi stjórnsýsluúttekt á framkvæmd samningsins. Töluverð fjölmiðlaumræða fór af stað í kjölfar útkomu skýrslunnar.
Eitt þeirra atriða, sem Ríkisendurskoðun nefnir í sinni skýrslu, er mönnunarvandi heilbrigðisstofnunarinnar þegar kemur að læknaráðningum. Illa hefur gengið á undanförnum árum að ráða lækna til stofnunarinnar á heilsársgrunni. Í skýrslunni kemur hins vegar fram að mönnunarvandi lækna einskorðist ekki við Hornafjörð heldur sé ljóst að um landsbyggðarvanda er að ræða. Ekki sé því eingöngu við Heilbrigðisstofnun Suðausturlands að sakast hvað þetta varðar. Þessi sjónarmið Ríkisendurskoðunar getur undirritaður tekið undir.
Ríkisendurskoðun bendir á að starfsaðstæður heimilislækna hafi breyst á undanförnum árum. Margt bendir til þess að álag á lækna á landsbyggðinni sé umtalsvert meira en annars staðar vegna fjarlægðar í sjúkrahús og mikils vaktaálags. Í fámennum læknahéruðum þurfa heimilislæknar að glíma við erfiða sjúkdóma og bráðatilfelli sem annars staðar eru leyst á sjúkrahúsum. Einnig er launamunur lækna á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni umtalsvert minni en fyrir nokkrum árum sem dregur úr hvata lækna til að setjast að á landsbyggðinni. Ríkisendurskoðun telur mikilvægt að ráðuneytið, ásamt hlutaðeigandi aðilum, ráðist í greiningu á þessum vanda sem fyrst og þar er ég sammála skýrlsuhöfundum.
Ég tel það orðið tímabært að stjórnmálamenn og aðrir sem með þennan málaflokk fara setji heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni ofar á dagskrá stjórnmálanna en verið hefur. Sérstaklega í ljósi þess að í náinni framtíð er fyrirsjáanlegur enn meiri vandi við að manna læknastöður á landsbyggðinni. Við þurfum því að setjast niður og leita leiða til þess að bregðast við. Meðal þeirra spurninga sem stjórnmálamenn verða að velta fyrir sér er hvort heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni lúti öðrum lögmálum en á höfuðborgarsvæðinu. Við verðum að velta fyrir okkur hvernig hægt verður að tryggja hámarksgæði án þess að þeir starfsmenn sem eiga að veita þjónustuna kulni í starfi. Það er afar brýnt að strax verði hafin stefnumótunarvinna í málefnum heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar.
5.12.2007 | 22:41
Ríkisstjórn jafnaðarmanna
Greinilegt er af fréttum dagsins að dæma að jafnaðarmenn eru sestir í ríkisstjórn. Í dag kynnti ríkisstjórnin mjög þörf og brýn skref í þá átt að styrkja stöðu aldraðra og öryrkja. Ég var sérstkaklega ánægður með að sjá að afnumið verði hið niðurlægjandi ákvæði að skerða tryggingabætur aldraðra og öryrkja vegna tekna maka.
Hér er að mínu mati verið að stíga mikil framfaraspor í íslensku samfélagi. Eftir áratuga stöðnun í málefnum þessara hópa er komin ríkisstjórn sem tilbúin er að taka á þessum málum. Þetta eru mál sem Samfylkingin lagði gríðarlega mikla áherslu á í kosningabaráttunni síðastliðið vor. Þess vegna er það mjög ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli kynna þessar áherslur sínar svona snemma á kjörtímabilinu.
Það er greinilegt áherslur jafnaðarmanna hafa orðið ofan í ríkisstjórnarsamstarfinu og er það mjög gleðilegt. Eins og fyrri daginn, þá hefur það sannast að það þarf jafnaðarmenn til þess þess að reka jafnaðarstefnu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2007 | 19:15
Fjölskyldustefnu hrundið af stað
Á bæjarráðsfundi í dag var til umræðu, ásamt ýmsu öðru, drög að erindisbréfi fyrir stýrihóp sem verður falið að halda utan um vinnu sveitarfélagsins við gerð fjölskyldustefnu.
Eitt helsta markmiðið með gerð stefnunnar er að ná fram heildarsýn og markvissu starfi í málefnum fjölskyldunnar. Það er brýnt mál fyrir sveitarfélag eins og okkar að það sé samkeppnishæft við önnur sveitarfélög í málefnum fjölskyldunnar. Með þessu er átt við að sveitarfélagið leiti ávallt leiða til þess að bjóða fjölskyldum og fjölskyldufólki upp á sem besta þjónustu með eins litlum kostnaði og mögulegt er.
Samfylkingin á Hornafirði var í framboði til sveitarstjórnar undir kjörorðinu sterkara samfélag - allir með, sem var reyndar kjörorð Samfylkingarinnar á landsvísu í þeim kosningum. Verkefni eins og þetta, sem miðar að því að bæta hag fjölskydnanna í sveitarfélaginu og að gera samfélagið eins fjölskylduvænt og mögulegt er ríma svo sannarlega vel við slagorð okkar frá því í kosningabaráttunni.
Vinna við slíka stefnumótun er líka kjörið tækifæri til þess að greina stöðuna eins og hún er í sveitarfélaginu. Þá fáum við tækifæri til þess að sjá hvað er vel gert og hvar tækifærin til framfara liggja.
Hluti af starfi stýrihópsins verður væntanlega að greina kostnað fjölskyldna vegna leikskólagöngu, tónlistarnáms, lengdrar viðveru og iðkendagjalda í æskulýðs - og íþróttastarfi. Hérna er mikilvægt að gerður verði samanburður við önnur sveitarfélög og okkar staða könnuð með tilliti til stöðunnar hjá öðrum sveitarfélögum. Einnig verður það í verkahring stýrihópsins að kanna sérstaklega kosti systkinaafslátta og kosti þess að taka upp frístundakort.
Þetta var mál Samfylkingin á Hornafirði lagði mikla áherslu á að yrðu skoðuð á þessu kjörtímabili í kosningabaráttunni. Það er sannarlega gleðilegt að hreyfing er komin á málin.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
Af mbl.is
Erlent
- Segir að verið sé að svindla á Bandaríkjunum
- Fjórir létust er þyrla flaug utan í sjúkrahús
- Bandaríkjamenn skutu niður eigin herþotu
- Skotið á sama skólann þrisvar á árinu
- Undirritar bráðabirgðafjárlög eftir dramatíska viku
- Barnið sem lést var níu ára gamalt
- Tók þrjár mínútur að drepa fimm og særa 200
- Fimm látnir í Magdeburg