Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Uppröðun á framboðslista og trúverðug Samfylking

Í Alþingiskosningum í vor er mikilvægt að vel takist til hjá Samfylkingunni þannig að ríkisstjórnin falli. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir Samfylkinguna að starfa í ríkisstjórn að loknum kosningum. Ef ríkisstjórnin fellur sem allt bendir til þessa dagana þá er það skylda stjórnarandstöðuflokkanna að setjast niður og ræða saman um hugsanlega stjórnarmyndun.

Verðum að ganga í takt

Til þess að Samfylkingunni geti gengið vel í vor er mikilvægt að menn fari að stilla saman strengi og snúi bökum saman. Við verðum að standa þétt við bakið á formanninum og treysta honum fyrir stjórn flokksins. Ekki er hægt að sætta sig við það að innanbúðardeilur dragi okkur niður á kosningavetri. Þar ber þingflokkurinn mikla ábyrgð. Hann verður að ganga á undan með góðu fordæmi og draga okkur ekki niður út af deilum sem engu máli skipta þegar á heildina er litið. Fýluhundar út af prófkjörum, formannskosningum eða öðrum smáatriðum eiga ekkert erindi í okkar ágæta flokk. Við höfum ekkert við slíkt fólk að gera á ögurstundu.

Ég treysti okkar glæsilega formanni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fyllilega til þess að mynda þannig heild og liðsanda í Samfylkingunni fyrir kosningarnar í vor að kjósendur munu treysta okkur fyrir landsstjórninni. Til þess að Samfylkingin geti orðið trúverðugur kostur verður þingflokkurinn að standa sína vakt og hlaupa ekki undan merkjum þegar erfið mál koma upp. Þar á ég við mál sem geta, t.d. valdið reiði á einstökum svæðum á landinu eða hjá einstökum hópum. Ekki gengur að Samfylkingin hafi eina stefnu á Hornafirði, aðra á Selfossi, enn aðra á Reyðarfirði, eina til auka á Vestfjörðum og svo eina til viðbótar í höfuðborginni. Jafnt verður yfir alla að ganga. Þannig sköpum við trúverðugan flokk sem getur unnið stóran sigur í vor.

Því þegar öllu er á botninn hvolft eru það grundvallarstef jafnaðarmennskunnar sem sameina okkur og það eru þau stef sem eiga vera ríkjandi í næstu ríkisstjórn. Það verður bara gert með sterkri hlutdeild Samfylkingarinnar.  

Núna eru stjórnir kjördæmisráða og uppstillinganefndir innan Samfylkingarinnar að ráða ráðum sínum með endanlega uppstillingu á framboðslista í hverju kjördæmi fyrir sig. Ég hygg að Samfylkingin í Suðvesturkjördæmi hafi verið fyrst til þess að birta endanlegan lista. Fljótlega fylgja önnur kjördæmi í kjölfarið.

Samfylkingin í Suðurkjördæmi

Samfylkingin í Suðurkjördæmi hyggst birta sinn lista næsta sunnudag, þ.e. 10. desember á kjördæmisþingi. Til stendur að halda kjördæmisþingið í öðrum enda þessa stóra kjördæmis eða í Reykjanesbæ. Svo fólk geti gert sér grein fyrir stærð kjördæmisins þarf Samfylkingarfólk á Hornafirði að keyra samtals 1.200 km. til þess að vera viðstatt. En við teljum það ekki eftir okkur. Ef menn ætla á annað borð að vera þáttakendur í þessu gríðastóra kjördæmi okkar er mikilvægt að menn séu tilbúnir til þess að ferðast um langar vegalengdir.

En þar sem um gríðarstórt kjördæmi er að ræða tel ég mikilvægt að við endanlega uppröðun á framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi verði gætt sannmælis og réttlætis gagnvart öllu kjördæminu. Ég tel t.d. mjög mikilvægt að uppstillingarnefnd taki tillit til beggja jaðarsvæða kjördæmisins.

Einnig er að mínu mati mikilvægt að taka tillit þess mikla starfs sem Samfylkingin á Hornafirði er búin að vinna á undanförnum árum. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum buðum við fram undir merkjum Samfylkingarinnar og unnum glæsilegan sigur. Að loknum kosningum var Hornafjörður annað tveggja sveitarfélaga í kjördæminu þar sem Samfylkingin er þátttakandi í meirihlutasamstarfi. Að vísu hefur Árborg bæst í hópinn síðan þá.

Við Samfylkingarfólk á Hornafirði teljum okkur því eiga drjúgan þátt í uppbyggingu flokksins í kjördæminu.


Tvöföldum Suðurlandsveg

Eitt af forgangsverkefnum næstu ríkisstjórnar í samgöngumálum hlýtur að vera tvöföldun Suðurlandsvegar. Sú umferð sem þar fer um á hverjum degi er svo gríðarlega mikil að hún beinlínis æpir á að vegurinn verði tvöfaldaður. Öll rök hníga að því.

Út frá öryggissjónarmiðum á að tvöfalda Suðurlandsveg. Fjöldi sunnlendinga keyrir um þennan veg á hverjum degi til og frá vinnu. Við viljum líta svo á að atvinnusvæði Reykavíkursvæðisins nái yfir Hellisheiðina en til þess að viðhalda því þurfa samgöngur að vera í lagi og öruggar fyrir alla sem þar fara um. Eina raunhæfa leiðin til þess er að tvöfalda Suðurlandsveginn.

Gleymum því ekki að hér erum við að tala um þjóðveg 1 og stærsur hluti Íslendinga keyrir um þennan veg á hverju ári. Það verður að gera þennan veg boðlegan út frá öryggissjónarmiðum. Það þýðir ekkert að hafa þetta þannig að fólk óttist um líf sitt í hvert sinn það keyrir þessa leið.

Eyþór Arnalds hefur ásamt fleiri góðum sveitarstjórnarmönnum og þingmönnum komið þessari skoðun rækilega á framfæri og því ber að fagna. Það er svo vonandi að stjórnvöld fari að átta sig á mikilvægi þessarar framkvæmdar og fari að láta verkin tala.


Innflytjendamálin

Umræðan um innflytjendur og erlent vinnuafl hefur verið áberandi undanafarnar vikur. Sérstaklega fór varaformaður Frjálslynda flokksins hamförum í þeirri umræðu. Síðan þá hefur komið í ljós að djúpstæður ágreiningur er innan Frjálslynda flokksins um þessi mál og er uppsögn Margrétar Sverrisdóttur sem framkvæmdastjóra flokksins sterk vísbending um þann ágreining. Greinilegt er að hún fellur sig ekki við málflutning varaformannsins. Margrét hefur rætt um að bjóða sig annað hvort fram í varaformanninn eða formanninn á landsfundi Frjálslyndra í janúar. Efast ég ekki um að hún geti náð góðum árangri í þeirri baráttu enda öflugur frambjóðandi.

Umræðan um málefni innflytjenda og erlendra verkamanna hefur ekki verið í nógu góðum farvegi að undanförnu að mínu mati. Mér finnst ekki hafa verið gerður nægjanlegur greinarmunur á því þegar verið er að tala um erlent vinnuaafl annrs vegar og innflytjendur sem setjast hér að hins vegar. Erlendir verkamenn sem eru hingað komnir stoppa hér á meðan þeir hafa vinnu. Um leið og þeirri vinnu lýkur eru þeir farnir aftur og þeir leita að vinnu annars staðar í veröldinni. Sú mikla þensla sem er til staðar í þjóðarbúskapnum um þessar mundir er ástæða þess að fjöldi erlendra verkamanna með hærra móti. Það er þensla sem er fyrst og fremst tilkomin vegna aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar í virkjana - og stóriðjumálum. Að sjálfsögðu skapast alltaf einhver vandamál með svo mikla fjölgun fólks á skömmum tíma, það segir sig sjálft. Mikil ábyrgð hvílir á herðum atvinnurekendum í landinu að sjá til þess að verkamönnunum líði vel á meðan þeir vinna á Íslandi við framandi aðstæður og að þeir njóti fullra réttinda. Verkalýðshreyfingin hefur staðið sig vel í að fylgjast með að réttindi mannanna séu virt og hafa komið með fjöldann allan af ábendingum um það sem betur mætti fara. Starfsemi vinnuleiga er dæmi um mál sem verkalýðshreyfingin hefur sem betur fer komið á dagskrá. Ríkisstjórnin vildi lengi vel ekki hlusta á athugasemdir verkalýðshreyfingarinnar og barði hausnum í steininn líkt og hún svo gjarnan gerir. Ekki gekk að trufla fyrirtækin sem voru að vinna svo þörf verk að mati ríkisstjórnarinnar með smámálum eins og réttindum erlendra starfsmanna.

Í mínum huga þurfum við að skoða málefni innflytjenda sem koma til landsins og vilja setjast hér að með dálítið öðrum hætti. Það er skylda okkar að taka vel á móti þessu fólki og gera það virkt í því samfélagi sem við höfum byggt upp. Til þess að geta gert það er mikilvægt að fólkið fái góða, markvissa og uppbyggilega íslenskukennslu vegna þess að án tungumálsins kemstu lítt áleiðis í þjóðfélaginu.

Hornafjörður er gott dæmi um sveitarfélag þar sem fjöldi fólks af erlendu bergi brotið sest að og vinnur ýmis verkamannastörf sem Íslendingar fást ekki lengur í. Í fámennu sveitarfélagi er það okkur sem þar búum beinlínis lífsnauðsynlegt að þetta fólk verði virkir þátttakendur í samfélaginu og upplifi sig sem hluta af því. Við megum ekki við því að svo stór hluti af mannauðnum í samfélaginu sitji á hliðarlínunni og taki ekki þátt. Ef við ætlum að halda áfram að efla okkur í menningar, - íþrótta - og æskulýðsmálum verðum við einfaldlega að fá þennan þjóðfélagshóp með okkur í lið. Til þess að það geti gengið eftir verðum við að styðja við bakið á fólkinu svo það geti lært tungumálið. Þar þurfa allir að koma að málum; atvinnulífið, hið opinbera og menntastofnanir í landinu.  


Nýr bæjarstjóri í Árborg

Nú er það ljóst að Ragnheiður Hergeirsdóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Árborg verður næsti bæjarstjóri Árborgar. Það eru sannarlega gleðileg tíðindi fyrir íbúa í Árborg. Ragnheiður er vel að starfinu komin. Ég er ekki nokkrum vafa um hún mun vinna íbúum Árborgar mikið gagn. Ragnheiður er líka glæilegur fulltrúi Samfylkingarnnar á Suðurlandi og mun auka hróður okkar á landsvísu. Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Ég óska Ragnheiði velfarnaðar í nýju starfi.

En um leið og Ragnheiður tekur við sæti bæjarstjóra hefur hún ákveðið að þiggja ekki 4. sætið á lista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi sem hún náði með glæsilegri kosningu í prófkjöri í nóvember. Það verður kjördæmisstjórnar að stilla endanlega upp á listann og ákveða hver tekur sæti hennar á listanum. Fundur er boðaður í kjördæmisstjórn sunnudaginn 10. desember í Reykjanesbæ. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig spilað verður úr þessum spilum.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband