Leita í fréttum mbl.is

Innflytjendamálin

Umræðan um innflytjendur og erlent vinnuafl hefur verið áberandi undanafarnar vikur. Sérstaklega fór varaformaður Frjálslynda flokksins hamförum í þeirri umræðu. Síðan þá hefur komið í ljós að djúpstæður ágreiningur er innan Frjálslynda flokksins um þessi mál og er uppsögn Margrétar Sverrisdóttur sem framkvæmdastjóra flokksins sterk vísbending um þann ágreining. Greinilegt er að hún fellur sig ekki við málflutning varaformannsins. Margrét hefur rætt um að bjóða sig annað hvort fram í varaformanninn eða formanninn á landsfundi Frjálslyndra í janúar. Efast ég ekki um að hún geti náð góðum árangri í þeirri baráttu enda öflugur frambjóðandi.

Umræðan um málefni innflytjenda og erlendra verkamanna hefur ekki verið í nógu góðum farvegi að undanförnu að mínu mati. Mér finnst ekki hafa verið gerður nægjanlegur greinarmunur á því þegar verið er að tala um erlent vinnuaafl annrs vegar og innflytjendur sem setjast hér að hins vegar. Erlendir verkamenn sem eru hingað komnir stoppa hér á meðan þeir hafa vinnu. Um leið og þeirri vinnu lýkur eru þeir farnir aftur og þeir leita að vinnu annars staðar í veröldinni. Sú mikla þensla sem er til staðar í þjóðarbúskapnum um þessar mundir er ástæða þess að fjöldi erlendra verkamanna með hærra móti. Það er þensla sem er fyrst og fremst tilkomin vegna aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar í virkjana - og stóriðjumálum. Að sjálfsögðu skapast alltaf einhver vandamál með svo mikla fjölgun fólks á skömmum tíma, það segir sig sjálft. Mikil ábyrgð hvílir á herðum atvinnurekendum í landinu að sjá til þess að verkamönnunum líði vel á meðan þeir vinna á Íslandi við framandi aðstæður og að þeir njóti fullra réttinda. Verkalýðshreyfingin hefur staðið sig vel í að fylgjast með að réttindi mannanna séu virt og hafa komið með fjöldann allan af ábendingum um það sem betur mætti fara. Starfsemi vinnuleiga er dæmi um mál sem verkalýðshreyfingin hefur sem betur fer komið á dagskrá. Ríkisstjórnin vildi lengi vel ekki hlusta á athugasemdir verkalýðshreyfingarinnar og barði hausnum í steininn líkt og hún svo gjarnan gerir. Ekki gekk að trufla fyrirtækin sem voru að vinna svo þörf verk að mati ríkisstjórnarinnar með smámálum eins og réttindum erlendra starfsmanna.

Í mínum huga þurfum við að skoða málefni innflytjenda sem koma til landsins og vilja setjast hér að með dálítið öðrum hætti. Það er skylda okkar að taka vel á móti þessu fólki og gera það virkt í því samfélagi sem við höfum byggt upp. Til þess að geta gert það er mikilvægt að fólkið fái góða, markvissa og uppbyggilega íslenskukennslu vegna þess að án tungumálsins kemstu lítt áleiðis í þjóðfélaginu.

Hornafjörður er gott dæmi um sveitarfélag þar sem fjöldi fólks af erlendu bergi brotið sest að og vinnur ýmis verkamannastörf sem Íslendingar fást ekki lengur í. Í fámennu sveitarfélagi er það okkur sem þar búum beinlínis lífsnauðsynlegt að þetta fólk verði virkir þátttakendur í samfélaginu og upplifi sig sem hluta af því. Við megum ekki við því að svo stór hluti af mannauðnum í samfélaginu sitji á hliðarlínunni og taki ekki þátt. Ef við ætlum að halda áfram að efla okkur í menningar, - íþrótta - og æskulýðsmálum verðum við einfaldlega að fá þennan þjóðfélagshóp með okkur í lið. Til þess að það geti gengið eftir verðum við að styðja við bakið á fólkinu svo það geti lært tungumálið. Þar þurfa allir að koma að málum; atvinnulífið, hið opinbera og menntastofnanir í landinu.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband