Leita í fréttum mbl.is

Málþing um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni

Á fimmtudaginn er fyrirhugað málþing í Nýheimum á Hornafirði um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Af því tilefni birtum við Guðrún Ingimundardóttir, bæjarfulltrúar Samfylkingarinar, þessa grein um málþingið í síðasta Eystr Horni:

 

Heilbrigðisþjónusta á landsbyggðinni - málþing

 

Fimmtudaginn 3. apríl boða bæjarstjórn Hornafjarðar og Heilbrigðis - og öldrunarráð Hornafjarðar til málþings í Nýheimum um heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Málþingið hefst kl. 09:00 með setnigarávarpi Guðlaugs Þór Þórðarsonar heilbrigðisráðherra. Margt góðra gesta verður á málþinginu auk heilbrigðisráðherra og munu mörg áhugaverð erindi verða flutt um stöðu og framtíðarsýn fyrir heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.

Þessi mál hafa verið í miklum brennidepli hér á Hornafirði þar sem sveitarfélagið hefur stýrt þessum málaflokki í gegnum þjónustusamning við heilbrigðisráðuneytið. Í rúmt ár hafa staðið yfir viðræður um áframhald samningsins og hafa þau mál verið ítarlega rædd á vettvangi sveitarstjórnarinnar. Engum blöðum er um það að fletta að einhugur er í bæjarstjórn um það að halda þessu verkefni áfram og þess vegna er málþing sem þetta okkur mjög mikilvægt. Málefni Landspítalans hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu en við á vettvangi sveitarstjórnarmála á Hornafirði höfum bent á mikilvægi þess að menn einbeiti sér einnig að heilbrigðismálum á landsbyggðinni. Málþingið, sem er haldið að frumkvæði bæjarstjórnar, er okkar innlegg í þá umæðu.

Á málþinginu mun landlæknir fjalla almennt um heilbrigðisþjónustuna á landsbyggðinni. Hann ræðir þann eðlismun sem er á uppbyggingu heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni annars vegar og á fjölmennari stöðum landsins hins vegar. Einnig mun hann fjalla um hvaða starfsemi er mikilvægt að byggja upp heima fyrir og hvernig samskipti landsbyggðar við Landspítala Háskólasjúkrahús verði best háttað. Sjónarhorni lækna á landsbyggðinni verður komið á framfæri í gegnum erindi Óttars Ármannssonar, formanns dreifbýlislækna á Íslandi. Hann mun ræða starfsaðstæður lækna í dreifbýli eins og þær eru um þessar mundir. Þá mun Anna Björg Aradóttir, yfirhjúkrunarfærðingur og sviðsstjóri gæða - og lýðheilsusviðs hjá Landlæknisembættinu fjalla sérstaklega um starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga. Starfsmenn HSSA munu síðan gera grein fyrir þróun þjónustunnar á vegum HSSA og þeirri starfsemi sem þar fer fram í dag.

Að loknum erindum taka vinnuhópar til starfa og munu ræða ýmsa þætti sem tengjast málefninu. Í vinnuhópunum verður t.d. fjallað um rekstrarform heilbrigðisstofnana, verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, starfsumhverfi heilbrigðisstétta á landsbyggðinni, aðgengi íbúa landsbyggðarinnar að heilbrigðisþjónstu og margt fleira. Ásta Möller, formaður heilbrigðisnefndar Alþingis, mun í lok málþingsins taka umræður dagsins saman og flytja lokaerindi málþingsins.

Það er gaman og gagnlegt fyrir okkur að fá tækifæri til þess að hlýða á sjónarhorn annarra sem starfa við svipaðar aðstæður og starfsfólk Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Brýnt er fyrir alla aðila, stjórnmálamenn, stjórnendur, starfsfólk og notendur að skiptast á skoðunum og bera saman bækur sínar. Málþingið er tækifæri til þess. Undirrituð vilja því nota þetta tækifæri til þess að hvetja alla sem áhuga hafa á málefninu til þess að mæta á málþingið og taka þátt í því.

 

Árni Rúnar Þorvaldsson

Guðrún Ingimundardóttir

bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband