Leita í fréttum mbl.is

Enn um þjónustusamning

Eftirfarandi grein eftir mig birtist á vefmiðlum Hornafjaðar í dag, nánar tiltekið hér og hér:

Svarað um hæl

Svar við grein Halldóru Bergljótar Jónsdóttur 

Ég vil byrja á því í þessum pistli að þakka Halldóru Bergljótu Jónsdóttur fyrir ágæta grein sem birtist á vefmiðlinum hornafjordur.is í dag. Greinin er svar við pistli sem undirritaður birti á veffréttamiðlum Hornafjarðar 24. febrúar síðastliðinn. Þannig að segja má að fyrirsögnin á grein Halldóru Bergljótar Jónsdóttur sé viðeigandi.              Þó greinin sé í flestum atriðum málefnalega skrifuð birtist fátt nýtt í málflutning Halldóru Bergljótar Jónsdóttur í þessum málaflokki. Hins vegar er tæpt á nokkrum atriðum í greininni sem þarfnast betri skoðunar og mikilvægt er að varpa betra ljósi á þau.           

Að búa til ágreining 

Ef grein Halldóru Bergljótar Jónsdóttur er hugsuð sem svar við grein minni frá 24. febrúar þá er fyrsti kafli hennar með öllu óskiljanlegur. Sá kafli er skrifaður undir heitinu Þjónustusamningur mikill ávinningur fyrir íbúa. Þar fer greinarhöfundur með mjög almennum hætti yfir það góða starf sem unnið hefur verið á grundvelli þjónustusamningsins af starfsfólki HSSA og á grundvelli reynslusveitarfélagsverkefnisins sem hófst 1996. Í grein minni frá 24. febrúar kemur hvergi fram að þjónustusamningurinn hafi ekki verið mikill ávinningur fyrir íbúa og notendur þjónustu HSSA. Þvert á móti hefur undirritaður ávallt haldið því fram, bæði í ræðu og riti, að sjálfsstjórn okkar á þessum málaflokki hafi skipt máli og muni gera það áfram. Þetta veit Halldóra Bergljót Jónsdóttir og þess vegna er það undarlegt að hún skuli gera þetta að aðalatriði í svargrein sinni. E.t.v. er tilgangurinn sá að þyrla pólitísku ryki í augu fólks og gera undirrituðum upp skoðanir. 

Skýr stefna            

Öllum ætti að vera ljóst að Halldóra Bergljót Jónsdóttir hefur haft áhyggjur af því hvernig hefur verið staðið að gerð nýs samnings við heilbrigðisráðuneytið. Hefur það verið margrætt á bæjarstjórnarfundum og á fleiri fundum. Eflaust er það þannig að eitthvað hefði mátt betur fara í samningsferlinu. En það er mikil einföldun að halda því fram að þar beri meirihlutinn í bæjarstjórn Hornafjarðar mesta ábyrgð. Nú er það þannig í samningaviðræðum að það þarf a.m.k. tvo til svo að samningar náist. Allan þann tíma, sem bæjarfélagið hefur átt í viðræðum við ríkisstjórnina, hefur okkar kröfugerð verið skýr. Hún var samþykkt á fundi Heilbrigðis – og öldrunarráðs 14. nóvember 2006. Þann fund sat Halldóra Bergljót Jónsdóttir og var sammála þeim línum sem lagðar voru þá. Það er því af og frá að stefnumið meirihlutans í þessum málum væru óljós. Það er hins vegar einfalt mál að samþykkja kröfur sem þessar á vettvangi sveitarstjórnarmálanna en þá er erfiði hlutinn eftir, þ.e. að fá ráðuneytin til þess að samþykkja kröfur okkar.             Í raun er sá kafli greinarinnar, sem skrifaður er undir heitinu áhyggjur af nýjum samningi, einn samfelldur rökstuðningur fyrir því að meirihluti bæjarstjórnar Hornafjarðar hefur verið gerandinn í þessum samningaviðræðum og málum þeim tengdum. Í greininni kemur fram að það var bæjarstjórn sem fór fram á skýrslu Ríkisendurskoðunar, það var bæjarstjórn sem fékk fram viðhorf almennings til þjónustunnar á stofnuninni í gegnum Capacent og það var bæjarstjórn sem kallaði eftir tillögum Landlæknisembættisins til úrbóta í læknamálum.  

Er Ríkisendurskoðun ekki hlutlaus aðili?           

Það er ekki alls kostar rétt hjá Halldóru Bergljótu Jónsdóttur að Ríkisendurskoðun sé ekki hlutlaus aðili. Ríkisendurskoðun heyrir beint undir Alþingi Íslendinga. En sú breyting varð á högum Ríkisendurskoðunar árið 1987 að henni var breytt úr því að vera fjárhagsendurskoðun fjármálaráðuneytisins í sjálfstæða stofnun á vegum Alþingis sem er óháð handhöfum framkvæmdavaldsins. Segja má að ef Ríkisendurskoðun er ekki hlutlaus aðili þessa máls þá megi yfirfæra þá skoðun á Alþingi Íslendinga. Ef það er viðhorfið þá virðast menn vera þeirrar skoðunar að Alþingi sé bara útibú framkvæmdavaldsins, þ.e. ríkisstjórnarinnar og þá er illa komið fyrir löggjafavaldinu. Ef skýrslan er lesin kemur líka mjög fljótt í ljós að þess staðhæfing Halldóru Bergljótar Jónsdóttur stenst ekki, vegna þess að alvarlegustu athugasemdunum, sem koma fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, er beint að ráðuneytinu en þær lúta að eftirliti með framkvæmd samningsins. Annar alvarlegur misskilningur kemur einnig fram í þessum hluta greinarinnar sem skrifaður er undir fyrirsögninni Ríkisendurskoðun ekki hlutlaus aðili, en það er sú fullyrðing að skýrsla Ríkisendurskoðunar hafi leitt til þess að greiðslur samkvæmt samningi voru lækkaðar. Misskilningurinn felst í því að þær greiðslur, sem hér eru gerðar umfjöllunarefni, voru nefnilega ekki samkvæmt samningi og ekki einu samkvæmt munnlegu samkomulagi eins og fjármálaráðherra tjáði bæjarráði á fundi í febrúar. Hins vegar, af einhverjum dularfullum og ókunnum ástæðum, skapaðist sú hefð á samningstímanum að greiða HSSA fyrir fulla nýtingu hjúkrunarrýma en það er í raun brot á undirrituðum samningi þar sem skýrt er kveðið á um að greiða skuli fyrir hvert nýtt rými. Það þurfti því í raun að brjóta undirritaðan samning til þess að láta dæmið ganga upp og því stend ég við það að sá samningur, sem undirritaður var í formannstíð Halldóru Bergljótar Jónsdóttur í Heilbrigðis – og öldrunarráði Hornafjarðar, hafi verið lélegur og sú staðreynd hefur valdið okkur verulegum erfileikum í samningaviðræðunum.            

Í maí síðastliðnum lágu fyrir Heilbrigðis – og öldrunarráði drög að samningi sem meirihlutinn í ráðinu taldi ásættanlegan. Í þeim samningi og miðað við óbreytta framkvæmd samningsins voru okkur tryggðar sambærilegar fjárveitingar sem við töldum að myndi tryggja áframhaldandi sjálfsstjórn sveitarfélagsins yfir málaflokknum og að hægt væri að veita sams konar þjónustu og veitt hefur verið á undanförnum árum. Þannig að öllu tali um að sá samningur hefði á einhvern hátt falið í sér lakari þjónustu er vísað til föðurhúsanna. Aðdragandinn var vissulega stuttur en það er ekki rétt sem kemur fram hjá greinarhöfundi að meirihlutinn hafi guggnað á því að skrifa undir samninginn. Ástæðan var einfaldlega sú að fjármálaráðuneytinu tókst ekki að klára samninginn fyrir sitt leyti og því var ekki hægt að skrifa undir. 

Samstarfsvilji meiri – og minnihluta            

Að lokum tek ég undir það með Halldóru Bergljótu Jónsdóttur að bæjarfulltrúar bera þá skyldu að vinna saman að sameiginlegum hagsmunamálum umbjóðenda sinna. Hvort að samstarfsvilji meirihlutans gagnvart minnihlutanum hafi verið nægur ætla ég láta aðra dæma um. En það er þá líka rétt að þeir hinir sömu dæmi hvort samstarfsvilji minnihlutans gagnvart meirihlutanum hafi einnig verið nægur.   Árni Rúnar Þorvaldsson Forseti bæjarstjórnar Hornafjarðar og oddviti Samfylkingarinnar

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband