Leita í fréttum mbl.is

Frábær mæting á fund samgöngu - og viðskiptaráðherra

Um 70 manns mættu á fund með samgöngu - og viðskiptaráðherra í gær í Nýheimum. Það er sannarlega glæsileg mæting á pólitískan fund. Fundurinn var haldinn að frumkvæði Samfylkingarinnar á Hornafirði og var öllum opinn. Það var virkilega gaman að sjá fólk bregðast svona vel við heimsókn ráðherrranna.

Auðvitað hafði fólk mestan áhuga á að ræða mál málanna þessa dagana á Hornafirði en það er niðurstaða Vegagerðarinnar um það hvar nýr vegur um Hornafjarðarfljót eigi að liggja. Gagnlegar og málefnalegar umræður fóru fram um málið og ráðherra samgöngumála hlustaði á það sem fólkið hafði fram að færa.

Það er að mínu viti gríðarlega mikilvægt, áður en endanleg ákvörðun liggur fyrir í þessu máli, að samgönguráðherra sé búinn að koma hingað austur til þess að kynna sér viðhorf bæjarstjórnar og ekki síður viðhorf íbúanna.

Fundurinn í gær er að mínu mati til marks um þá miklu samráðshefð sem Samfylkingin hefur gert að reglu frekar en undantekningu í sínum vinnubrögðum.

Á fundi bæjarstjórnar í kvöld var eftirfarandi bókun um þessi mál samþykkt:

Á fundi með starfsmönnum Vegagerðarinnar þann 12. nóv. 2007 kom fram að stofnunin mælir með að farin verði leið 1. Rök Vegagerðarinnar eru þau að umhverfisáhrif þeirrar leiðar séu minnst af þeim leiðum sem eru til skoðunar, leiðin uppfylli einnig öll markmið um umferðaröryggi og greiðfærni.
Þrátt fyrir þessa tillögu Vegargerðarinnar ítrekar bæjarstjórn Sveitarfélagsins Hornafjarðar fyrri afstöðu sína í þessu máli. Bæjastjórn telur það farsælustu lausnina í samgöngumálum Hornfirðinga til framtíðar að ákveðið verði að fara leið 3. Það er sú leið sem kemur til með að styrkja best búsetu og atvinnuskilyrði íbúanna í sveitarfélaginu. Leið 3 styttir vegalegndir innan sveitarfélagsins mest eða um 14,2 km en leið 1 um 10,9 km. Í útreikningum Vegagerðarinnar er áætlað að leið 3 kosti um 2,9 milljarða króna en leið 1 kosti um 2,3 miljarð króna.
Það er skoðun bæjarstjórnar að þegar borinn er saman kostnaður við leið eitt og þrjú sé ekki gætt fulls hlutleysis. Inni í leið eitt er sleppt kostnaði við vegagerð á Mýrum og í Nesjum sem eðlilegt sé að hafa í báðum útfærslum. Þá er einnig horft framhjá ýmsum öryggisþáttum á leið eitt sem gera hana ódýrari í útreikningum Vegagerðarinnar.
Bæjarstjórn Hornafjarðar skorar á ríkisstjórn Íslands að tryggja fjárveitingar til að leggja leið 3. Bæjarstjórn Hornafjarðar er sammála um að forseta bæjarstjórnar verið falið að senda skriflegt erindi til samgönguráðherra og fjármálaráðherra þessu lútandi.

Við ætlum okkur s.s. að láta reyna á vilja ríkisstjórnarinnar í þessu máli og ég tel brýnt að fá úr því skorið sem allra fyrst hvort ríkisstjórnin hefur áhuga á því að tryggja nægjanlegt fjármagn í þessa framkvæmd. Hér er hægt að hlusta á mjög gott viðtal við Reyni Arnarson, formann bæjarráðs Hornafjarðar í svæðisútvapinu í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Sæll Árni. Mér sýnist flötur á að leysa málin. Það munar 600 milljónum í kostnaði við leið 1 og leið 3. Við sameinumst um að fara leið 1 en fá samt mismuninn frá ríkinu og notum hann á skynsamlegri hátt. Skiptum honum á milli okkar. Ég þarf ekki nema 300 milljónir til að byggja góða aðstöðu við Kolahraunið á Stafafelli fyrir útivistarsvæðið.

Slík miðstöð á Stafafelli væri ekki bara nýtt af göngufólki, sumarbústaðafólki og hringvegsumferð, því auðvitað yrði hún mikið notuð af Hafnarmönnum, enda er þetta helsti helgarrúnturinn hjá mörgum þeirra að fara upp í Lón. Það væri því verið að auka þjónustu við þá jafnt sem aðra og tryggja lágmarksatvinnugrundvöll á því svæði sem verst stendur með tilliti til byggðarþróunar í sýslunni.

Þú myndir síðan nota þinn helming í að klára sundlaugina, styrkja Hornfirska skemmtanafélagið, styðja verslun, þjónustu, menningu og konur með hatta. Á Höfn þarf að vera bæjarbragur, en ekki þjóðgarðsstemming.

Gunnlaugur B Ólafsson, 18.11.2007 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband