Leita í fréttum mbl.is

Samgöngu - og viðskiptaráðherra væntanlegir

Það er mér mikið gleðiefni að geta greint frá því að næsta miðvikudag ætla samgöngu - og viðskiptaráðherra að kíkja í heimsókn til Hornafjarðar.

Meiningin er að þeir fundi með bæjarstjórn og byggingar - og skipulagsnefnd seinni partinn á miðvikudag. Þar verða málefni sveitarfélagsins eflaust rædd þar sem málefni sveitarfélaganna koma til með flytjast frá félagsmálaráðuneytinu yfir til samgönguráðuneytisins um áramót. Einnig verða samgöngumál innan sveitarfélagsins rædd í víðu samhengi. Án efa verður þar rætt um nýjan veg yfir Hornafjarðarfljót sem og væntanleg Lónsheiðargöng.

Við munum vafalítið koma skoðun bæjarstjórnar áleiðis á því hvaða leið eigi að velja yfir Hornafjarðarfljótin. Bæjarstjórn hefur alla tíð verið einhuga um það að velja beri leið nr. 3 sem styttir þjóveginn mest sem og vegalengdir innan sveitarélagsins. Ekki má heldur gleyma því að sú leið fækkar gatnamótum mjög á þjóðveginum og bætir því umferðaröryggi landsmanna mjög mikið.

Mánudaginn áður en samgönguráðherra kemur verður bæjarstjórn búin að funda með Vegagerðinni þar sem ég býst við því að farið verði yfir stöðu málsins á þessum tímapunkti. Gaman verður að heyra hvar málið er statt núna og hvenær Vegagerðin telur að hún muni ljúka sinni vinnu.

Á fundinum með Samgönguráðherra verður vafalítið líka rætt um Lónsheiðargöng. Enginn sem keyrir um Hvalnes - og þvottárskriður þarf að velkjast að í vafa um það að þar er um að ræða vegstæði á þjóðvegi 1 sem ekki er boðlegur nú á tímum. Við í sveitarstjórninni munum því leggja á það áherslu, nú sem endranær, að eina varanlega lausnin á tengingu fyrir Hornafjörð við Austurland séu göng undir Lónsheiði. Vegurinn um Hvalnes - og þvottárskriður er farartálmi stóran hluta ársins og í rigningum er hann einfaldlega stórhættulegur akandi vegfarendum. Við leggjum því áherslu á að ráðuneytið og Vegagerðin fari strax að skoða þann möguleika að hefja framkvæmdir við Lónsheiðargöng. Sveitarfélagið hefur hafið sína skipulagsvinnu sem miðar að því að göngin verði sett að aðalskipulag sveitarfélagsins.

Á miðvikudagskvöldið kl. 20:00 mun Samfylkingin á Hornafirði standa fyrir opnum fundi í Nýheimum þar sem samgönguráðherra, Kristján L. Möller og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra munu flytja stutt erindi og sitja svo fyrir svörum.

Þar vona ég að viðskiptaráðherra muni láta gaminn geisa, eins og hann hefur gert að undanförnu, um vaxtamál og stöðu íslensku krónunnar. Ég held að skuldsettir krónuþrælar á Hornafirði (eins og annars staðar) hefðu gaman að því að hlusta á hann tala um þau mál.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband