Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Stoltenberg - stærsti óvinur Íslands?

Ef núverandi ríkisstjórn skortir þrek og kraft til þess að ljúka IceSave-málinu, sem er skilgetið afkvæmi Sjálfstæðis - og Framsóknarflokks vegna einkavinavæðingarstefnunnar sem byggði á helmingaskiptareglu hrunflokkanna, þá á hún ekkert erindi lengur í stjórnarráðið. Ástæðan fyrir því er sú að ef menn halda áfram að heykjast á því að ljúka þessu ömurlega máli þá er öll sú efnahagsáætlun sem stjórnvöld hafa lagt upp með í samvinnu við AGS í fulkominni upplausn.

Atvinnulífið verður áfram í frosti, fyrirtækin eiga erfitt með að fjármagna sig, áfram verður erfitt að fá erlent fjármagn inn í landið, forsendur fyrir vaxtalækkunum skapast ekki, endurskiplagning bankakerfisins verður áfram í óvissu og allri endurreisninni er teflt í tvísýnu. Þetta er því miður sú mynd sem blasir við okkur í dag en getum ekki tekið á vegna ótta nokkurra þingmanna við það sem kann að gerast eftir sjö ár. Og óábyrgir stjórnarandstöðuþingmenn nýta sér svo þennan ótta og hræra eins og þeir geta í ákvörðunarfælnum þingmönnum VG, sem sprikla eins og strengjabrúður í höndum þeirra.  Mogginn bætir síðan um betur og leggur til að Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur verji minnihlutastjórn Vinstri Grænna falli. Ef Ísland væri málverk þá væri það eftir Dali og ef það væri skáldsaga þá væri höfundurinn Kafka.  

Kannski er ekkert skrýtið að margir sjái engan tilgang í því að klára ICE SAVE málið, sem er nú bara 15% af þeim skuldavanda sem við búum við í dag. Þeir hinir sömu hafa nefnilega komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé nein þörf fyrir samstarfinu við AGS. Meirihluti virðist vera á Alþingi um að hafna beri aðkomu AGS að efnahagsáætlun okkar. Menn virðast hafa fundið betri leið til þess að koma hjólunum aftur undir íslenskt efnahagslíf og eru komnir með alveg nýja áætlun - hefði maður haldið.

Sú áætlun á þó alveg eftir að líta dagsins ljós. Formaður Framsóknarflokksins telur sig þó vera kominn með vilyrði fyrir láni upp á tvö þúsund milljarða frá þingmanni Miðflokksins í Noregi, sem hlaut 6% atkvæða í síðustu kosningum þar í landi, en það á þó eftir að hljóta samþykki annarra flokka í ríkisstjórninni. Við vonum bara það besta.

Reyndar er ég farinn að hallast að því að eini tilgangurinn með ferð framsóknarkappanna til Noregs hafi verið að sýna fram á að norskir kratar beri fyrst og fremst ábyrgð á stöðu Íslands í dag. Ef ekki væri fyrir fjandans hrokann og belginginn í stærsta óvini óvini Íslands, honum Stoltenberg, þá væri Ísland fyrir löngu búið að fá bunch of money frá Norðmönnum án nokkurra skilyrða - þetta segir sig sjálft.

Afstaða Sjálfstæðismanna til AGS er athyglisverð í því ljósi að það voru þeir - í ríkisstjórn með Samfylkingunni - sem töldu aðkomu AGS nauðsynlega til að bjarga því litla sem eftir lifði af trúverðugleika og trausti á íslenskt efnahagslíf. Spurningin sem vaknar við þessa afstöðubreytingu Sjálfstæðismanna hlýtur því að vera sú, hvort íslenskt fjármála - og efnahagslíf hafi eflst svo á þessum tíma að aðkomu AGS sé ekki lengur þörf - að trúverðugleikinn hafi verið endurreistur og að íslenkst fjármálalíf njóti óskoraðs alþjóðlegs trausts á ný. Skýtur það nokkuð skökku við miðað við málflutning þeirra í garð ríkisstjórnarinnar og verka hennar til þess að koma atvinnulífinu í gang á nýjan leik.

Það er orðið mjög mikilvægt að ríkisstjórnin svari kallinu um það hvort hún eigi yfir höfuð erindi í stjórnarráðið. Enn er beðið niðurstöðu með það hvort VG sé í rauninni stjórntækur flokkur. Til þess að svo megi verða verður flokkurinn að leysa úr sínum innanbúðarátökum þannig að hægt sé að einhenda sér í verkin, sem liggja fyrir okkur í dag - t.d. að koma í veg fyrir frekara atvinnuleysi og koma skuldugum heimilum til hjálpar - í stað þess að vera á endalausum veruleikaflótta.

Vandræðagangurinn með ICE SAVE er ekkert nema flótti frá vandamálunum sem blasa við okkur í dag, sem frjálshyggjutilraunir Sjálfstæðisflokksins hafa skilið eftir í fanginu á okkur -vinstri flokkunum - og við verðum einfaldlega að axla þessa ábyrgð - og ljúka málinu.


Óvissan á fjármálaráðstefnu

Eftir að hafa setið fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í vikunni þá má segja að það eina sem menn vita alveg fyrir víst er það að mikil óvissa er í fjármálum hins opinbera - sveitarfélaganna og ríkisins. Annað sem menn voru líka nokkuð sammála um er að sársaukafullir tímar eru framundan í ríkisfjármálunum og hjá sveitarfélögunum.

Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon mættu á ráðstefnuna og fluttu góð erindi. Forsætisráðherra fór mjög vel yfir sviðið hjá sveitarfélögunum og lýsti mjög vel fyrir ráðstefnugestum framtíðarsýn sinni fyrir sveitarfélögin. Skýrt kom fram að hún telur að sveitarfélögin eiga taka mun meiri þátt í samneyslunni en þau gera í dag og nefndi sem dæmi rekstur heilsugæslu, framhaldsskóla og samgöngumála.

Steingrímur fór mjög vel yfir þann vandasama leiðangur sem ríkisstjórnin og Alþingi eiga fyrir höndum í gerð fjárlaga enda markmiðið að loka 87 milljarða gati í fjárlögunum - með skattahækkunum og niðurskurði. Sá niðurskurður mun auðvitað koma mjög niður á sveitarfélögunum víðs vegar um landið.

Eftir vikuna er einnig ljóst að mikil gerjun er í málefnum sveitarfélaganna. Samgönguráðherra og formaður Sambands íslenskra sveitarfélga skrifuðu í vikunni undir viljayfirlýsingu um frekari sameiningar sveitarfélaga. Við það tilefni nefndi samgönguráðherra þann möguleika sveitarfélögin í landinu yrðu 17 talsins að loknu þessu átaki. Formaður sambands íslenksra sveitarfélaga hefur talað fyrir þeirri skoðun að gömlu kjördæmin yrðu eitt sveitarfélag. Það myndi þýða að sveitarfélögin landinu yrðu sennilega rúmlega 10 talsins. Báðar hugmyndir fela í sér róttækar breytingar á því umhverfi sem sveitarfélögunum er búið í dag.

Við þetta er svo að bæta að Samband sveitarfélaga á Austurlandi, SSA, - sem Hornafjörður er ekki lengur aðili að - hefur ákveðið að setja af stað vinnu til þess að kanna kosti þess að öll sveitarfélögin á Austurlandi verði eitt sveitarfélag. Á Vestfjörðum er þessi vinna líka þegar hafin.

Hvað sem öðru líður þá er ljóst að miklar breytingar eru að verða á öllu skipulagi opinberrar þjónustu í landinu. Mikilvægt er að allir sem koma að opinberri þjónustu - bæði hjá sveitarfélögum og ríki - fylgist mjög vel með umræðunni næstu vikur og mánuði.  


Lausn í sjónmáli?

Það er vonandi að fréttir kvöldsins um lausn Icesave málsins í fjárlaganefnd séu á rökum reistar. En reynslan hefur hins vegar sýnt að það getur verið varasamt að fagna of snemma - svikabrigslin hafa oft verið fljót að skjóta upp kollinum.

Það er orðið löngu tímabært að Alþingi afgreiði málið. Mér er það til efs að nokkurt mál í seinni tíð hafi hlotið jafn mikla umfjöllun á vettvangi Alþingis og þetta mál. Töfin er orðin of mikil og það hefur stöðvað endurreisnarstarfið en það er ánægjulegt að það sé að myndast breið pólitísk samstaða á þingi um mikilvægi þess að leiða þetta mál til lykta með því að staðfesta ríkisábyrgðina - þannig að samningarnir haldi.

Fórnarkostnaður af undirskrift samninganna og staðfestingu ríkisábyrgðarinnar er vissulega mikill en við verðum líka að vega og meta afleiðingarnar af aðgerðarleysi og ákvarðanafælni. Þar held ég að atvinnulífið sé undir og síðasti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans sýndi svo ekki verður um villst mikilvægi þess að ljúka málinu sem allra fyrst.

Farsæl lausn þessa ömurlega máls er -hvort sem okkur líkar betur eða verr - grundvallarforsenda fyrir áframhaldandi endurreisnarstarfi. Tafir á því munu einungis halda áfram að valda atvinnulífinu og heimilunum í landinu skaða.


Sárt að vera flokkaður með Talibönum

Þau eru misstór skýlin sem menn þurfa að leita sér skjóls í vegna misgjörða sinna og vondrar samvisku. Kjartan Gunnarsson, fyrrum framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og varaformaður stjórnar Landsbankans, þar sem hann gegndi fyrst og fremst því hlutverki að tryggja gott talsamband á milli banka og flokks, verður að leita sér skjóls í hryðjuverkalögum Bretlands. Það er stórt skýli enda staða hans og samviska afar vond vegna þeirrar stöðu sem þjóðin er í vegna Icesave skuldbindinganna.  

Í grein sinni í Morgunblaðinu í dag kemur í ljós að Kjartani sárnar greinilega að bankinn - og þar með stjórn hans - skuli vera flokkaður með með Al Kaída og Talibönum á hryðjuverkalista Breta. Það er skiljanlegt en Ísland lenti um tíma einnig á listanum.

En fyrrum varaformaður bankastjórnarinnar fellur í þá gryfju að kenna öllum öðrum um stöðu og fall bankans. Allt er þetta Bretunum að kenna og látið er að því liggja að beitingu hryðjuverkalaganna - jafn ógeðfelld og sú aðgerð var - hafi eingöngu verið ætlað að knésetja bankana og Íslendinga. En bresk stjórnvöld töldu sig vera að vernda hagsmuni breskra innistæðueigenda, sem margir hverjir höfðu látið blekkjast af fagurgala Kjartans og félaga - Landsbankamönnum - og lagt peninga sína inn á reikninga hjá honum.

Aðstoð fyrrverandi framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins og varaformanns stjórnar Landsbankans við að ná Íslandi út úr þeim hremmingum, sem hann og hans nánasta pólitíska klíka ber mesta ábyrgð á að koma okkur í, er hér með afþökkuð - kurteislega.


Ákvarðanafælni hjálpar okkur ekki

Eftir að hafa horft á Kastljósþátt kvöldsins sannfærðist ég um að þráhyggja einstakra stjórnarliða um að ná þverpólitískri lausn í Icesave málinu er í raun örvæntingarfull tilraun til þess að losna undan þeirri ábyrgð að ljúka þessu ömurlega máli.

Þverpólitísk lausn eða sátt er eitthvað sem hljómar mjög vel og allir geta fellt sig við - alveg eins hugmyndin um þjóðstjórn - en er í raunveruleikanum ófær leið. Auk þess er það skylda ríkisstjórnarflokkanna - ef þeir vilja láta taka sig alvarlega - að leiða þetta mál til lykta.

Ekki þýðir að varpa ábyrgðinni yfir á stjórnarandstöðuna í óvinsælum málum. Ef ríkisstjórnarflokkarnir, sem hafa drjúgan meirihluta á þingi, geta ekki lokið þessu máli þá veikir það stöðu ríkisstjórnarinnar þannig að erfitt verður fyrir hana að starfa áfram.

Valið er í raun einfalt; annað hvort samþykkir Alþingi ríkisábyrgð vegna þessara skuldbindinga eða ekki. Þverpólitísk lausn, sem hvorkir samþykkir eða hafnar ríkisábyrgðinni, er ekki valkostur fyrir hrædda þingmenn - því miður. Ákvörðun óskast en ekki ákvarðanafælni.


Pólitískar áherslur ollu hruninu

Það er alveg sama með hvaða gleraugum ég les grein Evu Joly; ég fæ ekki séð að þar sé nein sérstök ádeila á núverandi ríkisstjórn vegna Icesave - málsins svokallaða eða ákall um að hafna þeim samningi sem núna liggur á borðinu. Margir vilja líta svo á að greinin sýni fyrst og fremst fram á linkind stjórnvalda í garð "kvalara" okkar - Breta, Hollendinga, ESB og AGS  - en það fæ ég alls ekki séð.

Reyndar finnst mér hún aðallega færa rök fyrir því að þær pólitísku áherslur, sem hafa mótað okkar samfélag og hinna ríkjanna og stofnanir þeirra á síðustu árum og áratugum, hafi stuðlað að alþjóðlegu fjármálakreppunni og haft mest um afdrif Íslands að segja.

Stjórnmálaöflin, sem höfðu þessar pólitísku áherslur að leiðarljósi, lögðu grunninn að hinum frjálsa, óhefta og eftirlitslausa markaðsbúskap sem skapaði hinar erfiðu og fordæmislausu aðstæður í íslensku efnahagslífi svo vitnað sé í þekkt orð. Það voru s.s. rangar pólitískar áherslur - hægri sinnaðar - sem komu Íslandi á vonarvöl, að mati Joly. Enda var Ísland holdgervingur samfélags óhefts markaðsfrelsis, svo vitnað sé beint í greinina.

Rétt er að taka undir þau sjónarmið að óheft markaðsfrelsi, gallað regluverk ESB og annarra, ofsatrúin á markaðaslausnir og græðgisvæðing hafi átt stóran þátt í að koma alþjóðlegum fjármálamörkuðum í mikinn vanda. Sömu undirliggjandi ástæður eru fyrir hruninu á Íslandi. En ekki má heldur gleyma stórkostlegum afglöpum þáverandi stjórnvalda við einkavæðingu ríkisbankanna á sínum tíma og e.t.v. mun það mál koma inn á borð sérstaks saksóknara - ef ekki þá a.m.k. inn á borð rannsóknarnefndar Alþingis.

Nokkur orð um Icesave og sátt við almenning

Enginn vill borga Icesave reikningana enda erfitt að skilja það að almenningur eigi að bera ábyrgð á gölluðu regluverki um fjármálastarfsemi og glæfraspili nokkurra útrásarvíkinga, sem fengu banka úthlutað frá stjórnvöldum til þess að leika sér með - oftast í eigin þágu. En skuldirnar lenda síðan á skattgreiðendum. Engin sanngirni er í þessu og um það eru allir sammála.

En lausn þessarar ömurlegu deilu er - hvort sem okkur líkar betur eða verr - forsenda sáttar við alþjóðasamfélagið og í samstarfi við alþjóðasamfélagið náum við fyrr tökum á efnahagsvandanum en ella. Þess vegna er brýnt að Alþingi ljúki sem fyrst umfjöllun sinni um Icesave samningana svo við getum sem fyrst fengið fjármagn inn í landið og komið hjólunum undir atvinnulífið á nýjan leik.

En af því að tapið af bankahruninu lendir á almenningi - skattgreiðendum - þá er eðlilegt að mikillar reiði gæti í samfélaginu. Stjórnvöld verða að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að leita sátta við almenning - vegna þess að við öxlum byrðarnar. Sú sátt felst m.a. í umfangsmikilli, öflugri og óháðri rannsókn á öllum þáttum hrunsins, þar sem hverjum steini er velt við. Þar leikur umræddur greinarhöfundur stórt hlutverk sem ráðgjafi sérstaks saksóknara. Ef einhverjir af aðalleikendunum á hinu stóra fjármálasviði hafa gerst brotlegir við lög er gríðarlega mikilvægt að stjórnvöld leiti allra leiða svo réttlætið nái fram að ganga. Að öðrum kosti verður ekki sátt í samfélaginu. 

Eftirleikur hinnar alþjóðlegu fjármálakrísu og íslenska bankahrunsins hefur sannað að það er almenningur sem ber hina endanlegu ábyrgð á fjármálakerfinu. Það eru veigamestu rökin fyrir nauðsynlegri og tímabærri endurskoðun og endurmótun laga - og regluverks fyrir fjármálstarfsemina. Þetta finnst mér vera aðalaboðskapurinn í grein Joly en mér finnst margir, sem hafa verið viljugir að túlka greinina, - einkum út frá Icesave málin - hafa svolítið horft framhjá þessum meginboðskap greinarinnar í örvæntingarfullri leit sinni að rökum gegn Icesave samningunum.  

Nú verður að sníða fjármálakerfinu þannig stakk að einstakir fjármálaspekúlantar - útrásarvíkingar - geti ekki leikið sér á markaðnum með óábyrgum hætti en almenningur sé síðan látinn sitja uppi með tapið. Það verður að búa til regluverk sem verndar almannahag en ekki sérhagsmuni fjárglæframannanna. Vonandi tekst Joly að afla skoðunum sínum fylgis á Evrópuþinginu sem og á þjóðþingum aðildarþjóðanna.  

Ef eitthvert ákalla er í greininni - eða brýning - þá felst það í kröfunni um breyttar pólitískar áherslur - vinstri sinnaðar áherslur.


Holdgervingur samfélags óhefts markaðsfrelsis

Á meðan landsmenn skemmta sér á útihátíðum og á ferðalögum um landið þvert og endilangt er um fátt meira rætt þessa Verslunarmannahelgi en glærusýningar úr Kaupþingi og grein Evu Joly um þá lærdóma sem draga má af efnahagshruninu og þá einkum í tengslum við stöðu Íslands.

Í greininni er gengið út frá því að Ísland hafi verið holdgervingur samfélags óhefts markaðsfrelsis, samfélag sem nú sé að hruni komið. Nú er út af fyrir sig engin ástæða til þess að rengja þessa staðhæfingu sérstaklega enda hefur undanfarin ár ríkt hér á landi andrúmsloft andvaraleysis og meðvirkni gagnvart markaðnum - talið var að hin ósýnilega hönd myndi lagfæra það sem miður færi. Glærusýningarnar úr lánabók Kaupþings - hitt stóra málið þessa Verslunarmannahelgi - renna óneitanlega stoðum undir kenningarnar um samfélag óhefts markaðsfrelsis.

En það sem mér finnst athyglisvert við greinina er sú skoðun að þessu samfélagi hafi einhvern veginn verið þröngvað upp á okkur af alþjóðasamfélaginu. Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn eru nefnd til sögunnar í þessu sambandi. Þetta er skýring sem svokallaðir sjálfstæðissinnar í Evrópumálum eiga væntanlega erfitt með að samþykkja, enda eru þeir í óðaönn að telja okkur hinum trú um að standa utan ESB til að vernda sjálfstæði þjóðarinnar. Af þeim sökum geta þeir varla skrifað upp á þá söguskýringu að Evrópusambandið beri ábyrgð á efnahagshruninu. Því er ég sammála.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn kom heldur ekki til sögunnar fyrr en eftir að bankarnir og gjaldmiðillinn hrundu í október, þannig að hann er afleiðing en ekki orsök hrunsins. Þess vegna er erfitt að kenna honum um þá stöðu sem við erum í núna.

Hvað Icesave varðar finnst mér fátt nýtt koma fram. Endurtekin er sama tuggan um að þjóðin muni ekki standa undir skuldbindingunum - án þess að færð séu fyrir því nein sérstök rök. Látið er í veðri vaka eins og Icesave skuldirnar séu einu skuldir ríkissjóðs - að án þeirra væri staðan bara býsna góð. En svo er auðvitað alls ekki. Ríkissjóður þurfti t.d. að taka á sig gríðarlegt tap Seðlabankans vegna ónýtra veðlána til bankanna skömmu fyrir hrun.

Skuldirnar vegna Icesave eru bara hluti af heildarvandanum. Þótt þetta mál hefði aldrei litið dagsins ljós væri vandi okkar ærinn. En margir finna skjól málinu vegna þess að það er þægilegt að geta kennt öðrum um vandann - og þá spillir ekki fyrir ef það eru útlendingar. Á meðan hægt er kenna Bretum og Hollendingum um stöðuna, sem ég efast ekki um að hafi verið óbilgjarnir í samningaviðræðum og beiting hryðjuverkalaganna bresku var sérstaklega ógeðfelld aðgerð, þá komast menn hjá því að ræða heildarmyndina og hinar raunverulegu orsakir hrunsins. Ákveðin öfl hafa náð miklum árangri í að ala óttanum við útlönd og hafa magnað upp einhvern misskilinn þjóðernisrembing í tengslum við þetta leiðinlega mál.

Það sem stendur upp úr í greininni er umræðan um nauðsyn þess að aðþjóðasamfélagið taki á þeim vanda og þeirri spillingu, sem því miður hafa leikið fjármálakerfi heimsins svo grátt á síðustu mánuðum. Vandinn er alþjóðlegur og því verður að taka á honum með samvinnu á milli ríkja og þar - eins og greinarhöfundur, sem jafnframt er þingmaður á Evrópuþinginu, bendir á - mun ESB og stofnanir þess, t.a.m. Evrópuþingið, leika stórt hlutverk.


Lykilorrusta sem skipti engu máli

Í öllum styrjöldum eru háðar nokkrar orrustur sem geyma lykilinn að sigrinum í stríðinu. Í seinni heimsstyrjöldinni var t.d. orrustan um Stalíngrad slík lykilorrusta enda voru úrslit hennar fyrirboði um örlög Nasisma Hitlers í Evrópu.

Andstæðingum Evrópusambandsins á Íslandi er tamt að líta á átökin um Evrópusambandsaðildina sem stríð. Fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins - sá sem kynnti okkur hugtakið "innvígður og innmúraður" - taldi t.a.m. að síðasti landsfundur Sjálfstæðisflokksins yrði lykilorrusta í ESB - málinu. Þeir sem hefðu sigur á þeim fundi yrðu líklegri til þess að standa uppi sem sigurvegarar í ESB - stríðinu. Mér finnst líka eins og fyrrverandi dómsmálaráðherra - sá sem kynnti okkur hugtakið "Baugsmiðlar" - hafi orðað það svo, að engin markverð spor yrðu stigin í Evrópumálum án aðkomu Sjálfstæðisflokksins.  

Eftir landsfund Sjálfstæðisflokksins í mars síðastliðnum - þar sem ræða átrúnaðargoðs þessara tveggja manna vakti reyndar meiri athygli en umræðan um ESB - mátti glöggt greina að andstæðingar ESB töldu sig hafa unnið afgerandi sigur í þessari lykilorrustu. Miðað við spádóma og útreikninga þessara áhrifamanna hefði maður ætlað að örlög ESB umsóknar hefðu verið ráðin þessa dramatísku helgi í Laugardalshöllinni.

Þess vegna hefur það auðvitað komið mörgum á óvart, sem mark tóku á þessum áhrifamiklu mönnum, að ekkert af þessu hefur gengið eftir. Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu og utanríkisráðherrar ESB samþykktu - samhljóða - á fundi sínum fyrir skemmstu að vísa umsókn Íslands til framkvæmdastjórnar ESB. Allt þetta hefur gerst án aðkomu Sjálfstæðisflokksins - fyrir utan tvær þingkonur flokksins, sem ákváðu að láta hagsmuni flokksins víkja fyrir hagsmunum þjóðarinnar í þessu máli.

Mesta höggið fyrir marga Sjálfstæðismenn er auðvitað sú staðreynd að þetta stóra og mikilvæga skref í mótun utanríkisstefnu Íslendinga hafi verið tekið án þess að þeir hafi nokkuð komið nálægt því. Sérstaklega á þetta við um þann arm flokksins sem er hallur undir frekari alþjóðlega samvinnu og telur að efnahagstilraun okkar með örmynt í ólgusjó alþjóðlegra fjármála hafi brugðist. Hinn hópurinn, sem einfaldlega er á móti öllu er varðar ESB, telur þessa staðreynd auðvitað litlu skipta.

Yfirherráð ESB - andstæðinga Sjálfstæðisflokksins virðist því hafa misreiknað sig verulega þegar það lá yfir stríðskortunum í aðdraganda landsfundar - lykilorrustunni - örlagaveturinn mikla 2008 - 2009. Baráttan var til lítils og margir lágu í valnum að óþörfu.


Vilja Alþingis frestað?

Stjórnskipun Íslands byggir á því að ríkisstjórn sækir umboð sitt til Alþingis. Alþingismenn sækja hins vegar umboð sitt beint til kjósenda. Það er því ríkisstjórnarinnar að framfylgja vilja Alþingis.

Nú hefur verið samþykkt á Alþingi að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Sú ákvörðun er algerlega óháð öðrum málum sem verið er að ræða nú um stundir á þinginu - m.a. annars lausn Icesave deilunnar.

Nú bregður svo við að einn ráðherra ríkisstjórnarinnar vill hunsa vilja Alþingis. Hann vill fresta aðildarviðræðum vegna þess að hann tengir umsóknina við lausn Icesave deilunnar. Í ályktun Alþingis kemur hvergi fram að bíða skuli með umsóknina þar til önnur snúin mál hafi verið leyst.

Þess vegna kemur afstaða ráherrans á óvart og hlýtur að gera setu hans við ríkisstjórnarborðið snúna. Hann hlaut að átta sig á því þegar hann tók sæti í þessari ríkisstjórn að þessi staða gæti komið upp - að sótt yrði um aðild - vegna þess að ríksstjórnarsáttmálinn er mjög skýr í þess efni.

Hafi ráðherrann haft uppi efasemdir um vilja sinn til þess að framfylgja ákvörðunum þjóðþingsins í þessu mál þá hefði hann aldrei átt að taka sæti við ríkisstjórnarborðið. 

En kannski ætti þetta ekkert að koma á óvart frá manni sem samþykkir að taka sæti í ríkisstjórn, sem byggir sitt samstarf m.a. á því - skv. stjórnarsáttmálanum - að leggja fram þingsályktunartillögu um aðildarumsókn að ESB, en kýs svo gegn tillögu sinnar eigin ríkisstjórnar þegar á hólminn er komið. Ummæli hans í dag eru því kannski bara rökrétt framhald af vitleysunni.


Svipurnar dregnar fram

Í ESB umræðunni er vandfundin sú skoðun sem formaður Sjálfstæðisflokksins hefur ekki haft á þeim málum frá því í nóvember og þar til nú.

Því er varaformanni flokksins nokkur vorkunn og töluverður vandi á höndum eigi hún að geta gengið í takt við formanninn. Hún - eins og aðrir landsmenn - var orðin ringluð á því að vakta skoðanir formannsins frá degi til dags.

Á miðstjórnarfundi flokksins í dag tóku menn því fram svipurnar og handjárnin og létu varaformanninn finna fyrir því.

Sá sem hafði mesta ánægju af því að handleika svipuna var fyrrverandi framkvæmdastjóri flokksins og fyrrverandi varaformaður bankastjórnar Landsbankans.

Sjálfstæðisflokkurinn hættir ekki að koma á óvart.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband