Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

4.600 börn búa við fátækt - verkefni fyrir jafnaðarmenn

Fátækt er þjóðfélagsmein. Skv. nýjustu upplýsingum er ljóst að fátækt er stórt vandamál hér á landi. 4.600 börn búa við fátækt á Íslandi.

Stjórnvöld hrósa sér gjarnan á því að hér hafi verið viðvarandi hagvöxtur og góðæri. Greinilegt er að sá uppgangur hefur ekki verið ætlaður öllum. Börn á Íslandi sem búa við fátækt bera því vitni.

Sú hægri stjórn sem hér hefur stjórnað undanfarin þrjú kjörtímabil hefur kerfisbundið aukið ójöfnuðinn í samfélaginu. Það er skýrt verkefni jafnaðarmanna í næstu ríkisstjórn að stýra þjóðfélaginu af braut miskiptingar, ójöfnuðar og gegndarlausrar frjálshyggju. Þessi börn sem um er rætt hafa tapað á ríkisstjórn Framsóknar og Íhaldsins. Það á verða forgangsverkefni Samfylkingarinnar í næstu ríkisstjórn að rétta hag þessara barna og fjölskyldna þeirra. Jafnaðarmenn geta aldrei sætt sig við svona ástand og svona meðferð á fólki sem þarf að sitja á hliðarlínunni á meðan aðrir bruna fram völlinn með vasana fulla af peningum.  

Komið hefur fram að á Íslandi búa hlutfallslega mun fleiri börn við fátækt en á hinum Norðurlöndunum.

Ríkisstjórnin hefur ekkert gert til þess að rétta hag þessa fólks en hún hefur hins vegar hugsað vel um þá sem sitja hvað glaðastir við allsnægtaborðið. Eða hvað varð um hátekjuskattinn?


Bæjarráð ályktar um verslunarmál

Bæjarráð Hornafjarðar samþykkti einróma á fundi sínum í dag eftirfarandi bókun um stöðu verslunarmála í sveitarfélaginu:

Bæjarráð bendir á að núverandi ástand skaðar samfélagið. Íbúum svæðisins er haldið í algerri óvissu um framhaldið og mikilvægt er að þeir aðilar sem bera ábyrgð á þessari atburðarás skýri sjónarmið sín og fyrirætlanir og axli ábyrgð gagnvart samfélaginu sem þeir starfa í.

Núverandi ástand verslunarmála er óviðunandi og það er mjög mikilvægt að óvissu um framtíð þessara mála verði aflétt sem allra fyrst. Allir þeir sem aðkomu eiga að þessum málum verða að gera sér grein fyrir þeirri samfélagslegu ábyrgð sem þeir bera. Þeir sem tapa mest á því ástandi sem nú er uppi eru íbúar sveitarfélagsins.


Glæsilegur framboðslisti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi

Kjördæmisþing Samfylkingarinnar samþykkti í gær tillögu kjördæmisstjórnar að framboðslista Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi.

Óhætt er að segja að þar sé valinn maður í hverju rúmi. Björgvin G. Sigurðsson, alþingismaður leiðir listann eftir glæsilegan sigur í prófkjöri. Á eftir honum kemur þrautreyndur þingmaður, Lúðvík Bergvinsson. Í 3. sæti situr svo nýr maður, Róbert Marshall sem hlaut góða kosningu í prófkjörinu 4. nóvember.

Þegar Ragnheiður Hergeirsdóttir varð bæjarstjóri í Árborg eftir að Framsókn gafst upp á Íhaldinu gaf hún frá sér 4. sætið á listanum. Í stað hennar kemur öflugur fulltrúi Samfylkingarfólks af Suðurnesjum, Guðný Hrund Karlsdóttir. 5. sætið vermir svo Guðrún Erlingsdóttir, verkalýðsforingi úr Eyjum sem náði frábærum árangri í prófkjörinu.

Samfylkingin er með fjóra þingmenn í kjördæminu og stefnan er að sjálfsögðu sett á það að halda okkar þingmannafjölda og helst að bæta við. Þessi listi er svo sannarlega líklegur til þess.


mbl.is Framboðslisti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Göng undir Lónsheiði

Bæjarráð Sveitarfélagsins Hornafjarðar samþykkti á fundi sínum í dag eftirfarandi bókun sem Björn Ingi Jónsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram:

Bæjarráð Hornafjarðar vill beina þeim tilmælum til samgönguráðherra og samgöngunefndar Alþingis að í stað þess að ætla 200 milljónir króna til lagfæringar á veginum um Hvalnes- og Þvottárskriður, eins og nú er áætlað í Samgönguáætlun, þá verði þeir fjármunir notaðir til að hefja undirbúning á gerð jarðgangna undir Lónsheiði. Þjóðvegur 1 um skriðurnar er stórvarasamur og öllum ljóst að ekki er um framtíðarvegstæði að ræða  með öllu því grjóthruni og skriðuföllum sem þar eru. Einnig er Hvaldalur  þekkt veðravíti. Mikilvægt er að sem fyrst verði unnið að framtíðarlausn á þessum vegkafla.

Í þau skipti sem Íhaldið leggur fram góð og mikilvæg mál með málefnalegum hætti líkt og gert var í dag er sjálfsagt og eðlilegt að styðja við bakið á þeim málum.


Innflytjendamálin

Umræðan um innflytjendur og erlent vinnuafl hefur verið áberandi undanafarnar vikur. Sérstaklega fór varaformaður Frjálslynda flokksins hamförum í þeirri umræðu. Síðan þá hefur komið í ljós að djúpstæður ágreiningur er innan Frjálslynda flokksins um þessi mál og er uppsögn Margrétar Sverrisdóttur sem framkvæmdastjóra flokksins sterk vísbending um þann ágreining. Greinilegt er að hún fellur sig ekki við málflutning varaformannsins. Margrét hefur rætt um að bjóða sig annað hvort fram í varaformanninn eða formanninn á landsfundi Frjálslyndra í janúar. Efast ég ekki um að hún geti náð góðum árangri í þeirri baráttu enda öflugur frambjóðandi.

Umræðan um málefni innflytjenda og erlendra verkamanna hefur ekki verið í nógu góðum farvegi að undanförnu að mínu mati. Mér finnst ekki hafa verið gerður nægjanlegur greinarmunur á því þegar verið er að tala um erlent vinnuaafl annrs vegar og innflytjendur sem setjast hér að hins vegar. Erlendir verkamenn sem eru hingað komnir stoppa hér á meðan þeir hafa vinnu. Um leið og þeirri vinnu lýkur eru þeir farnir aftur og þeir leita að vinnu annars staðar í veröldinni. Sú mikla þensla sem er til staðar í þjóðarbúskapnum um þessar mundir er ástæða þess að fjöldi erlendra verkamanna með hærra móti. Það er þensla sem er fyrst og fremst tilkomin vegna aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar í virkjana - og stóriðjumálum. Að sjálfsögðu skapast alltaf einhver vandamál með svo mikla fjölgun fólks á skömmum tíma, það segir sig sjálft. Mikil ábyrgð hvílir á herðum atvinnurekendum í landinu að sjá til þess að verkamönnunum líði vel á meðan þeir vinna á Íslandi við framandi aðstæður og að þeir njóti fullra réttinda. Verkalýðshreyfingin hefur staðið sig vel í að fylgjast með að réttindi mannanna séu virt og hafa komið með fjöldann allan af ábendingum um það sem betur mætti fara. Starfsemi vinnuleiga er dæmi um mál sem verkalýðshreyfingin hefur sem betur fer komið á dagskrá. Ríkisstjórnin vildi lengi vel ekki hlusta á athugasemdir verkalýðshreyfingarinnar og barði hausnum í steininn líkt og hún svo gjarnan gerir. Ekki gekk að trufla fyrirtækin sem voru að vinna svo þörf verk að mati ríkisstjórnarinnar með smámálum eins og réttindum erlendra starfsmanna.

Í mínum huga þurfum við að skoða málefni innflytjenda sem koma til landsins og vilja setjast hér að með dálítið öðrum hætti. Það er skylda okkar að taka vel á móti þessu fólki og gera það virkt í því samfélagi sem við höfum byggt upp. Til þess að geta gert það er mikilvægt að fólkið fái góða, markvissa og uppbyggilega íslenskukennslu vegna þess að án tungumálsins kemstu lítt áleiðis í þjóðfélaginu.

Hornafjörður er gott dæmi um sveitarfélag þar sem fjöldi fólks af erlendu bergi brotið sest að og vinnur ýmis verkamannastörf sem Íslendingar fást ekki lengur í. Í fámennu sveitarfélagi er það okkur sem þar búum beinlínis lífsnauðsynlegt að þetta fólk verði virkir þátttakendur í samfélaginu og upplifi sig sem hluta af því. Við megum ekki við því að svo stór hluti af mannauðnum í samfélaginu sitji á hliðarlínunni og taki ekki þátt. Ef við ætlum að halda áfram að efla okkur í menningar, - íþrótta - og æskulýðsmálum verðum við einfaldlega að fá þennan þjóðfélagshóp með okkur í lið. Til þess að það geti gengið eftir verðum við að styðja við bakið á fólkinu svo það geti lært tungumálið. Þar þurfa allir að koma að málum; atvinnulífið, hið opinbera og menntastofnanir í landinu.  


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband