Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Í erfiðleikum með Evru

Magnað var að fylgjast með Geir H. Haarde, forsætisráðherra fjalla um hugsanlega upptöku Evrunnar í sjónvarpinu fyrir skemmstu. Hann taldi það óráðlegt að taka upp Evruna en færði í raun engin rök fyrir þeirri afstöðu sinni.

Einnig blés hann á það að ósætti væri innan ríkisstjórnarinnar í Evrumálum. Þó liggur það ljóst fyrir að Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra hefur talað mjög á þeim nótum að skynsamlegt væri að taka upp Evruna. Fleiri framsóknarmenn hafa talað á þessum nótum á undanförnum árum. Íhaldið heldur hins vegar fast í þá afstöðu sína sem þeir hafa gert að listgrein á undanförnum árum, þ.e. að stinga höfðinu í sandinn og svara út í hött.

Forsætisráðherrann kórónaði síðan allt saman þegar lýsti þeirri skoðun sinni að það væri í raun bara Samfylkingarfólk sem gæti talað krónuna niður en ekki Framsóknarfólk. Ekki var hægt að skilja orð hans öðruvísi þegar fréttamaður spurði hann hvort hann væri að beina orðum sínum til Framsókarmanna sem töluðu um upptöku Evrunnar. Hann var nú aldeilis ekki að því heldur var hann að tala um Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, formann Samfylkingarinnar. Hún ein hefði talað krónuna niður og var því sek um óábyrgt hjal. Það var einmitt það!!!

Er hægt að bjóða fóki upp á svona umræðu?


Heilbrigðisráðherra í heimsókn

Siv Friðleifsdóttir, heilbrigðisráðherra, heimsótti Heilbrigðisstofnun Suðausturlands í dag. Hún heilsaði upp á starfsmenn og kynnti sér starfsemina. Einnig notaði hún tækifærið til þess að undirrita samning við Heilbrigðisstofnunina um aukna geðheilbrigðisþjónustu fyrir börn og unglinga í Austur - Skaftafellssýslu. Samningurinn færir stofnuninni tvær milljónir á næstu tveimur árum til þess að standa straum af verkefninu. Sannarlega þarft verkefni þar á ferðinni.

Ráðherra notaði heimsóknina líka til þess að skoða og vígja formlega ný röntgentæki sem búið er að taka í notkun á heilsugæslunni. Tækin eru að langmestu leyti kostuð af einstkalingum og fyrirtækjum hér í samfélaginu. Óhætt er að segja að einstaklingar og fyrirtæki hafi brugðist vel við því þegar kallið kom um að endurnýja tækin því um verðmæt tæki er að ræða. Í máli starfsmanna kom fram að um algjöra byltingu væri að ræða fyrir starfsemina á heilsugæslunni.

Ýtt á eftir þjónustusamningi

Heilbrigðis - og öldrunarráð Hornafjarðar notaði einnig tækifærið til þess að ræða við ráðherra um endurnýjun á þjónustusamningi á milli ráðuneytisins og sveitarfélagsins um fyrirkomulag heilbrigðis - og öldrunarþjónustu í Austur - Skaftafellssýslu. Samningur við ráðuneytið rann út um áramót. Við lögðum á það mikla áherslu að sveitarfélagið vil halda áfram að vinna að verkefninu. Í raun teljum við engin rök fyrir því að ríkið aftur við rekstri heilbrigðis - og öldrunarþjónustunnar í sýslunni. Þvert á móti teljum við að hér hafi verið unnið gott og metnaðarfullt starf á síðustu árum. Á síðustu árum hefur verið unnið markvisst að því að framfylgja þeirri stefnu í öldrunarþjónustu sem Siv Friðleifsdóttir hefur markað sem heilbrigðisráðherra, þ.e. að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði.

Við höfum lagt á það ríka áherslu að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði og það höfum við gert með því að efla og styrkja með markvissum hætti heimahjúkrun og hvíldarinnlagnir. Með því móti hefur okkur tekist að fækka umtalsvert í langlegu. Þetta er árangur sem við teljum nær öruggt að hefði ekki náðst nema vegna þess að sveitarfélagið hefur stýrt verkefninu og hefur getað lagað þjónustuna að staðbundnum aðstæðum. Þetta er kjarni málsins og þess vegna á ráðuneytið að endurnýja samninginn við okkur.

Þriggja lækna hérað og heimahjúkrun

Í viðræðum okkar við ráðuneytið leggjum við á það ríka áherslu að áfram verði litið á Austur-Skaftafellssýslu sem þriggja lækna hérað. Svæðið er mjög einangrað landfræðilega og læknisfræðilega. Langt er í næstu heilbrigðisþjónustu og spítala. Sjúkraflug á um mjög langan veg að fara. Einnig er vaktaálag mikið á læknum nú þegar og ef einungis væri um tvær læknastöður að ræða myndi það versna enn frekar. Heilbrigðis - og öldrunarráð telur einfaldlega að þrjár læknastöður séu grundvöllur mannsæmandi heilbrigðisþjónustu í Sveitarfélaginu Hornafirði. E.t.v. er nauðsynlegt að taka það fram fyrir þá sem ekki vita að sveitarfélagið nær yfir alla Austur-Skaftafellssýlu.

Einnig leggjum við mikla áherslu á að tekið verði sérstakt tillit til stóraukinnar heimahjúkrunar á svæðinu. En við erum ekki hætt á þeirri vegferð. Við viljum halda áfram að auka þátt heimahjúkrunar í starfsemi Heilbrigðisstofnunarinnar og til þess þurfum við aukið fjármagn. Þannig getum við haldið áfram á þeirri leið að vinna eftir stefnumörkun núverandi heilbrigðisráðherra í öldrunarþjónustu, þ.e. að gera öldruðum kleift að búa sem lengst í eigin húsnæði.


Sammála eða ósammála

Eru allir í Samfylkingunni í Hafnarfirði sammála um stækkun álversins í Straumsvík?

Þessa spuriningu lagði aðstoðarmaður borgarstjóra fyrir Össur Skarphéðinsson í silfrinu í dag. Þetta sýnir svo ekki verður um villst á hvers lags villigötum íslensk pólitík er. Krafa flokksmanna annarra stjórnmálaflokka um allir í Samfylkingunni séu sammála um ákveðin málefni er alltaf til staðar í öllum málum. Ekki eru sömu kröfur til annarra flokka varðandi samræmingu skoðana. Nema þar sé um að ræða svo einsleitar hjarðir að þar séu allir sammála um alla skapaða hluti.   

Það er beinlínis fjarstæðukennt að ætla nokkrum flokki það að allir séu sammála um jafn stórt mál og stækkun álvers í Straumsvík nema e.t.v. Vinstri Grænum. Þetta er eitthvað sem Samfylkingin í Hafnarfirði hefur áttað sig á og ætlar að eftirláta íbúum Hafnarfjarðar það að ákveða hvort af stækkun álvers verður. Samfylkingin er lýðræðisflokkur og þess vegna ákveður hún að fara þessa leið.

Ég er ekki nokkrum vafa um það að innan Sjálfstæðisflokksins eru skiptar skoðanir um stækkun álversins. Skárra væri það nú í stórum og öflugum stjórnmálaflokki. Ekki ætla ég þeim að vera svo einsleit og skoðanalaus hjörð að þeir skiptist ekki skoðunum um þetta stóra mál.

En eitt geta allif flokkar sameinast um og það er að reyna að gera Samfylkinguna ótrúverðuga. Það er eitthvað sem Vinstri Grænir, Íhaldið og Framsókn geta verið sammála um að gera. Því ekkert hræðast þessi stjórnmálaöfl jafn mikið og stóran og öflugan jafnaðarmannaflokk.  


Ætlar VG að framlengja líftíma Íhaldsins í ríkisstjórn?

Það er ljóst af umræðum síðustu daga að kosningar eru í nánd. Mikið er rætt um það þessa dagana að kaffilbandalagið svokallaða hafi ekki haldið velli í Kryddsíldinni á gamlársdag.

Gaman var að fylgjast með viðbrögðum Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri grænna þegar kom að umræðum um forsætisráðherrastólinn að loknum kosningum. Engu var líkara en að hann mætti ekki heyra á það minnst að formaður Samfylkingarinnar gæti e.t.v. sest í þann stól að loknum kosningum. Hann taldi það af og frá að það væri eðlilegt að forsætisráðherrann félli stærsta flokknum í skaut í hugsanlegu samstarfi kaffibandalagsins að loknum kosningum. Síðan fór hann út og suður með það hvernig væri hægt að túlka vilja kjósenda.

Það var líka gaman að fylgjast með formanni "eina alvöru feministaflokksins" afneita möguleikanum á því að tilnefna Inigibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem forsætisráðherraefni stjórnarandstöðuflokkanna. Með þeim hætti hefði Steingrímur J. Sigfússon getað gefið kjósendum skýran valkost í kosningunum í vor eins og hann stærir sig gjarnan af því að gera. En hann kaus að hafna þessu frábæra tækifæri sem feminstum hefur ekki hlotnast oft á undanförnum árum, þ.e. að leiða konu til öndvegis í íslenskum stjórnmálum. Ekki furða þó ekki hafi verið hægt að mynda formlegt kosningabandalag stjórnarandstöðuflokkanna að norskri fyrirmynd ef Vinstri Grænir hafa ekki viljað hafa skýrari línur en þetta.

Það er líka greinilegt á skrifum þeirra Múrverja, þar sem m.a. varaformaður flokksins Katrín Jakobsdóttir skrifar reglulega, að á þeim bænum eru menn svo sannarlega ekki fráhverfir því að VG myndi ríkisstjórn með Íhaldinu. Reyndar virðist Ármann Jakobsson í nýlegum pistli sínum ganga svo langt að aldei verði mögulegt að mynda tveggja flokka stjórn án fulltingis Íhaldsins. Hann gengur jafnvel svo langt að segja að hljóti VG meira en 15% fylgi sé það nánast skylda Íhaldsins að velja VG með sér sem hækju á næsta kjörtímabili í stað Framsóknar. Þetta þykir mér grátleg afstaða.

Það er vonandi að Vinstir Grænir fari að sjá að sér og leggist nú frekar á eitt með Samfylkingunni og stjórnarandstöðunni allri til þess að fella þessa ríkisstjórn og gefa Íhaldinu löngu tímabært frí frá ríkisstjórnarsetu. Þjóðin á betra skilið.


Þjóðvegur 1 ófær

Þessi frétt minnir á færslu mína hér fyrir nokkrum dögum um bókun bæjarráðs varðandi Hvalnes - og þvottárskrkiður. Í þeirri bókun beindum við þeirri skoðun okkar til vegamálayfirvalda í landinu að eina raunhæfa lausnin á þessum vegarkafla til framtíðar væru göng undir Lónsheiði.

Hægt er sjá mynd af því grjóti sem reglulega fellur á veginn í þessari frétt af vefsíðunni www.horn.is.

http://www.horn.is/n_nanar.php?ID=2954

Þetta sýnir svo ekki verður um villst að það á að skoða göng undir Lónsheiði sem raunverulegan kost til framtíðar sem allra fyrst. Það er öllum landsmönnum mikilvægt að öryggi á þjóðvegi 1 sé eins og best verður á kosið.


mbl.is Ófært í Þvottárskriðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið hraði vinnu sinni

Á fundi sínum í dag hvatti Heilbrigðis - og öldrunarráð Hornafjarðar Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytið að hraða vinnu sinni í tengslum við endurnýjun á þjónustusamningi við Sveitarfélagið á rekstri Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands. Samningurinn um rekstur stofnunarinnar rennur út núna um áramótin. Starfsmenn sveitarfélagsins lögðu á fundi í ráðuneytinu fram kröfur sveitarfélagsins og rökstuðning fyrir þeim. Sá fundur fór fram miðvikudaginn 15. nóvember.

Ekkert hefur heyrst frá ráðuneytinu síðan þá. Það er von okkar í Heilbrigðis - og öldrunarráði að sá langi tími sem liðinn er frá síðasta fundi sé ávísun á vönduð vinnubrögð ráðuneytisfólks. Mikilvægt er að aflétta allri óvissu sem ríkir um rekstur stofnunarinnar sem allra fyrst.

Það er ljóst að sveitarfélagið leggur mikla áherslu á það að halda verkefninu heima í héraði vegna þess að það telur sig geta unnið verkið mun betur en ríkið. Það hafa heimamenn líka sannað. Fækkað hefur í langlegu, þáttur heimahjúkrunar  og heimaþjónustu hefur aukist í takt við stefnu þeirra sem nú ráða ríkjum í Heilbrigðis - og tryggingamálaráðuneytinu. Við höfum stuðlað að því að aldraðir eiga kost á því að búa sem lengst í heimahúsi. Við förum fram á það að tekið sé tillit til þessa árangurs okkar í nýjum samningi.

Heilbrigðis - og öldrunarráð lýsti líka yfir fullum stuðningi við þau samningsmarkmið sem samþykkt voru á fundi ráðsins 14. nóvember síðastliðinn. Ekkert hafi komið fram sem segi að við eigum að breyta þeim á einn eða annan hátt.


Bæjarráð fagnar ákvörðun Skinneyjar - Þinganess

Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í kvöld samhljóða bókun sem ég lagði fram um ákvörðun stjórnar Skinneyjar - Þinganess um að koma að byggingu knattspyrnuhúss. Í bókuninni fagnar bæjarráð eindregið þessari ákvörðun og þakkar viðkomandi aðilum fyrir aðkomuna að þessum málum. Ljóst er að um verður að ræða lyftistöng fyrir allt íþróttalíf á Hornafirði. Fyrirmyndin að húsinu er Risinn sem FH ingar reistu nýverið í Kaplakrika og hefur reynst þeim afar vel.

En annars hljóðar bókunin svona:

Bæjarráð Hornafjarðar þakkar og  fagnar því að stjórn Skinneyjar – Þinganess hefur lýst yfir vilja til þess að koma að uppbyggingu mannvirkja sem efla samfélagið enn frekar. Í bréfi frá fyrirtækinu, dags. 15. des. 2006, kemur fram að sú hugmynd hafi kviknað í framhaldi af heimsókn stjórnar USÚ, að Skinney – Þinganes og Sveitarfélagið Hornafjörður tækju höndum saman um að reisa knattspyrnuhús í líkingu við það hús sem byggt var upp í Kaplakrika í Hafnarfirði. Það er sérstakt ánægjuefni þegar einkafyrirtæki og opinberir aðilar taka höndum saman um verkefni líkt og þetta með það að markmiði að bæta og styrkja samfélagið. Ekki þarf að efast um það að hér er komin lausn til framtíðar fyrir allt íþróttalíf á Hornafirði. Knattspyrnumenn fá tækifæri til þess að æfa við bestu hugsanlegu aðstæður allt árið um kring. Aðrar íþróttagreinar munu einnig njóta góðs af þessari framkvæmd þar sem tímum í íþróttahúsinu fyrir aðrar íþróttgreinar mun fjölga með tilkomu knattspyrnuhússins.

 


mbl.is Skinney-Þinganes styrkir byggingu knattspyrnuhúss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Höfðingleg gjöf til íþróttalífs á Hornafirði

Föstudaginn 15. desember afhenti Gunnar Ásgeirsson, stjórnarformaður Skinneyjar - Þinganess mér bréf þar sem stjórn fyrirtækisins lýsir yfir vilja til þess að koma að byggingu nýs knattspyrnuhúss á Hornafirði. Í tengslum við 60 ára afmæli fyrirtækisins hefur stjórnin velt því fyrir sér hvernig hægt væri að minnast tímamótanna í samfélaginu. Þegar stjórn USÚ heimsótti framkvæmdastjórann fyrir skömmu og leitaði eftir styrk til uppbyggingar íþróttamannvirkja komst fyrst skriður á málið.

Meirihlutinn í bæjarráði hefur rætt það á síðustu vikum að besta lausnin til framtíðar litið í íþróttalífi Hornfirðinga væri sú að byggja knattspyrnuhús svipað Risanum í Kaplakrika. Þannig getum við byggt upp glæsilega aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir án þess skerða æfingasvæði knattspyrnumanna og við opnum einnig íþróttahúsið okkar upp á gátt fyrir aðrar íþróttagreinar yfir vetrartímann.

Peningaupphæðin sem Skinney - Þinganes ætlar sér að leggja til framkvæmdanna er svo sannarlega höfðingleg eða 60 milljónir króna. Upphæðin felur í sér að lögð er fram 1 milljón fyrir hvert starfsár fyrirtækisins.

Það er alltaf gaman þegar einkafyrirtæki og opinberir aðilar geta tekið höndum saman um verkefni eins og þetta til þess að bæta og styrkja samfélagið.


Góður borgarafundur í Nýheimum

Í gærkvöldi var haldinn borgarafundur í Nýheimum þar sem bæjarbúar fengu kynningu á fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár. Bæjarstjóri, Hjalti Þór Vignisson veitti bæjarbúum góða innsýn inn í það hver helstu markmið okkar verða á næsta ári í fjárhagsáætluninni. Gaman var að sjá hversu margir sáu sér fært að mæta á fundinn. Það sýnir vel að fólki er umhugað um framtíð sveitarfélagsins.

Að lokinni kynningu tók Stefán Ólafsson, framkvæmdastjóri fræðslu - og félagssviðs við fundarstjórninni og bæjarráð sat ásamt bæjarstjóra fyrir svörum um öll þau mál sem fundarmenn vildu ræða sérstaklega. Rétt er að geta þess að í bæjarráði sitja; Reynir Arnarson fyrir Framsóknarflokkinn, Björn Ingi Jónsson fyrir Sjálfstæðisflokkinn og svo ég sjálfur fyrir Samfylkinguna.

Líflegar umræður sköpuðust um hin ýmsu mál á fundinum og voru umræðurnar mjög málefnalegar. Greinilegt var þó að fundarmenn höfðu mikinn áhuga á þeim miklu framkvæmdum sem framundan eru á næsta ári er varða uppbyggingu íþróttamannavirkja. Þar er um að ræða nýja sundlaug, aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir auk uppbyggingar nýs grasvallar á Sindravöllum. Fundarmenn og bæjarbúar almennt hafa mikinn áhuga á þessum málum og hafa mikinn metnað fyrir hönd sveitarfélagsins.

Á fundinum kom fram að allar líkur eru á því að ekki verði hægt að synda í nýrri sundlaug á Unglingalandsmóti UMFÍ sem haldið verður á Hornafirði um næstu verslunarmannahelgi. Sig á jarðvegspúða hefur reynst okkur erfitt og skv. nýjustu mælingum sígur púðinn enn. Ég held að allir harmi það að ekki verður hægt að vígja mannvirkið á landsmótinu í sumar.

Mér finnst þó aðalatriðið vera það að við erum að byggja glæsilegt sundlaugarmannvirki til framtíðar fyrir íbúa sveitarfélagsins. Ekki má heldur gleyma því að ný sundlaug hækkar þjónustustigið mjög mikið hér í sveitarfélaginu og kemur til með að nýtast ferðaþjónustunni. Mikilvægast er að við horfum til framtíðar og byggjum mannvirki sem við getum verið stolt af og þjónar öllum almenningi í sveitarfélaginu án þess að sliga rekstur þess.

Lóðarmál voru líka mikið til umræðu. Kom fram í máli bæjarráðsmanna að þau mál verða skoðuð sérstaklega á þessu kjörtímabili. Menn eru sammála um að tími sé til kominn að enduskoða lóðaframboð gaumgæfilega. Fram hefur komið að e.t.v. sé skortur á góðum einbýlishúsalóðum. Það er er eitthvað sem verður að skoða.

Auðvitað voru mörg önnur mál rædd á fundinum eins og samgöngumál, þ.e. hringvegur um Hornafjarðarfljót og göng undir Lónsheiði og eflaust hefði verið hægt að halda áfram með fundinn fram á rauða nótt. En Stefán sleit fundi laust fyrir hálf ellefu og fólk gekk glatt út í nóttina.

 


Borgin vs olíufélögin - dómur kveðinn upp í dag

Það verður gaman að sjá hvernig málaferli borgarinnar gegn olíufélögunum fara í dag. Olíufélögin halda því fram að borginni hafi ekki tekist að sýna fram á að borgin hafi farið halloka í samningum sínum við olíufélögin.

Ég held að það sé sé fullljóst að samráð átti sér stað á milli olíufélaganna en málsvörn þeirra virðist byggjast á því að borgin hafi þrátt fyrir það ekki tapað á viðskiptunum.

Þá fer nú spurningin að verða sú hvort það er nokkuð nauðsynlegt að hafa lög gegn samráði fyrirtækja á markaði ef enginn tapar á því. Menn ætla kannski að fara halda því fram að við höfum öll e.t.v. grætt á samráði olíufélaganna.


mbl.is Dæmt í skaðabótamálum borgarinnar gegn olíufélögunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband