Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
31.8.2010 | 08:55
Skólamál - fyrirspurn á bæjarstjórnarfundi
Í kosningabaráttu síðustu sveitarstjórnarkosninga var töluvert rætt um stöðu og skipulag skólamála á Hornafirði. Með skólamálum er hér átt við starf og starfsemi bæði í leik - og grunnskóla. Grunnskólar sveitarfélagsins - að undanskildum skólanum í Hofgarði í Öræfum - voru sameinaðir undir eina yfirstjórn og starfsstöðvum hans fækkað um eina. Hins vegar eru reknir tveir heildstæðir og aðskildir leikskólar í sveitarfélaginu í kjölfar ákvörðunar sem tekin var af bæjarstjórn undir lok þarsíðasta kjörtímabils, þ.e. 2002 - 2006.
Staða grunnskólans var mikið rædd út frá þeim skipulagsbreytingum sem gerðar voru á honum á sl. kjörtímabili. Almennt má segja að þær breytingar hafi heppnast vel, verið til framfara fyrir grunnskólann og að almenn sátt ríki um skipulagsbreytingarnar. Unnið var að breytingunum í nánu samstarfi við hagsmunaaðila; foreldra, stjórnendur, starfsmenn og nemendur.
Um leikskólann var umræðan hins vegar á þeim nótum um hvort komið væri að þeim tímapunkti að farið yrði í endurskoðun á þeirri stefnu sem tekin var fyrir rúmum fjórum árum á skipulagi leikskólamála. Margir töldu það nauðsynlegt, bæði vegna þess að ekki var einhugur í bæjarstjórn um ákvörðunina á sínum tíma og vegna þess hvernig var að henni staðið (ákvörðun tekin á síðast fundi fráfarandi bæjarstjórnar að afloknum kosningum), að gera sem fyrst úttekt á því hvernig til hefur tekist með það skipulag sem lagt var upp með og hvort að þau markmið, sem meirihlutinn að baki ákvörðuninni vildi ná fram, hafi gengið eftir.
Í samræmi við þessar umræður, bókun skóla -, íþrótta - og tómstundarnefndar um málið á 1. fundi nefndarinnar og áherslu okkar í Samfylkingunní um endurskoðun á skipulagi leikskólamála í kosningabaráttunni mun ég leggja fram eftirfarandi fyrirspurn á bæjarstjórnarfundi næsta fimmtudag:
Í verkefnalista þeim sem lagður var fram á 1. fundi skóla -, íþrótta og tómstundanefndar þann 23. júní sl. kemur m.a. fram:
Í leikskólamálum verður farið í vinnu í samráði við starfsfólk og foreldra að greina rekstrarumhverfi skólanna, viðhorf foreldra og starfsfólks til skipulagsins og ákvarðanir teknar á grundvelli þeirrar skoðunar.
Liggur fyrir ákvörðun hjá meirihluta bæjarstjórnar um hvenær farið verður af stað með þessa vinnu í leikskólamálum, sem talað er um í fundargerð skólanefndar, hvernig að henni verður staðið og hvenær niðurstöður hennar eigi að liggja fyrir svo hægt verði að taka taka þær ákvarðanir sem skólanefnd telur nauðsynlegar?
Í ljósi þeirrar vinnu sem framundan er hjá bæjarstjórn í þessum málaflokki leggur undirritaður því fram eftirfarandi fyrirspurnir um starfsemi um leik og grunnskóla í sveitarfélaginu?
Hve margir nemendur hefja nám í 1. bekk Grunnskóla Hornafjarðar í haust og í hve mörgum bekkjardeildum?
Hve margir þeirra nemenda, sem nú hefja grunnskólagöngu sína í Grunnskóla Hornafjarðar, voru á leikskóla og hve margir voru utan leikskóla á síðasta skólaári?
Hvernig skiptust þeir nemendur, sem voru á leikskóla á síðasta skólaári og eru að hefja grunnskólagöngu á þessu skólaári, á milli þeirra tveggja leikskóla sem starfræktir eru í sveitarfélaginu?
Hver er heildarfjöldi leikskólanemenda í sveitarfélaginu í upphafi skólaársins 2010 - 2011?
Hversu margir nemendur eru á hvorum leikskóla og hvernig er aldursdreifingu á þeim háttað, þ.e. hver er fjöldi nemenda í hverjum árgangi á hvorum leikskóla?
Hversu margir nýir nemendur voru teknir inn í leikskólana fyrir þetta skólaár og hvernig skiptast þeir á milli leikskólanna?
Hver hefur þróunin í nemendafjölda verið sl. tíu ár á grunn og leikskólastigi í sveitarfélaginu?
Hver hefur þróunin í fjölda starfsmanna við þessar sömu stofnanir verið á sl. tíu árum?
Hefur stjórnunarstöðum, innan grunnskólans annars vegar og leikskólanna hins vegar, fjölgað eða fækkað á áðurnefndu tíu ára tímabili?
Liggja fyrir spár um nemendafjölda grunn og leikskólanemenda á Hornfirði til næstu ára?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.8.2010 | 12:17
Á Snæfellsnesi
Það kom manni óneitanlega á óvart að Jón Bjarnason, Sjávarútvegs - og landbúnaðarráðherra, skyldi ekki hafa séð sér fært að mæta á ríkisstjórnarfund í gær. Það kom sérstaklega á óvart vegna þess að í gær var haft eftir honum á forsíðu Morgunblaðsins að aðlögunarferli að ESB væri í raun hafið en ekki sé lengur um að ræða viðræðuferli við ESB eins og áður var talið - og hann vilji þess vegna að ferlið verði stöðvað. Þessa afstöðu byggir hann á minnisblaði ráðuneytisstjóra Sjávarútvegs - og landbúnaðarráðuneytisns um stöðuna í aðildrarviðræðunum.
Af þessum sökum hefði maður búist við því að ráðherrann myndi mæta galvaskur á fund ríkisstjórnar sinnar og greina frá uppgötvunum sínum og leggja það til að ríkisstjórnin myndi hafa forgöngu um það að umsóknin að ESB yrði dregin til baka. En þá bregður svo við að ráðherrann er upptekinn við brýnni mál vestur á Snæfellsnesi. Nú vil ég alls ekki gera lítið úr erindum hans fyrir vestan og víst er að það er bæði gaman og fallegt á Snæfellsnesi en maður hefði einhvern veginn haldið - í ljósi uppgötvana ráðherrans - að hann myndi mæta á ríkisstjórnarfund og greina samráðherrum sínum frá hinni nýju stöðu sem upp er komin í umsóknarferlinu og sínum sjónarmiðum varðandi framhaldið.
Þannig hefði líka mátt koma í veg fyrir þennan bjarnfreðska misskilning sem virðist tröllríða húsum í Sjávarútvegs - og landbúnaðarráðuneytinu.
24.8.2010 | 12:22
Kostnaður og styrkir
Á fundi bæjarráðs í sumar lagði ég fram tillögu þess efnis að framboðin í sveitarstjórnarkosningunum sl. vor gerðu grein fyrir kostnaði sínum og styrkjum til framboðsins í vegna kosninganna. Tillagan var lögð fram m.a. vegna þess að stjórnmálasamtök starfa á grundvelli laga um fjármál þeirra, framboðin eru studd af bæjarsjóði enda er kveðið á um það í sömu lögum og til þess að tryggja að þessar upplýsingar liggi fyrir og séu öllum kunnar. Það styrkir kjörna fulltrúa í störfum sínum fyrir sveitarfélagið - að ekki þurfi að efast um grundvöll ákvarðana þeirra á vettvangi bæjarstjórnar.
Bæjarráð samþykkti tillöguna samhljóða og í umræðum um málið á bæjarstjórnarfundi fyrir skemmstu kom eingöngu fram stuðningur við það í umræðunni þó einstaka bæjarfulltrúar hafi viðrað áhyggjur sínar af því að of mikið gagnsæi í þessum málum gæti torveldað fjármögnun minni framboða. Einnig komu fram spurningar um að bæjarráð væri farið að seilast heldur langt í upplýsingaöflun af þessu tagi - núverandi lög um fjármál stjórnmálaflokka ættu að duga.
Tvö þeirra fjögurra framboða sem tóku þátt í síðustu sveitarstjórnarkosningum hafa nú gert grein fyrir sínum málum; Samfylking og Framsóknarflokkur.
Hér er hægt að kynna sér tilkynningu Samfylkingarinnar og uppgjör hér.
23.8.2010 | 11:56
Stór verkefni framundan hjá bæjarstjórn
Af umræðum síðasta bæjarstjórnarfundar, sem haldinn var 12. ágúst sl., að dæma er ljóst að mörg stór og mikilvæg mál þarfnast umræðu og úrlausnar bæjarstjórnar þetta haust. Ekki ber að skilja þetta þannig að næsti vetur verði sveitarfélaginu eitthvað sérstaklega erfiður. Ekkert gefur sérstakt tilefni til að ætla það en nokkrum atriðum verður bæjarstjórn að gefa sérstakan gaum.
Þar ber fyrst að nefna vinnuna við fjárlög ríkisins fyrir næsta ár. Enn og aftur bíður Alþingis að vinna hið óvinsæla verk - að leita leiða til að skera niður í rekstri ríkisins. Í þeirri vinnu Alþingis er gríðarlega mikilvægt að tekið verði tillit til sjónarmiða um að verja þurfi opinbera þjónustu og störf á landsbyggðinni. Taka verður tillit til þess ef þjónustan er ekki lengur staðar í sveitarfélaginu þá verði íbúarnir að ferðast um langan veg til þess að nýta sér hana - og sitja því ekki við sama borð og aðrir landsmenn. Þessi sjónarmið verða áfram að liggja til grundvallar við fjárlagagerðina.
Annað atriði, sem mikilvægt er að bæjarstjórn fylgist vel með og komi sjónarmiðum sínum á framfæri, er vinna við breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Samgöngu - og sveitarstjórnarráðherra ákvað, eftir að starfshópur á hans vegum skilaði tillögum um breytingar á regluverki sjóðsins í sumar, að skipa vinnuhóp til þess að undirbúa þá tillögu starfshópsins sem lengst gengur í breytingum á sjóðnum. Þar er gert ráð fyrir því að útgjaldaþörf sveitarfélaga til lögbundinna og eðlilegra verkefni verði metin og í framhaldinu muni jöfnunarsjóðurinn einungis jafna með tilliti til útgjalda sveitarfélaganna til þessara fyrirfram ákveðnu og skilgreindu verkefna.
Í þessum efnum er mikilvægt að svipuð sjónarmið og ég nefndi hér áðan varðandi fjárlagagerðina um mismunandi stöðu sveitarfélaga og aðstöðu íbúa þeirra til þess að sækja sér þjónustu, komi strax fram. Oft er um að ræða þjónustu og verkfefni sem flestum þykir sjálfsögð en í sumum sveitarfélögum er ekki raunhæft að aðrir en sveitarfélagið standi að þeim. Það er hins vegar ekki víst að sömu lögmál gildi um hvaða verkefni eðlilegt sé að sveitarfélög komi að eftir því hvar við erum stödd á landinu. Það er t.d. ekki víst að nákvæmlega sömu lögmál gildi um rekstur sveitarfélaga á borð við Hornafjörð og svo sveitarfélög á Stór - Reykjavíkursvæðinu - svo einfalt dæmi sé tekið.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006