Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
26.6.2010 | 00:11
Regluverk jöfnunarsjóðs endurskoðað
Starfshópur samgöngu - og sveitarstjórnarráðherra, sem ætlað var að endurskoða laga - og reglugerðarákvæði um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, birti skýrslu sína í dag. Flosi Eiríksson, formaður starfshópsins og Kristján L. Möller, samgöngu - og sveitarstjórnarráðherra kynntu helstu niðurstöður og tillögur starfshópsins á blaðamannafundi í dag.
Tillögurnar fela í sér töluverðar breytingar á regluverki sjóðsins. En í grófum dráttum má segja að þær felist í því að jöfnunarframlag sjóðsins til sveitarfélaga verði miðað við útgjaldaþörf sveitarfélaganna en svokallað tekjujöfnunarframlag verði lagt niður. Til þess að meta útgjaldaþörf sveitarfélaganna verði þróaðar leiðir til þess að meta útgjaldaþörf sveitarfélaga til lögbundinna og venjubundinna verkefna á vegum sveitarfélaganna. Markmiðið með þessari breytingu er auðvitað að tryggja að peningarnir skili sér þangað sem þeirra er þörf, þ.e. til þeirra sveitarfélaga sem eru að veita íbúum sínum nauðsynlega og eðlilega þjónustu.
Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga eru ein af meginstoðum skatttekna Sveitarfélagsins Hornafjarðar og eru framlög úr sjóðnum yfir 25% af skatttekjum sveitarfélagsins. Full þörf er því á að bæjarfulltrúar og starfsmenn sveitarfélagsins fari vel yfir þessar tillögur og kynni þær sér ítarlega. Málið verður væntanlega kynnt á næsta bæjarráðsfundi.
Hægt er að kynna sér helstu niðurstöður og skýrslu starfshópsins hér.
22.6.2010 | 11:10
Fyrsta mál - samþykkt
Bæjarráð samþykkti á fundi sínum í gær tillögu mína um undirbúning endurskoðunar aðalskipulags sveitarfélagsins. Hún felur í sér að umhverfis - og skipulagsnefnd er falið að móta tillögur fyrir bæjarstjórn um með hvaða hætti verður staðið að endurskoðun aðalskipulags á þessu kjörtímabili.
Á síðasta kjörtímabili vann starfshópur, sem bæjarstjórn skipaði, að endurskoðuninni. Ljóst var af þeirri vinnu að endurskoðun er orðin tímabær. Vinna starfshópsins á síðasta kjörtímabili ætti að geta nýst við endurskoðunina á þessu kjörtímabili.
Hér er um stórt, flókið og tímafrekt verkefni að ræða. Af þeim sökum taldi ég mikilvægt að undirbúningur þess hæfist sem fyrst og þess vegna var tillagan lögð fram á fundi bæjarráðs í gær.
Lögð var áhersla á að tillögur umhverfis - og skipulagsnefndar til bæjarstjórnar, sem eiga liggja fyrir á fundi bæjarstjórnar í október, segðu til um það með hvaða hætti samráði við almenning verður háttað og hvort grundvöllur sé fyrir því að halda sérstakt íbúaþing vegna endurskoðunarinnar.
Tillagan sem lögð var fram og samþykkt í gær er eftirfarandi:
Endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins
Tillaga áheyrnarfulltrúa Samfylkingarinnar
Bæjarráð samþykkir að vísa afrakstri vinnu starfhóps um endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins, sem bæjarstjórn skipaði á síðasta kjörtímabili, til umfjöllunar í umhverfis og skipulagsnefnd. Bæjarráð felur umhverfis og skipulagsnefnd að fara yfir fyrirliggjandi gögn um endurskoðun aðalskipulags og móta tillögur fyrir bæjarstjórn með hvaða hætti unnið verður að endurskoðun aðalskipulags á þessu kjörtímabili. Bæjarráð leggur áherslu á að tillögur umhverfis og skipulagsnefndar feli í sér víðtækt samráð við almenning og kannað verði hvort grundvöllur sé til að halda sérstakt íbúaþing í tengslum við endurskoðun aðalskipulags. Tillögur umhverfis og skipulagsnefndar skulu liggja fyrir á fundi bæjarstjórnar í október 2010.
Það er mjög ánægjulegt að þetta viðamikla og mikilvæga mál sé komið á undirbúningsstig strax vegna þess að ein meginástæða þess að ekki tókst að ljúka því á síðasta kjörtímabili var að vinnan fór einfaldlega of seint af stað.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2010 | 16:59
Áherslur á kjörtímabilinu
Frá því ég tók sæti í bæjarstjórn Hornafjarðar fyrir fjórum árum hefur mér fundist megineinkenni bæjarstjórnar Hornafjarðar vera góð samstaða um stóru málin. Einnig hefur mér fundist góð samvinna á milli allra framboða í bæjarstjórn sérstaklega þegur kemur að því að leysa úr stóru málunum sem koma inn á borð bæjarstjórnar.
Í grófum dráttum hefur mér fundist bæði meiri - og minnihluti í bæjarstjórn Hornafjarðar ástunda vinnubrögð sem mjög er kallað eftir á Íslandi nú um stundir. Þetta verða vonandi áfram megineikennin á bæjarstjórninni á nýhöfnu kjörtímabili - þótt hið pólitíska landslag hafi töluvert breyst.
Á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar lagði ég fram stutta bókun um áherslur Samfylkingarinnar í bæjarstjórn á kjörtímabilinu. Bókunin var lögð fram í ljósi þess að Samfylkingin starfar nú í minnihluta eftir að hafa starfað með Framsóknarflokknum í meirihluta á síðasta kjörtímabili, sem nú er með hreinan meirihluta í bæjarstjórn. Ég læt bókunina fylgja hér með:
Samfylkingin hefur nú sitt annað kjörtímabil í bæjarstjórn Hornafjarðar. Eftir að hafa starfað í meirihluta á síðasta kjörtímabili urðu niðurstöður kosninganna þær að Samfylkingin starfar minnihluta á nýhöfnu kjörtímabili.
Nýkjörin bæjarstjórn tekur við góðu búi. Fjárhagsstaða sveitarfélagsins er sterk og rekstur sveitarfélagsins er traustur. Þessa stöðu verður að verja með öllum tiltækum ráðum og það krefst samstillts átaks bæjarstjórnar vegna erfiðra efnahagsaðstæðna á Íslandi.
Harkalegur niðurskurður ríkisútgjalda er hafinn og mun vera viðvarandi á fjárlögum næstu ára. Bæjarstjórn Hornafjarðar verður að berjast fyrir því að niðurskurður stjórnvalda fækki ekki opinberum störfum í sveitarfélaginu. Í atvinnumálum almennt verður sveitarfélagið að leita leiða til þess að koma í veg fyrir einsleitni í atvinnulífinu.
Á kjörtímabilinu mun Samfylkingin leggja áherslu á að bæjarstjórn forgangsraði í þágu velferðarþjónustunnar í sveitarfélaginu. Á tímum minnkandi tekna er forgangsatriði að velferðin verði varin, þar sem þarfir fjölskyldunnar eru í fyrirrúmi.
Samfylkingin mun nú sem fyrr leggja öllum góðum málum lið í bæjarstjórn en mun jafnframt veita nýjum meirihluta Framsóknarflokksins kröftugt aðhald í öðrum málum. Það er von Samfylkingarinnar að samstarf nýkjörinnar bæjarstjórnar verði farsælt og að málefnaleg umræða verði áfram megineinkenni bæjarstjórnar Sveitarfélagsins Hornafjarðar og að því mun Samfylkingin vinna.
Einnig gerðu bæjarfulltrúar D - lista Sjálfstæðisflokksins og S - lista Samfylkingarinnar grein fyrir samkomulagi á milli framboðanna um skiptingu fulltrúa minnihlutans í nefndum sveitarfélagsins. Hægt er kynna sér nánar nefndaskipan sveitarfélagsins hér.
16.6.2010 | 19:15
Ný bæjarstjórn tekur við
Í gær var fyrsti fundur nýrrar bæjarstjórnar Hornafjarðar. Allmargar breytingar urðu á skipan bæjarstjórnar í síðustu kosningum. Framsóknarflokkurinn vann hreinan meirihluta og við í Samfylkingunni töpuðum einum bæjarfulltrúa. Hlutskipti Samfylkingarinnar á nýhöfnu kjörtímabili er því að starfa í minnihluta.
Á dagskrá bæjarstjórnar í gær var m.a. að ráða bæjarstjóra fyrir sveitarfélagið til næstu fjögurra ára. Tillaga meirihluta Framsóknarmanna var að Hjalti Þór Vignisson yrði ráðinn bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar til næstu fjögurra ára. Af því tilefni lagði ég fram eftirfarandi bókun þar sem ég gerði grein fyrir atkvæði mínu vegnar raðningar bæjarstjóra:
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar harmar þá ákvörðun Framsóknarflokksins að gera ópólitískan bæjarstjóra sveitarfélagsins, Hjalta Þór Vignisson, að sérstöku kosningamáli á kostnað málefna í aðdraganda sveitarstjórnakosninga 29. maí sl. Sú ákvörðun hefur án efa átt stóran þátt í sigri flokksins í kosningunum og stuðlað að hreinum meirihluta hans í bæjarstjórn. Framsóknarflokkurinn er því í lykilaðstöðu til að efna það kosningaloforð sitt að atkvæði greitt Framsóknarflokknum tryggði Hjalta Þór Vignisson áfram sem bæjarstjóra. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar telur rétt að veita Framsóknarflokknum svigrúm til þess efna þetta kosningaloforð.
Af þessum sökum situr bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar hjá við atkvæðagreiðslu um ráðningu bæjarstjóra.
Myndaalbúm
Færsluflokkar
Eldri færslur
- Apríl 2012
- Febrúar 2012
- Nóvember 2011
- Janúar 2011
- Október 2010
- Ágúst 2010
- Júlí 2010
- Júní 2010
- Maí 2010
- Apríl 2010
- Mars 2010
- Október 2009
- Ágúst 2009
- Júlí 2009
- Apríl 2009
- Mars 2009
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006